Vikubyrjun 21. ágúst 2023
Vikan fram undan
- Í dag birta Reitir uppgjör.
- Á þriðjudag birtir Hagstofan launavísitölu og tengdar vísitölur. Iceland Seafood og Síminn birta uppgjör.
- Á miðvikudag birtir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vaxtaákvörðun og gefur út ný Peningamál með uppfærðri spá. Við spáum 0,25 prósentustiga hækkun.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan tölur um vöru- og þjónustuviðskipti á öðrum ársfjórðungi. Brim, Nova klúbburinn og Síldarvinnslan birta uppgjör.
Mynd vikunnar
Launamunur karla og kvenna hefur dregist saman á undanförnum árum samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofunnar. Í fyrra var óleiðréttur launamunur 9,1% og dróst saman milli ára úr 10,2%. Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar frá 2021 um launamun karla og kvenna lækkaði óleiðréttur launamunur úr 20,5% árið 2008 í 13,9% árið 2019. Leiðréttur launamunur, þar sem tekið er tillit til starfs, menntunar og fleiri þátta sem hafa áhrif á laun, lækkaði á sama tímabili úr 6,4% í 4,3%. Árið 2020 var óleiðréttur munur 12,9% og leiðréttur 4,1%, en Hagstofan bendir á að árið skeri sig úr vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Tölur um leiðréttan launamun frá 2021 hafa ekki verið gefnar út.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,8% á milli mánaða í júlí og árshækkun vísitölunnar minnkaði úr 2,7% í 0,8%. Ársbreytingin hefur ekki verið minni síðan í janúar 2011. Undirrituðum kaupsamningum fækkaði um 17% milli ára. Vaxtahækkanir hafa komið skýrt fram á íbúðamarkaði sem fer enn kólnandi.
- Seðlabankinn birti niðurstöður könnunar á væntingum markaðsaðila. Samkvæmt könnuninni búast markaðsaðilar við að verðbólga á þriðja fjórðungi þessa árs verði 7,8%, en verði 5,6% eftir eitt ár. Í síðustu könnun voru væntingar um 6,3% verðbólgu að ári liðnu. Markaðsaðilar búast við að meginvextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig í næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt verður á miðvikudag.
- Seðlabankinn birti einnig nýjar tölur um greiðslumiðlun í júlí. Kortavelta Íslendinga innanlands hefur nú dregist saman fimm mánuði í röð og heildarkortavelta fjóra mánuði í röð. Heildarkortavelta dróst saman um 0,6% milli ára í júlí á föstu verðlagi og 1,5% innanlands.
- Verðbólga í Bretlandi dróst saman milli mánaða í júlí og lækkaði úr 7,9% í 6,8%. Kjarnavísitalan, sem undanskilur orku, mat, áfengi og tóbak stóð aftur á móti í stað milli mánaða í 6,9%.
- Eimskip, Kvika banki og Skel birtu uppgjör.
- Reykjavíkurborg og Arion banki héldu skuldabréfaútboð.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Vikubyrjun 21. ágúst 2023 (PDF)