Vextir hafa lækkað, verðbólga hjaðnað og Hagstofan gerir ráð fyrir lítils háttar hagvexti á þriðja fjórðungi. Allar þessar fregnir hafa borist á síðustu tveimur vikum og enn er óljóst hversu hratt hagkerfið kólnar á næstu mánuðum. Greina má ýmis merki um aukinn slaka í atvinnulífinu, eftirspurn eftir starfsfólki hefur minnkað og atvinnuleysi aukist. Vaxtadómurinn og áföll í útflutningsgreinum stuðla að því að hagkerfið kólnar hraðar en á horfðist fyrr í haust. Á móti viðhalda heimilin kröftugri eftirspurn með auknum kaupmætti og uppsöfnuðum sparnaði.
Verðbólgumæling nóvembermánaðar kom ánægjulega á óvart, en verðbólga minnkaði um 0,6 prósentustig á einu bretti. Hún stendur nú í 3,7% og hefur ekki verið minni í fimm ár. Þótt hjöðnunin gangi líklega að einhverju leyti til baka í desember teljum við verðbólguhorfur þó nokkuð bjartari en áður. Við spáum því nú að verðbólga haldist rétt undir fjórum prósentum á allra næstu mánuðum, áður en hún tekur að hjaðna þegar líður á næsta ár. Áföll í útflutningsgreinunum hafa kynt undir fremur snarpa veikingu krónunnar á síðustu vikum og við teljum að gengið gæti haldið áfram að veikjast smám saman á næstunni. Verðbólguþróunin veltur að hluta til á því hvort og hversu hratt gengið heldur áfram að gefa eftir.
Seðlabankinn lækkaði vexti þann 19. nóvember, þvert á spár flestra greinenda sem töldu að aukin verðbólga í október og væntingar um hækkandi verðlag kæmu í veg fyrir vaxtalækkun. Peningastefnunefnd rökstuddi vaxtalækkunina á þann veg að með því að draga úr raunvaxtaaðhaldi mætti vega á móti því aukna peningalega aðhaldi sem hlytist af breyttu lánaframboði í kjölfar vaxtadómsins. Einnig mátti skilja á peningastefnunefnd að nefndarmenn teldu ljóst að verulega hefði slaknað á spennu í hagkerfinu og að aukinn slaki myndi færast yfir næstu mánuði. Seðlabankinn lækkaði spár um verðbólgu og hagvöxt til næstu mánaða.
Þrátt fyrir sískýrari merki um kólnun í hagkerfinu mældist 1,2% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi. Sem fyrr var hagvöxturinn knúinn af aukinni einkaneyslu og fjárfestingu, en neikvætt framlag utanríkisviðskipta vó þó enn þyngra. Ef ekki hefði verið fyrir jákvæð áhrif birgðabreytinga hefði mælst samdráttur á fjórðungnum.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).










