Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands og við spáum óbreyttum vöxtum. Alvotech birtir uppgjör eftir lokun markaða í Bandaríkjunum, Seðlabanka Bandaríkjanna tekur einnig ákvörðun um vexti og hagstofa Bretlands birtir verðbólgutölur.
- Á fimmtudag birtir Hagstofa Íslands tölur um mannfjölda hér á landi í byrjun árs ásamt endurskoðaðri tímaröð aftur til 2011 byggða á endurbættri aðferð. Englandsbanki tekur ákvörðun um vexti.
Mynd vikunnar
Í fyrra gisti hver erlendur ferðamaður að meðaltali 3,5 nætur á skráðum gististöðum og straujaði greiðslukort hér á landi fyrir 145 þúsund krónur, eða sem nemur 41 þúsund krónu á dag. Gistinætur á mann drógust saman á milli ára í fyrra á meðan velta erlendra greiðslukorta á hverja gistinótt jókst. Þetta bendir til þess að hver ferðamaður hafi að meðaltali dvalið skemur hér á landi en aftur á móti eytt meiru á dag. Aukin eyðsla á gistinótt náði þó ekki að vega upp á móti færri gistinóttum og dróst kortavelta á ferðamann því saman á milli ára í fyrra. Fjölgun ferðamanna á milli ára var samt slík að vöxtur mældist í ferðaþjónustu þrátt fyrir aðeins minni neyslu á hvern ferðamann. Það sem af er ári hefur kortavelta á ferðamann haldið áfram að dragast saman á milli ára.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 156 þúsund í febrúar og því töluvert fleiri en í sama mánuði árið áður, þegar þær voru 137 þúsund. Aðeins einu sinni hafa fleiri ferðamenn komið í febrúarmánuði, eða á metárinu 2018. Áhrif jarðhræringanna á Reykjanesskaga virðist því ekki hafa haft teljandi áhrif á fjölda þeirra ferðamanna sem hingað koma.
- Í vikunni fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,57% á milli mánaða í mars og að ársverðbólga verði óbreytt í 6,6%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, föt og skór og matarkarfan. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega næstu mánuði og verði komin niður í 5,4% í júní.
- VR og LÍV skrifuðu undir kjarasamning við SA.
- Kvika banki gekk að kauptilboði Landsbankans í TM.
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og ritið Fjármálastöðugleika.
- Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 87 ma. kr. í fyrra.
- Á skuldabréfamarkaði lauk OR útboði á grænum skuldabréfum og Landsbankinn lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum. Ríkissjóður gaf síðan út grænt skuldabréf í evrum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).