Nánar um verðbréfaviðskipti

Flokkar viðskiptavina

Samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti ber fjármálafyrirtækjum að flokka viðskiptavini eftir reynslu þeirra og þekkingu. Um er að ræða þrjá meginflokka fjárfesta; almenna fjárfesta, fagfjárfesta og viðurkennda gagnaðila.

Almennir fjárfestar

Þeir viðskiptavinir Landsbankans sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar njóta fullrar verndar samkvæmt lögunum. Í því felst m.a. að Landsbankinn mun veita viðskiptavinum í flokki almennra fjárfesta upplýsingar um bankann og þá þjónustu sem hann býður, þá fjárfestingarkosti sem í boði eru og þá áhættu sem þeim fylgja, auk upplýsinga um þau gjöld og þóknanir sem fylgja hverjum fjárfestingarkosti. Þegar almennum fjárfesti er veitt þjónusta í formi fjárfestingarráðgjafar eða eignastýringar mun fara fram mat á því hvort tiltekin tegund fjármálagerninga sé samrýmanleg hagsmunum viðkomandi viðskiptavinar. Í slíkum tilvikum er mat lagt á þekkingu, reynslu og fjárhagslegan styrk viðskiptavina, auk markmiða með viðskiptum.

Feli þjónusta Landsbankans í sér annars konar þjónustu tengda verðbréfaviðskiptum en eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf mun bankinn leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í því skyni að meta hvort þeir búi yfir nauðsynlegri vitneskju til að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem viðskiptunum fylgja. Athygli er vakin á því að þeim viðskiptavinum Landsbankans sem flokkaðir eru sem almennir fjárfestar er heimilt að óska eftir því við bankann að verða flokkaðir sem fagfjárfestar. Við slíka flokkun afsala viðskiptavinir sér að hluta þeim réttindum og vernd sem þeir myndu annars njóta samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti en á móti koma frekari möguleikar á fjárfestingum í flóknum fjármálagerningum.

Til að slík beiðni verði tekin til greina verða viðskiptavinir að veita Landsbankanum ákveðnar upplýsingar og slík flokkun er háð samþykki bankans.

Fagfjárfestar

Með fagfjárfestum er átt við viðskiptavini sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.

Eftirtaldir aðilar eru fagfjárfjárfestar:

 1. Lögaðilar sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamarkaði s.s. fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og lífeyrissjóðir.
 2. Stór fyrirtæki sem uppfylla tiltekin skilyrði um efnahagsreikning, ársveltu og eigið fé.
 3. Ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir.
 4. Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum.
 5. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar á grundvelli umsóknar fjárfestis.

Landsbankinn mun því ekki leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavina í flokki fagfjárfesta sem uppfylla skilyrði 1. til 4. tl. hér að ofan þegar kemur að verðbréfaviðskiptum þeirra.

Fjárhagslegur styrkur þeirra viðskiptavina Landsbankans sem óska eftir því að falla í flokk fagfjárfesta er metinn þegar þeim er veitt þjónusta með fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu og um er að ræða viðskiptavini sem flokkaðir hafa verið sem fagfjárfestar á grundvelli beiðni um slíkt, sbr. 5. tl.

Viðskiptavinir í flokki fagfjárfesta geta óskað eftir því að vera færðir í flokk almennra fjárfesta og njóta þannig meiri verndar. Óski aðili eftir að vera fluttur í flokk almennra fjárfesta þá glatar hann möguleika á að eiga viðskipti með flóknari fjármálagerninga. Þá geta fagfjárfestar jafnframt óskað eftir því að verða færðir í flokk viðurkenndra gagnaðila en við það missa þeir hluta þeirrar verndar sem þeir njóta sem fagfjárfestar. Slík flokkun er háð mati og samþykki Landsbankans.

Viðurkenndir gagnaðilar

Þeir viðskiptavinir sem falla í flokk viðurkenndra gagnaðila njóta minnstrar verndar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Á því er byggt að þeir hafi mestan fjárhagslegan styrk, reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu af öllum viðskiptavinum og þurfi því ekki jafn ríka vernd og almennir fjárfestar. Viðskiptavinir í hópi viðurkenndra gagnaðila geta óskað eftir því að flokkun þeirra verði breytt og þannig notið aukinnar verndar, ýmist sem fagfjárfestar eða almennir fjárfestar.

Flestir einstaklingar, smærri fyrirtæki og félög munu sjálfkrafa falla í hóp almennra fjárfesta og njóta þannig mestrar verndar samkvæmt lögunum. Stærri stofnanir og fyrirtæki eru skráð sem viðurkenndir gagnaðilar og njóta því minni verndar enda eru þessir aðilar betur í stakk búnir til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættu af þeim. Þá mun stofnanafjárfestum og þeim aðilum sem þess óska og uppfylla lágmarksskilyrði um efnahag, reynslu og þekkingu verða raðað í flokk fagfjárfesta.

Samþykki viðskiptavina

Einstaklingar geta veitt samþykki sitt í netbankanum. Þá er hægt að hringja í Verðbréfa-og lífeyrisráðgjöf bankans í síma 410 4040 eða prenta út eftirfarandi samþykkisform.

