Verð­bólga geng­ur hæg­ar nið­ur á næst­unni vegna veik­ari krónu

Krónan hefur veikst verulega hratt í nóvembermánuði en evran fór yfir 150 krónur sl. mánudag sem var lægsta gildi hennar í 12 mánuði. Þó að krónan hafi aðeins komið til baka á síðustu dögum er hún mun veikari en þegar við birtum síðustu verðbólguspá. Við spáum því enn að verðbólga muni áfram hjaðna á næstu mánuðum en gengisveikingin mun hliðra þeirri þróun fram í tímann.
Epli
17. nóvember 2022 - Hagfræðideild

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,67% í október en við höfðum í uppfærðri spá okkar spáð 0,44% hækkun. Þetta var því meiri hækkun en við áttum von á. 12 mánaða verðbólga mældist 9,4% sem var örlítil hækkun frá fyrri mánuði þegar hún var 9,3% en mun lægra en þegar hún náði hæsta gildi sínu í 9,9% í júlí. Það sem helst skýrði spáskekkjuna í október var að matvöruverð hækkaði um 1,6% milli mánaða. Það var mesta hækkun á matvöru síðan í maí 2020, en spá okkar hljóðaði upp á 0,4% hækkun. Skýringuna var helst að finna í mikilli hækkun á kjöti sem hækkaði um 4,8% milli mánaða. Samkvæmt frétt Hagstofunnar skýrðist sú hækkun að mestu leyti af lambakjöti sem hækkaði um 16,7% milli mánaða.

Gengisveiking krónunnar, meiri hækkun á fasteignaverði og hækkandi húsnæðislánavextir

Forsendur verðbólguspár okkar fram á við hafa breyst töluvert frá því síðast. Það helgast helst af gengisþróun krónunnar. Íbúðaverð hækkaði meira nú í október en við væntum auk þess sem húsnæðislánavextir hafa hækkað. Saman valda þessir þættir meiri hækkun en ella á reiknaðri húsaleigu.

Við spáum því að vísitalan muni hækka um 0,27% milli október og nóvember og gangi spáin eftir fer 12 mánaða verðbólga aftur niður í 9,3%. Það sem helst hefur áhrif á verðbólguspána að þessu sinni er reiknuð húsaleigu. Við teljum að hún hækki um 0,89% og verða áhrif þess 0,18% á vísitöluna eða ríflega helmingurinn af hækkun hennar. Að megninu til skýrist sú hækkun af fasteignaverðshækkun en vaxtaliðurinn hefur þó einnig töluverð áhrif. Við spáum því að húsgögn og heimilisbúnaður hækki um 0,77% og að áhrif þess verði 0,05%. Verðmæling okkar bendir til þess að dæluverð á eldsneyti hafi hækkað um 0,9% milli mánaða og að áhrif þess séu 0,03%. Við teljum að flugfargjöld til útlanda muni lækka um 9,2% sem er í samræmi við árstíðarsveiflu og að áhrif þess á vísitölu neysluverðs verði neikvæð um 0,16%.

Spá um undirliði VNV og áhrif þeirra á verðlag

       
  Vægi Breyting Áhrif
Matur og drykkjarvörur 15,1% 0,36% 0,05%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,03% 0,00%
Föt og skór 3,5% -0,06% 0,00%
Húsnæði, hiti og rafmagn 10,3% 0,15% 0,02%
Reiknuð húsaleiga 19,9% 0,89% 0,18%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,5% 0,77% 0,05%
Heilsa 3,7% 0,12% 0,00%
Ferðir og flutningar 3,9% 0,33% 0,01%
Kaup ökutækja 5,9% 0,10% 0,01%
Bensín og olíur 3,8% 0,90% 0,03%
Flugfargjöld til útlanda 1,7% -9,22% -0,16%
Póstur og sími 1,6% 0,50% 0,01%
Tómstundir og menning 9,2% 0,24% 0,02%
Menntun 0,7% 0,00% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 4,9% 0,31% 0,02%
Aðrar vörur og þjónusta 7,0% 0,37% 0,03%
Samtals     0,27%

Gengi krónunnar hefur veikst hratt á stuttum tíma. Evran var 143 krónur í upphafi mánaðarins en fór yfir 150 evrur þann 14. nóvember en hefur styrkst ögn síðan þá. Þetta er mjög hröð veiking á stuttum tíma en veikinguna má að mestu leyti rekja til aukins vöruskiptahalla á síðustu mánuðum. Hann skýrist svo aftur bæði af auknum vöruinnflutningi og minni vöruútflutningi. Forsendur okkar um gengisþróun krónunnar á næstu mánuðum eru að krónan muni leita til styrkingar en að sú styrking verði hæg og að gengið verði umtalsvert veikara á næstu mánuðum en við gerðum ráð fyrir þegar við birtum verðbólguspá okkar fyrir október.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem birtist á þriðjudaginn var hærri en við bjuggumst við. Vísitalan hækkaði um 0,6% milli mánaða sem er ívið minni hækkun en í september en meiri en í ágúst þegar hún lækkaði milli mánaða. Hækkunin nú skýrist af hækkun á fjölbýli en sérbýli lækkaði í verði milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli var 0,93% eftir lækkun bæði í ágúst og september. Þetta er þó engu að síður mun minni hækkun en var í sumar. Skoðun okkar á því að fasteignamarkaðurinn hafi kólnað verulega frá því í sumar hefur ekkert breyst og við búumst áfram við fremur litlum hækkunum á fasteignamarkaði á næstu mánuðum.

Húsnæðislánavextir hafa farið hækkandi samfara hækkun almenns vaxtastigs í landinu á síðustu mánuðum. Verðtryggðir vextir, sem eru þeir vextir sem Hagstofan notar til að reikna út vaxtaliðinn í reiknaðri húsaleigu, hafa því hækkað og hefur það þau áhrif að hækka þann vaxtalið og þar með auka verðbólgu. Þessar hækkanir vaxta á verðtryggðum kjörum koma inn með ákveðinni tímatöf og gerum við ráð fyrir að þær hækkanir sem þegar hafa orðið á verðtryggðum vöxtum eigi eftir að sjást greinilega í reiknaðri húsaleigu á næstu mánuðum. Við spáum því að reiknuð húsaleiga eigi eftir að hækka um 0,89% nú í nóvember. Af því er hækkun á húsnæðisverði 0,65% og hækkun á vaxtalið 0,24% sem er svipað og var í október.

Verðbólga verður umtalsvert hærri á næstu mánuðum en við spáðum í október

Veiking krónunnar mun hafa í för með sér að verðbólga verður umtalsvert meiri í nóvember og næstu mánuði en við spáðum í október. Álit okkar á meginframvindunni hefur þó ekki breyst. Við spáum þannig áfram hjaðnandi verðbólgu á næstu mánuðum. Við spáum 9,3% verðbólgu í nóvember en spáðum áður 8,8% verðbólgu. Verðbólgan mun hækka tímabundið upp í 9,5% í desember en lækka svo niður í 8,8% í janúar og fara niður í 8,4% í febrúar. Spá okkar frá því í október gerði ráð fyrir að verðbólga færi niður í 8,6% í desember og yrði komin niður í 7,1% í febrúar. Verðbólga verður því 1,2 prósentustigum hærri í febrúar en við spáðum í október.

Líkt og oft áður er gengisþróun krónunnar einn meginóvissuþátturinn í spánni. Sem fyrr segir gerum við samt ráð fyrir því að krónan muni leita til styrkingar til lengri tíma litið og skýrist það af því að við teljum að strax á næsta ári verði afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum. Til skamms tíma kann krónan þó að sveiflast og jafnvel veikjast frekar, en Seðlabankinn hefur gripið inn í á gjaldeyrismarkaði til þess að draga úr hraða veikingarinnar. Styrkist krónan hraðar en við væntum er ljóst að það mun að öðru óbreyttu leiða til hraðari hjöðnun verðbólgunnar.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Ferðamenn við Strokk
30. nóv. 2022

