Kröftugur hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar mældist 7,0% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er nokkur viðsnúningur frá fjórða ársfjórðungi 2022 þegar mældist 3,1% hagvöxtur. Þar áður hafði hagvöxtur mælst yfir 6% samfellt síðan á þriðja ársfjórðungi 2021. Nú hefur hagkerfið vaxið átta ársfjórðunga í röð, en samdráttur milli ára mældist síðast á fyrsta ársfjórðungi 2021.
Einkaneysla og utanríkisviðskipti til hækkunar á hagvexti
Einkaneysla jókst um 4,9% á milli ára og samneysla um 1,7% á meðan fjármunamyndun var nokkurn veginn óbreytt. Útflutningur jókst um 10,8% og innflutningur um 3,7% á milli ára. Nær óbreytt fjármunamyndun skýrist af því að fjárfesting í íbúðarhúsnæði og fjárfesting í skipum og flugvélum dróst saman milli ára, en almenn atvinnuvegafjárfesting, þ.e. án stóriðju, skipa og flugvéla, jókst verulega milli ára níunda ársfjórðunginn í röð. Þar sem útflutningur jókst mun meira en innflutningar höfðu utanríkisviðskipti áhrif til hækkunar á hagvexti og var hagvöxtur því nokkuð meiri en sem nemur aukningu í þjóðarútgjöldum, en þau jukust um 4,5% milli ára.
Einkaneysla jókst áttunda ársfjórðunginn í röð
Einkaneysla jókst um 4,9% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Vöxturinn er nokkurn veginn í takt við það sem ætla mátti út frá þróun kortaveltu á ársfjórðungnum. Í aprílspá okkar er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist aðeins um 2,4% á árinu 2023 og til þess að spáin gengi eftir þyrfti að hægja nokkuð á einkaneyslunni það sem eftir líður árs.
Þessi kröftuga einkaneysla skýrist líklega fyrst og fremst af þeim miklu launahækkunum sem samið var um á stórum hluta vinnumarkaðarins í upphafi árs og undir lok síðasta árs. Einnig má vera að einhverjir geti enn gengið á þann sparnað frá tímum faraldursins þegar kaupmáttur jókst (og hafði aukist samfellt árin á undan) á meðan tækifæri til neyslu voru takmörkuð vegna ferða- og samkomutakmarkana.
Vísitala neysluverðs hefur hækkað álíka mikið og vísitala launa á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur því staðið nokkurn veginn í stað. Vaxtahækkanir ættu að hamla neyslugetu þeirra sem hafa lán með fljótandi vöxtum og eins hefta neysluvilja þeirra sem hafa hug á því að nýta betri ávöxtun sparifjár. Því er óvíst að einkaneyslan haldi áfram að aukast jafnmikið og hún gerði á fyrsta ársfjórðungi, en einkaneysla hefur nú aukist umfram kaupmátt átta ársfjórðunga í röð. Þó ber að hafa í huga að kjarasamningar á opinbera markaðnum voru samþykktir á öðrum ársfjórðungi og launavísitalan hækkaði um 1,6% í apríl. Það hlýtur að ýta undir einkaneysluna á öðrum ársfjórðungi.
Viðsnúningur í fjármunamyndun
Tekið hefur að hægja á fjármunamyndun, en hún dróst saman um 0,1% á milli ára. Þetta er nokkur viðsnúningur en fjárfesting hafði þar til nú aukist samfellt milli ára sjö ársfjórðunga í röð. Það sem kom mest á óvart varðandi fjárfestingu var að íbúðafjárfesting dróst saman um 14,4% milli ára. Samdrátturinn kann að skýrast af hækkandi vaxtastigi sem bæði þyngir róður fyrirtækja og temprar eftirspurn á kaupendahliðinni. Samkvæmt könnunum Seðlabankans meðal stjórnenda fyrirtækja er einnig skortur á starfsfólki í byggingarstarfsemi sem kann að vera flöskuháls í uppbyggingu íbúða.
Fjárfesting í skipum, flugvélum og tengdum búnaði dróst saman um 68%, en þó ber að nefna að sá liður er mjög sveiflukenndur. Almenn atvinnuvegafjárfesting jókst um 9,6% á milli ára og níunda ársfjórðunginn í röð jókst almenn atvinnuvegafjárfesting milli ára. Fjárfesting hins opinbera jókst um 7,1% milli ára sem ætla má að skýrist meðal annars af uppbyggingu nýs Landspítala.
Ferðaþjónustan leiðir enn útflutningsvöxt
Útflutningur jókst um 10,8% milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Hann jókst lítillega frá síðasta ársfjórðungi sem skýrist nær eingöngu af 24,7% aukningu í þjónustuútflutningi á meðan vöruútflutningur jókst aðeins um 1,1%. Aukinn þjónustuútflutning má að langmestu leyti rekja til aukinnar útfluttrar ferðaþjónustu. Um 420 þúsund erlendir ferðamenn komu til landsins á fyrsta ársfjórðungi sem er 71% aukning frá sama tíma í fyrra, þegar ferðamenn voru 245 þúsund á sama tímabili.
Ferðamönnum fækkaði gífurlega í faraldrinum og eftir að ferðatakmörkunum var aflétt átti ferðaþjónustan inni töluverðan vöxt, mun meiri en aðrar útflutningsgreinar. Nú þegar umsvifin í ferðaþjónustu eru að nálgast það sem var fyrir faraldur hefur hægt lítillega á vextinum.
Innflutningur jókst minna
Innflutningur jókst um 3,7% miðað við fyrsta ársfjórðungi í fyrra og hefur hægt töluvert á vextinum. Vöruinnflutningur dróst saman um 0,2% miðað við sama fjórðung í fyrra en þjónustuinnflutningur jókst um 12,4%. Það sem vegur þyngst í innfluttri þjónustu er ferðalagaliðurinn. Íslendingar ferðuðust meira til útlanda í ár en í upphafi árs í fyrra, enda gætti þá enn áhrifa af ferðatakmörkunum.
Birgðir sjávarafurða aukast óvenjumikið
Liðurinn birgðabreytingar er reiknaður fyrir birgðir af innfluttum olíuvörum og birgðir útflutningsfyrirtækja og samanstendur af óseldri framleiðslu fyrirtækja í orkufrekum iðnaði og í sjávarútvegi. Birgðir í heild jukust um 38,5 milljarða króna á verðlagi ársins á fyrsta árfjórðungi. Þar af jukust birgðir sjávarafurða um 35,9 milljarða sem má ætla að sé að miklu leyti loðna. Þessar birgðir verða síðan fluttar út síðar á árinu.