Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar og yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
- Á föstudaginn birtir Vinnumálastofnun tölur um skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um brottfarir um Leifsstöð.
Mynd vikunnar
Vísitala neysluverðs hækkaði minna á milli mánaða í síðustu verðmælingu Hagstofunnar en við höfðum spáð. Verðbólgan lækkaði úr 9,9% í 9,5%. Þó ekki megi draga of miklar ályktanir af hreyfingum á milli mánaða var örlitlar jákvæðar vísbendingar að finna í þessari vísitölumælingu. Ein af þeim er að allar kjarnavísitölurnar sem Hagstofan birtir lækkuðu á milli mánaða í maí, en það hefur ekki gerst síðan í nóvember í fyrra. Hagstofan reiknar og birtir fjórar mismunandi kjarnavísitölur þar sem búið er að fjarlægja sveiflukennda liði til að betur sé hægt að meta undirliggjandi verðbólgu. Önnur jákvæð vísbending var að undirliðum vísitölunnar sem hafa hækkað um meira en 5% á síðustu 12 mánuðum fækkaði á milli mánaða í maí. Verðbólgan hefur reynst þrálátari en við gerðum ráð fyrir, en við bindum vonir við að toppnum hafi verið náð og að verðbólgan dragist hægt og rólega saman á næstu mánuðum.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagstofa Íslands gaf út þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2023. Hagvöxtur mældist 7% á milli ára, mun meiri en á fjórða ársfjórðungi 2022, þegar mældist 3,1% hagvöxtur. Einkaneysla og utanríkisviðskipti áttu stærstan þátt í auknum hagvexti á fjórðungnum. Einkaneysla jókst um 4,9% á milli ára sem skýrist líklega fyrst og fremst af launahækkunum samkvæmt nýjum kjarasamningum. Þjónustuútflutningur bar aukinn útflutningsvöxt uppi, þar sem ferðaþjónustan vegur mest.
- Alls var 10,1 ma.kr. halli af viðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi. Þetta var rúmlega 20 ma.kr. betri niðurstaða en á fyrsta ársfjórðungi 2022. Þetta skýrist af því að afgangur af þjónustuviðskiptum jókst samhliða fjölgun erlendra ferðamann og í stað halla á frumþáttatekjum í fyrra mældist afgangur nú í ár vegna verri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu.
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf út fasteignamat fyrir 2024 Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 11,7% og þar af hækkar fasteignamat íbúða um 13,7% á milli ára. Fasteignamatið hækkaði meira á landsbyggðinni, um 16,1%, en á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hækkaði um 13,1%.
- Hagdeild HMS mánaðarskýrslu fyrir maí.
- Lánamál ríkisins hélt útboð ríkisbréfa og Iceland Seafood hélt víxlaútboð.
- Sjóvá birti uppgjör 1. ársfjórðungs.