Vikubyrjun 1. desember 2025

Vikan framundan
- Á morgun verða birtar verðbólgutölur á evrusvæðinu.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð peningastefnunefndar. Þá birtir Seðlabankinn einnig viðskiptajöfnuð við útlönd.
- Á föstudag verða birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Verðbólga minnkaði um heil 0,6 prósentustig í nóvember og mældist langt undir væntingum, eða 3,7%. Þótt Hagstofan eigi enn eftir að birta tvær verðbólgumælingar áður en peningastefnunefnd kemur næst saman er óhætt að segja að nóvembermælingin auki líkurnar á vaxtalækkun í febrúar. Hjöðnun verðbólgunnar kann þó að ganga til baka að einhverju marki. Hjöðnunin skýrðist ekki síst af áhrifum afsláttardaga í nóvember og ætla má að verð á fatnaði og heimilisbúnaði hækki í desember þegar afslátta nýtur ekki við. Þó ber að hafa í huga að umfangsmeiri afsláttardagar nú en síðustu ár kunna að skýrast af minnkandi eftirspurn sem gæti komið í veg fyrir að afslættir gangi alla leið til baka. Óvissa í verðbólguspá næstu mánaða snýr ekki síst að flugfargjöldum sem lækkuðu mun meira í nóvember en við bjuggumst við.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Landsframleiðsla jókst um 1,2% á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Hagvöxt á þriðja ársfjórðungi má að mestu rekja til innlendrar eftirspurnar, en þjóðarútgjöld jukust um 4,7%. Áfram er kraftur í einkaneyslu og fjárfestingu og birgðabreytingar höfðu einnig mikið að segja. Innflutningur vegur þungt á móti og framlag utanríkisviðskipta er neikvætt líkt og á síðustu fjórðungum.
- Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði nam 35,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Afgangurinn var talsvert minni en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 56,6 milljörðum. Þjónustujöfnuður var jákvæður um 137,4 milljarða en vöruskiptajöfnuður neikvæður um 101,6 milljarða.
- Gistinóttum á öllum tegundum skráðra gististaða fjölgaði um 1,8% á milli ára í október. Þá fækkaði gistinóttum á hótelum um 2,3%.
- Orkuveitan, Ísfélag og Síldarvinnslan birtu uppgjör.
- Alvotech fékk markaðsleyfi á Evrópska efnahagsvæðinu fyrir AVT03.
- Ölgerðin, Fossar fjárfestingarbanki, Kaldalón, Síminn og Útgerðarfélag Reykjavíkur luku sölu á víxlum. Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöðu úr viðbótarútgáfu.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









