Debetkort

Viðskiptaskilmálar Landsbankans hf. fyrir debetkort

Nr. 1526-02 | apríl 2017

 1. Skilgreiningar

  1.1 Debetkort („kort“) er persónugert plastkort með örgjörva og segulrönd sem er einvörðungu tengt við einn veltureikning. Kortið má nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu, til úttekta á reiðufé eða til annarra nota sem samrýmast ákvæðum skilmála þessara. Korthafa ber að fara með notkun kortsins í samræmi við skilmála þessa og aðrar reglur um notkun debetkorta sem í gildi eru á hverjum tíma. Kortið er eign Landsbankans hf. („Landsbankinn“ eða „bankinn“).

  1.2 Reikningseigandi er eigandi veltureiknings sem hefur með umsókn gert samning við útgefanda um veltureikning og debetkort. Umsókn og skilmálar þessir eru rammasamningur samkvæmt lögum nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, sem gilda um notkun debetkorta sem greiðslumiðils. Reikningseigandi getur heimilað útgáfu fleiri en eins korts á veltureikning sinn.

  1.3 Veltureikningur er innlánsreikningur sem tengdur er við útgefið debetkort. Af veltureikningnum dragast úttektir sem korthafi framkvæmir með framvísun korts eða númers þess eða með öðrum lögmætum hætti í samræmi við skilmála þessa.

  1.4 Korthafi er sá sem kort er gefið út á. Korthafi getur verið aðalkorthafi eða aukakorthafi. Aðalkorthafi er reikningseigandi en aukakorthafi er sá sem reikningseigandi heimilar að fái aukakort. Bæði kortin eru gefin út á veltureikning aðalkorthafa. Korthafi er einnig sá einstaklingur sem hefur fyrirtækjakort.

  1.5 PIN-númer er annað hvort: (a) leyninúmer sem korthafi fær úthlutað samhliða útgáfu kortsins eða (b) einskiptis lykilorð sem sent er frá VISA í síma korthafa og korthafi slær inn til þess að staðfesta viðskiptin (Verified by VISA).

  1.6 Útgefandi er Landsbankinn sem gefur út kortið samkvæmt leyfi frá alþjóðlegri kortasamsteypu.
  Helstu upplýsingar um Landsbankann:
  Landsbankinn hf., kennitala. 471008-0280, Austurstræti 11, 155 Reykjavík, Ísland, sími 410 4000, netfang: info@landsbankinn.is.
  Landsbankinn er fjármálafyrirtæki samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Landsbankinn hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og lýtur eftirliti þess.

  1.7 Einstaklingskort eru kort gefin út á einstaklinga.

  1.8 Fyrirtækjakort eru kort sem gefin eru út á einstaklinga með atvinnustarfsemi á eigin kennitölu eða kennitölu lögaðila, s.s. félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Lögaðilinn er þá reikningseigandi.

 2. Almennt um skilmála debetkorta

  2.1 Aðilar að skilmálum þessum eru Landsbankinn, sem útgefandi kortsins, reikningseigandi og korthafi.

  2.2 Um notkun debetkorta gilda einnig Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans, auk Almennra skilmála um stofnun og notkun innlánsreikninga eins og við getur átt. Ef ósamræmi er milli almennu skilmálanna og skilmála debetkorta, ganga ákvæði þessara skilmála framar.

  2.3 Með undirritun umsóknar um debetkort samþykkir reikningseigandi/korthafi að fylgja í hvívetna skilmálunum. Áður en reikningseigandi/korthafi samþykkir skilmálana ber honum að kynna sér þá vandlega.

  2.4 Með undirritun umsóknar og fyrstu notkun kortsins staðfestir reikningseigandi/korthafi að hlíta Almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans sem í gildi eru á hverjum tíma. Gildandi Viðskiptaskilmálar Landsbankans eru aðgengilegir á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is, sem og í útibúum bankans, auk þess sem nálgast má upplýsingar um skilmálana með því að hafa samband við þjónustuver bankans.

