Netbanki fyrirtækja

Nr. 1511-02 Júní 2013

1. Inngangur

Eftirfarandi skilmálar kveða á um notkunarreglur netbanka fyrirtækja hjá Landsbankanum (hér eftir nefndur "netbankinn"), og um efni þess samnings milli fyrirtækis annars vegar og Landsbankans hf. kt. 471008-0280 hins vegar, um aðgang að netbankanum.

2. Notendur

Fyrirtæki ber að tilkynna Landsbankanum skriflega á þar til gerðum eyðublöðum hvaða starfsmenn þess eigi að hafa aðgang að netbankanum og hversu víðtækur sá aðgangur eigi að vera.

Notendur sem hafa víðtækari heimildir en til skoðunar og skráningar í bunka skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi.  Fyrirtækið ber ábyrgð á að notendur uppfylli þessi skilyrði. Tengiliður fyrirtækis skal sækja um heimild til Landsbankans fyrir einstaka starfmenn til að nota netbankann. Áður en starfsmanni er veitt heimild til að nota netbankann ber honum að koma í viðskiptaútibú fyrirtækisins þar sem honum eru afhentar aðgangsupplýsingar og búnaður ef það á við. Einnig ber honum að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann hafi kynnt sér skilmála þessa og geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á fyrirtæki hvílir á grundvelli þeirra.

Vegna aðgangs notanda þarf m.a. að tilgreina eftirfarandi:

a) Hvaða þjónustu netbankans notandi skuli hafa aðgang að.
b) Hvaða reikninga notanda skuli vera heimilt að vinna með.
c) Hvort notandi skuli einungis hafa skoðunaraðgang eða auk þess heimild til að greiða og millifæra.
d) Hvaða greiðslu- og fyrirtækjakort notandi megi skoða.
e) Hámark þeirrar fjárhæðar sem notanda skuli vera heimilt að millifæra á hverjum degi, hafi hann millifærsluheimild.

Þegar starfsmaður lætur af störfum skal fyrirtæki þegar í stað gera ráðstafanir til þess að loka fyrir aðgang starfsmanns að netbankanum. Fyrirtæki ber ábyrgð á því, að viðskiptaútibúi sé tilkynnt um það án tafar láti starfsmaður, sem hefur aðgang að netbankanum, af störfum svo að unnt sé að loka fyrir aðgang hans. Tilkynna þarf skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti um að loka skuli fyrir aðgang einstakra starfsmanna.

3. Þjónusta

Landsbankinn veitir fyrirtæki aðgang að netbankanum á veraldarvefnum www.landsbankinn.is. Fyrirtæki skuldbindur sig til að hlíta skilmálum þessum og þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í Samningi um notkun netbanka fyrirtækja í sérhverju tilliti. Eftir atvikum gilda jafnframt aðrir sérskilmálar og samningsákvæði vegna þeirrar þjónustu sem veitt er í gegnum netbankann.
Sú þjónusta, sem Landsbankinn veitir fyrirtæki í netbankanum, felur m.a. í sér greiðslumiðlun, stofnun innheimtukrafna, launagreiðslur, aðgang að yfirlitum yfir reikninga og greiðslukort eftir því sem nánar er kveðið á um í Samningi um notkun netbanka fyrirtækja.

4. Auðkenning

Landsbankinn lætur fyrirtæki í té, notendanöfn og lykilorð til innskráningar í netbankann ásamt, leyninúmeri/-um sem m.a. er notað til staðfestingar á fjárhagslegum færslum og hverja þá auðkenningu sem öryggiskröfur bankans kveða á um á hverjum tíma. Enn fremur afhendir Landsbankinn nauðsynlegan staðfestingarbúnaði. Landsbankinn áskilur sér rétt til að breyta öryggiskröfum sínum án fyrirvara, enda sé bankinn með því að gæta hagsmuna notanda og tryggja ýtrasta öryggi við notkun á netbankanum. Notandi samþykkir að hlíta skilmálum netbankans um auðkenningu.

