Veltureikningar - eldri skilmálar

Auk almennra skilmála veltureikninga, sem birtir eru hér að neðan, þurfa handhafar reikninga með debetkort að kynna sér skilmála debetkorta.

Almennir skilmálar veltureikninga (tékka- og debetreikningar) sem voru í gildi til 19. nóvember 2017

Nr. 1516-02  |  Mars 2012

Stofnun

 • Við stofnun veltureiknings ber umsækjanda að sanna á sér deili með framvísun fullgildra persónuskilríkja, þ.e. vegabréfs, nafnskírteinis eða ökuskírteinis.
 • Ef stofnaður er reikningur fyrir hönd lögaðila (fyrirtæki og félög), þurfa allir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og/eða prókúruhafi lögaðilans að sanna á sér deili með framvísun fullgildra persónuskilríkja. Að öðru leyti gilda ákvæði laga og samþykkta eða reglna viðkomandi lögaðila  um stofnun reikninga fyrir hans hönd.
 • Umsækjanda ber að gefa upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti sín við stofnun reiknings í samræmi við kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006 sem og upplýsingar um raunverulegan eiganda fjármuna.
 • Óheimilt er að stofna veltureikning fyrir hönd annars fjárráða aðila nema umsækjandi veiti öðrum umboð (prókúru) til þess.
 • Umsókn skal vera undirrituð og dagsett af umsækjanda.
 • Umsókn um veltureikning er synjað af hálfu Landsbankans reynist umsókn ekki fullnægjandi.

Umboð

 • Veiti reikningseigandi öðrum aðila umboð til úttekta af veltureikningi sínum ber hann ábyrgð á að tilkynna bankanum um hverjar þær breytingar sem verða á umboði prókúruhafa, t.d. um afturköllun umboðs, nýjan umboðshafa o.s.frv.
 • Umboð þarf að vera skýrt að efni sínu og á því formi sem bankinn samþykkir. Umboðið þarf að vera undirritað og vottað.
 • Afturköllun umboðs þarf að vera skrifleg og tekur hún gildi þegar hún hefur verið árituð um móttöku af hálfu bankans. Aðeins reikningseigandi getur afturkallað umboð.

Binditími

 • Sé innstæða ekki bundin sérstökum kvöðum (s.s. veðsett eða bundin með öðrum hætti) er innstæða á veltureikningi alltaf laus til útborgunar.

Ávöxtun

 • Veltureikningar eru óverðtryggðir reikningar.
 • Vextir eru breytilegir samkvæmt vaxtaákvörðun Landsbankans á hverjum tíma.
 •  Innborganir bera vexti frá og með innborgunardegi að útborgunardegi.
 • Vextir leggjast við höfuðstól um áramót og þegar veltureikningur er eyðilagður.
 • Fjármagnstekjuskattur reiknast af innborguðum vöxtum í samræmi við ákvæði laga og er skuldfærður af viðkomandi reikningi.

Debetkort

 • Reikningseigandi getur sótt um að fá debetkort útgefið á veltureikning.
 • Reikningseigandi er ábyrgur fyrir úttektum með debetkorti sínu og skal ekki lána það til annars aðila.
 • Ef aukakort er gefið út á veltureikning er reikningseigandi ábyrgur fyrir úttektum með kortinu.
 • Þegar notandi gefur upp leyninúmer (fjögurra tölustafa PIN númer), við úttekt af debetkorti (svo sem í hraðbanka, verslunum, bönkum o.fl.) kemur það í stað undirskriftar notandans.
 • Reikningseigandi skal ekki upplýsa aðra aðila um PIN númer.
 • Glatist PIN númer eða grunur leikur á að annar aðili hafi það undir höndum skal reikningseigandi tafarlaust sækja um nýtt númer.

Leyninúmer

 • Reikningseigandi velur sér leyninúmer sem hann notar í samskiptum við Landsbankann, t.d. í netbankanum, í Þjónustusíma bankanna og hjá Ráðgjafa- og þjónustuveri Landsbankans.
 • Reikningseigandi skuldbindur sig til þess að upplýsa ekki óviðkomandi aðila um leyninúmerið. Ef reikningseigandi hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um leyninúmerið, skuldbindur reikningseigandi sig til þess að breyta leyninúmerinu strax og hann verður þess var og tilkynna Landsbankanum um það án tafar.
 • Reikningseigandi ber ábyrgð á þeim færslum sem gerðar eru og/eða upplýsingum sem gefnar eru með notkun leyninúmersins.

