Innlánsreikningar

Almennir skilmálar um stofnun og notkun innlánsreikninga (PDF útgáfa)


Almennir skilmálar um stofnun og notkun innlánsreikninga

 Nr. 1529-02  |  Desember 2017

 

Skilmálar þessir gilda um alla innlánsreikninga sem stofnaðir eru hjá Landsbankanum hf., kt. 471008-0280, (hér eftir nefndur „Landsbankinn“ eða „bankinn“).

Stofnun

 • Við stofnun innlánsreiknings (hér eftir innlánsreikningur eða reikningur) ber viðskiptavini að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum, þ.e. vegabréfi, nafnskírteini, ökuskírteini eða fullgildum rafrænum skilríkjum.
 • Ef stofnaður er reikningur fyrir hönd lögaðila (fyrirtækis eða félags) þurfa allir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi lögaðilans að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum. Að öðru leyti gilda ákvæði laga og samþykkta eða reglna viðkomandi lögaðila um stofnun reikninga.
 • Viðskiptavini ber að gefa upplýsingar um fyrirhuguð viðskipti sín við stofnun reiknings í samræmi við kröfur laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og upplýsingar um raunverulegan eiganda fjármuna.
 • Landsbankanum er heimilt að synja umsókn um stofnun innlánsreiknings reynist upplýsingar viðskiptavinar ófullnægjandi. Ákvörðun um höfnun viðskipta er tilkynnt eins fljótt og auðið er.
 • Óheimilt er að stofna innlánsreikning fyrir hönd annars fjárráða aðila nema viðskiptavinur veiti umboð til þess, enda mæli lög ekki fyrir um annað.
 • Reikningur telst stofnaður í íslenskum krónum nema um annað hafi verið samið.

Samningur um innlánsreikning

 • Samningur um innlánsreikning skal vera skriflegur á pappír eða á rafrænu formi á varanlegum miðli. Skilmálar þessir eru hluti samningsins og gilda um samningssambandið ásamt öðrum viðeigandi skilmálum. Samningurinn og viðeigandi skilmálar eru afhentir viðskiptavini á pappír eða á rafrænu formi á varanlegum miðli, s.s. með rafrænum skjölum í netbanka. Hvenær sem er, meðan á samningssambandi stendur, getur viðskiptavinur óskað eftir að fá afhenta skilmála samningsins.
 • Tungumál samnings um innlánsreikning, tilkynninga af hálfu Landsbankans, meðan á samningssambandi stendur, og annarra upplýsinga, sem viðskiptavinur á rétt á, er íslenska.

Umboð og heimildir umboðshafa

 • Reikningseigandi getur veitt þriðja aðila heimild til að láta stofna reikning á nafni reikningseiganda og/eða vinna með reikning sinn með nánar tilgreindum hætti. Umboðshafi þarf að sanna á sér deili með sama hætti og reikningseigandi.
 • Reikningseigandi ber fulla ábyrgð á notkun umboðshafa á grundvelli umboðs.
 • Umboð verður aðeins veitt skriflega. Umboð skal veitt á formi sem Landsbankinn útvegar eða samþykkir. Umboðið þarf að vera dagsett, undirritað og vottað. Uppfylli umboðið ekki kröfur bankans eða laga um form og/eða skýrleika er bankanum heimilt að hafna öllum viðskiptum á grundvelli þess.
 • Allir fjármunir á reikningi sem stofnaður er að beiðni þriðja aðila teljast eign reikningseiganda þegar þeir hafa verið færðir á reikninginn. Allar upplýsingar um reikninginn eru sendar á reikningseiganda. Mótmæli reikningseigandi opnun reiknings er fjármununum skilað til þess sem bað um stofnun reikningsins eða lagði fjármunina inn á reikninginn.
 • Reikningseigandi ber ábyrgð á að tilkynna Landsbankanum um hverjar þær breytingar sem verða á umboði. Allar breytingar á umboði skulu vera skriflegar svo þær taki gildi gagnvart bankanum, t.d. breyting á umboðshafa.
 • Sé umboð ekki tímabundið fellur það niður gagnvart bankanum við afturköllun umbjóðanda á umboði.
 • Afturköllun umboðs þarf almennt að vera skrifleg og tekur gildi þegar hún hefur verið móttekin af hálfu Landsbankans. Aðeins reikningseigandi getur afturkallað umboð, nema lög kveði á um annað. Eldri umboð halda gildi sínu þrátt fyrir skráningu nýrra umboða nema þau séu felld niður sérstaklega.
 • Hafi umboðsmaður fengið í hendurnar greiðslumiðil til að draga á reikninginn (t.d. debetkort) skal reikningseigandi sjá til þess að greiðslumiðlinum sé skilað til næsta útibús eða honum eytt þegar umboð er afturkallað. Þrátt fyrir að umboð hafi verið afturkallað ber reikningseigandi ábyrgð á þeim greiðslum sem umboðshafi framkvæmir með greiðslumiðlinum.
 • Reikningur í eigu dánarbús/þrotabús verður eingöngu notaður af aðila sem hefur sannanlega heimild frá viðeigandi opinberum aðilum um að hann megi fara með fjármuni búsins.

