Vikubyrjun 20. nóvember 2023
Í nýjustu könnun á væntingum markaðsaðila, sem fór fram fyrir um tveimur vikum, töldu fleiri svarendur að taumhald peningastefnu væri of þétt en of laust. Þetta er viðsnúningur frá því sem verið hefur, en allt frá janúar árið 2020 hafa fleiri talið taumhaldið of laust.

20. nóvember 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá peningastefnunefnd. Við spáum óbreyttum vöxtum. Samhliða vaxtaákvörðuninni birtir Seðlabankinn Peningamál með nýrri þjóðhagsspá. Iceland Seafood birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birta Hampiðjan og Síldarvinnsla uppgjör.
Mynd vikunnar
Í nýjustu könnun á væntingum markaðsaðila, sem fór fram 6.-8. nóvember, töldu 27% svarenda taumhald peningstefnu vera of þétt og aðeins 13% töldu það of laust. Þetta er í fyrsta sinn frá því í janúar árið 2020 sem þeir sem telja aðhaldið of þétt eru fleiri en þeir sem telja það of laust. Í síðustu tíu könnunum hafa markaðsaðilar talið aðhaldið of laust og í kjölfar birtingar niðurstaðnanna hefur peningastefnunefnd í hvert sinn hækkað vexti á næsta fundi.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila. Verðbólguvæntingar til fimm ára voru óbreyttar í 4,0%, en til tíu ára lækkuðu þær úr 3,6% í 3,5%. Markaðsaðilar telja að meginvextir bankans hafi náð hámarki og að peningastefnunefnd muni hefji vaxtalækkunarferli strax á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Nokkur breyting varð á áliti svarenda á taumhaldi peningastefnu, en að þessu sinni voru þeir sem töldu taumhaldið of þétt fleiri en þeir sem töldu það of laust.
- Í vikunni fóru fram verðmælingar fyrir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum að verðbólgan verði 8,0% í nóvember. Við teljum að hún haldist nokkuð stöðug í desember en hjaðni svo þó nokkuð eftir áramót, niður í 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar. Vísitalan hækkaði mjög milli mánaða í janúar og febrúar í ár og því má gera ráð fyrir að verðbólgan hjaðni við það að þær mælingar detti út úr ársverðbólgunni.
- Hagstofa Íslands gaf út þjóðhagsspá.
- Á hlutabréfamarkaði birtu Amaroq, Brim, Eik, Reitir og Reginn uppgjör. Hlutabréf Kaldalóns voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
- Á skuldabréfamarkaði hélt Lánamál ríkisins útboð ríkisbréfa, Kvika banki gaf út skuldabréf í sænskum og norskum krónum og ÍL-sjóður tilkynnti að það væri í undirbúningi að halda skiptiútboð þar sem eigendum íbúðabréfa gæfist kostur á að skipta á þeim fyrir markaðsverðbréf í eigu ÍL-sjóðs.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).Þú gætir einnig haft áhuga á

1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.

30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.

27. júní 2025
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.

27. júní 2025
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.

25. júní 2025
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

23. júní 2025
Færri ferðamenn hafa heimsótt Ísland það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það hefur erlend kortavelta aukist á milli ára og það sama má segja um útflutningstekjur af ferðaþjónustu. Við teljum ýmislegt benda til þess að erlendir ferðamenn hafi verið fleiri síðustu mánuði en talning Ferðamálastofu segir til um.

23. júní 2025
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,45% á milli mánaða í maí. Vísitalan lækkaði þar með í fyrsta sinn á þessu ári og ársbreytingin hefur ekki verið jafn lítil frá því í byrjun síðasta árs. Áfram er kraftur í kortaveltu Íslendinga, ekki síst erlendis.

19. júní 2025
Kortavelta jókst um 6,8% á milli ára í maí að raunvirði þar af jókst hún um 21% erlendis. Það sem af er ári hefur kortavelta aukist um 5,5% frá sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir í maímánuði en nú í ár. Greiðslukortajöfnuður var neikvæður um 4,2 ma.kr. sem er töluvert meiri halli en í maí í fyrra.

16. júní 2025
Í síðustu viku fór fram uppgjör við eigendur HFF-bréfa. Erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í maí og atvinnuleysi jókst á milli ára. Í vikunni fram undan birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.

12. júní 2025
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í júní og mælist 3,9%. Verðbólga helst líklega nær óbreytt í sumar en eykst svo aðeins með haustinu, þegar einskiptisliðir vegna skólagjalda og skólamáltíða detta út úr tólf mánaða taktinum. Við gerum áfram ráð fyrir 4,0% verðbólgu í árslok.