Verðbólga gengur hægar niður á næstunni vegna veikari krónu
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í október en við höfðum í uppfærðri spá okkar spáð 0,44% hækkun. Þetta var því meiri hækkun en við áttum von á. 12 mánaða verðbólga mældist 9,4% sem var örlítil hækkun frá fyrri mánuði þegar hún var 9,3% en mun lægra en þegar hún náði hæsta gildi sínu í 9,9% í júlí. Það sem helst skýrði spáskekkjuna í október var að matvöruverð hækkaði um 1,6% milli mánaða. Það var mesta hækkun á matvöru síðan í maí 2020, en spá okkar hljóðaði upp á 0,4% hækkun. Skýringuna var helst að finna í mikilli hækkun á kjöti sem hækkaði um 4,8% milli mánaða. Samkvæmt frétt Hagstofunnar skýrðist sú hækkun að mestu leyti af lambakjöti sem hækkaði um 16,7% milli mánaða.
Gengisveiking krónunnar, meiri hækkun á fasteignaverði og hækkandi húsnæðislánavextir
Forsendur verðbólguspár okkar fram á við hafa breyst töluvert frá því síðast. Það helgast helst af gengisþróun krónunnar. Íbúðaverð hækkaði meira nú í október en við væntum auk þess sem húsnæðislánavextir hafa hækkað. Saman valda þessir þættir meiri hækkun en ella á reiknaðri húsaleigu.
Við spáum því að vísitalan muni hækka um 0,27% milli október og nóvember og gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga aftur niður í 9,3%. Það sem helst hefur áhrif á verðbólguspána að þessu sinni er reiknuð húsaleigu. Við teljum að hún hækki um 0,89% og verða áhrif þess 0,18% á vísitöluna eða ríflega helmingurinn af hækkun hennar. Að megninu til skýrist sú hækkun af fasteignaverðshækkun en vaxtaliðurinn hefur þó einnig töluverð áhrif. Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður hækki um 0,77% og að áhrif þess verði 0,05%. Verðmæling okkar bendir til þess að dæluverð á eldsneyti hafi hækkað um 0,9% milli mánaða og að áhrif þess séu 0,03%. Við teljum að flugfargjöld til útlanda muni lækka um 9,2% sem er í samræmi við árstíðarsveiflu og að áhrif þess á vísitölu neysluverðs verði neikvæð um 0,16%.
Spá um undirliði VNV og áhrif þeirra á verðlag
Vægi | Breyting | Áhrif | |
Matur og drykkjarvörur | 15,1% | 0,36% | 0,05% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,03% | 0,00% |
Föt og skór | 3,5% | -0,06% | 0,00% |
Húsnæði, hiti og rafmagn | 10,3% | 0,15% | 0,02% |
Reiknuð húsaleiga | 19,9% | 0,89% | 0,18% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,5% | 0,77% | 0,05% |
Heilsa | 3,7% | 0,12% | 0,00% |
Ferðir og flutningar | 3,9% | 0,33% | 0,01% |
Kaup ökutækja | 5,9% | 0,10% | 0,01% |
Bensín og olíur | 3,8% | 0,90% | 0,03% |
Flugfargjöld til útlanda | 1,7% | -9,22% | -0,16% |
Póstur og sími | 1,6% | 0,50% | 0,01% |
Tómstundir og menning | 9,2% | 0,24% | 0,02% |
Menntun | 0,7% | 0,00% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 4,9% | 0,31% | 0,02% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,0% | 0,37% | 0,03% |
Samtals | 0,27% |
Gengi krónunnar hefur veikst hratt á stuttum tíma. Evran var 143 krónur í upphafi mánaðarins en fór yfir 150 evrur þann 14. nóvember en hefur styrkst ögn síðan þá. Þetta er mjög hröð veiking á stuttum tíma en veikinguna má að mestu leyti rekja til aukins vöruskiptahalla á síðustu mánuðum. Hann skýrist svo aftur bæði af auknum vöruinnflutningi og minni vöruútflutningi. Forsendur okkar um gengisþróun krónunnar á næstu mánuðum eru að krónan muni leita til styrkingar en að sú styrking verði hæg og að gengið verði umtalsvert veikara á næstu mánuðum en við gerðum ráð fyrir þegar við birtum verðbólguspá okkar fyrir október.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem birtist á þriðjudaginn var hærri en við bjuggumst við. Vísitalan hækkaði um 0,6% milli mánaða sem er ívið minni hækkun en í september en meiri en í ágúst þegar hún lækkaði milli mánaða. Hækkunin nú skýrist af hækkun á fjölbýli en sérbýli lækkaði í verði milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli var 0,93% eftir lækkun bæði í ágúst og september. Þetta er þó engu að síður mun minni hækkun en var í sumar. Skoðun okkar á því að fasteignamarkaðurinn hafi kólnað verulega frá því í sumar hefur ekkert breyst og við búumst áfram við fremur litlum hækkunum á fasteignamarkaði á næstu mánuðum.
Húsnæðislánavextir hafa farið hækkandi samfara hækkun almenns vaxtastigs í landinu á síðustu mánuðum. Verðtryggðir vextir, sem eru þeir vextir sem Hagstofan notar til að reikna út vaxtaliðinn í reiknaðri húsaleigu, hafa því hækkað og hefur það þau áhrif að hækka þann vaxtalið og þar með auka verðbólgu. Þessar hækkanir vaxta á verðtryggðum kjörum koma inn með ákveðinni tímatöf og gerum við ráð fyrir að þær hækkanir sem þegar hafa orðið á verðtryggðum vöxtum eigi eftir að sjást greinilega í reiknaðri húsaleigu á næstu mánuðum. Við spáum því að reiknuð húsaleiga eigi eftir að hækka um 0,89% nú í nóvember. Af því er hækkun á húsnæðisverði 0,65% og hækkun á vaxtalið 0,24% sem er svipað og var í október.
Verðbólga verður umtalsvert hærri á næstu mánuðum en við spáðum í október
Veiking krónunnar mun hafa í för með sér að verðbólga verður umtalsvert meiri í nóvember og næstu mánuði en við spáðum í október. Álit okkar á meginframvindunni hefur þó ekki breyst. Við spáum þannig áfram hjaðnandi verðbólgu á næstu mánuðum. Við spáum 9,3% verðbólgu í nóvember en spáðum áður 8,8% verðbólgu. Verðbólgan mun hækka tímabundið upp í 9,5% í desember en lækka svo niður í 8,8% í janúar og fara niður í 8,4% í febrúar. Spá okkar frá því í október gerði ráð fyrir að verðbólga færi niður í 8,6% í desember og yrði komin niður í 7,1% í febrúar. Verðbólga verður því 1,2 prósentustigum hærri í febrúar en við spáðum í október.
Líkt og oft áður er gengisþróun krónunnar einn meginóvissuþátturinn í spánni. Sem fyrr segir gerum við samt ráð fyrir því að krónan muni leita til styrkingar til lengri tíma litið og skýrist það af því að við teljum að strax á næsta ári verði afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum. Til skamms tíma kann krónan þó að sveiflast og jafnvel veikjast frekar, en Seðlabankinn hefur gripið inn í á gjaldeyrismarkaði til þess að draga úr hraða veikingarinnar. Styrkist krónan hraðar en við væntum er ljóst að það mun að öðru óbreyttu leiða til hraðari hjöðnun verðbólgunnar.