Almennir skilmálar vegna þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (1217) - í gildi frá mars 2016

Verklagsreglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla (1224)

Útdráttur úr stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra (1226) 

Áhættulýsing vegna viðskipta með fjármálagerninga  (1230)

 

Þeir sem falla í flokk fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila þurfa að veita samþykki sitt fyrir flokkuninni. Þá þurfa viðskiptavinir að veita samþykki sitt fyrir því að viðskiptafyrirmæli sem tengjast fjármálagerningum sem skráðir eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi með fjármálagerninga (MTF) séu framkvæmd utan slíkra markaða. Ennfremur er Landsbankanum gert skylt að afla samþykkis viðskiptavina fyrir því að birta ekki opinberlega skilyrt viðskiptafyrirmæli sem hafa ekki verið framkvæmd að fullu. Er þetta í samræmi við gildandi markaðsframkvæmd og endurspeglar stefna Landsbankans um framkvæmd viðskiptafyrirmæla þetta.

Einstaklingar geta veitt samþykki sitt í netbankanum. Þá er einnig hægt að hringja í fjármálaráðgjöf bankans í síma 410 4040.

Neytendavernd

Neytendavernd fjárfesta er mismikil og fer minnkandi eftir því sem reynsla og þekking fjárfesta af viðskiptum með fjármálagerninga er talin meiri. Landsbankanum er skylt að gera samning við viðskiptavini sína þegar veitt er þjónusta á sviði verðbréfaviðskipta, þar sem m.a. skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Auk þess er haldin skrá varðandi alla þjónustu sem Landsbankinn veitir og öll viðskipti sem bankinn hefur milligöngu um á sviði verðbréfaviðskipta. Gera þarf samning milli Landsbankans og viðskiptavinar hvort sem um er að ræða viðvarandi viðskiptasamband eða einstök viðskipti.

Landsbankinn skal veita greinargóðar upplýsingar um bankann, þjónustu hans, þá fjárfestingarkosti sem standa til boða og þá áhættu sem slíkum fjárfestingum fylgir. Upplýsingar þær sem Landsbankinn veitir skulu vera skýrar og sanngjarnar og mega ekki vera villandi. Upplýsingar skulu vera þannig úr garði gerðar að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun á grundvelli  þeirra.

Ríkari neytendavernd leggur þær skyldur á Landsbankann að þekkja viðskiptavini sína. Leggja skal mat á þekkingu, fjárhagslegan styrk og reynslu viðskiptavina áður en þeim er veitt þjónusta á sviði verðbréfaviðskipta. Afli Landsbankinn ekki þeirra upplýsinga, sem kveðið er á um, er honum óheimilt að láta viðskiptavini í té ráðleggingar um verðbréfaviðskipti.

Almennir viðskiptavinir Landsbankans sem og annarra fjármálafyrirtækja mega því eiga von á ítarlegri spurningum en áður við framkvæmd verðbréfaviðskipta. Starfsfólk Landsbankans óskar góðfúslega eftir því að viðskiptavinir sýni skilning vegna þeirra spurninga sem bankanum er skylt að spyrja samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Besta framkvæmd

Landsbankinn hefur sett stefnu um framkvæmd viðskiptafyrirmæla m.a. með tilliti til verðs, kostnaðar, hraða og annarra þátta sem máli skipta. Við framkvæmd viðskiptafyrirmæla leitar Landsbankinn allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína Ávallt skal þó fylgja fyrirmælum viðskiptavinar. Landsbankinn gerir nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fullnægja skyldum um bestu framkvæmd, m.a. með því að setja sér stefnu um framkvæmd viðskiptafyrirmæla.

Verklagsreglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla

Markaðir (e. execution venues)

Á eftirfarandi lista eru þeir markaðir sem Landsbankinn reiðir sig einkum á til þess að ná bestu framkvæmd í samræmi við stefnu bankans um framkvæmd viðskiptafyrirmæla.

Landsbankinn hefur beinan aðgang að eftirfarandi mörkuðum:

Skráð hlutabréf:

 • OMX Nordic Exchange Iceland
 • OMX Nordic Exchange Helsinki
 • OMX Nordic Exchange Copenhagen
 • OMX Nordic Exchange Stockholm
 • Oslo Børs
 • OMX First North (MTF)

Skráð skuldabréf:

 • OMX Nordic Exchange Iceland

Skráð hlutdeildarskírteini:

 • OMX Nordic Exchange Iceland

Landsbankinn hefur í stefnu sinni um framkvæmd viðskiptafyrirmæla áskilið sér að nota aðra markaði til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu. Í því felst meðal annars að þegar viðskiptafyrirmæli varða erlenda fjármálagerninga getur Landsbankinn leitað til erlendra verðbréfamiðlana til aðstoðar við að framkvæma fyrirmælin.

Hagsmunaárekstrar

Landsbankinn viðheldur skilvirkri stefnu varðandi hugsanlega hagsmunaárekstra sem ætlað er að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina bankans. Þar sem ráðstafanir þær sem gerðar eru veita ekki fullnægjandi vissu fyrir því að hagsmuna viðskiptavina sé nægjanlega gætt mun Landsbankinn upplýsa viðkomandi viðskiptavini um eðli og ástæður hugsanlegra hagsmunaárekstra áður en til viðskipta er stofnað.

Útdráttur úr reglum Landsbankans um hagsmunaárekstra

Ágreiningur og málskotsréttur

Ef upp kemur ágreiningur um framkvæmd verðbréfaviðskipta milli viðskiptavinar og bankans getur viðskiptavinur sent bankanum kvörtun. Einnig getur viðskiptavinur vísað ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki en nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu. Málskotseyðublöð má finna á vef Fjármálaeftirlitsins en einnig má nálgast þau hjá bankanum. 

 

Kynntu þér málið

 • Fáðu aðstoð hjá ráðgjöfum í Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf í síma 410 4040
 • Sendu fyrirspurn á netfangið verdbrefaoglifeyrisradgjof@landsbankinn.is
 • Móttaka Verðbréfa- og lífeyrisráðgjafar er staðsett í Austurstræti 11, 1. hæð