Heimildir ófjárráða

 • Ófjárráða einstaklingur má ekki láta stofna innlánsreikning og hafa umráð með honum nema með samþykki lögráðamanna. Úttektir á innlánsreikningum eru háðar samþykki lögráðamanna.
 • Ófjárráða einstaklingi sem verður 13 ára á árinu er þó heimilt að láta stofna innlánsreikning til innlagnar sjálfsafla- og/eða gjafafjár og hafa umráð yfir reikningnum án aðkomu lögráðamanns. Allar skyldubundnar tilkynningar vegna innlánareiknings eru sendar á lögráðamann.
 • Ófjárráða einstaklingur getur gert samninga um notkun greiðslumiðla eða netbanka með skriflegu samþykki lögráðamanna.
 • Hvort tveggja lögráðamanni og reikningseiganda er heimilt að fá upplýsingar um innlánsreikninga ófjárráða einstaklings, þ.m.t. innstæðu og reikningsyfirlit.
 • Nauðsynlegt er að tilkynna Landsbankanum um allar breytingar á forsjá barns eða breytingar á skipun lögráðamanns.
 • Um reikninga ófjárráða einstaklinga gilda, auk skilmála þessara, lögræðislög nr. 71/1997 með síðari breytingum auk annarra reglna Landsbankans.
 • Þegar samþykki lögráðamanna er áskilið samkvæmt skilmálum þessum gildir eftirfarandi:
  • Ef lögráðamenn eru tveir er samþykki beggja áskilið nema þeir fallist á að samþykki annars sé nægjanlegt.
  • Ef aðeins er einn lögráðamaður er samþykki hans nægjanlegt.

Binditími

 • Innstæður á innlánsreikningum eru háðar þeim sérstöku skilmálum sem gilda um hverja tegund innlánsreiknings fyrir sig og geta verið verðtryggðir miðað við vísitölu neysluverðs eða óverðtryggðir. Kveði lög, reglugerðir, reglur eða skilmálar innlánsreikninga ekki á um sérstakan binditíma er reikningur óbundinn.
 • Um verðtryggða reikninga gilda reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár nr. 492/2001 með síðari breytingum, settar með stoð í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
 • Um binditíma orlofsreikninga gilda ákvæði laga um orlof nr. 30/1987.

