Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan vísitölu launa fyrir desember.
- Á miðvikudag birtir Hagstofan niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn sinni.
Mynd vikunnar
Seðlabankinn brást við efnahagssamdrætti vegna heimsfaraldursins með því að lækka vexti. Meginvextir Seðlabanka Íslands voru 3% í upphafi faraldursins en fóru lægst í 0,75% í lok árs 2020. Á sama tímabili fóru lægstu óverðtryggðu vextir íbúðalána úr 5% niður í 3,3%. Vaxtalækkunin ýtti undir eftirspurn á fasteignamarkaði með þeim afleiðingum að verð tók að snarhækka. Frá upphafi ársins 2020 hefur fasteignaverð hækkað um 50% á meðan laun hafa hækkað um tæplega 25%, almennt verðlag hefur hækkað um rúmlega 15% og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkar um rúmlega 10%. Eitthvað er þó að hægjast á fasteignamarkaðnum, en fasteignaverð hefur verið nokkuð stöðugt frá því síðasta sumar og í desember 2022 lækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% milli mánaða.
Helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,7% milli mánaða í desember. Vísitalan lækkaði líka mánuðinn á undan, þá um 0,3%. Þetta bendir til þess að markaðurinn sé að róast eftir mjög miklar hækkanir síðustu ár. Talan var mun lægri en við áttum von á og því færðum við verðbólguspá okkar fyrir janúarmánuð niður, úr 9,4% í 9,3%.
- Kortavelta íslenskra heimila stóð í stað að raunvirði milli ára í desember. Á síðustu mánuðum hefur hægt verulega á vexti veltunnar, en aukningin fór hæst í 25% milli ára í apríl á síðasta ári. Þótt heildarkortaveltan hafi staðið í stað milli ára breyttist samsetningin: Íslendingar versluðu meira erlendis og minna innanlands.
- Ársverðbólgan í Bretlandi lækkaði úr 10,7% í 10,5% í desember. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem ársverðbólgan lækkar milli mánaða þar í landi. Það sem veldur mestum áhyggjum eru miklar hækkanir á matvörum, en árshækkun matarkörfunnar í Bretlandi er 16,9%.
- Á skuldabréfamarkaði lauk Íslandsbanki útboði á sértryggðum skuldabréfum, Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði, Hagar luku víxlaútboði og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.
- Á hlutabréfamarkaði birti Eimskip afkomuviðvörun, Alvotech var tilkynnt um fyrirhugaða úttekt bandaríska lyfjaeftirlitsins á framleiðsluaðstöðu og Alvotech seldi hlutabréf í lokuðu útboð til innlendra fagfjárfesta.