  2.5 Meðan á samningssambandi stendur getur reikningseigandi/korthafi hvenær sem er óskað eftir að fá viðskiptaskilmála Landsbankans á pappír eða öðrum varanlegum miðli endurgjaldslaust.

  2.6 Bankinn tilkynnir um breytingar á ákvæðum skilmála þessara með minnst tveggja mánaða fyrirvara á vef bankans, www.landsbankinn.is. Tilkynningar eru sendar á varanlegum miðli, t.d. með skilaboðum í netbanka eða póstsendingu á tilkynnt aðsetur eða lögheimili reikningseiganda/korthafa. Í tilkynningu um breytta skilmála er vakin athygli á því í hverju breytingarnar felast og á rétti reikningseiganda/korthafa til að segja samningi upp. Reikningseigandi/korthafi telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann Landsbankanum ekki um annað áður en breytingarnar taka gildi. Ef reikningseigandi/korthafi sættir sig ekki við breytingu á skilmálunum getur hann sagt upp samningi sínum við bankann í samræmi við ákvæði skilmála þessara. Nú segir korthafi samningnum ekki upp en notar kortið tveimur mánuðum eftir að breytingar hafa verið tilkynntar og telst korthafi þá hafa samþykkt breytingarnar.

 3. Umsókn og útgáfa debetkorts

  3.1 Debetkort Landsbankans eru auðkennd með nafni Landsbankans sem gefur þau út. Umsækjandi skal fylla út umsókn um kort á vef Landsbankans eða í útibúi Landsbankans. Bankinn áskilur sér rétt til að hafna umsókn um debetkort án tilgreindrar ástæðu.

  3.2 Kort eru útgefin á nafn korthafa og fær korthafi úthlutað leyninúmeri (hér eftir nefnt „PIN-númer“) samhliða útgáfu kortsins.

  3.3 Heimilt er að sækja um aukakort á reikning reikningseiganda og veita þriðja aðila heimild til úttekta af reikningnum. Ef veitt er aukakort á nafni þriðja aðila ber reikningseigandi fulla ábyrgð á notkun kortsins og öllum færslum sem framkvæmdar eru með aukakortinu. Ákvæði skilmála þessara gilda um aukakortið. Aukakorthafi ber jafnframt ábyrgð á greiðslum og úttektum sínum.

  3.4 Aðalkorthafi sem er forráðamaður ófjárráða einstaklings getur sótt um aukakort fyrir hönd þess ófjárráða og ber þá einn ábyrgð á allri notkun og reikningsfærslum hins ófjárráða.

  3.5 Landsbankinn ákveður gildistíma kortsins og er gildistíminn skráður á kortið hverju sinni.

  3.6 Við útgáfu nýs korts sækir korthafi kortið í viðkomandi útibú eða starfsstöð Landsbankans. Við endurnýjun korts fær korthafi kortið heimsent á lögheimili eða skráð aðsetur án endurgjalds. Óski korthafi eftir að fá PIN-númer korts heimsent ber hann ábyrgð á þeirri sendingu og greiðir fyrir sendinguna samkvæmt verðskrá Landsbankans. Hafi korthafa ekki borist kortið eða PIN-númerið innan eðlilegs tíma skal hann tilkynna það til bankans. Korthafar geta einnig sótt PIN-númer í netbanka sinn hjá Landsbankanum.

 4. Notkun og varðveisla korts

  4.1 Korthafa ber að rita nafn sitt á kortið við móttöku og hefur hann einn heimild til að nota það.

  4.2 Kortið veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við kortum. Korthafi getur einnig tekið út reiðufé með kortinu í þeim bönkum, sparisjóðum, hraðbönkum og hjá öðrum aðilum sem bjóða korthöfum slíka þjónustu.

  4.3 Korthafi skal nota PIN-númer til þess að samþykkja greiðslur og úttektir af reikningi með kortinu nema þegar skilmálar þessir heimila annað, t.d. með snertilausri greiðslu.

  4.4 Við úttekt á vöru og þjónustu skal korthafi sjálfur framkvæma greiðslu og slá inn nauðsynlegar upplýsingar, eftir því sem við á. Framkvæmd greiðslu felur í sér samþykki korthafa fyrir úttekt á vöru og/eða þjónustu.

