27. febrúar 2023
Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs.
- Á morgun birtir Hagstofan fyrsta mat á landsframleiðslu í fyrra. Eik birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Alvotech birtir ársuppgjör.
Mynd vikunnar
Í janúar voru 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gefnir út á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir ekki verið færri síðan í janúar 2011. Til samanburðar voru 485 kaupsamningar undirritaðir í janúar í fyrra, en janúarmánuður er oft rólegur á íbúðamarkaði. Hafa ber í huga að tölurnar eru bráðabirgðatölur og því gæti talan átt eftir að hækka eftir því sem fleiri kaupsamningar berast í gagnagrunn HMS.
Helsta frá vikunni sem leið
- Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% milli mánaða í janúar. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar milli mánaða, en svo löng samfelld lækkun hefur ekki sést síðan við lok árs 2009. Þessi mæling og þróun síðustu mánaða benda til þess að markaðurinn sé að kólna umtalsvert. Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu um íbúðamarkaðinn.
- Seðlabankinn birti í síðustu viku fundargerð peningastefnunefndar vegna stýrivaxtaákvörðunarinnar 8. febrúar. Nefndin ræddi hækkanir á bilinu 0,5 til 1,0 prósentustig, en við gerðum ráð fyrir að nefndin myndi ræða hækkun um 0,25 til 0,75 prósentustig. Allir nefndarmenn greiddu atkvæði með 0,5%. Einn nefndarmaður, Herdís Steingrímsdóttir, lét bóka að hún hefði frekar kosið að hækka um 0,75 prósentustig. Herdís kom inn í nefndina fyrir tæpu ári og þetta er í fyrsta sinn sem hún skilar séráliti.
- Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli desember 2022 og janúar 2023 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%.
- Velta samkvæmt VSK-skýrslum jókst milli ára í öllum helstu atvinnugreinum í fyrra. Það þarf ekki að koma á óvart að mesta aukningin var í greinum tengdum ferðaþjónustu. Alls jókst velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 85% milli ára.
- Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 54 ma. kr. halli af vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra sem er mesti halli sem mælst hefur síðan árið 2007. Það var veglegur afgangur af þjónustujöfnuði, aðallega drifinn áfram af ferðaþjónustu, en sá afgangur dugði ekki til þess að vinna upp hallann af vöruskiptajöfnuðinum.
- Uppgjörstímabil stendur nú yfir, en Brim, Iceland Seafood og VÍS (fjárfestakynning) birtu ársuppgjör. Auk þess birtu Landsvirkjun og Alma íbúðafélag uppgjör.
- Tvö útboð voru í síðustu viku. Íslandsbanki hélt útboð á grænum skuldabréfum og Útgerðarfélag Reykjavíkur hélt útboð á víxlum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Þú gætir einnig haft áhuga á

1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.

30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.

27. júní 2025
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.

27. júní 2025
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.

25. júní 2025
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

23. júní 2025
Færri ferðamenn hafa heimsótt Ísland það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir það hefur erlend kortavelta aukist á milli ára og það sama má segja um útflutningstekjur af ferðaþjónustu. Við teljum ýmislegt benda til þess að erlendir ferðamenn hafi verið fleiri síðustu mánuði en talning Ferðamálastofu segir til um.

23. júní 2025
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,45% á milli mánaða í maí. Vísitalan lækkaði þar með í fyrsta sinn á þessu ári og ársbreytingin hefur ekki verið jafn lítil frá því í byrjun síðasta árs. Áfram er kraftur í kortaveltu Íslendinga, ekki síst erlendis.

19. júní 2025
Kortavelta jókst um 6,8% á milli ára í maí að raunvirði þar af jókst hún um 21% erlendis. Það sem af er ári hefur kortavelta aukist um 5,5% frá sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir í maímánuði en nú í ár. Greiðslukortajöfnuður var neikvæður um 4,2 ma.kr. sem er töluvert meiri halli en í maí í fyrra.

16. júní 2025
Í síðustu viku fór fram uppgjör við eigendur HFF-bréfa. Erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í maí og atvinnuleysi jókst á milli ára. Í vikunni fram undan birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.

12. júní 2025
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í júní og mælist 3,9%. Verðbólga helst líklega nær óbreytt í sumar en eykst svo aðeins með haustinu, þegar einskiptisliðir vegna skólagjalda og skólamáltíða detta út úr tólf mánaða taktinum. Við gerum áfram ráð fyrir 4,0% verðbólgu í árslok.