Yfirdráttarheimild (yfirdráttarlán)

 • Reikningseigandi getur sótt um heimild til yfirdráttarláns á veltureikning sinn með skriflegri beiðni, símtali eða tölvupósti, nema annað komi fram í viðbótarskilmálum einstakra reikninga. Viðskiptavinur þarf að sanna á sér deili með viðeigandi hætti.
 • Heimild til yfirdráttarláns skal vera bundin ákveðinni hámarksfjárhæð og gildistíma. Ákvörðun um hvort yfirdráttarheimild sé veitt, fjárhæð heimildar og gildistími er háð mati Landsbankans hverju sinni.
 • Reikningseigandi skuldbindur sig til að greiða vexti af yfirdráttarheimildinni samkvæmt vaxtaákvörðun Landsbankans eins og hún er hverju sinni. Vextir reiknast sem dagvextir þá daga sem staða reiknings  er neikvæð (í mínus).
 • Undir lok hvers mánaðar er veltureikningurinn skuldfærður vegna vaxtatímabilsins frá 21. degi fyrri mánaðar til 20. dags viðkomandi mánaðar og vaxtadagsett til 21. dags þess mánaðar.
 • Dragi reikningseigandi á veltureikninginn umfram umsamda yfirdráttarheimild er Landsbankanum heimilt, en ekki skylt, að fella yfirdráttarheimildina niður fyrirvaralaust og án uppsagnar.
 • Landsbankinn getur hvenær sem er  krafist þess að reikningseigandi leggi fram fullnægjandi tryggingar að mati Landsbankans til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu yfirdráttarlánsins. Komi til þess að trygging Landsbankans rýrni eða teljist ekki fullnægjandi að mati Landsbankans er reikningseiganda skylt, að kröfu Landsbankans, að leggja fram nýja tryggingu. Verði reikningseigandi ekki við þeirri beiðni innan 10 daga er Landsbankanum heimilt að fella niður yfirdráttarheimildina í heild eða að hluta og gjaldfella ádregna stöðu án frekari fyrirvara eða uppsagnar.
 • Hafi Landsbankinn veitt reikningseiganda yfirdráttarlán í erlendri mynt á myntveltureikning, og lánið lendir í vanskilum vegna þess að yfirdráttarheimildin hefur verið felld niður samkvæmt ofangreindu eða af öðrum ástæðum, er Landsbankanum heimilt, en ekki skylt, að umreikna skuldina í íslenskar krónur á þeim degi sem yfirdráttarheimildin fellur niður. Miða skal við skráð sölugengi Landsbankans á viðkomandi reikningsmynt. Skuldin ber þá dráttarvexti af hinni íslensku fjárhæð, í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, nema um annað sé sérstaklega samið milli aðila.
 • Lendi viðskiptavinur í 90 daga vanskilum með eina eða fleiri skuldbindingar við Landsbankann er Landsbankanum heimilt, en ekki skylt, að fella niður ónýttar yfirdráttarheimildir viðskiptavinar. Landsbankanum er jafnframt heimilt að fella niður yfirdráttarheimildina í heild eða að hluta og gjaldfella ádregna stöðu án frekari fyrirvara eða uppsagnar.
 • Landsbankanum er heimilt, en ekki skylt, að fella niður ónýtta yfirdráttarheimild viðskiptavinar ef viðskiptavinur hefur óskað eftir nauðasamningum, gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá honum eða fyrirséð er að öðru leyti að lánstraust viðskiptavinar muni minnka í náinni framtíð. Landsbankanum er jafnframt heimilt að fella niður yfirdráttarheimildina í heild eða að hluta og gjaldfella ádregna stöðu án frekari fyrirvara eða uppsagnar.
 • Óska má eftir niðurfellingu yfirdráttarheimildar með skriflegri beiðni, símtali eða tölvupósti.
 • Starfsfólki Landsbankans er heimilt að synja beiðni um yfirdráttarheimild uppfylli umsækjandi ekki skilyrði til umsóknar.

