Fjármunir ófjárráða
Fjármunir ófjárráða barna
Ákvarðanir um fjármál eru mikilvægur þáttur í lífi fólks óháð aldri og hér hafa verið teknar saman reglur sem gilda um meðferð fjármuni barna. Umfjöllunin er þó langt frá því að vera tæmandi.
Lögræði og lögráðamenn barna
Um lögræði er fjallað í lögræðislögum, nr. 71/1997. Einstaklingar verða lögráða 18 ára en þá öðlast þeir bæði sjálfræði og fjárræði. Börn eru því ófjárráða til 18 ára aldurs. Lögráðamenn fara með fjárhald barnsins fram að þeim aldri. Lögráðamenn eru foreldrar barns (kynforeldrar eða kjörforeldrar) sem fara með forsjá þess eða aðrir einstaklingar sem hefur verið falin forsjá barns samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003 með formlegum samningi staðfestum af sýslumanni. Við skilnað eða samvistarslit foreldra er tekin ákvörðun um hvort þeirra skuli fara með forsjá barna þeirra eða hvort þau skuli eftir sem áður fara sameiginlega með forsjá. Ákvörðunin byggir á samningi foreldra staðfestum af sýslumanni eða úrskurði dómstóla.
Skaðabótaábyrgð lögráðamanns
Lögráðamaður ber ábyrgð á þeim fjármunum barns sem hann hefur umráðarétt yfir samkvæmt lögræðislögum. Lögráðamaður skal ávallt halda fjármunum barns aðgreindum frá eigin fjármunum. Misfari lögráðamaður með fé barns ber hann bótaábyrgð gagnvart barninu.
Fjárhald lögráðamanna
Samkvæmt lögræðislögum ræður barn ekki fé sínu nema lög kveði á um það. Lögráðamaður fer því með fjárhald þeirra fjármuna barns sem það ófjárráða ræður ekki yfir. Umráð lögráðamanns ná þó hvorki til eftirtalins fjár né vaxta og verðbóta af því:
- Þess fjár sem barnið hefur sjálft unnið sér inn (sjálfsaflafé)
- Þess fjár sem barninu hefur verið gefið án skilyrða (gjafafé)
- Þess fjár sem lögráðamaður hefur látið barnið hafa til ráðstöfunar
Fjármunir barns skulu ávaxtaðir eins og best gerist á hverjum tíma. Lögráðamanni ber skylda til að fræða barnið og taka ákvarðanir varðandi fjárhag þess með hagsmuni þess að leiðarljósi. Við ráðstöfun fjármuna barns skal haft samráð við barnið eftir því sem kostur er miðað við þroska þess.
Fjármunir barna
Í lögræðislögum eru fjármunir barna flokkaðir. Mismunandi reglur gilda um meðferð fjármunanna en í grófum dráttum má skipta þeim í þrennt:
- Sjálfsaflafé - það fé sem barnið hefur sjálft unnið sér inn.
- Gjafafé - það fé sem barninu hefur verið gefið.
- Annað fé - annað fé en það sem ofan greinir, til dæmis arfur og alls kyns bótagreiðslur.
Skyldur lögráðamanna
Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi. Hlutverk þeirra felst m.a. í að hafa eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna. Samþykki yfirlögráðanda er áskilið til ýmissa ráðstafana sem varða fjármuni barna og verða hér nefnd nokkur dæmi (ekki er um tæmandi upptalningu að ræða):
- Lögráðamanni er skylt að hafa samráð við yfirlögráðanda varðandi varðveislu og ávöxtun þeirra fjármuna/eigna barna sem eru að verðmæti 500.000 kr. eða þar yfir. Fjárhæðin miðast við vísitöluneysluverðs í janúar 2016 og breytist árlega í samræmi við breytingar á vísitölunni.
- Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að ganga á eignir barna til greiðslu kostnaðar af framfærslu hans, námi eða öðru.
- Óheimilt er að setja fjármuni barna sem tryggingu fyrir skuldbindingu eða láta barn gangast í ábyrgð eða setja tryggingu fyrir þriðja aðila. Yfirlögráðandi getur þó veitt undanþágu þegar sérstaklega stendur á vegna hagsmuna barnsins.
- Óheimilt er að lána fé börnum. Þó getur yfirlögráðandi heimilað undantekningu við vissar aðstæður gegn tryggu veði í fasteign.
- Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að binda barn við kaup eða sölu ýmissa eigna, t.d. fasteigna og skráningarskyldra ökutækja. Sama gildir ef barni eru afhentar slíkar eignir án endurgjalds.
Komi til ágreinings um meðferð fjármuna barns má bera þann ágreining undir yfirlögráðanda.
Skylt er að fylgja fyrirmælum yfirlögráðanda varðandi fjármuni barns.
Reglur Landsbankans um innlánsreikninga barna
Reglurnar byggja á almennum reglum sem fram koma í lögræðislögum nr. 71/1997. Innlánsreikningur sem geymir fjármuni barns skal skráður á nafn barnsins.
Stofnun innlánsreiknings ófjárráða barns, yngra en 18 ára
Barn sem er yngra en 13 ára getur ekki stofnað bankareikning án samþykkis lögráðamanns. Frá og með 13 ára aldri getur barn sjálft stofnað innlánsreikning með sjálfsaflafé og/eða gjafafé sínu. Lögráðamaður hefur sömu heimild til stofnunar slíkra reikninga.
Úttektarheimildir
Ófjárráða verður fjárráða
Þegar einstaklingur verður 18 ára fær hann yfirráð yfir fjármunum sínum. Bankareikningur, sem áður var undir fjárhaldi lögráðamanns, fellur þá undir fjárhald reikningseigandans.
Upplýsingagjöf
Barnið og lögráðamaður þess hafa heimild til að fá upplýsingar um innlánsreikning barns, hvort sem um sjálfsaflafé, gjafafé eða annað fé er að ræða. Ekki er heimilt að gefa öðrum upplýsingar um innlánsreikninginn. Forsjáraðilar fá sjálfkrafa skoðunaraðgang að bankareikningum barna sinna sem eru yngri en 18 ára. Aðgangurinn fellur einnig sjálfkrafa niður við 18 ára aldur barns. Skoðunaraðgangurinn er sjálfgefinn og ekki er hægt að fella hann niður.
Önnur fjármálaviðskipti
Um önnur fjármálaviðskipti barna en farið er hér fyrir ofan, svo sem verðbréfaviðskipti, gilda sambærilegar reglur.
Komdu í hóp ánægðra viðskiptavina
Það tekur aðeins örfáar mínútur að fá aðgang að netbanka og appi, stofna reikning og fá kort.