  4.5 Korthafi á rétt á að fá afhent eintak sölunótu við notkun kortsins en annað eintak er varðveitt hjá seljanda. Færsluboð eru send frá seljanda rafrænt til uppgjörs hjá Landsbankanum.

  4.6 Korthafa er hvorki heimilt að láta PIN-númer sitt öðrum í té né geyma það með kortinu. Korthafi skal ekki geyma PIN-númer í veski sínu, í farsíma eða með öðrum rafrænum búnaði eða nokkrum öðrum hætti sem er aðgengilegur öðrum. Varðveiti korthafi ekki PIN-númer með öruggum hætti telst það vera stórfellt gáleysi. Korthafa ber ávallt að gæta þess að enginn sjái þegar hann slær inn PIN-númer sitt.

  4.7 Korthafi er ábyrgur fyrir varðveislu kortsins þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir það enda ber honum að varðveita það á sama örugga hátt og peninga, tékka og annarra verðmæta.

  4.8 Bankanum er heimilt að skuldfæra viðskiptareikning korthafa fyrir úttekt hans með korti, miðað við útgáfudag/dagsetningu korthafa. Korthafi getur ekki afturkallað greiðslur sem hann framkvæmir með korti sínu.

  4.9 Korthafi getur óskað eftir yfirdráttarheimild á viðskiptareikning sinn hjá bankanum. Heimild til notkunar kortsins takmarkast við þá ráðstöfunarfjárhæð sem er á þeim reikningi þegar kortið er notað. Korthafi skuldbindur sig til að eiga ávallt næga innstæðu eða yfirdráttarheimild fyrir hverri greiðslu af þeim reikningi sem kortið er tengt. Hann ábyrgist að fara ekki yfir ráðstöfunarfjárhæð sína með notkun kortsins.

  4.10 Korthafa er kunnugt að það geti haft í för með sér refsiábyrgð lögum samkvæmt reynist innstæða ekki næg eða yfirdráttarheimild ekki fyrir hendi vegna greiðslu/úttektar sem er umfram heimild. Slíkar úttektir munu jafnframt hafa í för með sér kostnað samkvæmt verðskrá Landsbankans hverju sinni og Almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans.

  4.11 Landsbankinn áskilur sér rétt til að synja um heimild til úttektar/greiðslu með debetkorti. Ástæður synjunar geta m.a. verið eftirfarandi:
  1. kort hefur verið tilkynnt glatað eða stolið,
  2. fjárhæð greiðslu fer yfir innstæðu eða yfirdráttarheimild á reikningi,
  3. rangt PIN númer hefur verið slegið inn,
  4. gildistími korts er útrunninn,
  5. annað sem lög, skilmálar þessir eða almennir skilmálar Landsbankans kveða á um.
  4.12 Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun kortsins áskilur Landsbankinn sér rétt til að synja um úttektarheimild og loka korti. Korthafa er þá gert viðvart án tafar. Reynist grunur þessi ekki á rökum reistur er opnað fyrir notkun kortsins.

  4.13 Korthafi getur nálgast reikningsyfirlit yfir úttektir og notkun debetkorts í netbanka sínum hjá Landsbankanum og/eða í útibúi bankans á prentuðu formi gegn gjaldi samkvæmt verðskrá Landsbankans. Greiðslur með debetkorti koma fram á reikningsyfirliti þess veltureiknings sem kortið er tengt. Á yfirlitinu kemur fram nafn seljenda, þar sem kortið var notað, ásamt dagsetningu og upphæð. Ef um erlend viðskipti er að ræða kemur auk þess fram fjárhæð þess gjaldmiðils sem verslað er fyrir, sbr. ákvæði um notkun erlendis í skilmálum þessum.

  4.14 Úttektir í erlendum gjaldmiðli eru millifærðar í gjaldmiðli viðkomandi lands og umreiknaðar í íslenskar krónur á gengi þess dags sem kaup eiga sér stað að viðbættum kostnaði. Upplýsingar um gengi vegna kortanotkunar er að finna á vef Landsbankans www.landsbankinn.is. Gengi er skráð alla virka bankadaga. Gengi er ekki skráð á innlendum frídögum eða á frídögum alþjóðlegra kortasamsteypa. Kostnaður af úttektum í erlendum gjaldmiðli fer samkvæmt verðskrá Landsbankans sem finna má á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is.

