Vikubyrjun 21. ágúst 2023

Vikan fram undan
- Í dag birta Reitir uppgjör.
- Á þriðjudag birtir Hagstofan launavísitölu og tengdar vísitölur. Iceland Seafood og Síminn birta uppgjör.
- Á miðvikudag birtir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vaxtaákvörðun og gefur út ný Peningamál með uppfærðri spá. Við spáum 0,25 prósentustiga hækkun.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan tölur um vöru- og þjónustuviðskipti á öðrum ársfjórðungi. Brim, Nova klúbburinn og Síldarvinnslan birta uppgjör.
Mynd vikunnar
Launamunur karla og kvenna hefur dregist saman á undanförnum árum samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofunnar. Í fyrra var óleiðréttur launamunur 9,1% og dróst saman milli ára úr 10,2%. Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar frá 2021 um launamun karla og kvenna lækkaði óleiðréttur launamunur úr 20,5% árið 2008 í 13,9% árið 2019. Leiðréttur launamunur, þar sem tekið er tillit til starfs, menntunar og fleiri þátta sem hafa áhrif á laun, lækkaði á sama tímabili úr 6,4% í 4,3%. Árið 2020 var óleiðréttur munur 12,9% og leiðréttur 4,1%, en Hagstofan bendir á að árið skeri sig úr vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Tölur um leiðréttan launamun frá 2021 hafa ekki verið gefnar út.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,8% á milli mánaða í júlí og árshækkun vísitölunnar minnkaði úr 2,7% í 0,8%. Ársbreytingin hefur ekki verið minni síðan í janúar 2011. Undirrituðum kaupsamningum fækkaði um 17% milli ára. Vaxtahækkanir hafa komið skýrt fram á íbúðamarkaði sem fer enn kólnandi.
- Seðlabankinn birti niðurstöður könnunar á væntingum markaðsaðila. Samkvæmt könnuninni búast markaðsaðilar við að verðbólga á þriðja fjórðungi þessa árs verði 7,8%, en verði 5,6% eftir eitt ár. Í síðustu könnun voru væntingar um 6,3% verðbólgu að ári liðnu. Markaðsaðilar búast við að meginvextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig í næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt verður á miðvikudag.
- Seðlabankinn birti einnig nýjar tölur um greiðslumiðlun í júlí. Kortavelta Íslendinga innanlands hefur nú dregist saman fimm mánuði í röð og heildarkortavelta fjóra mánuði í röð. Heildarkortavelta dróst saman um 0,6% milli ára í júlí á föstu verðlagi og 1,5% innanlands.
- Verðbólga í Bretlandi dróst saman milli mánaða í júlí og lækkaði úr 7,9% í 6,8%. Kjarnavísitalan, sem undanskilur orku, mat, áfengi og tóbak stóð aftur á móti í stað milli mánaða í 6,9%.
- Eimskip, Kvika banki og Skel birtu uppgjör.
- Reykjavíkurborg og Arion banki héldu skuldabréfaútboð.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Vikubyrjun 21. ágúst 2023 (PDF)
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