Til þess að fyllsta öryggis sé gætt er nauðsynlegt að fyrirtæki og starfsmenn sem fengið hafa aðgang að netbanka fyrirtækis breyti úthlutuðu lykilorði við fyrstu innskráningu í netbankann og ber fyrirtækið ábyrgð á því að slíkt sé gert án tafar eftir að notandi hefur opnað fyrir aðgang að netbankanum í fyrsta sinn. Notandi skal halda öllum upplýsingum er varða auðkenningu hans í netbankanum leyndum og ber hann ábyrgð á því að slíkar öryggisupplýsingar berist ekki í hendur óviðkomandi aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Notandi ber ábyrgð á öllum aðgerðum í netbanka sem framkvæmdar eru á grundvelli auðkenningar samkvæmt skilmálum þessum. Verði notandi þess áskynja að óviðkomandi hafa fengið vitneskju um auðkenningu hans skal notandi tafarlaust tilkynna slíkt til Landsbankans.

5. Skriflegt og rafrænt samþykki

Með því að staðfesta skilmála þessa samþykkir fyrirtæki að rétt auðkenning í samræmi við ýtrustu öryggiskröfur bankans á hverjum tíma, jafngildi skriflegu samþykki notanda gagnvart Landsbankanum, þ.m.t. fyrir öllum aðgerðum er varða fjármálaþjónustu og framkvæmdar verða í netbankanum samkvæmt samningi notanda við Landsbankann og skilmálum þessum. Notandi getur á grundvelli auðkenningar skv. 4. gr. skilmála þessara samþykkt eða sótt um viðbótarþjónustu í netbankanum og jafngildir slík auðkenning skriflegri undirskrift hans.

6. Tenging við netbankann

Fyrirtæki leggur sjálft til endabúnað og tengingu við veraldarvefinn og þann hugbúnað sem nauðsynlegur er til tengingar við netbankann. Fyrirtæki ber fulla ábyrgð á þeirri aðferð og þeim búnaði sem hann kýs að nota til viðskipta í netbankanum, þar á meðal að nota ávallt þann vafra (browser) og stýrikerfi sem studdur er af framleiðanda hverju sinni og Landsbankinn gerir kröfur um. Notanda ber að kynna sér almennar leiðbeiningar og lágmarksviðmið um tölvuöryggi og vírusvarnir á hverjum tíma. Landsbankinn áskilur sér rétt til að loka fyrir aðgang notanda ef hugbúnaður notanda er óviðunandi að mati Landsbankans.

Fyrirtæki veitir Landsbankanum heimild til að skoða tæknilegt umhverfi og tengingar notanda sem og önnur atriði sem lúta að tengingu við Landsbankann vegna viðskipta í netbankanum. Verði fyrirtæki þess áskynja að netbankinn sé að einhverju leyti í ólagi ber því að tilkynna Landsbankanum um það án tafar. Fyrirtækinu er þá óheimilt að framkvæma aðgerðir í netbankanum þar til starfsmenn Landsbankans hafa athugað netbankann.

7. Framkvæmd greiðslufyrirmæla

Netbankinn er opinn allan sólarhringinn. Greiðslur sem framkvæmdar eru fyrir kl. 21:00 hvern virkan dag verða bókaðar sama dag og þær berast. Greiðslur sem framkvæmdar eru eftir þann tíma verða bókaðar næsta virka dag. Greiðslur sem framkvæmdar eru á tímabilinu frá 16:15 – 09:00 eru einnig háðar reglum Seðlabanka Íslands um stórgreiðslumörk. Landsbankinn áskilur sér rétt til að breyta tímasetningum þessum með tilkynningum sem verða sjáanlegar í netbankanum og á vef Landsbankans www.landsbankinn.is.

Landsbankinn tilkynnir fyrirtæki með sólarhrings fyrirvara ef rjúfa þarf aðgang að netbankanum vegna viðhalds á kerfi, uppfærslu skráa o.þ.h. Tilkynningar þess efnis verða sjáanlegar í netbankanum og á vefsíðum Landsbankans. Í undantekningartilvikum kann að vera nauðsynlegt að Landsbankinn rjúfi aðgang um stundarsakir án viðvörunar.

8. Leiðréttingar

Notandi skuldbindur sig til þess að fylgjast vel með stöðu reikninga sinna ásamt öllum millifærslum og öðrum fjármálafærslum sem þar eru framkvæmdar og skal gera Landsbankanum samstundis viðvart verði hann þess var að mistök hafi átt sér stað. Landsbankinn mun leitast við að aðstoða við leiðréttingar á villum sem notandi gerir, en ber ekki ábyrgð á þeim.

