Vikubyrjun 9. október 2023
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Ferðamálastofa tölur yfir brottfarir um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir gögn yfir skráð atvinnuleysi.
- Á fimmtudag birtir Ölgerðin árshlutauppgjör.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna októbermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir vísitöluna mánudaginn 30. október.
Mynd vikunnar
Verðbólgan var komin niður í 7,6% í júlí áður en hún jókst í 7,7% í ágúst og 8,0% í september. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands rökstuddi ákvörðun sína í síðustu viku, um að halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir þetta, meðal annars með því að þótt verðbólga hefði aukist á ný hefði undirliggjandi verðbólga hjaðnað lítillega. Í Hagvísum Seðlabanka Íslands, sem kom út nokkrum dögum fyrir vaxtaákvörðunina, má finna fimm mælikvarða á undirliggjandi verðbólgu. Samkvæmt öllum þessum mælikvörðum hefur undirliggjandi verðbólgan hjaðnað lítillega frá því í júlí.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, eru áfram 9,25%. Þetta kom okkur nokkuð á óvart, en við höfðum spáð 0,50 prósentustiga hækkun, en töldum hækkun um 0,25 prósentustig einnig koma til greina.
- Á hlutabréfamarkaði tók stjórn Kviku banka ákvörðun um að hefja undirbúning á sölu eða skráningu TM trygginga. Icelandair birti flutningstölur fyrir september.
- Á skuldabréfamarkaði lauk Orkuveita Reykjavíkur útboði grænna skuldabréfa, Íslandsbanki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa og Lánamál ríkisins luku útboði á bréfum í nýjum óverðtryggðum flokki á gjalddaga 2035.