Þrálát verðbólga kallar á óbreytta vexti

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 8. október. Nefndin hélt vöxtum óbreyttum þann 20. ágúst eftir að hafa lækkað vexti á fimm fundum þar á undan. Stýrivextir standa nú í 7,50% og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,4%.
Ýmsir þættir togast á og verðbólga haggast varla
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun kom fram að þær aðstæður hefðu ekki skapast að hægt væri að slaka á raunvaxtastiginu. Þá sagði í yfirlýsingunni að frekari skref til lækkunar vaxta væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% markmiði Seðlabankans.
Verðbólgan er nú 0,1 prósentustigi meiri en þegar peningastefnunefnd kom saman í ágúst og samsetning hennar hefur breyst. Sterk króna hefur haldið innfluttri verðbólgu í skefjum og þannig lagt hönd á plóg við að halda aftur af verðbólgu. Áhrifin endurspeglast til dæmis í því að föt og skór eru ódýrari en á sama tíma í fyrra.
Framlag almennrar þjónustu er meira en við síðustu ákvörðun vegna þess að í september duttu út lækkunaráhrifin af því að skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar í fyrra. Opinber þjónusta vegur einnig meira en við síðustu ákvörðun eftir að lækkunaráhrif af niðurfellingu skólagjalda í háskóla í ágúst í fyrra duttu út.
Breytingar á ólíkum undirliðum verðbólgunnar eiga sér því flestar einfaldar skýringar aðrar en að vera merki um breytingar í undirliggjandi verðþrýstingi í hagkerfinu.
Allt frá því í febrúar síðastliðnum hefur verðbólga verið á bilinu 3,8% til 4,2%. Þar á undan hafði hún hjaðnað nær stöðugt frá því um mitt síðasta ár og vaxtastigið var lækkað nokkurn veginn í takt við hjöðnunina. Vissulega er verðbólga ekkert í líkingu við verðbólguna fyrir tveimur og þremur árum – hún fór hæst í 10,2% í febrúar 2023 – en þó má telja áhyggjuefni hversu hægt hún hjaðnar í háu vaxtastigi. Okkar nýjasta spá gerir ráð fyrir 4,2% verðbólgu í október og 4,0% í nóvember og desember.
Þrálát verðbólga þarf ekki að koma á óvart þegar hafðir eru til hliðsjónar ýmsir mælikvarðar á eftirspurn í hagkerfinu. Þótt verulega hafi hægt á hagvexti hefur aukinn kaupmáttur viðhaldið neyslustiginu og kynt undir þenslu. Íslendingar eyða meiri peningum að raunvirði í ár en síðustu ár og hafa aldrei farið í nándar nærri jafnmargar utanlandsferðir eins og síðustu mánuði. Þrátt fyrir neysluna halda innlánsreikningar áfram að bólgna út, að raunvirði. Á móti verðbólgunni vegur sterkt gengi sem dregur úr innfluttum verðþrýstingi.
Verðbólguvæntingar þrálátar
Rétt eins og verðbólga virðast væntingar um hana hafa haldist tiltölulega óbreyttar síðustu vikur. Hvort sem litið er til verðbólguálags á skuldabréfamarkaði eða verðbólguvæntinga markaðsaðila, heimila og fyrirtækja virðist lítil sem engin breyting hafa orðið á síðustu mánuðum.
Hátt vaxtastig og harðari tónn peningastefnunefndar ættu að öðru óbreyttu að slá á verðbólguvæntingar og telja má telja vonbrigði að ekki hafi tekist að tempra þær meira en raun ber vitni. Væntingar um verðbólgu skipta miklu máli. Þær gefa fyrirheit um verðbólgu fram í tímann og geta líka einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er til mikils að vinna að halda þeim í skefjum.
Þensla og óvissa – en þó rólegri íbúðamarkaður og takmarkaður hagvöxtur
Eins og fram hefur komið virðast heimilin almennt standa tiltölulega vel. Neysla eykst að raunvirði á sama tíma og innlán aukast. Þó ber að hafa í huga að landsframleiðsla dróst saman um 1% á síðasta ári og á öðrum fjórðungi þessa árs varð samdráttur upp á tæp 2%. Hagvöxtur nam aðeins 0,3% á fyrri helmingi yfirstandandi árs. Líklega má búast við hóflegum hagvexti á árinu í heild – og jafnvel að landsframleiðsla aukist ekki umfram fólksfjölgun.
Háir vextir og ströng lánþegaskilyrði hafa slegið á íbúðaverðshækkanir auk þess sem íbúðir seljast hægar en áður, sérstaklega nýbyggingar. Þá má greina skýr merki um minnkandi spennu á vinnumarkaði, jafnvel þótt atvinnuleysi hafi ekki aukist að ráði. Stjórnendur fyrirtækja telja síður en áður að íslenskan vinnumarkað skorti starfsfólk og aðeins 20% stjórnenda virðast hafa áform um að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum ársins.
Þrátt fyrir minnkandi hagvöxt teljum við að þrálát þensla og tregbreytanleg verðbólga verði til þess að peningastefnunefnd telji þörf á varkárni.
Ýmsir óvissuþættir halda áfram að lita efnahagshorfur næstu mánuði og í byrjun vikunnar bættist við rekstrarstöðvun Fly Play ehf. Líkt og við fjölluðum um í mánaðarlega fréttabréfinu Mánaðamótum í gær er ekki augljóst hvort fall Play komi til með að hafa áhrif á verðbólgu, þótt það gæti gerst til dæmis í gegnum hærri flugfargjöld, gengisbreytingar eða áhrif á þenslu innanlands. Auk þess ríkir áfram óvissa um þróun á alþjóðasviðinu, bæði er varðar stríðsátök og milliríkjaviðskipti.
Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar
Dags. | Lagt til | Atkvæði með | Atkvæði móti | Kosið annað | Niðurstaða | Meginvextir |
8. feb. 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | HS (+0,75%) | +0,50% | 6,50% | |
22. mars 2023 |
+1,00% | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | +1,00% |
7,50% | ||
24. maí 2023 | +1,25% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+1,00%) | +1,25% | 8,75% | |
23. ágúst 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+0,25%) | +0,50% | 9,25% | |
4. október 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP | HS (+0,25%) | ÁÓP (+0,25%) | óbr. | 9,25% |
22. nóvember 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
7. febrúar 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
20. mars 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
8. maí 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | AS (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
21. ágúst 2024 | óbr. | ÁJ, RS, TB, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
2. október 2024 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁP, HS | HS (óbr.) | -0,25% | 9,00 | |
20. nóvember 2024 | -0,50% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,50% | 8,50% | ||
5. febrúar 2025 | -0,50% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,50% | 8,00% | ||
19. mars 2025 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,25% | 7,75% | ||
21. maí 2025 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | HS (óbr.) | -0,25% | 7,50% | |
20. ágúst 2025 | óbr. | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | óbr. | 7,50% | ||
8. október 2025 | ||||||
19. nóvember 2025 |
AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson.
Heimild: Seðlabanki Íslands
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









