Vikubyrjun 9. október 2023

Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Ferðamálastofa tölur yfir brottfarir um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir gögn yfir skráð atvinnuleysi.
- Á fimmtudag birtir Ölgerðin árshlutauppgjör.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna októbermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir vísitöluna mánudaginn 30. október.
Mynd vikunnar
Verðbólgan var komin niður í 7,6% í júlí áður en hún jókst í 7,7% í ágúst og 8,0% í september. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands rökstuddi ákvörðun sína í síðustu viku, um að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir þetta, meðal annars með því að þótt verðbólga hefði aukist á ný hefði undirliggjandi verðbólga hjaðnað lítillega. Í Hagvísum Seðlabanka Íslands, sem kom út nokkrum dögum fyrir vaxtaákvörðunina, má finna fimm mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu. Samkvæmt öllum þessum mælikvörðum hefur undirliggjandi verðbólgan hjaðnað lítillega frá því í júlí.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, eru áfram 9,25%. Þetta kom okkur nokkuð á óvart, en við höfðum spáð 0,50 prósentustiga hækkun, en töldum hækkun um 0,25 prósentustig einnig koma til greina.
- Á hlutabréfamarkaði tók stjórn Kviku banka ákvörðun um að hefja undirbúning á sölu eða skráningu TM trygginga. Icelandair birti flutningstölur fyrir september.
- Á skuldabréfamarkaði lauk Orkuveita Reykjavíkur útboði grænna skuldabréfa, Íslandsbanki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa og Lánamál ríkisins luku útboði á bréfum í nýjum óverðtryggðum flokki á gjalddaga 2035.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








