Aukna verðbólgu má rekja til opinberra gjalda

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,38% á milli mánaða í janúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga jókst því um 0,7 prósentustig: úr 4,5% í 5,2%. Mælingin var nokkuð nálægt okkar spá um 5,1% verðbólgu. Áhrif af breytingu á gjaldtöku hins opinbera á kaupum og rekstri bifreiða var nokkurn veginn eins og við höfðum spáð og þær breytingar skýra aukna verðbólgu að mestu leyti. Verð á matarkörfunni hækkaði einnig um 1% og verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði aðeins um 10,8%, mun minna en við bjuggumst við.
Vörugjöld og kílómetragjald
Vörugjöld á aðra bíla en rafmagnsbíla voru hækkuð um áramótin. Þá voru bensín og olíugjöld felld niður, en á móti er nú greitt kílómetragjald af öllum tegundum ökutækja. Við töldum að áhrifin af þessum breytingum yrðu um 0,7 prósentustig til hækkunar á verðbólgu í janúar. Við ofmátum hækkunaráhrif vegna kílómetragjaldsins en vanmátum hækkun á verði nýrra bíla. Samanlögð áhrif eru um 0,6 prósentustig til hækkunar á verðbólgu.
Aðrir liðir:
- Matarkarfan hækkaði nokkuð meira en við gerðum ráð fyrir, eða um næstum 1%. Við höfðum spáð 0,3% hækkun.
- Verð á fötum og skóm lækkaði um 7,4% og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 5,4%, nokkurn veginn í takt við okkar spá. Útsölurnar eru því mjög svipaðar og þær voru í fyrra.
- Flugfargjöld lækkuðu minna en við spáðum, eða um 10,8%, en við spáðum 19,7% lækkun. Nú er 17% dýrara að fljúga en í janúar í fyrra. Í desember var um 10% dýrara að fljúga en í sama mánuði árið áður.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,44%, nokkurn veginn í takt við spá okkar um 0,5% hækkun.
- Annar kostnaður vegna húsnæðis lækkaði um 0,73%, en við spáðum 0,6% hækkun. Þar munar mest um að greidd leiga lækkaði um 0,05%, en við höfðum gert ráð fyrir hækkun. Einnig kom hækkun á hitaveitu, sem vanalega kemur í janúar, í desember.
Eigum von á að verðbólga verði um 5% næstu mánuði
Spá okkar fyrir næstu mánuði er +0,73% í febrúar, +0,47% í mars og 0,86% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan mælast 5,1% í febrúar, 5,1% í mars og 5,0% apríl. Spáin er aðeins hærri en seinasta spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni sem skýrist af hærra matarverði og hærra verði á flugfargjöldum til útlanda.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