Vextir og vaxtaútreikningur

 • Nema samið sé um annað eru vextir innlánsreikninga breytilegir og fara eftir vaxtatöflu Landsbankans fyrir viðkomandi reikningstegund. Vaxtatafla Landsbankans er aðgengileg á vef bankans, www.landsbankinn.is. Breytingar á vaxtatöflu eru tilkynntar með birtingu á vef bankans, í netbanka eða með öðrum hætti.
 • Vaxtaákvarðanir taka m.a. mið af breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og breytingum á öðrum viðmiðunarvöxtum, t.d. LIBOR. Vaxtaákvarðanir taka einnig mið af öðrum fjármögnunarkjörum bankans, opinberum álögum, rekstrarkostnaði, vísitölu neysluverðs til verðtryggingar o.fl. Vaxtaákvarðanir taka mið af breytingum á einum eða fleiri þáttum sem að framan eru taldir.
 • Vaxtabreytingar sem byggja á breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eða öðrum viðmiðunarvöxtum, t.d. LIBOR, taka gildi án fyrirvara við breytingu á vaxtatöflu Landsbankans. Sama á við um vaxtabreytingar sem bankinn metur að séu viðskiptavini í hag.
 • Aðrar vaxtabreytingar taka gildi tveimur mánuðum eftir að þær eru tilkynntar.
 • Þegar samið hefur verið sérstaklega um innlánsvexti fara breytingar á vöxtum eftir viðkomandi samningi viðskiptavinar og bankans.
 • Þrátt fyrir framangreint taka allar vaxtabreytingar á reikningum annarra viðskiptavina en neytenda í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, gildi án fyrirvara við breytingu á vaxtatöflu.
 • Nema um annað sé sérstaklega samið bera innborganir innlánsvexti frá og með innborgunardegi og fram að útborgunardegi. Síðasti reikningsdagur innlánsvaxta er dagurinn fyrir úttekt.
 • Vextir leggjast við höfuðstól um áramót og við eyðileggingu innlánsreiknings enda hafi ekki verið samið um annað sérstaklega.
 • Almennt eru vextir reiknaðir 360 daga á ári (vaxtaár). Vaxtatímabil hvers mánaðar eru 30 dagar. Upphaf hvers tímabils fer eftir tegund og skilmálum innlánsreiknings á hverjum tíma.
 • Þegar reikningur er verðtryggður reiknast verðbætur um hver mánaðamót samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og leggjast almennt við höfuðstól í lok hvers mánaðar.
 • Sérstakar verðbætur eru breytilegar og fara samkvæmt auglýstri vaxtatöflu hverju sinni í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
 • Sérstakar verðbætur eru reiknaðar innan mánaðar á allar inn- og útborganir. Sérstakar verðbætur eru reiknaðar þannig að fyrir hvern dag frá því að fjárhæð er lögð inn eða greidd út eru verðbætur reiknaðar sem 1/30 hluti af breytingum verðbóta á milli mánaða fyrir hvern dag fram að næstu mánaðamótum sem munar til hækkunar eða lækkunar á innlagðri eða úttekinni fjárhæð.
 • Fjármagnstekjuskattur reiknast af innborguðum vöxtum, verðbótum og gengishagnaði í samræmi við ákvæði laga og er skuldfærður af viðkomandi reikningi.

Leyninúmer og aðgengi að reikningi

 • Reikningseigandi velur sér leyninúmer á innlánsreikning sem hann notar til auðkenningar og staðfestingar á greiðslu í samskiptum við Landsbankann, t.d. í netbankanum, í Þjónustusíma bankanna og hjá Þjónustuveri Landsbankans.
 • Við val á leyninúmeri skal reikningseigandi gæta þess að leyninúmerið sé ekki þess eðlis að auðvelt reynist að rekja það til viðkomandi reikningseiganda. Bankinn ráðleggur viðskiptavinum sínum að nota ekki sama leyninúmer á fleiri en einn reikning.
 • Reikningseigandi skuldbindur sig til að upplýsa ekki óviðkomandi aðila um leyninúmerið. Með óviðkomandi aðila er hér átt við aðila sem ekki hefur heimild til að framkvæma greiðslur af reikningi reikningseiganda, samkvæmt formlegu umboði. Ef reikningseigandi hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um leyninúmerið skuldbindur reikningseigandi sig til að breyta leyninúmerinu strax og hann verður þess var og tilkynna Landsbankanum um það án tafar.
 • Reikningseigandi ber ábyrgð á öllum greiðslum og aðgerðum sem framkvæmdar eru með notkun leyninúmersins.