9. Þóknun og skuldfærsla

Fyrirtæki greiðir fyrir notkun samkvæmt verðskrá Landsbankans eins og hún er hverju sinni með gjaldfærslu af viðskiptareikningi fyrsta virka dag næsta mánaðar á eftir.

10. Breytingar á skilmálum

Landsbankinn áskilur sér rétt til þess að ákveða einhliða þá þjónustu sem veitt er í gegnum netbankann á hverjum tíma. Verði skilmálum þessum breytt skal tilkynna notanda um slíkar breytingar annaðhvort skriflega eða með birtingu tilkynningar um breytta skilmála á áberandi hátt í skjámynd netbankans. Sætti notandi sig ekki við breytingar skal hann án ástæðulauss dráttar tilkynna Landsbankanum um uppsögn samnings um netbanka, en samningurinn er uppsegjanlegur með 14 daga fyrirvara sbr. 13. gr. skilmála þessara. Að öðrum kosti teljast hinir breyttu skilmálar bindandi.

11. Fyrirvarar

Landsbankinn ber ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við netbankann, vafra (browser) eða stýrikerfi fyrirtækis eða bankans, eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda því að færslur í netbankanum geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en til var ætlast s.s. vegna tæknibilana eða truflana í rekstri tölvu- og/eða viðskiptakerfa. Landsbankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun á aðgangi fyrirtækis.

Landsbankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlotist getur af röngum færslum sem framkvæmdar eru með aðgangi að netbanka fyrirtækis. Landsbankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. Enn fremur ef rekja má tjónið til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna atriða sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure).

12. Trúnaður

Með aðgangi sínum að netbankanum og viðskiptum við Landsbankann verða bankanum aðgengilegar trúnaðarupplýsingar um fyrirtækið. Samkvæmt ákvæðum laga er Landsbankinn, starfsmenn hans og hverjir þeir sem taka að sér verk fyrir bankann, bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varða einkamálefni viðskiptavina, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum.

13. Uppsögn, vanefndir o.fl.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er 14 dagar. Landsbankinn getur sagt upp samningi um netbanka með tilkynningu í netbanka eða skriflegri tilkynningu á heimilisfang fyrirtækis samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Verði fyrirtæki uppvíst að misnotkun, tilraun til misnotkunar á upplýsingum eða tengingum sem netbankinn býður upp á, er Landsbankanum heimilt að rjúfa aðgang að netbankanum  fyrirvaralaust og án tilkynningar. Slík misnotkun varðar við lög. Sama gildir leiti fyrirtæki nauðasamninga, greiðslustöðvunar eða annarra sambærilegra réttarúrræða, gert er árangurslaust fjárnám hjá fyrirtæki, beðið um uppboð á eignum þess, krafist er gjaldþrotaskipta á búi þess eða aðrar sambærilegar ástæður koma upp sem að mati Landsbankans gefa til kynna slæma fjárhagsstöðu fyrirtækis.

Landsbankanum er heimilt að loka fyrir aðgang fyrirtækis ef aðgangur er óvirkur samfellt í 6 mánuði.

14. Eignarhald á hugbúnaði og breytingar

Landsbankinn er eigandi hugbúnaðar sem netbanki er byggður á. Fyrirtæki hefur samkvæmt Samningi um notkun netbanka fyrirtækja, leyfi til aðgangs og notkunar hans skv. því sem þar er kveðið á um. Fyrirtæki er algerlega óheimilt að gera eða láta gera breytingar á hugbúnaði þeim sem tengist netbanka án skriflegrar heimildar Landsbankans.

15. Heimild til þess að afla upplýsinga um kröfur hjá Reiknistofu bankanna

Fyrirtæki veitir Landsbankanum heimild til að sækja upplýsingar um kröfur á hendur fyrirtækinu frá Reiknistofu bankanna til notkunar í netbankanum. Landsbankanum er óheimilt að nota upplýsingarnar í öðru skyni.

16. Önnur ákvæði

Rísi mál vegna samnings þessa má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Komi upp ágreiningur á milli fyrirtækis og Landsbankans um framkvæmd samnings þessa eða einstaka þætti í framkvæmd hans er fyrirtækinu unnt að skjóta ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nefndin er í umsjón Fjármálaeftirlitsins en nálgast má málskotseyðublöð hjá bankanum eða á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (www.fme.is). Einnig er vakin athygli á lögum nr. 98/1999 um innistæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta.

Prentvæn útgáfa