Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Kóln­andi kerfi en kraft­mik­il neysla

Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári og 1,7% á því næsta, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans. Hagvöxtur verður ekki síst drifinn áfram af neyslu innanlands en á sama tíma er útlit fyrir smám saman minnkandi spennu í atvinnulífinu. Verðbólga reynist áfram þrálát næstu misseri og ekki eru horfur á að hún komist niður í markmið Seðlabankans á spátímabilinu. Því má áfram búast við háum raunstýrivöxtum.
Hagspá október 2025
22. október 2025

Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum, samkvæmt nýrri hagspá Greiningardeildar Landsbankans. Landsframleiðsla dróst saman um 1,0% í fyrra, ekki síst vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta, en á þessu ári eru horfur á 1,5% hagvexti. Svo virðist sem kröftug einkaneysla og aukinn útflutningur hafi glætt hagkerfið lífi á yfirstandandi ári, en þó halda ýmsir kraftar aftur af hagvexti og kæla kerfið áfram á næstu árum.

Búast má við að verðbólga verði áfram til vandræða og horfur eru á að hún mælist enn 4,0% að meðaltali á næsta ári. Við sjáum ekki fram á að verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) verði náð á spátímanum og gerum ráð fyrir raunstýrivöxtum í kringum í 2,6% í lok spátímans.

Greina má skýr merki um hægari umsvif í efnahagslífinu um þessar mundir og smám saman minnkandi spennu á vinnumarkaði. Fyrirtækin virðast hafa færri áform um fjárfestingar og ráðningar og dregið hefur úr innflutningi ýmiss konar fjárfestingarvara. Við búumst við að viðvarandi hátt vaxtastig komi í auknum mæli til með að halda aftur af fjárfestingu á næstu misserum. Því má búast við að atvinnuleysi haldi áfram að aukast lítillega næstu tvö árin.

Útflutningshorfur eru ágætar. Áfram má búast við að greinar á borð við hugverkaiðnað og fiskeldi færi hagkerfinu útflutningsvöxt á næstu árum. Að auki má ætla að stórfelld fjárfesting í gagnaverum skili sér með tímanum í auknum þjónustuútflutningi. Þá eru horfur á að álútflutningur hafi náð sér á strik eftir lognmollu í fyrra þegar raforkuskerðingar héldu aftur af framleiðslunni. Þó er ljóst að ýmsar útflutningsgreinar gætu átt undir högg að sækja á næstu misserum: Sterkt gengi krónunnar þyngir róðurinn, sem og óvissa í alþjóðaviðskiptum og auk þess eru horfur á takmörkuðum aflaheimildum næsta árið. Gjaldþrot Play bætir ekki úr skák og gæti fækkað ferðamönnum lítillega til skamms tíma og aukið atvinnuleysi. Við teljum að umsvif í ferðaþjónustu standi nokkurn veginn í stað á næstu árum.

Á móti auknum slaka víðs vegar í efnahagslífinu vegur sterk staða heimila landsins. Þótt hægi á launahækkunum má telja horfur á að kaupmáttur haldi áfram að aukast smám saman og þannig geti almenningur að jafnaði viðhaldið háu neyslustigi. Sterk innlánastaða heimila ýtir einnig undir neyslu og þrátt fyrir minnkandi spennu í atvinnulífinu sjáum við fram á aukna einkaneyslu öll ár spátímans, sem nær til ársins 2028. 