Greiðsluþjónusta og framkvæmd greiðslna

 • Reikningseigandi getur notað innlánsreikning til að framkvæma greiðslur, þ.m.t. að leggja inn og taka út fjármuni. Innlánsreikningur getur verið notaður með greiðslumiðli sem Landsbankinn útvegar. Með greiðslumiðli er í skilmálum þessum átt við hvers kyns persónubundinn búnað og/eða verklag sem greiðsluþjónustuveitandi og viðskiptavinur koma sér saman um og viðskiptavinurinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli, t.d. debetkort eða rafrænar og stafrænar greiðslulausnir. Notkun greiðslumiðils fer jafnframt eftir skilmálum viðkomandi greiðslumiðils.
 • Þegar viðskiptavinur gefur fyrirmæli um greiðslu af innlánsreikningi skal hann sanna á sér deili með fullnægjandi hætti, t.d. með leyninúmeri reiknings eða með framvísun persónuskilríkja. Framangreint á við hvort sem aðgerðin er framkvæmd með greiðslumiðli eða ekki. Eingöngu er heimilt að framkvæma greiðslur af reikningi með heimild reikningseiganda eða umboðshafa.
 • Fyrirmæli um framkvæmd greiðslna af reikningum má gefa munnlega með tilgreiningu á leyninúmeri í útibúum bankans, auðkenningu í gegnum síma, í gegnum netbanka eða greiðslumiðli. Berist greiðslufyrirmæli skriflega skal reikningseigandi/umboðshafi staðfesta þau símleiðis.
 • Greiðslufyrirmæli sem berast fyrir lokun bankaútibús á bankadegi teljast móttekin á þeim bankadegi. Greiðslufyrirmæli sem berast eftir þann tíma teljast móttekin næsta bankadag þar á eftir. Greiðslufyrirmæli í netbanka fyrirtækja sem berast fyrir miðnætti teljast móttekin á þeim bankadegi, en kunna að vera framkvæmd næsta virka dag á eftir.
 • Landsbankinn telst ekki hafa móttekið greiðslufyrirmæli fyrr en hann hefur móttekið allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framkvæma greiðsluna.
 • Landsbankinn getur hafnað því að framkvæma greiðslu ef vafi er uppi um heimild viðkomandi til að nýta reikninginn.
 • Landsbankinn getur jafnframt hafnað því að framkvæma tilteknar greiðslur af öryggisástæðum.
 • Miðað er við að greiðsla innanlands í íslenskum krónum taki að hámarki einn bankadag frá móttöku greiðslufyrirmæla. Berist greiðslufyrirmæli bréfleiðis kann framkvæmdin að taka tvo bankadaga frá móttöku. Bankadagur er virkur dagur þegar bankar eru opnir á Íslandi.
 • Landsbankinn getur synjað viðskiptavini um framkvæmd greiðslufyrirmæla uppfylli viðskiptavinur ekki skilyrði skilmála þessara, skilyrði tengdra skilmála eða samnings um stofnun innlánsreiknings, t.d. ef ekki er næg innstæða á reikningi viðskiptavinar eða ef lokað hefur verið fyrir útborganir af öðrum ástæðum. Synji Landsbankinn um framkvæmd greiðslufyrirmæla verður viðskiptavini tilkynnt um það. Megi rekja synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla til viðskiptavinar er bankanum heimilt að taka gjald fyrir skriflegar tilkynningar.
 • Hafni Landsbankinn greiðslufyrirmælum jafngildir það því að greiðslufyrirmæli hafi ekki verið móttekin.
 • Bankanum er þrátt fyrir framangreint heimilt að fresta framkvæmd greiðslufyrirmæla þar til næg innstæða er á reikningi viðskiptavinar að meðtöldum kostnaði og öðrum gjöldum. Bankanum er í því sambandi heimilt að freista þess að skuldfæra reikning viðskiptavinar fyrir greiðslunni næstu fimm virka daga eftir móttöku greiðslufyrirmælanna.