  4.15 Notkun korts í gjaldeyrisviðskiptum er háð upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum með heimild í þeim lögum á hverjum tíma.

 5. Glötuð kort, lokun og afturköllun

  5.1 Glatist kort ber korthafa að tilkynna það tafarlaust til Landsbankans, Valitor hf. (ef um Visa kort er að ræða) eða Borgunar hf. (ef um Maestro kort er að ræða). Strax eftir að tilkynning hefur verið móttekin ber þeim sem móttók tilkynninguna að loka kortinu og koma í veg fyrir frekari notkun þess eða misnotkun. Móttakandi tilkynningar heldur utan um og skráir niður allar tilkynningar um glötuð kort.

  5.2 Landsbankinn getur óskað eftir því að korthafi skili inn skriflegri yfirlýsingu um glatað kort og undirriti beiðni um nýtt kort.

  5.3 Glati korthafi korti sínu erlendis býðst honum neyðarkort eða neyðarfé fyrir milligöngu greiðslukortafyrirtækis. Kostnaður vegna þessarar þjónustu skuldfærist á bankareikning korthafa skv. gjaldskrá Landsbankans.

  5.4 Finni korthafi kort, sem hann hefur tilkynnt glatað, er honum óheimilt að nota það. Tilkynna ber Landsbankanum um fund kortsins og skal skila því til hans.

  5.5 Óski korthafi eftir enduropnun korts, sem tilkynnt hefur verið glatað en korthafi hefur fundið aftur, ber hann ábyrgð á allri notkun kortsins meðan það var glatað. Beiðni um enduropnun korts skal vera skrifleg eða með öryggiskóða, þar sem það á við.

  5.6 Vilji korthafi loka korti með uppsögn á samningi sínum við bankann eða afturkalla umsókn sína skal hann tilkynna bankanum um það.

  5.7 Landsbankinn getur lokað kortinu og afturkallað það fyrirvaralaust vakni grunur um misnotkun á því eða brot korthafa á reglum og skilmálum sem um kortið gilda að mati bankans. Við afturköllun ber korthafa að skila kortinu í næsta útibú Landsbankans. Skili korthafi ekki kortinu getur bankinn óskað eftir vörslusviptingu kortsins hjá korthafa. Hið sama á við sé um vanskil hjá korthafa að ræða.

  5.8 Bankinn hefur heimild til þess að skrá öll afturkölluð kort og miðla þeim upplýsingum til sölu- og þjónustuaðila. Ef sölu- eða þjónustuaðili óskar þess að korthafi skili eftirlýstu korti ber honum að afhenda það.

  5.9 Korthafa er óheimilt að nota kortið eftir að gildistími þess rennur út eða það hefur verið ógilt. Misnotkun kortsins varðar við lög, sbr. m.a. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 6. Ábyrgð

  6.1 Hafi korthafi athugasemdir við reikningsyfirlit sitt ber honum að senda tilkynningu til Landsbankans innan 30 daga frá framkvæmd greiðslu.

  6.2 Þrátt fyrir framangreint skal korthafi tilkynna Landsbankanum um það án óþarfa tafar verði hann var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu sem gefur tilefni til kröfu um leiðréttingu en aldrei síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Hinn lengdi tímafrestur gildir þó aðeins ef korthafi getur sýnt fram á að bankinn hafi ekki uppfyllt skilyrði skilmála þessara um aðgengi korthafa að reikningsyfirliti. Þessi lengdi tímafrestur á ekki við þegar korthafi er lögaðili eða aðili í atvinnurekstri.