Helstu atriði hagspár

  • Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári, 1,7% á næsta ári, 2,2% árið 2027 og 2,4% árið 2028, gangi spáin eftir. Vöxturinn verður ekki síst borinn uppi af seiglu í neyslu en einnig lítillega auknum útflutningi.
  • Verðbólga hjaðnar löturhægt, samkvæmt spánni, enda verður henni viðhaldið af kröftugu neyslustigi, þótt háir raunvextir vegi á móti. Útlit er fyrir 4,1% meðalverðbólgu á þessu ári, 4,0% á næsta ári, 3,6% árið 2027 og 3,3% árið 2028.
  • Vextir verða lækkaðir hægt og rólega í takt við hæga hjöðnun verðbólgu. Við spáum 7,25% stýrivöxtum í lok næsta árs, 6,50% í lok árs 2027 og 5,75% í lok spátímans.
  • Einkaneysla eykst smám saman öll ár spátímans. Uppsafnaður sparnaður síðustu ára kyndir undir eftirspurn og aukinn kaupmáttur styður við neysluna. Einkaneysla eykst mest á yfirstandandi ári, um 3,0%. Svo má ætla að hátt raunvaxtastig og minnkandi launaskrið hægi á vextinum og einkaneysla aukist  um 2,3% á næsta ári og um 2,1% árið 2027.
  • Fjárfesting eykst flest ár spátímans en nettast að miklu leyti út með innflutningi á fjárfestingarvörum, ekki síst fjárfesting í atvinnuvegum á borð við gagnaver og landeldi.
    - Horfur eru á tiltölulega kraftlítilli íbúðafjárfestingu, 3,5% samdrætti á þessu ári og hóflegum vexti árin á eftir.
    - Búast má við að opinber fjárfesting aukist aðeins lítið á þessu ári en taki við sér á næsta ári og aukist þá um 8,5%, meðal annars vegna fjárfestinga í samgönguinnviðum og uppbyggingu nýs Landspítala.
    - Á þessu ári og því næsta verður atvinnuvegafjárfesting borin uppi af gagnaverafjárfestingu og einnig fjárfestingu í tengslum við landeldi. Lognmolla kemur til með að einkenna fjárfestingu í ýmsum öðrum greinum, þar til á seinni tveimur árum spátímans þegar atvinnuvegafjárfesting, svo sem í orkugeiranum, tekur við sér. Þrátt fyrir það má búast við samdrætti í heildaratvinnuvegafjárfestingu árið 2027, þegar gagnaversuppbyggingu lýkur.
  • Útflutningshorfur eru nokkuð stöðugar og við spáum hóflegum útflutningsvexti öll ár spátímans. Við búumst við að útflutningur álafurða aukist á næsta ári, útflutningur sjávarafurða dragist saman og ferðaþjónustan standi í stað. Áfram gerum við ráð fyrir að hugverkaiðnaður, á borð við framleiðslu lyfja og lækningavara, sem og landeldi, færi hagkerfinu útflutningsvöxt á næstu árum.
  • Ætla má að hægari gangur í atvinnulífinu speglist í síminnkandi spennu á vinnumarkaði. Við teljum horfur á að atvinnuleysi, sem telja má að verði 3,8% að meðaltali á þessu ári, haldi áfram að aukast lítillega og mælist 4,1% að meðaltali á næsta ári og svo 4,2% á seinni tveimur árum spátímans.
  • Aukinn slaki á vinnumarkaði hægir á launaskriði og samkvæmt spánni hækka laun þó nokkuð hægar en almennt síðustu ár. Eftir þó nokkrar launahækkanir á þessu ári, sem gætu slagað upp í 7,8% að meðaltali, spáum við 6,2% hækkun á næsta ári, 5,5% hækkun árið 2027 og 5,4% hækkun 2028.
  • Við teljum að áfram hægi á íbúðaverðshækkunum fram á mitt næsta ár og spáum 5,6% meðalhækkun á þessu ári og 4,1% hækkun á því næsta. Svo teljum við að smám saman lifni yfir íbúðamarkaðnum árin á eftir, en þó með hóflegum hækkunum: 5,0% árið 2027 og 6,0% árið 2028.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Greiðsla
20. okt. 2025
Vikubyrjun 20. október 2025
Kortavelta Íslendinga jókst um 7,6% að raunvirði á milli ára í september. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur kortavelta heimila verið um 5,2% meiri en á sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Í vikunni birtir Greiningardeild Landsbankans nýja hagspá til ársins 2028. HMS birtir vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.  
