Vikubyrjun 26. júní 2023

Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir júní, við eigum von á að verðbólgan lækki í 8,9% úr 9,5%. Hagar gefa út árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
- Á fimmtudag birtir Ölgerðin árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
Mynd vikunnar
Hagstofan gaf í vikunni út nýjar tölur um jafnvirðisgildi fyrir árið 2022. Með þeim er til dæmis hægt að bera saman þjóðhagsreikninga milli landa, og gera samanburð á verðlagi. Samkvæmt gögnunum var einstaklingsbundin neysla á mann á Íslandi 22% meiri en í Evrópusambandinu í fyrra. Verðlag á mat og drykk var 42% hærra á Íslandi en að jafnaði í Evrópusambandinu og verg landsframleiðsla á mann var 28% meiri hér en í Evrópusambandinu árið 2022. Verg landsframleiðsla á mann í Lúxemborg er mjög mikil í samanburði við meðaltal innan Evrópusambandsins, meðal annars vegna þess að fjöldi fólks starfar þar en býr annars staðar, auk þess að fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja hefur þar aðsetur en litla starfsemi.
Það helsta frá vikunni sem leið
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí, sem hækkaði um 0,7% á milli mánaða. Fjölbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% milli mánaða og sérbýlishlutinn um 1,9%. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkaði fjóra mánuði í röð, en árstakturinn hefur lækkað jafnt og þétt á milli mánaða frá því í júlí í fyrra og mælist nú 6,1%.
Hagstofan birti niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn fyrir maí, þar sem árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mældist 3,4%, og jókst um 1,3 prósentustig á milli mánaða. Samkvæmt Hagstofunni er helsta ástæðan þessarar aukningar á milli mánaða árstíðabundin eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu í maímánuði.
Hagstofan birti einnig vísitölu launa fyrir maí, sem hækkaði um 0,6% frá fyrri mánuði. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 9,6%. Verðbólga í maí mældist 9,5% og hefur því kaupmáttur launa, miðað við vísitölu neysluverðs, aukist um 0,1% síðustu 12 mánuði.
Rannsóknarsetur verslunar og þjónustu birti leiðrétt gögn fyrir erlenda kortaveltu fyrir maímánuð. Heildarvelta erlendra ferðamanna hér á landi var 27 ma.kr. og jókst um 31% á milli ára á föstu gengi.
Verðbólga í Bretlandi hélst óbreytt á milli mánaða í 8,7%, og daginn eftir hækkaði Englandsbanki stýrivexti um 50 punkta og standa stýrivextir þar nú í 5%.
Íslandsbanki þáði boð fjármálaeftirlits um að ljúka máli með sátt og birti í kjölfarið uppfærða afkomuspá.
Lánamál birtu luku útboði ríkisvíxla, Orkuveita Reykjavíkur lauk útboði á grænum skuldabréfum og Síminn lauk sölu á nýjum skuldabréfaflokki.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára.Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








