Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla

Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum, samkvæmt nýrri hagspá Greiningardeildar Landsbankans. Landsframleiðsla dróst saman um 1,0% í fyrra, ekki síst vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta, en á þessu ári eru horfur á 1,5% hagvexti. Svo virðist sem kröftug einkaneysla og aukinn útflutningur hafi glætt hagkerfið lífi á yfirstandandi ári, en þó halda ýmsir kraftar aftur af hagvexti og kæla kerfið áfram á næstu árum.
Búast má við að verðbólga verði áfram til vandræða og horfur eru á að hún mælist enn 4,0% að meðaltali á næsta ári. Við sjáum ekki fram á að verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) verði náð á spátímanum og gerum ráð fyrir raunstýrivöxtum í kringum í 2,6% í lok spátímans.
Greina má skýr merki um hægari umsvif í efnahagslífinu um þessar mundir og smám saman minnkandi spennu á vinnumarkaði. Fyrirtækin virðast hafa færri áform um fjárfestingar og ráðningar og dregið hefur úr innflutningi ýmiss konar fjárfestingarvara. Við búumst við að viðvarandi hátt vaxtastig komi í auknum mæli til með að halda aftur af fjárfestingu á næstu misserum. Því má búast við að atvinnuleysi haldi áfram að aukast lítillega næstu tvö árin.
Útflutningshorfur eru ágætar. Áfram má búast við að greinar á borð við hugverkaiðnað og fiskeldi færi hagkerfinu útflutningsvöxt á næstu árum. Að auki má ætla að stórfelld fjárfesting í gagnaverum skili sér með tímanum í auknum þjónustuútflutningi. Þá eru horfur á að álútflutningur hafi náð sér á strik eftir lognmollu í fyrra þegar raforkuskerðingar héldu aftur af framleiðslunni. Þó er ljóst að ýmsar útflutningsgreinar gætu átt undir högg að sækja á næstu misserum: Sterkt gengi krónunnar þyngir róðurinn, sem og óvissa í alþjóðaviðskiptum og auk þess eru horfur á takmörkuðum aflaheimildum næsta árið. Gjaldþrot Play bætir ekki úr skák og gæti fækkað ferðamönnum lítillega til skamms tíma og aukið atvinnuleysi. Við teljum að umsvif í ferðaþjónustu standi nokkurn veginn í stað á næstu árum.
Á móti auknum slaka víðs vegar í efnahagslífinu vegur sterk staða heimila landsins. Þótt hægi á launahækkunum má telja horfur á að kaupmáttur haldi áfram að aukast smám saman og þannig geti almenningur að jafnaði viðhaldið háu neyslustigi. Sterk innlánastaða heimila ýtir einnig undir neyslu og þrátt fyrir minnkandi spennu í atvinnulífinu sjáum við fram á aukna einkaneyslu öll ár spátímans, sem nær til ársins 2028.
Helstu atriði hagspár
- Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári, 1,7% á næsta ári, 2,2% árið 2027 og 2,4% árið 2028, gangi spáin eftir. Vöxturinn verður ekki síst borinn uppi af seiglu í neyslu en einnig lítillega auknum útflutningi.
- Verðbólga hjaðnar löturhægt, samkvæmt spánni, enda verður henni viðhaldið af kröftugu neyslustigi, þótt háir raunvextir vegi á móti. Útlit er fyrir 4,1% meðalverðbólgu á þessu ári, 4,0% á næsta ári, 3,6% árið 2027 og 3,3% árið 2028.
- Vextir verða lækkaðir hægt og rólega í takt við hæga hjöðnun verðbólgu. Við spáum 7,25% stýrivöxtum í lok næsta árs, 6,50% í lok árs 2027 og 5,75% í lok spátímans.
- Einkaneysla eykst smám saman öll ár spátímans. Uppsafnaður sparnaður síðustu ára kyndir undir eftirspurn og aukinn kaupmáttur styður við neysluna. Einkaneysla eykst mest á yfirstandandi ári, um 3,0%. Svo má ætla að hátt raunvaxtastig og minnkandi launaskrið hægi á vextinum og einkaneysla aukist um 2,3% á næsta ári og um 2,1% árið 2027.
- Fjárfesting eykst flest ár spátímans en nettast að miklu leyti út með innflutningi á fjárfestingarvörum, ekki síst fjárfesting í atvinnuvegum á borð við gagnaver og landeldi.
- Horfur eru á tiltölulega kraftlítilli íbúðafjárfestingu, 3,5% samdrætti á þessu ári og hóflegum vexti árin á eftir.
- Búast má við að opinber fjárfesting aukist aðeins lítið á þessu ári en taki við sér á næsta ári og aukist þá um 8,5%, meðal annars vegna fjárfestinga í samgönguinnviðum og uppbyggingu nýs Landspítala.
- Á þessu ári og því næsta verður atvinnuvegafjárfesting borin uppi af gagnaverafjárfestingu og einnig fjárfestingu í tengslum við landeldi. Lognmolla kemur til með að einkenna fjárfestingu í ýmsum öðrum greinum, þar til á seinni tveimur árum spátímans þegar atvinnuvegafjárfesting, svo sem í orkugeiranum, tekur við sér. Þrátt fyrir það má búast við samdrætti í heildaratvinnuvegafjárfestingu árið 2027, þegar gagnaversuppbyggingu lýkur. - Útflutningshorfur eru nokkuð stöðugar og við spáum hóflegum útflutningsvexti öll ár spátímans. Við búumst við að útflutningur álafurða aukist á næsta ári, útflutningur sjávarafurða dragist saman og ferðaþjónustan standi í stað. Áfram gerum við ráð fyrir að hugverkaiðnaður, á borð við framleiðslu lyfja og lækningavara, sem og landeldi, færi hagkerfinu útflutningsvöxt á næstu árum.
- Ætla má að hægari gangur í atvinnulífinu speglist í síminnkandi spennu á vinnumarkaði. Við teljum horfur á að atvinnuleysi, sem telja má að verði 3,8% að meðaltali á þessu ári, haldi áfram að aukast lítillega og mælist 4,1% að meðaltali á næsta ári og svo 4,2% á seinni tveimur árum spátímans.
- Aukinn slaki á vinnumarkaði hægir á launaskriði og samkvæmt spánni hækka laun þó nokkuð hægar en almennt síðustu ár. Eftir þó nokkrar launahækkanir á þessu ári, sem gætu slagað upp í 7,8% að meðaltali, spáum við 6,2% hækkun á næsta ári, 5,5% hækkun árið 2027 og 5,4% hækkun 2028.
- Við teljum að áfram hægi á íbúðaverðshækkunum fram á mitt næsta ár og spáum 5,6% meðalhækkun á þessu ári og 4,1% hækkun á því næsta. Svo teljum við að smám saman lifni yfir íbúðamarkaðnum árin á eftir, en þó með hóflegum hækkunum: 5,0% árið 2027 og 6,0% árið 2028.