Flugvél
16. okt. 2025
Spáum 4,2% verðbólgu í október
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í október, úr 4,1% í 4,2%. Mest áhrif til hækkunar á vísitölunni hafa flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og matarkarfan. Gangi spáin eftir verður október níundi mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er á bilinu 3,8% til 4,2%. Við teljum að verðbólga verði áfram á þessu bili næstu mánuði.
Fjölskylda við matarborð
13. okt. 2025
Vikubyrjun 13. október 2025
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og við var búist. Þó mátti greina aukna bjartsýni í yfirlýsingu nefndarinnar. Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september og jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða. Brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 0,5% í september og utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 14%.
Play
6. okt. 2025
Vikubyrjun 6. október 2025
Fall Fly Play hf. var stærsta fréttin í síðustu viku. Um 400 manns misstu vinnuna og má búast við að atvinnuleysi aukist um um það bil 0,2 prósentustig þess vegna. Við búumst ekki við verulegum þjóðhagslegum áhrifum af falli Play. Peningastefnunefnd kemur saman á miðvikudaginn og við búumst við að stýrivöxtum verði áfram haldið í 7,50%.  
Seðlabanki Íslands
2. okt. 2025
Þrálát verðbólga kallar á óbreytta vexti
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga hefur haldist á þröngu bili í kringum 4% frá því í febrúar og horfur eru á nær óbreyttri verðbólgu á næstu mánuðum. Áfram má greina skýr merki um þenslu í hagkerfinu og nær óhugsandi að peningastefnunefnd telji tímabært að halda vaxtalækkunarferlinu áfram. 
1. okt. 2025
Mánaðamót 1. október 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íbúðahús
29. sept. 2025
Vikubyrjun 29. september 2025
Verðbólga mældist í takt við væntingar í september og fór úr 3,8% í 4,1%, samkvæmt vísitölu neysluverðs, sem Hagstofan birti í síðustu viku. Aukin verðbólga var fyrirséð og mælingin ber þess ekki merki að verðbólguþrýstingur í hagkerfinu hafi aukist. Kaupmáttur launa er 3,8% meiri en í ágúst í fyrra.
Litríkir bolir á fataslá
25. sept. 2025
Verðbólga eykst í takt við væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% á milli mánaða í september og verðbólga jókst úr 3,8% í 4,1%. Hækkunin skýrist að langmestu leyti af því að lækkunaráhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða duttu nú úr 12 mánaða taktinum. Fátt í septembermælingunni kom á óvart en við spáðum 0,07% hækkun á vísitölunni og 4,1% verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði áfram á þessu bili út árið og verði 4,0% í árslok.
Bílar
23. sept. 2025
Aukin neysla, aldrei jafnmargar utanlandsferðir og bílakaup færast í aukana
Greiðslukortavelta heimila heldur áfram að aukast samhliða aukinni einkaneyslu. Það sama má segja um utanlandsferðir Íslendinga en það sem af er ári hafa Íslendingar farið í rúmlega 20% fleiri utanlandsferðir en á sama tímabili í fyrra. Auk þess að fara meira til útlanda virðast landsmenn kaupa þó nokkuð fleiri bíla en í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru nýskráðir bílar um 28% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Íbúðahús
22. sept. 2025
Vikubyrjun 22. september 2025
Raunverð íbúða lækkaði á milli ára í ágúst, í fyrsta skipti frá því í byrjun árs 2024. Nafnverð íbúða hefur aðeins hækkað um 2,2% á einu ári og sífellt lengri tíma tekur að selja íbúðir. Leiguvísitalan hækkaði þó í ágúst og hækkandi leiguverð hefur með tímanum áhrif á verðbólgumælingar. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs næsta fimmtudag.