Verð­bólga geng­ur hæg­ar nið­ur á næst­unni vegna veik­ari krónu

Krónan hefur veikst verulega hratt í nóvembermánuði en evran fór yfir 150 krónur sl. mánudag sem var lægsta gildi hennar í 12 mánuði. Þó að krónan hafi aðeins komið til baka á síðustu dögum er hún mun veikari en þegar við birtum síðustu verðbólguspá. Við spáum því enn að verðbólga muni áfram hjaðna á næstu mánuðum en gengisveikingin mun hliðra þeirri þróun fram í tímann.
Epli
17. nóvember 2022 - Hagfræðideild

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í október en við höfðum í uppfærðri spá okkar spáð 0,44% hækkun. Þetta var því meiri hækkun en við áttum von á. 12 mánaða verðbólga mældist 9,4% sem var örlítil hækkun frá fyrri mánuði þegar hún var 9,3% en mun lægra en þegar hún náði hæsta gildi sínu í 9,9% í júlí. Það sem helst skýrði spáskekkjuna í október var að matvöruverð hækkaði um 1,6% milli mánaða. Það var mesta hækkun á matvöru síðan í maí 2020, en spá okkar hljóðaði upp á 0,4% hækkun. Skýringuna var helst að finna í mikilli hækkun á kjöti sem hækkaði um 4,8% milli mánaða. Samkvæmt frétt Hagstofunnar skýrðist sú hækkun að mestu leyti af lambakjöti sem hækkaði um 16,7% milli mánaða.

Gengisveiking krónunnar, meiri hækkun á fasteignaverði og hækkandi húsnæðislánavextir

Forsendur verðbólguspár okkar fram á við hafa breyst töluvert frá því síðast. Það helgast helst af gengisþróun krónunnar. Íbúðaverð hækkaði meira nú í október en við væntum auk þess sem húsnæðislánavextir hafa hækkað. Saman valda þessir þættir meiri hækkun en ella á reiknaðri húsaleigu.

Við spáum því að vísitalan muni hækka um 0,27% milli október og nóvember og gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga aftur niður í 9,3%. Það sem helst hefur áhrif á verðbólguspána að þessu sinni er reiknuð húsaleigu. Við teljum að hún hækki um 0,89% og verða áhrif þess 0,18% á vísitöluna eða ríflega helmingurinn af hækkun hennar. Að megninu til skýrist sú hækkun af fasteignaverðshækkun en vaxtaliðurinn hefur þó einnig töluverð áhrif. Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður hækki um 0,77% og að áhrif þess verði 0,05%. Verðmæling okkar bendir til þess að dæluverð á eldsneyti hafi hækkað um 0,9% milli mánaða og að áhrif þess séu 0,03%. Við teljum að flugfargjöld til útlanda muni lækka um 9,2% sem er í samræmi við árstíðarsveiflu og að áhrif þess á vísitölu neysluverðs verði neikvæð um 0,16%.

Spá um undirliði VNV og áhrif þeirra á verðlag

       
  Vægi Breyting Áhrif
Matur og drykkjarvörur 15,1% 0,36% 0,05%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,03% 0,00%
Föt og skór 3,5% -0,06% 0,00%
Húsnæði, hiti og rafmagn 10,3% 0,15% 0,02%
Reiknuð húsaleiga 19,9% 0,89% 0,18%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,5% 0,77% 0,05%
Heilsa 3,7% 0,12% 0,00%
Ferðir og flutningar 3,9% 0,33% 0,01%
Kaup ökutækja 5,9% 0,10% 0,01%
Bensín og olíur 3,8% 0,90% 0,03%
Flugfargjöld til útlanda 1,7% -9,22% -0,16%
Póstur og sími 1,6% 0,50% 0,01%
Tómstundir og menning 9,2% 0,24% 0,02%
Menntun 0,7% 0,00% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 4,9% 0,31% 0,02%
Aðrar vörur og þjónusta 7,0% 0,37% 0,03%
Samtals     0,27%

Gengi krónunnar hefur veikst hratt á stuttum tíma. Evran var 143 krónur í upphafi mánaðarins en fór yfir 150 evrur þann 14. nóvember en hefur styrkst ögn síðan þá. Þetta er mjög hröð veiking á stuttum tíma en veikinguna má að mestu leyti rekja til aukins vöruskiptahalla á síðustu mánuðum. Hann skýrist svo aftur bæði af auknum vöruinnflutningi og minni vöruútflutningi. Forsendur okkar um gengisþróun krónunnar á næstu mánuðum eru að krónan muni leita til styrkingar en að sú styrking verði hæg og að gengið verði umtalsvert veikara á næstu mánuðum en við gerðum ráð fyrir þegar við birtum verðbólguspá okkar fyrir október.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem birtist á þriðjudaginn var hærri en við bjuggumst við. Vísitalan hækkaði um 0,6% milli mánaða sem er ívið minni hækkun en í september en meiri en í ágúst þegar hún lækkaði milli mánaða. Hækkunin nú skýrist af hækkun á fjölbýli en sérbýli lækkaði í verði milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli var 0,93% eftir lækkun bæði í ágúst og september. Þetta er þó engu að síður mun minni hækkun en var í sumar. Skoðun okkar á því að fasteignamarkaðurinn hafi kólnað verulega frá því í sumar hefur ekkert breyst og við búumst áfram við fremur litlum hækkunum á fasteignamarkaði á næstu mánuðum.