Ferðaþjónustan áfram megindrifkraftur kröftugs hagvaxtar

Hagvöxtur mældist 7,3% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands. Þetta er töluvert kröftugur hagvöxtur og 0,6 prósentustiga meiri vöxtur en að meðaltali eftir að hagkerfið tók að vaxa á ný eftir faraldur. Vöxturinn var nú, líkt og áður keyrður áfram af miklum vexti í ferðaþjónustu.
29. nóv. 2022

Verðbólgan í nóvember í samræmi við væntingar – óbreyttar horfur næstu mánuði

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,29% milli mánaða í nóvember. Ársverðbólgan dróst saman úr 9,4% í 9,3% og er nú sú sama og í september. Alls hefur verðbólgan minnkað um 0,6 prósentustig frá því hún náði hámarki í júlí.
Seðlabanki Íslands
28. nóv. 2022

Vikubyrjun 28. nóvember 2022

Það er ekki bara hér á landi sem Seðlabankinn hefur hækkað vexti til að reyna að slá á verðbólguna. Seðlabankar flest allra þróaðra ríkja, að Japan undanskildu, hafa hækkað vexti frá upphafi árs 2021.
Siglufjörður
23. nóv. 2022

Mjög mismunandi launahækkanir hópa á samningstímabilinu

Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,9%. Launahækkanir halda ekki lengur í við verðbólguþróun og er kaupmáttur því á niðurleið.
Ferðamenn við Strokk
21. nóv. 2022

Vikubyrjun 21. nóvember 2022

Undanfarin ár, eða allt fram að heimsfaraldrinum, hefur verið viðvarandi halli á vöruskiptum við útlönd en að sama skapi myndarlegur afgangur á þjónustujöfnuði. Skýrist þetta meðal annars af því hversu stóran sess ferðaþjónustan skipar í íslenska hagkerfinu. Nýjustu gögn um bæði vöru- og þjónustujöfnuð eiga við um ágústmánuð 2022 og sé horft 12 mánuði aftur í tímann sést að á því tímabili ríkti nokkurn veginn jafnvægi milli vöru- og þjónustujafnaðar.
Seðlabanki Íslands
18. nóv. 2022

Spáum óbreyttum vöxtum í næstu viku

Sjötti og síðasti fundur Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í ár er í næstu viku og verður ákvörðun hennar kynnt á miðvikudaginn. Nokkuð öruggt er að nefndin muni ræða að halda vöxtum óbreyttum eða hækka um 0,25-0,5 prósentustig. Færa má góð rök fyrir óbreyttu eða hækkun, en við teljum líklegast að nefndin haldi vöxtum óbreyttum.
16. nóv. 2022

Enn mælist kraftur í íbúðamarkaðnum

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% milli mánaða í október. Spár hafa gert ráð fyrir að nokkurs konar frost sé fram undan og verð hækki lítið milli mánaða. Hækkunin nú kemur því nokkuð á óvart, en gæti þó gengið til baka á næstu mánuðum.
14. nóv. 2022

Vikubyrjun 14. nóvember 2022

Heildarlaun hækkuðu að meðaltali um 7,6% milli 2. ársfjórðungs 2021 og 2. ársfjórðungs í ár. Eins og oft vill verða var þróunin nokkuð ólík eftir því hvort um almenna eða opinbera markaðinn er að ræða og eins eftir atvinnugreinum.
Vindmyllur og raflínur
8. nóv. 2022

Loftslagsráðstefnan - blendnar hugmyndir um árangur

Um þessar mundir sitja leiðtogar heimsins saman í Egyptalandi og ræða saman um loftslagsmál. Á sama tíma í fyrra horfðu allir til Glasgow og COP26 fundarins.
Icelandair Hótel Reykjavík Natura
7. nóv. 2022

Vikubyrjun 7. nóvember 2022

Heildarfjöldi gistinótta á öllum tegundum skráðra gististaða hér á landi voru 7,1 milljón á fyrstu 9 mánuðum ársins, sem er mesti fjöldi sem mælst hefur frá upphafi. Þetta eru 155 þúsund fleiri gistinætur en á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 sem til þessa var metárið.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur