Laun hækka um tæpt prósent og kaupmáttur mjakast upp á við
Launavísitalan hækkaði um 0,9% milli mánaða í mars, eftir 0,4% hækkun í febrúar. Launavísitalan hækkaði lítið í janúar en um heil 4% í desember, þegar kjarasamningsbundnar hækkanir á almenna markaðnum komu inn í vísitöluna. Hækkunin í mars, um 0,9%, hefur þau áhrif að árshækkun launa fer úr 8,7% í 9,4%.
Kaupmáttur eykst um 0,4% milli mánaða
Hækkun launavísitölunnar leiðir til þess að kaupmáttur dregst ekki saman milli mánaða í mars, eins og hann gerði í janúar og febrúar, heldur hækkar um 0,4%. Kaupmáttur á ársgrundvelli dregst þó áfram saman, nú um 0,3%, enda er ársverðbólgan mun meiri nú en í mars í fyrra.
Ólík launaþróun milli atvinnugreina og starfsstétta
Samhliða birtingu launavísitölunnar fyrir marsmánuð birti Hagstofan niðurbrot vísitölunnar eftir starfsstéttum og atvinnugreinum fyrir janúarmánuð. Af starfsstéttum hafa laun hækkað mest milli ára meðal þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, um 12,2%, og minnst meðal stjórnenda, um 8,6%. Árshækkun er þó nokkuð mikil í öllum stéttum, sérstaklega þeim sem undirrituðu kjarasamninga fyrir lok janúarmánaðar. Hækkanirnar skýrast þó sennilega einnig af launaskriði, enda sögulega mikil spenna á vinnumarkaði á síðustu mánuðum, sem nánar er fjallað um í nýlegri Hagsjá.
Ef bornar eru saman ólíkar atvinnugreinar má sjá að laun þeirra sem starfa við byggingarstarfsemi, heild- og smásöluverslun, rekstur gisti- og veitingastaða og framleiðslu hafa hækkað mest á síðustu 12 mánuðum, um á bilinu 10,1-12%. Laun þeirra sem starfa við veitustarfsemi hafa hækkað minnst, um 5,7%, og næstminnst laun þeirra sem starfa við fjármála- og tryggingarstarfsemi, um 8,2%. Ef horft er á mánaðarbreytingu hækkuðu laun síðastnefnda hópsins þó mest allra milli mánaða, en það skýrist af því að kjarasamningsbundin hækkun þess hóps kom inn í vísitöluna í janúar. Eðli málsins samkvæmt hafa kjarasamningsbundnar launahækkanir og tímasetningar á þeim mikil áhrif á launagögn þessa stundina og skýra að miklu leyti muninn á launaþróun milli hópa til skamms tíma.
Spáum 8,7% launahækkun á þessu ári og 7,8% á því næsta
Laun eru á meðal þeirra stærða sem við spáum fyrir um í nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá . Þeir kjarasamningar sem hafa verið undirritaður á síðustu vikum og mánuðum gilda aðeins í eitt ár og því má búast við að strax í haust verði óvissan á vinnumarkaði sambærileg því sem var síðasta haust. Við búumst við að launahækkanir eftir næstu samningslotu, sem hefst í haust, verði svipaðar þeim sem samið var um í síðustu lotu. Með tímanum dragi þó lítillega úr launaskriði eftir því sem spennan á vinnumarkaði minnkar, þegar þættir á borð við vaxta- og launahækkanir þyngja róður fyrirtækja og draga ef til vill úr eftirspurn eftir vinnuafli. Við gerum ráð fyrir að laun hækki um 8,7% á þessu ári og svo 7,8% á næsta ári.
Merki um víxlverkun launa og verðlags
Launahækkanir á síðustu tólf mánuðum eru nokkuð ríflegri en þær hafa verið á síðustu árum, enda er verðbólga í hæstu hæðum og erfitt að ímynda sér að launafólk sætti sig við verulega kaupmáttarskerðingu. Við búumst við að kaupmáttur standi nokkurn veginn í stað á þessu ári, aukist um aðeins 0,2%, og svo um 1,5% á næsta ári. Nýjustu verðbólgutölur, sem lyftu ársverðbólgunni aftur upp í 9,9%, sýna hversu erfið viðureignar verðbólgan er. Við búumst við að hún verði þrálát og haldi áfram að éta upp launahækkanir, sem vissulega eiga þó sinn þátt í því að kynda undir hana.