Húsnæðislánavextir hafa farið hækkandi samfara hækkun almenns vaxtastigs í landinu á síðustu mánuðum. Verðtryggðir vextir, sem eru þeir vextir sem Hagstofan notar til að reikna út vaxtaliðinn í reiknaðri húsaleigu, hafa því hækkað og hefur það þau áhrif að hækka þann vaxtalið og þar með auka verðbólgu. Þessar hækkanir vaxta á verðtryggðum kjörum koma inn með ákveðinni tímatöf og gerum við ráð fyrir að þær hækkanir sem þegar hafa orðið á verðtryggðum vöxtum eigi eftir að sjást greinilega í reiknaðri húsaleigu á næstu mánuðum. Við spáum því að reiknuð húsaleiga eigi eftir að hækka um 0,89% nú í nóvember. Af því er hækkun á húsnæðisverði 0,65% og hækkun á vaxtalið 0,24% sem er svipað og var í október.

Verðbólga verður umtalsvert hærri á næstu mánuðum en við spáðum í október

Veiking krónunnar mun hafa í för með sér að verðbólga verður umtalsvert meiri í nóvember og næstu mánuði en við spáðum í október. Álit okkar á meginframvindunni hefur þó ekki breyst. Við spáum þannig áfram hjaðnandi verðbólgu á næstu mánuðum. Við spáum 9,3% verðbólgu í nóvember en spáðum áður 8,8% verðbólgu. Verðbólgan mun hækka tímabundið upp í 9,5% í desember en lækka svo niður í 8,8% í janúar og fara niður í 8,4% í febrúar. Spá okkar frá því í október gerði ráð fyrir að verðbólga færi niður í 8,6% í desember og yrði komin niður í 7,1% í febrúar. Verðbólga verður því 1,2 prósentustigum hærri í febrúar en við spáðum í október.

Líkt og oft áður er gengisþróun krónunnar einn meginóvissuþátturinn í spánni. Sem fyrr segir gerum við samt ráð fyrir því að krónan muni leita til styrkingar til lengri tíma litið og skýrist það af því að við teljum að strax á næsta ári verði afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum. Til skamms tíma kann krónan þó að sveiflast og jafnvel veikjast frekar, en Seðlabankinn hefur gripið inn í á gjaldeyrismarkaði til þess að draga úr hraða veikingarinnar. Styrkist krónan hraðar en við væntum er ljóst að það mun að öðru óbreyttu leiða til hraðari hjöðnun verðbólgunnar.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
1. okt. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. október 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Byggingakrani og fjölbýlishús
30. sept. 2024
Vikubyrjun 30. september 2024
Verðbólga í september var nokkuð undir væntingum og lækkaði úr 6,0% niður í 5,4%. Þrátt fyrir það teljum við að peningastefnunefnd vilji sýna varkárni þegar hún hittist í byrjun vikunnar og haldi vöxtum óbreyttum á miðvikudaginn.
Bakarí
27. sept. 2024
Verðbólga undir væntingum annan mánuðinn í röð - lækkar í 5,4%
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,24% á milli mánaða í september, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 6,0% í 5,4%, eða um 0,6 prósentustig. Verðbólga hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2021.
27. sept. 2024
Spáum varkárni í peningastefnu og óbreyttum vöxtum
Ýmis merki eru um nokkuð kröftuga eftirspurn í hagkerfinu þótt verðbólga sé á niðurleið og landsframleiðsla hafi dregist saman það sem af er ári. Kortavelta eykst statt og stöðugt á milli ára, íbúðaverð er á hraðri uppleið, velta á íbúðamarkaði er meiri en í fyrra og atvinnuleysi hefur ekki aukist að ráði. Við teljum að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum áfram óbreyttum í 9,25% í næstu viku, sjöunda skiptið í röð.
Þjóðvegur
23. sept. 2024
Vikubyrjun 23. september 2024
Í vikunni birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fjármálastöðugleikaskýrslu. Þá gefur Hagstofan út verðbólgumælingu fyrir septembermánuð á föstudag. Í síðustu viku gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs sem hækkaði talsvert á milli mánaða og vísitölu leiguverðs sem lækkaði á milli mánaða. Kortaveltugögn sem Seðlabankinn birti í síðustu viku benda til þess að þó nokkur kraftur sé í innlendri eftirspurn eftir vörum og þjónustu.
Alþingishús
16. sept. 2024
Vikubyrjun 16. september 2024
Í vikunni birtist meðal annars vísitala íbúðaverðs, vísitala leiguverðs og tölur um veltu greiðslukorta í ágúst. Í síðustu viku birtust tölur um fjölda ferðamanna sem hingað komu í ágúst, en þeir voru svipað margir og í ágúst í fyrra. Atvinnuleysi jókst lítillega á milli mánaða í ágúst. Fjárlög fyrir 2025 voru kynnt.
12. sept. 2024
Spáum að verðbólga lækki í 5,7% í september
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,08% á milli mánaða í september og að verðbólga lækki úr 6,0% niður í 5,7%. Við eigum von á áframhaldandi lækkun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,9% í lok árs.
9. sept. 2024
Vikubyrjun 9. september 2024
Í þessari viku ber hæst útgáfa á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi á morgun. Í síðustu viku birtist fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi, ólíkt því sem var síðustu þrjá fundi þar áður þar sem einn nefndarmaður vildi lækka vexti um 0,25 prósentustig.
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Lyftari í vöruhúsi
5. sept. 2024
Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Halli mældist á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs, ólíkt öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar lítils háttar afgangur mældist. Það var afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins versnaði lítillega á fjórðungnum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur