28. nóvember 2022 - Hagfræðideild
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,27% milli mánaða og að ársverðbólgan lækki úr 9,4% í 9,3%.
- Á miðvikudag birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga fyrir 3. ársfjórðung.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins fyrir 3. ársfjórðung.
Mynd vikunnar
Það er ekki bara hér á landi sem Seðlabankinn hefur hækkað vexti til að reyna að slá á verðbólguna. Seðlabankar flest allra þróaðra ríkja, að Japan undanskildu, hafa hækkað vexti frá byrjun árs 2021. Vextir eru hækkaðir þrátt fyrir frekar lakar hagvaxtarhorfur í sumum ríkjanna. Nú síðast í síðustu viku hækkaði seðlabanki Nýja-Sjálands vexti um 0,75 prósentustig sem er mesta hækkun bankans í einni ákvörðun síðan 1999.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti bankans um 0,25 prósentustig. Eftir ákvörðunina eru meginvextir SÍ, sjö daga bundin innlán, 6%. Við höfðum spáð því að vöxtum yrði haldið óbreyttum, en töldum þó ekki ólíklegt að þeir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig, enda hafa verðbólguhorfur versnað lítillega, íbúðaverð hækkað umfram spár, gengið veikst og væntingar að sumu leyti versnað.
- Samhliða vaxtaákvörðuninni birti Seðlabankinn nóvemberhefti Peningamála með nýrri verðbólgu- og þjóðhagsspá. Bankinn lækkaði lítillega spá sína um hagvöxt í ár, úr 5,9% í 5,6%, en hækkaði spá sína fyrir 2023 úr 1,9% í 2,8%. Bankinn gerir nú ráð fyrir aðeins minni verðbólgu á yfirstandandi fjórðungi og megnið af næsta ári, en gerir enn ráð fyrir um 4,3% verðbólgu á 4. ársfjórðungi 2023.
- Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli mánaða í október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,9%, sem er minna en ársverðbólgan sem mældist 9,4% í október. Október er fimmti mánuðurinn í röð sem árshækkun launa er minni en ársverðbólga, en þar áður hefur árshækkun vísitölu launa verið hærri en verðbólga samfleytt síðan í maí 2010.
- Samkvæmt bráðabirgðatölum var 40 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði á 3. ársfjórðungi. 3. ársfjórðungur er alla jafna sá fjórðungur sem kemur best út, enda er háannatími ferðaþjónustu í júlí og ágúst. Það var halli á 1. og 2. ársfjórðungi (32 ma. kr. og 9 ma. kr.) í ár, þannig að fyrstu níu mánuðir ársins komu út nokkurn veginn í jafnvægi (1 ma. kr. halli). Við teljum nokkuð öruggt að það verði halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á 4. ársfjórðungi og því halli á árinu í heild.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu um húsnæðismarkaðinn. Að mati deildarinnar gefa helstu hagvísar til kynna að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé að dragast saman.
- Tilkynnt var um niðurstöður úr tveimur skuldabréfaútboðum í vikunni. Kvika banki lauk útboði á grænum skuldabréfum og Útgerðarfélag Reykjavíkur lauk víxlaútboði.
- Á hlutabréfamarkaði birti Síldarvinnslan árshlutauppgjör og Hagar birtu afkomuviðvörun.
- Loks minnum við á hlaðvarpsþátt sem við tókum upp í síðustu viku. Þar ræða sérfræðingar bankans um stýrivaxtaákvörðunina og hvernig fjármálakerfið getur brugðist við loftslagsvandanum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Þú gætir einnig haft áhuga á
25. jan. 2023
Íbúðum fjölgaði minna í fyrra en árin á undan en kröftug uppbygging í kortunum
Íbúðum á Íslandi fjölgaði minna á árinu 2022 en síðustu þrjú ár þar á undan en íbúðir í byggingu hafa aldrei verið fleiri en nú. Velta í byggingariðnaði hefur aukist og útlán banka til fyrirtækja í byggingargeiranum hafa færst mjög í aukana. Því má gera ráð fyrir að nýjar íbúðir rísi hraðar á næstunni. Afar erfitt er þó að segja til um hvort magnið verði í samræmi við þörf eða eftirspurn eftir íbúðum.
23. jan. 2023
Vikubyrjun 23. janúar 2023
Frá upphafi árs 2020, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á, hefur fasteignaverð hækkað um 50%, mun meira en laun, almennt verðlag og leiguverð.
18. jan. 2023
Íbúðaverð lækkaði meira en búist var við í desember
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% milli mánaða í desember. Við þetta breytist verðbólguspáin okkar fyrir janúarmánuð örlítið og við gerum nú ráð fyrir 9,3% verðbólgu en ekki 9,4% eins og við spáðum í síðustu viku.
16. jan. 2023
Kortavelta stóð í stað á milli ára í desember
Kortavelta íslenskra heimila stóð í stað á milli ára í desember að raunvirði. Kortaveltan hefur aukist í útlöndum en dregist saman innanlands. Ef desembermánuður 2022 er borinn saman við desember 2019 ferðuðust Íslendingar álíka mikið til útlanda en eyddu mun meiri pening erlendis nú en þá. Að sama skapi hefur meðalneysla erlendra ferðamanna hér á landi aukist.
16. jan. 2023
Vikubyrjun 16. janúar 2023
Tæplega 1,7 milljónir erlendra farþega fóru um Leifsstöð í fyrra. Bandaríkjamenn eru langfjölmennasti ferðamannahópurinn á sumrin en Bretar eiga það til að koma frekar utan háannatíma.
12. jan. 2023
Spáum að verðbólga lækki í 9,4% í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,31% milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,6% í 9,4%. Það hefur ekki orðið veruleg breyting á verðbólguhorfum til næstu mánaða frá því við birtum síðast spá í lok desember. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega á næstu mánuðum og fari niður fyrir 8% í apríl. Við gerum þó ráð fyrir ögn hægari hjöðnun nú, m.a. vegna hærra matvælaverðs.
11. jan. 2023
Árið 2022 fimmta stærsta ferðamannaárið frá upphafi
Rétt tæplega 1,7 milljónir erlendra ferðamanna lögðu upp frá Keflavíkurflugvelli árið 2022, sem gerir það fimmta stærsta ferðamannaárið frá upphafi. Ferðamenn voru tæplega 115 þúsund í desember, þó nokkuð færri en í sama mánuði árin 2019 og 2018, en hver ferðamaður eyddi að jafnaði meiru en þá miðað við fast gengi.
9. jan. 2023
Af hverju hefur krónan veikst í vetur?
Flestir fóru inn í þennan vetur nokkuð bjartsýnir á styrkingu krónunnar. Krónan veiktist hins vegar nokkuð óvænt í byrjun nóvember og endaði árið í 152 krónum á evru, eftir að hafa verið í kringum 140 um sumarið. Síðan hafa komið fram nokkrar skammtímavísbendingar sem skýra betur hvað gerðist.
9. jan. 2023
Vikubyrjun 9. janúar 2023
Verðbólguvæntingar til langs tíma stóðu nokkurn veginn í stað milli þriðja og fjórða ársfjórðungs síðasta árs eftir að hafa hækkað hratt frá miðju ári 2021, þegar verðbólgan komst á flug. Heimilin gera almennt ráð fyrir að meðaltal verðbólgunnar á næstu fimm árum verði 5%.
6. jan. 2023
Mánaðaryfirlit sértryggðra skuldabréfa
Meðfylgjandi er nýjasta mánaðarlega yfirlit Hagfræðideildar um sértryggð skuldabréf.