Vikubyrjun 21. nóvember 2022
Vikan framundan
Á þriðjudag birtir Hagstofan launavísitöluna fyrir október.
Á miðvikudag verður vaxtaákvörðun birt hjá Seðlabanka Íslands. Færa má rök fyrir bæði óbreyttu vaxtastigi og 0,25-0,50 prósentustiga hækkun, en við teljum líklegast að nefndin ákveði að halda vöxtum óbreyttum. Samhliða vaxtaákvörðuninni birtir bankinn Peningamál með nýrri verðbólgu- og þjóðhagsspá.
Á fimmtudag birtir Síldarvinnslan uppgjör fyrir 3. ársfjórðung. Hagstofan birtir niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni fyrir 3. ársfjórðung.
Á föstudaginn birtir Hagstofan síðan vöru- og þjónustujöfnuð fyrir 3. ársfjórðung.
Mynd vikunnar
Undanfarin ár hefur verið viðvarandi halli á vöruskiptum við útlönd en að sama skapi myndarlegur afgangur á þjónustujöfnuði. Skýrist þetta meðal annars af því hversu stóran sess ferðaþjónustan skipar í íslenska hagkerfinu. Stór hluti aðfanga ferðaþjónustu kemur til frádráttar í vöruskiptajöfnuði (innflutningur á bílaleigubílum, bensín, hótel o.s.frv.), en tekjur ferðaþjónustunnar koma til viðbótar í þjónustujöfnuði. Á meðan uppsveiflan var sem mest í ferðaþjónustunni, fyrir heimsfaraldurinn, var afgangurinn af þjónustujöfnuði nægur til þess að vinna upp hallann af vöruskiptajöfnuði og skila að meðaltali um 10 milljörðum króna á mánuði í afgang af vöru- og þjónustujöfnuði. Nýjustu gögn um bæði vöru- og þjónustujöfnuð eiga við ágústmánuð 2022 og sé horft 12 mánuði aftur í tímann sést að á því tímabili ríkti nokkurn veginn jafnvægi milli vöru- og þjónustujafnaðar. Gögn eru komin frá Hagstofunni um vöruskiptajöfnuð í september og október en ekki þjónustujöfnuð. Í september og október var 43,8 og 57,7 milljarða króna halli á vöruskiptajöfnuði. Á háannatíma ferðaþjónstunna í júlí og ágúst var 41,3 og 43,3 milljarða króna afgangur af þjónustujöfnuði og er ólíklegt að afgangurinn af þjónustujöfnuði í september eða október nái að vinna upp á móti hallanum af vöruskiptajöfnuðinum á tímabilinu.
Það helsta frá vikunni sem leið
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,6% milli mánaða í október. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem mælingin kom okkur á óvart. Almennt hefur hægt á íbúðasölu og við gerðum ráð fyrir mun hófstilltari hækkun. Verð á sérbýli lækkaði um 0,7% eftir mikla hækkun mánuðinn áður. Mikið flökt er á mælingum á sérbýli milli mánaða þar sem færri samningar eru undir og því varasamt að lesa mikið í þá þróun. Það kemur meira á óvart að fjölbýli hækkaði um 0,9% milli mánaða en á síðustu mánuðum hefur smám saman dregið úr hækkunum á fjölbýli þar til lækkun mældist milli mánaða í september.
Í síðustu viku fóru fram verðmælingar fyrir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs og við birtum verðbólguspá. Við eigum von á að verðbólgan mælist 9,3% í nóvember og í 9,5% í desember. Þetta er nokkuð meiri verðbólga en við áttum von á fyrir mánuði síðan en þá spáðum við 8,6% í nóvember og 8,4% í desember. Skýrist munurinn af því að krónan hefur veikst nokkuð og að bæði vísitala íbúðaverðs og vísitala neysluverðs í október sem komu í millitíðinni voru hærri en við áttum von á.
Seðlabankinn birti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila sem fór fram 7. til 9. nóvember. Samkvæmt miðgildi könnunarinnar gera markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólgan hafi náð hámarki á 3. ársfjórðungi í ár og verði komin niður í 5,0% á 4. ársfjórðungi 2023. Miðgildi væntinga til meðalverðbólgu næstu 5 árin lækkuðu úr 3,8% í 3,6%. Miðað við miðgildi svara gera markaðsaðilar ráð fyrir að meginvextir hafi náð hámarki í 5,75% og haldist óbreyttir út annan ársfjórðung á næsta ári.
Seðlabankinn birti gögn um greiðslukortaveltu í október. Alls nam greiðslukortavelta heimila 97 mö. kr. í október og jókst um 2% milli ára að raunvirði sem er talsvert hægari vöxtur en síðustu mánuði þar á undan. Líkt og á síðustu mánuðum er vöxturinn í neyslu Íslendinga alfarið tilkominn frá útlöndum, en kortavelta íslenskra heimila erlendis nam alls 21,5 mö. kr. og jókst um 39% milli ára að raunvirði. Íslendingar slógu met í ferðalögum í október þegar tæplega 72 þúsund brottfarir Íslendinga mældust í gegnum Leifsstöð og hafa þær ekki verið fleiri í einum mánuði síðan í júní 2018. Kortaveltujöfnuðurinn mældist neikvæður um 4,3 ma. kr. í október, þ.e.a.s. Íslendingar straujuðu kortin meira erlendis en ferðamenn gerðu hér á landi.
Af áhugaverðum hagtölum í síðustu viku birti Hagstofan manntal fyrir 2021, skammtímahagvísa í ferðaþjónustu og þjónustujöfnuð fyrir ágúst.
Í síðustu viku héldu Lánamál ríkisins aukaútboð ríkisvíxla og útboð ríkisbréfa, Íslandsbanki hélt útboð á grænum skuldabréfum, Lánasjóður sveitarfélaga hélt skuldabréfaútboð og Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum.
Reitir, Brim og Iceland Seafood birtu árshlutauppgjör.