Vikubyrjun 13. október 2025

Vikan framundan
- Á miðvikudag ættu að koma verðbólgutölur frá Bandaríkjunum, en þær verða ekki birtar á meðan lokun ríkisstofnana stendur yfir þar í landi.
- Á fimmtudaginn birta Hagar uppgjör.
- Á föstudaginn birtir Seðlabankinn greiðslumiðlun fyrir september.
- Í vikunni fara síðan fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs í október, en talan verður birt fimmtudaginn 30. október.
Mynd vikunnar
Ráðstöfunartekjur heimilanna halda áfram að aukast og jukust um 6,5% á milli ára að nafnvirði á öðrum ársfjórðungi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 1,1%. Landsmenn hafa nýtt þessar auknu ráðstöfunartekjur bæði til aukinnar neyslu, utanlandsferða og til að byggja upp sparnað. Ljóst er að kaupmáttaraukning á stóran þátt í því að viðhalda spennu í þjóðarbúinu og kynda undir verðbólgu. Til þess að verðbólga komist niður í 2,5% markmið Seðlabankans hlýtur að þurfa að draga úr neyslukraftinum.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar. Greina mátti mildari tón í yfirlýsingu nefndarinnar en þeirri síðustu frá því í ágúst. Í stað setninganna „hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar“ og „enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum“ stóð nú „greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið“ og „seiglan í þjóðarbúskapnum er þó áfram nokkur“. Sem fyrr eru „frekari skref til lækkunar vaxta háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans.“
- Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september og jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða og 0,3% prósentustig á milli ára. Atvinnuleysi í tengslum við gjaldþrot Play kemur ekki inn í gögnin fyrr en í næsta mánuði. Vinnumálastofnun bárust einnig fimm tilkynningar um hópuppsagnir í september þar sem alls 208 manns var sagt upp.
- Um 224 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í september, 0,5% fleiri en í september í fyrra. Í sumar var töluverður kraftur í ferðaþjónustunni og á tímabilinu júní-ágúst fjölgaði ferðamönnum um 11% á milli ára. Frá ársbyrjun hefur ferðamönnum fjölgað um 2,8%. Utanlandsferðum Íslendinga hélt áfram að fjölga og ferðirnar voru 14% fleiri en í september í fyrra. Það sem af er ári hafa Íslendingar farið í um 20% fleiri utanlandsferðir en á sama tímabili í fyrra.
- Alvotech tilkynnti að Lyfjastofnun Evrópu hefði tekið til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir fyrirhugaða hliðstæðu félagsins, Amaroq tilkynnti um framgang rannsókna, fjárfestinga og reksturs í Nalunaq, Icelandair birti flutningstölur, Oculis hrinti af stað skráningarrannsóknum á lyfi við bráðri sjóntaugabólgu og Ölgerðin Egill Skallagrímsson birti uppgjör (fjárfestakynning).
- Alma íbúðafélag gaf út skuldabréf, Kvika banki keypti til baka skuldabréf í sænskum og norskum krónum, Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöðu viðbótarútgáfu, Lánasjóður sveitarfélaga hélt útboð á skuldabréfum, Orkuveita Reykjavíkur hélt útboð á grænum skuldabréfum og Síminn hélt víxlaútboð.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









