Vikan framundan
- Á miðvikudaginn birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs. Í þarsíðustu viku spáðum við því að vísitalan myndi hækka um 1,3% milli maí og júní. Síðan hafa borist upplýsingar um miklar hækkanir á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu og teljum við nú líkur á að verðlag hækki ögn meira milli mánaða sökum þess, eða um 1,4%, og að 12 mánaða verðbólga mælist 8,8% í júní.
- Á fimmtudaginn birtir Seðlabankinn ársfjórðungslega hagvísa og stöðu fjármálakerfisins. Auk þess birta Hagar ársfjórðungsuppgjör.
Mynd vikunnar
Ef þróun á hreinum nýjum íbúðalánum innlánastofnana, þ.e. útlánum að frádregnum upp- og umframgreiðslum, er skoðuð sést að árið 2020 og framan af ári 2021, á meðan vextir voru hvað lægstir, lá straumurinn yfir í óverðtryggð fasteignalán með breytilegum vöxtum. Eftir að Seðlabankinn hóf vaxtahækkanir um mitt síðasta ár hefur hreyfing yfir í óverðtryggð lán með föstum vöxtum aukist. Samkvæmt nýbirtum gögnum Seðlabanka Íslands námu hrein ný íbúðalán innlánastofnana alls 17 mö. kr. í maímánuði. Hrein óverðtryggð lán voru um 16 ma. kr. og hrein ný lántaka á verðtryggðum lánum nam um 1 ma. kr. Um 67% útlána innlánastofnana með veði í íbúð eru núna óverðtryggt, en var 26% í byrjun árs 2018.
Efnahagsmál
- Atvinnuleysi í maí mældist 3,9% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar en 3,5% samkvæmt Hagstofunni.
- Ekkert lát virðist á hækkunum íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu en það hækkaði um 3% á milli mánaða, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Síðastliðna 3 mánuði hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 9,1%, síðastliðna 6 mánuði hefur hún hækkað um 15,7% og síðastliðna 12 mánuði um 24,0%.
- Þjóðskrá birti einnig vísitölu leiguverðs sem hækkaði um 1,4% milli mánaða.
- Peningastefnunefnd hækkaði stýrivexti bankans um 1 prósentustig í síðustu viku og eru meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, 4,75% eftir ákvörðunina. Nefndin hefur þar með hækkað vexti um samtals 4 prósentustig síðan hún hóf vaxtahækkanir í maí í fyrra.
- Hagstofan gaf út mánaðarlegar tölur um vinnumarkaðinn. Launavísitalan hækkaði um 0,4% í maí, á meðan launasumma í ferðaþjónustu er komin á mikið skrið.
Fjármálamarkaðir
- Tvíhliða skráningu líftæknifélagsins Alvotech á hlutabréfamarkað á Íslandi og Bandaríkjunum lauk í síðustu viku.
- Reykjavíkurborg og Alma íbúðafélag luku skuldabréfaútboði.