Óbreytt vaxt­ast­ig en bjart­ur tónn

Þrátt fyrir hjaðnandi verðbólgu og sátt um langtímakjarasamning á stórum hluta vinnumarkaðar teljum við að peningastefnunefnd haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku, fjórða skiptið í röð. Verðlag hækkaði umfram væntingar í febrúar og verðbólguvæntingar hafa lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar. Auk þess ríkir enn óvissa um framvindu kjarasamninga annarra hópa. Við teljum þó að tónninn í yfirlýsingunni verði bjartari en verið hefur og að vaxtalækkun kunni að vera handan við hornið.
14. mars 2024

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 20. mars. Við spáum því að nefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum, en að framsýn leiðsögn gefi til kynna að líklega styttist í að hægt verði að slaka á taumhaldinu. Við teljum þó ekki óhugsandi að nefndin lækki vexti um 0,25 prósentustig.

Peningastefnunefnd hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% á síðustu þremur fundum. Fyrsta slíka ákvörðunin í október grundvallaðist á mikilli óvissu um horfur í efnahagslífinu almennt en á síðustu tveimur fundum, í nóvember og febrúar, byggði ákvörðunin ekki síst á óvissu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga. Tónninn í síðustu yfirlýsingu var nokkuð bjartur, en þó var tekið fram að langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst og haldist yfir markmiði, enn væri spenna á vinnumarkaði og að verðbólga gæti enn reynst þrálát. Nefndarmenn voru allir nema einn sammála um að halda vöxtum óbreyttum, en sá greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um óbreytta vexti og vildi heldur lækka um 0,25 prósentustig.

Verðbólga hjaðnaði minna í febrúar en vonir stóðu til

Ársverðbólga hefur lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,33% á milli mánaða í febrúar en við höfðum spáð 0,89% hækkun. Ef vísitalan hefði hækkað eins og við spáðum hefði ársverðbólga farið úr 6,7% í 6,1%, en þess í stað hjaðnaði hún aðeins um 0,1 prósentustig. Þessi spáskekkja kom fram í ýmsum undirliðum. Janúarútsölur á fötum og skóm gengu til dæmis hraðar til baka en venjulega og verð á mat og drykkjarvöru hækkaði þó nokkuð umfram væntingar. Gjaldskrárhækkanir fyrir sorphirðu, holræsi og kalt vatn höfðu töluvert meiri áhrif til hækkunar en búist var við og flugfargjöld hækkuðu.

Húsnæðisliðurinn í verðbólgunni hækkaði líka umfram væntingar. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist hægt og rólega síðan hún náði lágmarki í 0,8% síðasta sumar og var komin upp í 5,4% í janúar. Í janúar varð raunverð íbúða líka í fyrsta skipti síðan í mars 2023 hærra en í sama mánuði árið áður. Þessi lítillega aukni verðþrýstingur á íbúðamarkaði getur skýrst af ýmsu, svo sem væntingum um vaxtalækkanir í náinni framtíð, fjölgun hlutdeildarlána sem ýta undir kaup á nýjum íbúðum, kaupmáttaraukningu á seinni hluta ársins og nú síðast jafnvel væntingum um aukna eftirspurn vegna íbúðakaupa Grindvíkinga.

Þótt verðbólgumæling febrúarmánaðar hafi valdið vonbirgðum ber að taka fram að kjarnavísitölur verðbólgunnar, sem gefa vísbendingu um undirliggjandi verðbólguþrýsting, lækkuðu allar eða stóðu í stað og því virðast ekki merki um aukinn verðbólguþrýsting.

Væntingar enn yfir markmiði

Verðbólguvæntingar hafa mikið að segja og peningastefnunefnd er mikið í mun að koma böndum á þær, en þær hafa lítið breyst á síðustu vikum þrátt fyrir jákvæða raunstýrivexti. Ein vísbending sem við höfum um þróun verðbólguvæntinga frá síðasta fundi peningastefnunefndar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði er munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðra, sem gefur vísbendingu um spá markaðarins um verðbólgu fram í tímann. Verðbólgumæling febrúarmánaðar virðist hafa haft slæm áhrif á væntingar um verðbólgu, sem jukust aðeins. Þær lækkuðu svo á ný eftir að kjarasamningar á stórum hluta vinnumarkaðar voru undirritaðir. Engu að síður eru væntingar um verðbólgu talsvert ofar markmiði um 2,5% verðbólgu.

Væntingar um verðbólgu í framtíðinni auka verðbólguþrýsting og torvelda peningastefnunni að koma böndum á verðbólgu. Þegar launafólk gerir ráð fyrir hækkandi verðlagi er það líklegra til að krefjast mikilla launahækkana í því skyni að verja kaupmáttinn. Að gefnum hærri launakostnaði eru fyrirtæki líklegri til að hækka verð á vörum og þjónustu og kröftug eftirspurn gerir þeim einnig betur kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Eftir því sem verðbólga er þrálátari eykst hættan á því að kjölfesta verðbólguvæntinga losni sem veldur því að væntingar sveiflast auðveldar upp á við með aukinni verðbólgu.

Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa verið jákvæðir frá því í kringum mitt síðasta ár og sennilega hefði nefndin vilja sjá þá slá hraðar á væntingar.

Nýundirritaðir kjarasamningar líklega góðar fréttir fyrir verðstöðugleika

Þótt við spáum óbreyttu vaxtastigi teljum við ekki útséð um að Seðlabankinn lækki vexti um 0,25 prósentustig. Kæmi til þess byggði ákvörðunin líklega að mestu á því að peningastefnunefnd hefði trú á að breið sátt myndi nást um frið á vinnumarkaði. Þar með væri mun minni hætta á að víxlverkun launa og verðlags festist í sessi.

Stærsta breytingin frá síðasta fundi peningastefnunefndar er án efa undirritun kjarasamninga á stórum hluta vinnumarkaðar á síðustu dögum. Rúm 40% launafólks heyrir undir samningana sem samningsaðilar vonast til að verði rammi fyrir komandi viðræður annarra hópa.

Það er fagnaðarefni að samningarnir skuli gilda í fjögur ár, enda er aukinn stöðugleiki á vinnumarkaði mikilvægur þáttur í því að ná niður verðbólgu og hemja verðbólguvæntingar. Samkvæmt samningunum hækka viðmiðunartaxtar hóflega, um 3,25% í ár og 3,5% á ári næstu þrjú ár á eftir. Þó kann að hafa mikið að segja að einnig er samið um lágmarkskrónutöluhækkun, 23.750 kr. Lágmarkið gerir það að verkum að stór hluti hópsins fær prósentuhækkanir þó nokkuð umfram umsamdar prósentuhækkanir. Allt launafólk sem heyrir undir samningana með laun undir 730.000 fær prósentuhækkun umfram 3,25% á þessu ári. Þar að auki voru ákveðnir hópar teknir út fyrir sviga og munu þeir fá mun hærri krónutöluhækkun, samanber svokallaða ræstingaruppbót. Launafólk sem heyrir undir samninginn fær einnig kauptaxtaauka ef launahækkanir á almennum vinnumarkaði verða umfram þeirra launahækkun.

Jafnvel þótt næðist sátt um sambærilegan samning fyrir önnur félög má ætla að laun hækki um meira en 3,25%-3,5% á ári á næstu árum, bæði vegna lágmarkskrónutöluhækkunar en einnig vegna launaskriðs. Þó ber að hafa í huga að líklega verður launaskrið minna á næstu mánuðum en það hefur verið síðustu ár. Margt bendir til þess að verulega hafi dregið úr spennu á vinnumarkaði eftir því sem dregið hefur úr eftirspurn í hagkerfinu á síðustu mánuðum. Þegar eftirspurn eftir vinnuafli minnkar versnar samningsstaða launafólks og þar með minnka líkurnar á miklu launaskriði.

Vextir hafa slegið á eftirspurn en ekki kæft hana

Hátt vaxtastig hefur borið skýran árangur í því að slá á þenslu í þjóðarbúinu. Eftirspurn hefur tekið að dragast lítillega saman á milli ára, bæði einkaneysla og fjárfesting, og á síðasta fjórðungi síðasta árs mældist aðeins 0,6% hagvöxtur.

Kortavelta íslenskra heimila hefur dregist saman á milli ára síðustu tíu mánuði, en þó aðeins lítillega á síðustu mánuðum. Eftirspurn eftir vinnuafli hefur einnig dregist saman, samkvæmt könnunum meðal stjórnenda stærstu fyrirtækjanna. Við teljum að peningastefnunefnd meti kólnunina í hagkerfinu ennþá ekki áhyggjuefni, heldur frekar nauðsynlegan hluta af því að draga úr verðbólgu. Við teljum að á meðan verðbólga er enn jafn há og raun ber vitni sé ólíklegt að vextir verði lækkaðir í því skyni að stemma stigu við kólnun í hagkerfinu.

Stíga áfram varlega til jarðar

Þótt peningastefnunefnd líti nýundirritaða kjarasamninga líklega björtum augum teljum við ólíklegt að hún lækki vexti á meðan stórir hópar á vinnumarkaði eiga enn eftir að semja. Nefndin vill líklega ekki senda þau merki að hún taki ákvörðun um vaxtalækkun til þess að þóknast vinnumarkaðnum eða til þess að greiða fyrir kjaraviðræðum. Frekar vill hún fylgjast með frekari framvindu í kjaraviðræðum og vera þess fullviss að sátt náist víðar og stuðli að verðstöðugleika.

Þá má einnig nefna að til þess að styðja við samningana kynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka þar sem ákveðnum hópum launafólks er tryggð veruleg kjarabót í gegnum tilfærslukerfin. Áætlað er að aðgerðirnar útheimti aukin ríkisútgjöld upp á 20 ma.kr. á ári næstu fjögur ár og enn er á huldu hvernig þau verða fjármögnuð.

Peningastefnunefnd hefur tekið varfærin skref síðustu mánuði. Til mikils er að vinna að tryggja að verðbólga hjaðni áfram og við teljum ólíklegt að nefndin vilji hætta á að missa stjórn á verðbólguvæntingum. Í því samhengi hjálpar ekki að verðbólga hjaðnaði minna en búist var við í febrúar og að væntingar hafa lítið breyst síðustu vikur.

Því spáum við því að peningastefnunefnd haldi vöxtum óbreyttum í næstu viku, þótt líklega sé fyrsta vaxtalækkunin á næsta leiti.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
2022        
9. febrúar 2022 +0,75% allir +0,75% 2,75%
4. maí 2022 +1,00% allir +1,00% 3,75%
22. júní 2022 +1,00% allir GZ (+1,25%) +1,00% 4,75%
24. ágúst 2022 +0,75% allir GZ (+1,00%) +0,75% 5,50%
5. október 2022 +0,25% allir +0,25% 5,75%
23. nóvember 2022 +0,25% allir GZ (+0,50%) +0,25% 6,00%
2023          
8. feb. 2023 +0,50% allir HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% allir  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁÓP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. allir   óbr. 9,25%
2024            
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024            
8. maí 2024            
21. ágúst 2024            
2. október 2024            
20. nóvember 2024            
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
15. apríl 2024
Vikubyrjun 15. apríl 2024
Verðbólga hjaðnar þó nokkuð í apríl, úr 6,8% í 6,1%, en breytist lítið næstu mánuði þar á eftir og verður 5,9% í júlí, samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá. Þótt vaxtahækkanir hafi slegið nokkuð á eftirspurn má enn greina kraft í hagkerfinu og spennu á vinnumarkaði. Þá mælast verðbólguvæntingar enn vel yfir markmiði.
Epli
11. apríl 2024
Spáum lækkun verðbólgu úr 6,8% í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% á milli mánaða í apríl og að ársverðbólgalækki töluvert, eða úr 6,8% í 6,1%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan. Apríl í fyrra var stór hækkunarmánuður og þar sem við gerum ráð fyrir töluvert minni mánaðarhækkun nú lækkar ársverðbólga töluvert. Á móti gerum við ekki ráð fyrir því að verðbólga lækki mikið næstu mánuði þar á eftir og búumst við því að hún verði 5,9% í júlí.
Gönguleið
8. apríl 2024
Vikubyrjun 8. apríl 2024
Um 14% fleiri ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar síðastliðnum en í febrúar í fyrra. Ferðamenn gistu þó skemur en áður, því skráðum gistinóttum fækkaði um 2,7% á milli ára í febrúar.
3. apríl 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. apríl 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
2. apríl 2024
Vikubyrjun 2. apríl 2024
Um 30% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum, samkvæmt nýjustu könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem var framkvæmd í mars. Hlutfallið eykst úr 23% frá síðustu könnun sem var gerð í desember.  
Íbúðir
26. mars 2024
Hækkandi íbúðaverð kyndir undir verðbólgu
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða í mars og við það jókst ársverðbólga úr 6,6% í 6,8%. Langmest áhrif til hækkunar í mælingunni má rekja til hækkunar á íbúðaverði, og þá sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Verð á nýjum bílum hafði mest áhrif til lækkunar í mars.
Seðlabanki
25. mars 2024
Vikubyrjun 25. mars 2024
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti á miðvikudag að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 9,25%. Ákvörðunin var í samræmi við spá okkar, en tónninn í yfirlýsingunni var harðari en við bjuggumst við.
Ferðamenn
18. mars 2024
Vikubyrjun 18. mars 2024
Gögn síðasta árs benda til þess að þeir ferðamenn sem hingað komu hafi að meðaltali dvalið skemur en árið á undan en aftur á móti eytt meiru á dag.
Vélsmiðja Guðmundar
15. mars 2024
Að flytja út „annað“ er heldur betur að skila sér
Útflutningur hefur alltaf verið mjög mikilvægur fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag. Lengst af var fiskurinn okkar aðal útflutningsvara, svo bættist álið við og nú síðasta áratuginn eða svo hefur ferðaþjónusta rutt sér til rúms og er orðin stærsta einstaka útflutningsvara Íslendinga. Á síðustu árum hefur annar útflutningur, þ.e. útflutningur sem ekki heyrir undir neinn þessara flokka, vaxið hratt og raunar hraðar en ferðaþjónustan, þó faraldurinn torveldi samanburðinn aðeins.
Fjölbýlishús
14. mars 2024
Spáum 6,6% verðbólgu í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,57% milli mánaða í mars og að ársverðbólga verði óbreytt í 6,6%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, föt og skór og matarkarfan. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega næstu mánuði og verði komin niður í 5,4% í júní.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur