Vikubyrjun 24. júlí 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Össur uppgjör.
- Á miðvikudag birta Arion, Festi og Marel uppgjör.
- Á fimmtudag birta Íslandsbanki og Play uppgjör.
Mynd vikunnar
Kortavelta íslenskra heimila hefur dregist saman þrjá mánuði í röð, sé hún borin saman við sömu mánuði í fyrra. Í júní nam kortaveltan 106 mö.kr. og var 7,5% minni að raunvirði en í júní í fyrra. Innanlands dróst hún saman um 8,4% og erlendis um 4,1%. Einkaneysla og kortavelta fylgjast gjarnan nokkurn veginn að og því má gera ráð fyrir að hægt hafi þó nokkuð á einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi. Kaupmáttur jókst í júní, þar sem launavísitalan hækkaði meira en vísitala neysluverðs, um 1,1%.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,03% milli mánaða í júlí og við það fór ársverðbólgan úr 8,9% í 7,6%, örlítið undir okkar spá um 7,7% ársverðbólgu. Framlag þjónustu og húsnæðisverðs dróst saman og útsölur höfðu meiri áhrif til lækkunar á vísitölunni en í fyrra. Allar kjarnavísitölur verðbólgunnar lækkuðu milli mánaða sem er merki um að dregið hafi úr undirliggjandi verðbólguþrýstingi.
- Launavísitalan hækkaði um 1,1% milli mánaða í júní, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti á föstudag. Hækkunina má líklega helst rekja til kjarasamningsbundinna hækkana félaga BSRB, en hluti þeirra undirritaði kjarasamninga í mánuðinum. Kaupmáttur jókst um 0,3% í júní og um 1,8% á síðustu 12 mánuðum, mun meira en á síðustu mánuðum þegar árskaupmáttur hefur gjarnan ýmist dregist saman eða staðið í stað.
- Kortavelta íslenskra heimila hélt áfram að dragast saman í júní, samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti á mánudag. Ef kortavelta hvers mánaðar er borin saman við kortaveltu í sama mánuði í fyrra hefur hún í heildina dregist saman þrjá mánuði í röð, um 7,5% í júní. Innanlands hefur hún minnkað fjóra mánuði í röð, um 8,4% í júní. Nú í júní dróst hún einnig saman erlendis, í fyrsta sinn síðan í febrúar 2021, um 4,1%.
- Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 1,1% milli mánaða í júní, samkvæmt nýjum tölum HMS, eftir samfellda hækkun síðustu fjóra mánuði. Í hagsjá Hagfræðideildar kemur meðal annars fram að vísitalan hafi ekki lækkað jafnmikið síðan í desember 2010. Árshækkun vísitölunnar fór úr 6,1% í 2,7% og hefur ekki verið jafnlítil síðan í janúar 2020.
- Icelandair og Landsbankinn birtu uppgjör.