Innstæðulausar úttektir og rangar eða óheimilar færslur

 • Ef ekki er innstæða fyrir úttekt á veltureikningi, dregið er umfram yfirdráttarheimild á reikningi, gildistími yfirdráttarheimildar rennur út án þess að til framlengingar komi eða yfirdráttarheimild fellur niður af öðrum ástæðum skal greiðsla gjalds fyrir innstæðulausar úttektir fara eftir verðskrá bankans hverju sinni.
 • Gjald samkvæmt ofangreindu reiknast af hverri innstæðulausri úttekt.
 • Sé vanskilum á veltureikningi ekki sinnt eftir ítrekanir áskilur bankinn sér rétt til þess að leita fullnustu kröfunnar með lögfræðiinnheimtu og er bankanum heimilt að fela þriðja aðila sem er til þess bær að annast innheimtu kröfunnar fyrir sína hönd. Um gjald fyrir milliinnheimtu fer eftir verðskrá bankans og um gjald fyrir lögfræðiinnheimtu fer eftir verðskrá  viðkomandi innheimtuaðila.
 • Brot á reglum um innstæðulausar úttektir og/eða rangar eða óheimilar færslur varðar við XXVI. kafla almennra hegningalaga nr. 19/1940. Verði reikningseigandi uppvís um slík brot verður það kært til lögreglu.

Útgáfa og meðferð tékka

 • Reikningseigandi getur fengið tékkhefti frá Landsbankanum til útgáfu tékka af veltureikningi sínum, nema annað komi fram í viðbótarskilmálum einstakra reikninga.
 • Við útgáfu tékka skuldbindur reikningseigandi sig til:
 • Að nota eingöngu tékkaeyðublöð, sem honum hafa verið afhent til ávísunar á veltureikning sinn.
 • Að skrifa ekki annað reikningsnúmer á tékkaeyðublöðin en honum er heimilt.
 • Að varðveita tékkheftið þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það.
 • Að tilkynna bankanum strax ef tékkaeyðublöð týnast eða hverfa.
 • Að afhenda bankanum öll ónotuð tékkaeyðublöð þegar reikningi er lokað eða þegar bankinn krefst þess af öðrum ástæðum, ella getur viðskiptamaður orðið ábyrgur gagnvart bankanum á tjóni, sem leiða kann af misnotkun eyðublaða.
 • Brot á reglum um útgáfu og meðferð tékka varðar við XXVI. kafla almennra hegningalaga nr. 19/1940. Verði reikningseigandi uppvís um brot verður það kært til lögreglu.

Eyðilegging reikninga

 • Óski reikningseigandi eftir því að reikningur hans verði eyðilagður getur hann lagt fram skriflega beiðni þess efnis hjá bankanum, óskað eftir eyðileggingu reiknings símleiðis eða með tölvupósti. Óski reikningseigandi eftir því að eyðileggja reikning sinn símleiðis eða með tölvupósti þarf reikningseigandi að sanna á sér deili með viðeigandi hætti í samskiptum við bankann.
 • Bankinn áskilur sér rétt til að eyðileggja reikninga að eigin frumkvæði ef reikningseigandi verður uppvís að því að brjóta reglur bankans, brjóta gegn skilmálum bankans eða öðrum reglum sem gilda um viðskipti hans við bankann. Bankinn getur þá eyðilagt reikninginn án þess að tilkynna viðskiptavini um það fyrirfram.
 • Bankinn áskilur sér rétt til að eyðileggja reikninga að eigin frumkvæði þegar reikningur hefur staðið ónotaður í lengri tíma en 24 mánuði. Bankinn getur þá eyðilagt reikninginn án þess að tilkynna viðskiptavini um það fyrirfram.
 • Ef inneign er á reikningi sem hefur verið eyðilagður verður henni ráðstafað inn á annan reikning viðskiptavinar sem vitað er um eða eftir atvikum inn á aðalbókhaldsreikning hjá útibúinu ef viðskiptamaður á ekki annan reikning.
 • Ef óveruleg neikvæð staða er á reikningi viðskiptamanns, t.d. vegna kostnaðarfærslna, fellir bankinn skuldina niður á kostnað bankans, en bankinn áskilur sér einnig rétt til að leita fullnustu kröfunnar með lögfræðiinnheimtu eins og nánar er kveðið á um í skilmálum þessum.

Aðrir skilmálar

Verðskrá

 • Um gjöld sem lögð eru á viðskiptavini samkvæmt skilmálum þessum fer hverju sinni eftir verðskrá bankans sem aðgengileg er á vef Landsbankans www.landsbankinn.is og í útibúum bankans.
 • Á vef Landsbankans www.landsbankinn.is má finna reiknivél þar sem hægt er að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar við yfirdráttarlán.

Breytingar á skilmálunum

 • Landsbankinn getur gert breytingar á skilmálum þessum hvenær sem er ef breytingin er til hagsbóta fyrir viðskiptavini hans. Að öðrum kosti skuli breytingar taka gildi með eins mánaðar fyrirvara. Breytingar á skilmálunum eru birtar á vef bankans www.landsbankinn.is.