 • Fyrirfram móttekin greiðslufyrirmæli verða framkvæmd þrátt fyrir að síðari atburðir geri það að verkum að sá sem gaf fyrirmælin hefði sjálfur ekki getað gefið þau, t.d. vegna afturköllunar á prókúru eða vegna andláts reikningseiganda.
 • Reikningseigandi getur einungis afturkallað eða stöðvað greiðslufyrirmæli ef skilyrði 61. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, eru uppfyllt.
 • Fyrirfram móttekin greiðslufyrirmæli verða þó ekki framkvæmd eftir að reikningi hefur verið lokað.
 • Berist Landsbankanum fleiri en ein greiðslufyrirmæli á sama degi ber bankinn ekki ábyrgð á því í hvaða röð þau eru framkvæmd eða hvaða greiðslufyrirmæli eru ekki framkvæmd vegna ónógrar innstæðu.
 • Landsbankinn ber ábyrgð á framkvæmd greiðslufyrirmæla þar til banki viðtakanda greiðslunnar hefur tekið við greiðslunni. Eftir það tímamark verður banki viðtakanda greiðslunnar ábyrgur gagnvart viðtakandanum um rétta framkvæmd greiðslunnar.
 • Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að greiðslufyrirmæli hans séu rétt. Landsbankinn er ekki ábyrgur fyrir mistökum viðskiptavinar, t.d. þegar slegið er inn rangt kennimerki fyrir viðtakanda greiðslu. Slík mistök verða ekki leiðrétt einhliða af hálfu bankans án samþykkis viðtakanda slíkrar greiðslu.
 • Sýni viðskiptavinur fram á með gögnum að fjárhæð greiðslu, sem heimiluð var af viðskiptavini og viðtakandi greiðslu átti frumkvæði að, hafi ekki verið nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt og að greiðsla af reikningi hans sé hærri en hann mátti með sanngjörnum hætti gera ráð fyrir miðað við útgjaldamynstur hans, skilmála þessa og málsatvik að öðru leyti, skal hann tilkynna það til Landsbankans innan átta vikna frá því að fjármunirnir voru skuldfærðir af reikningi hans. Að uppfylltum þeim skilyrðum ber bankanum að endurgreiða viðskiptavini greiðsluna innan tíu daga frá móttöku tilkynningar frá viðskiptavini. Að öðrum kosti synjar bankinn um endurgreiðslu. Framangreint á ekki við þegar viðskiptavinur, sem ekki er neytandi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, gefur þriðja aðila munnlegt samþykki fyrir úttekt af reikningi sínum.
 • Viðskiptavinur á ekki rétt á endurgreiðslu þegar hann hefur veitt Landsbankanum samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu og, ef við á, bankinn eða viðtakandi greiðslu veitti upplýsingar um greiðslur í framtíðinni eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt að minnsta kosti fjórum vikum fyrir gjalddaga. Hafi greiðslufyrirmæli verið afturkölluð ber Landsbankinn hvorki ábyrgð á greiðslu vaxta né annarra gjalda vegna gjaldfallinna greiðslna.
 • Um greiðsluþjónustu gilda takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, og reglum settum samkvæmt þeim lögum.
 • Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur á samningstímanum fyrir greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings.
 • Landsbankanum er heimilt að taka gjald fyrir greiðslur af greiðslureikningum. Einnig er bankanum heimilt að taka gjald vegna aðstoðar við að endurheimta fé sem greitt hefur verið fyrir mistök, t.d. vegna þess að greiðslufyrirmælum fylgdu rangar upplýsingar um móttakanda greiðslu. Um gjaldtöku fer eftir verðskrá Landsbankans á hverjum tíma og sem birt er á vef bankans, www.landsbankinn.is.

Innlánsreikningar í erlendum gjaldmiðli

 • Greiðslur á milli reikninga í mismunandi gjaldmiðlum fela í sér gjaldeyrisviðskipti. Viðskiptavinur nýtur gengishagnaðar eða tekur á sig gengistap vegna þróunar gengis viðkomandi gjaldmiðla. Landsbankinn notar viðeigandi kaup- og sölugengi eftir tegund viðskipta. Landsbankinn auglýsir gengi á vef bankans, www.landsbankinn.is, eða í útibúi eða miðlar því til viðskiptavina með öðrum hætti.
 • Greiðslur í erlendum gjaldmiðlum geta haft í för með sér kostnað sem tekur m.a. mið af fjárhæð, greiðslumiðli, mun á kaup- og sölugengi gjaldmiðla auk fjármagnskostnaðar í samræmi við lög. Kostnaður við erlendar greiðslur er auglýstur í verðskrá Landsbankans á vef bankans www.landsbankinn.is.

Útvextir, innstæðulausar úttektir, ósamþykktur yfirdráttur og rangar eða óheimilar greiðslur

 • Viðskiptavinur skuldbindur sig til að fylgjast með stöðu reiknings og er óheimilt að draga á reikninginn fjárhæð sem er umfram innstæðu eða heimilan yfirdrátt.
 • Dragi reikningseigandi á veltureikning umfram innstæðu eða samþykkta yfirdráttarheimild (t.d með innstæðulausri debetkortafærslu) eða yfirdráttarheimild fellur niður af öðrum ástæðum, skal reikningseigandi greiða gjald fyrir innstæðulausar úttektir samkvæmt verðskrá Landsbankans hverju sinni. Gjald samkvæmt ofangreindu reiknast af hverri innstæðulausri úttekt. Verðskrá Landsbankans er aðgengileg á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is, og í útibúum bankans.
 • Viðskiptavinur skuldbindur sig til að greiða vexti og kostnað af yfirdráttarheimild samkvæmt vaxtatöflu og verðskrá Landsbankans á hverjum tíma nema um annað hafi verið samið. Vextir reiknast af notaðri yfirdráttarheimild við lok hvers dags og eru reiknaðir frá upphafi hvers mánaðar til loka hans. Skuldavextir eru skuldfærðir mánaðarlega hafi ekki verið um annað samið. Hið sama á við um annan kostnað af yfirdráttarheimild.
 • Ósamþykktur yfirdráttur er gjaldkræfur samdægurs og ber dráttarvexti frá færsludegi (þ.e. þeim degi sem greiðsla er færð til bókar í kerfum Landsbankans) og til greiðsludags. Greiði viðskiptavinur inn á veltureikninginn eftir að hafa dregið á reikninginn umfram innstæðu eða samþykkta yfirdráttarheimild áskilur bankinn sér rétt til þess að ráðstafa greiðslunni fyrst til greiðslu á dráttarvöxtum, því næst til greiðslu á kostnaði vegna ósamþykkts yfirdráttar, þ.m.t. innheimtugjalda og lögmannsþóknunar, og að lokum til greiðslu á ósamþykktum yfirdrætti.
 • Sé vanskilum á reikningi ekki sinnt eftir ítrekanir áskilur Landsbankinn sér rétt til að leita fullnustu kröfunnar með löginnheimtu og er bankanum heimilt að fela þriðja aðila, sem er til þess bær, að annast innheimtu kröfunnar fyrir sína hönd. Um gjald fyrir milliinnheimtu fer eftir verðskrá Landsbankans og um gjald fyrir löginnheimtu fer eftir verðskrá viðkomandi innheimtuaðila.

Upplýsingar um reikning og notkun hans

 • Reikningseigandi fær öll skilaboð, upplýsingar og tilkynningar vegna innlánsreiknings, s.s. yfirlit reikninga, breytingar á vöxtum, kostnaði o.þ.h. send í netbanka.
 • Sé viðskiptavinur ekki með netbanka eru framangreindar upplýsingar sendar á netfang sem hann hefur skráð hjá Landsbankanum. Hafi viðskiptavinur ekki skráð netfang hjá bankanum fær hann upplýsingarnar sendar á lögheimili eða aðsetur sem tilkynnt hefur verið bankanum.
 • Viðskiptavinur getur óskað eftir því að fá tilkynningar sendar í pósti gegn gjaldi. Gjald fyrir slíka þjónustu er birt í verðskrá Landsbankans sem aðgengileg er á vef bankans, www.landsbankinn.is.

Reikningsfærslur og yfirlit

 • Yfirlit yfir allar færslur á innlánsreikningum (reikningsyfirlit) eru aðgengileg í netbanka viðskiptavinar. Þá eru áramótayfirlit birt á rafrænu formi í netbanka Viðskiptavinur, sem ekki hefur aðgang að netbanka, getur óskað þess að fá áramótayfirlit send til sín í bréfpósti. Viðskiptavinur skal yfirfara reikningsyfirlit sín reglulega.
 • Landsbankanum ber skylda til að endurgreiða fjárhæðir sem bankinn sannanlega tekur ranglega út af reikningum viðskiptavina sinna. Með sama hætti hefur bankinn rétt til að draga til baka fjárhæðir sem hann ranglega leggur inn á reikninga viðskiptavina sinna, s.s. þegar sama fjárhæðin er lögð inn tvisvar eða þegar rangur innsláttur á upplýsingum um móttakanda greiðslu á sér stað. Slíkar leiðréttingar skulu eiga sér stað jafnharðan og skulu þær koma fram á reikningsyfirlitum viðskiptavina bankans.
 • Viðskiptavini ber að fara vel yfir upplýsingar áður en greitt er inn á reikning þriðja aðila, hvort sem greiðsla er framkvæmd með greiðslumiðli, í gegnum netbanka, síma, hjá gjaldkera eða með öðrum hætti.
 • Hafi viðskiptavinur athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að senda skriflega og undirritaða athugasemd til Landsbankans innan 30 daga frá greiðslu eða 20 daga frá því að honum barst reikningsyfirlit. Sé viðskiptavinur lögaðili skal hann gera athugasemdir innan 30 daga frá greiðslu.
 • »Þegar um óheimilaða eða gallaða greiðslu er að ræða og viðskiptavini verður ekki um kennt, hann hefur ekki lagt fram rangt kennimerki viðtakanda og gallinn verður ekki rakinn til óviðráðanlegra ytri atvika eða lagaskyldna sem bankanum ber að fylgja skal bankinn endurgreiða viðskiptavini fjárhæð hinnar óheimiluðu eða gölluðu greiðslu og, ef við á, bakfæra reikning viðskiptavinar til sömu stöðu og hann hefði verið í ef hin óheimilaða eða gallaða greiðsla hefði ekki átt sér stað. Viðskiptavini ber að gera kröfu um leiðréttingu án óþarfa tafar verði hann var við eða hefði átt að verða var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Hinn lengdi tímafrestur gildir þó aðeins geti viðskiptavinur sýnt fram á að bankinn hafi ekki uppfyllt skilyrði um aðgengi viðskiptavinar að reikningsyfirliti. Framangreint á ekki við þegar viðskiptavinur er ekki neytandi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum.