  6.3 Korthafi er ábyrgur fyrir öllum greiðslum sem staðfestar eru með PIN-númeri, hafi hann ekki varðveitt PIN-númerið í samræmi við ákvæði skilmála þessara, enda telst varðveisla með öðrum hætti fela í sér stórfellt gáleysi. Með sama hætti er korthafi ábyrgur fyrir framkvæmd greiðslna með öðrum hætti, t.d. rafrænum greiðslum á vefsíðum, hafi hann ekki varðveitt kortið í samræmi við ákvæði skilmála þessara.

  6.4 Telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna það án tafar til Landsbankans. Í öllum tilvikum þegar grunur um sviksamlega eða óheimila kortanotkun er fyrir hendi ber Landsbankanum eða viðkomandi greiðslukortafyrirtæki að loka kortinu og skal korthafi þá afhenda kortið í næsta útibúi bankans eða til greiðslukortafyrirtækis, þegar það á við. Korthafa ber skylda til að aðstoða greiðslukortafyrirtæki og Landsbankann við vinnslu málsins og lágmarka tjónið eins og kostur er.

  6.5 Ef sannað er að kort hafi verið notað með sviksamlegum hætti án heimildar korthafa og ekki er um að ræða stórfellt gáleysi eða svik af hálfu korthafa, skal korthafi ekki bera tjón vegna þeirrar greiðslu umfram sjálfsábyrgð.

  6.6 Korthafi ber sjálfsábyrgð vegna óheimilaðra greiðslna að fjárhæð sem svarar til allt að EUR 150, miðað við opinbert viðmiðunargengi hverju sinni, ef hinar óheimiluðu greiðslur má rekja til þess að korthafi hefur týnt debetkortinu eða kortinu hefur verið stolið eða notað með öðrum óréttmætum hætti áður en hvarf eða misnotkun þess er tilkynnt og notkunina má rekja til þess að korthafi uppfyllti ekki skyldu sína samkvæmt ákvæðum skilmála þessara um varðveislu, meðferð og ábyrgð korthafa. Við ákvörðun fjárhæðar sjálfskuldarábyrgðar er horft til þess hvernig korthafi varðveitti kortið og PIN-númer og málsatvik þegar kortið týndist, glataðist eða var nýtt með óréttmætum hætti.

  6.7 Korthafi ber ábyrgð á öllu tjóni vegna óheimilaðra greiðslna ef hann stofnar til þeirra með sviksamlegum hætti eða ef korthafi hefur vanrækt skyldur sínar samkvæmt ákvæðum skilmála þessara af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

  6.8 Ef sannað er að framkvæmdar hafi verið snertilausar færslur, eða annars konar greiðslur án staðfestingar með PIN-númeri, með sviksamlegum hætti án heimildar korthafa og ekki er um að ræða svik af hálfu korthafa, skal korthafi ekki bera tjón vegna þeirrar greiðslu.

  6.9 Korthafi ber ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur sannanlega tilkynnt það glatað, nema hann hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi eða stórfellt gáleysi.

  6.10 Þegar korthafi er lögaðili eða í atvinnurekstri ber hann allt tjón sem hlýst vegna óheimilaðra greiðslna ef hann hefur vanrækt skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum. Landsbankinn ber ekki ábyrgð á tjóni korthafa vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðru sjálfsafgreiðslutæki, né heldur á tjóni korthafa sem hlýst af því að sjálfsafgreiðslutæki hefur ekki samband við heimildarkerfi Landsbankans. Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni skal hann senda Landsbankanum skriflega kvörtun. Bankinn framsendir kvörtun korthafa til færsluhirðis.

  6.11 Sérhver ágreiningur eða tjón vegna kaupa á vöru eða þjónustu, sem greidd er með korti, er Landsbankanum algerlega óviðkomandi og án ábyrgðar fyrir hann.

 7. Persónuvernd og vinnsla upplýsinga

  7.1 Landsbankinn vinnur persónuupplýsingar um korthafa, reikningseiganda, handhafa korta og ábyrgðarmenn. Þær upplýsingar sem um ræðir eru m.a. nafn, kennitala, heimilisfang og upplýsingar um banka- og kortaviðskipti. Með samþykki þessara skilmála veitir korthafi, reikningseigandi og/eða ábyrgðarmaður Landsbankanum heimild til að vinna framangreindar persónuupplýsingar.