Eyðilegging reikninga

 • Óski viðskiptavinur eftir því að reikningur hans verði eyðilagður getur hann lagt fram skriflega beiðni þess efnis hjá Landsbankanum, óskað eftir eyðileggingu reiknings símleiðis eða með tölvupósti. Óski viðskiptavinur eftir því að eyðileggja reikning sinn símleiðis eða með tölvupósti þarf hann að sanna á sér deili með viðeigandi hætti í samskiptum við bankann. Skuldi viðskiptavinur bankanum gjöld eða aðrar þóknanir vegna veittrar þjónustu er bankanum heimilt að skuldfæra gjöldin af reikningi viðskiptavinar fyrir lokun hans.
 • Viðskiptavinur getur beðið um að láta loka reikningi tímabundið ef hann telur hættu á að þriðji aðili geti notað reikninginn í leyfisleysi.
 • Landsbankinn áskilur sér rétt til að læsa eða eyðileggja reikninga að eigin frumkvæði verði reikningseigandi uppvís að því að brjóta reglur bankans, brjóta gegn skilmálum bankans eða öðrum reglum sem gilda um viðskipti hans við bankann. Landsbankinn getur þá eyðilagt reikninginn án þess að tilkynna viðskiptavini um það fyrirfram.
 • Landsbankinn áskilur sér rétt til að eyðileggja reikninga að eigin frumkvæði þegar reikningur hefur staðið ónotaður lengur en 6 mánuði eða sýnt þykir að viðkomandi er ekki lengur í viðskiptum við bankann. Bankinn getur þá eyðilagt reikninginn án þess að tilkynna viðskiptavini um það fyrirfram.
 • Landsbankinn hefur heimild til að loka reikningi viðskiptavinar ef bankinn telur að viðskiptavinur eða þriðji aðili sé að misnota reikninginn.
 • Landsbankanum er heimilt að loka reikningi viðskiptavinar með tveggja mánaða fyrirvara samkvæmt lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, nema samið hafi verið um annað.
 • Viðskiptavinur verður látinn vita af lokun reiknings svo fljótt sem verða má.
 • Ef inneign er á reikningi sem hefur verið eyðilagður að frumkvæði Landsbankans verður henni ráðstafað inn á annan reikning viðskiptavinar. Eigi viðskiptavinur ekki annan reikning verður inneigninni ráðstafað inn á aðalbókhaldsreikning hjá bankanum.
 • Ef neikvæð staða er á reikningi viðskiptavinar við eyðileggingu, t.d. vegna kostnaðarfærslna, getur Landsbankinn leitað fullnustu kröfunnar með löginnheimtu.

Aðrir skilmálar

 • Um einstaka innlánsreikninga geta, auk þessara skilmála, gilt sérstakir skilmálar.
 • Um greiðsluþjónustu af innlánsreikningum gilda lög um greiðsluþjónustu nr. 120/2011, með síðari breytingum.
 • Viðskiptavinur á ávallt rétt á því að fá afhenta skilmála um innlánsreikninga.
 • Að öðru leyti gilda Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans.
 • Framangreinda skilmála og aðra skilmála bankans má finna á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is.

Verðskrá og kostnaður

 • Verðskrá Landsbankans er hluti af skilmálum þessum. Viðskiptavinir greiða gjöld fyrir þjónustu bankans og annan útlagðan kostnað í tengslum við veitta þjónustu í samræmi við verðskrá bankans eins og hún er á hverjum tíma. Kostnaður felur meðal annars í sér kostnað við framkvæmd greiðslna með debetkorti og úttektir í hraðbanka og hjá gjaldkera. Gjald er lagt á greiðslur vegna innstæðulausra úttekta (ósamþykkts yfirdráttar). Gjöld sem lögð eru á viðskiptavini samkvæmt skilmálum þessum fara hverju sinni eftir verðskrá bankans sem aðgengileg er á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is, og í útibúum bankans. Kveði aðrir skilmálar eða samningar bankans við viðskiptavini á um gjaldtöku skulu þeir skilmálar gilda framar verðskrá bankans. Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að eiga ávallt innstæðu fyrir áföllnum kostnaði vegna notkunar reikningsins og er bankanum heimilt að skuldfæra gjöld og kostnað af innlánsreikningi viðskiptavinar og skulu skuldfærslur koma fram á reikningsyfirliti viðskiptavinar.
 • Sé reikningseigandi ekki neytandi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, með síðari breytingum, er Landsbankanum heimilt að gera breytingar á verðskrá án fyrirvara.
 • Landsbankanum er heimilt að breyta verðskrá sinni með tveggja mánaða fyrirvara og innheimta gjöld eftir því ef breytingarnar varða þjónustuþætti sem falla undir gildissvið laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Falli breytingarnar utan gildissviðs laganna getur bankinn breytt verðskránni án fyrirvara. Breytingar á verðskrá eru kynntar á vef bankans, www.landsbankinn.is. Viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingar á verðskrá geri hann ekki athugasemdir við þær fyrir gildistöku þeirra. Hafi bankinn og viðskiptavinur samið um sérstök þjónustugjöld gilda þeir samningsskilmálar umfram almennar breytingar á verðskrá bankans og taka breytingum í samræmi við ákvæði þeirra samninga.
 • Verðskrá Landsbankans er birt á vef bankans, www.landsbankinn.is. Viðskiptavinir geta einnig fengið upplýsingar um verðskrá í útibúum eða þjónustuveri bankans.

Breytingar á skilmálum

 • Landsbankinn getur gert breytingar á skilmálum þessum einhliða hvenær sem er ef breytingin er til hagsbóta fyrir viðskiptavin. Séu breytingar ekki til hagsbóta fyrir viðskiptavin og falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu taka breytingarnar gildi með tveggja mánaða fyrirvara.
 • Breytingar á skilmálunum eru tilkynntar viðskiptavini á varanlegum miðli, t.d. með skilaboðum í netbanka með tölvupósti eða póstsendingu á tilkynnt aðsetur eða lögheimili viðskiptavinar. Í tilkynningu um breytta skilmála er vakin athygli á því í hverju breytingarnar felast og á rétti viðskiptavinar til að segja samningi upp. Viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann Landsbankanum ekki um annað áður en breytingarnar taka gildi. Nú segir viðskiptavinur samningnum ekki upp en notar reikninginn eftir að breytingar hafa verið tilkynntar og telst hann þá hafa samþykkt breytingarnar.

Skuldajöfnun

 • Landsbankinn áskilur sér rétt til að skuldajafna innstæðu á reikningi viðskiptavinar við kröfur sem bankinn kann að eiga á hendur honum, enda séu kröfurnar sambærilegar, hæfar til að mætast, gildar, skýrar og ótvíræðar. Séu greiðslur ekki í sömu mynt er bankanum heimilt að umreikna greiðslu í íslenskar krónur eða aðra umsamda mynt áður en til skuldajafnaðar kemur.

Úrlausn ágreiningsmála, varnarþing o.fl.

 • Reikningseiganda er heimilt að leita með hvers kyns ágreining við bankann til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki að því gefnu að ágreiningsefnið falli undir starfssvið nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu www.fme.is.
 • Öll mál sem rísa kunna vegna innlánsreikninga hjá Landsbankanum skulu fara eftir íslenskum lögum nema um annað sé samið.
 • Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Um Landsbankann hf.

 • Landsbankinn er alhliða banki sem veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum um allt land trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasamböndum. Landsbankinn rekur útibú, afgreiðslur og hraðbanka víðsvegar um landið.
 • Landsbankinn hf. hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, sbr. lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, (sjá vef Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is). Frekari upplýsingar um starfsemi Landsbankans má finna á vef bankans: www.landsbankinn.is.

  Landsbankinn hf.
  Austurstræti 11
  101 Reykjavík
  Ísland
  Sími: 410-4000
  Kt.: 471008-0280
  Netfang: info@landsbankinn.is
  Swift: NBIIISRE

Gildistaka

 • Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku og gilda frá og með 13. nóvember 2017. Við gildistöku þessara skilmála falla Almennir skilmálar veltureikninga nr. 1516, Almennir skilmálar sparireikninga nr. 1501 og Skilmálar um greiðslureikninga nr. 1520 úr gildi.