  7.2 Landsbankanum er nauðsynlegt og ber lagaskylda til að vinna persónuupplýsingar til að gegna hlutverki sínu sem fjármálafyrirtæki og greiðslumiðlun og til að tryggja öryggi í fjármálaþjónustu. Persónuupplýsingar eru m.a. notaðar við mat á umsóknum, útgáfu reikninga og við aðra eðlilega starfsemi Landsbankans. Reikningseigandi/korthafi heimilar Landsbankanum að vinna persónuupplýsingar sem veittar eru við umsókn til að meta lánshæfi, skilvísi og greiðslugetu. Persónuupplýsingum er hvorki miðlað til umsækjanda eða korthafa um aðra einstaklinga við mat á greiðslugetu og lánshæfi.

  7.3 Reikningseigandi/korthafi samþykkir að Landsbankinn noti persónuupplýsingar í markaðslegum tilgangi, m.a. til að þróa nýjar þjónustuleiðir eða viðskiptalausnir sem beint er til ákveðins hóps viðskiptavina á grunni persónuupplýsinga. Landsbankinn kann í því sambandi að hafa samband við viðskiptavini í gegnum tölvupóst eða netbanka. Landsbankinn notar sambærilegar samskiptaleiðir við mat á gæði þeirrar þjónustu sem bankinn veitir. Viðskiptavinir bankans geta óskað eftir því að notkun persónugreinanlegra upplýsinga eða sending tölvupósts í markaðslegum tilgangi fari ekki fram. Viðskiptavinir bankans eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar bankinn hefur skráð um þá samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

  7.4 Landsbankinn ber almennt ábyrgð á vinnslu og meðferð persónuupplýsinga. Vinnsluaðili er samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sá sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila. Við vinnslu persónuupplýsinga er aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn bankans sem hann þurfa starfs síns vegna. Auk þess er bankanum heimilt að miðla persónuupplýsingum til vinnsluaðila, aðila sem gert hafa þjónustusamninga við bankann eða vinnsluaðila, ábyrgðaraðila að skuld korthafa, annarra aðila sem korthafi heimilar eða aðila sem kveðið er á um í skilmálum þessum. Bankinn tryggir persónuvernd að persónuupplýsingum með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd, m.a. með mótun öryggisstefnu og setningu þeirra öryggis- og verklagsreglna sem krafist er. Persónuupplýsingar reikningseiganda/korthafa eru varðveittar á meðan kort korthafa er í gildi, eins lengi og lög mæla fyrir um eða viðskiptahagsmunir bankans eða vinnsluaðila krefjast þess og málefnaleg ástæða þykir til.

  7.5 Öll vinnsla persónuupplýsinga fer fram í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

  7.6 Reikningseigandi/korthafi heimilar Landsbankanum vinnslu upplýsinga sem nauðsynlegar eru til reksturs greiðslumiðlunarkerfis, korthafakerfis og annarra kerfa tengdum kortinu, svo sem að auðkenna greiðslur frá korthafa og tryggja rekjanleika þeirra.

 8. Gjaldtaka

  8.1 Reikningseigandi/korthafi greiðir gjöld vegna notkunar kortsins, svo sem ár- og færslugjöld, samkvæmt gildandi verðskrá Landsbankans á hverjum tíma. Verðskrá er aðgengileg á vef Landsbankans, www.landsbankinn.is, og í útibúum hans.

 9. Meðferð ágreiningsmála, lög og varnarþing

  9.1 Samningur korthafa og Landsbankans og skilmálar þessir fara eftir íslenskum lögum, svo og öll mál sem rísa kunna af notkun kortsins, nema um annað sé sérstaklega samið.

  9.2 Reikningseigandi/korthafi getur skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a. í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um úrskurðanefndina er að finna á vef Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is.

  9.3 Rísi mál vegna brota á skilmálum þessum má reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Reikningseigandi/korthafi samþykkir auk þess að bankinn megi, kjósi bankinn slíkt, reka innheimtumál í því landi, sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.

 10. Gildistími

  10.1 Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku og gilda frá og með 1. apríl 2017.