Spá­um 0,25 pró­sentu­stiga stýri­vaxta­hækk­un

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 0,25 prósentustig í næstu viku. Hækkunin yrði sú fjórtánda í röð og meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, færu úr 8,75% í 9,0%.
16. ágúst 2023

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 23. ágúst. Við spáum því að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig en teljum líklegt að á fundinum verði einnig til umræðu að halda vaxtastigi óbreyttu sem og að hækka vexti um 0,5 prósentustig. Hækkun um 0,25 prósentustig myndi lyfta meginvöxtum upp í 9,0% en svo háir hafa þeir ekki verið síðan í bröttu vaxtalækkunarferli snemma árs 2010.

Verðbólga loks á niðurleið og í takt við væntingar

Verðbólguhorfur versnuðu í vetur og vor þrátt fyrir hækkandi vexti og suma mánuði var verðbólgan þó nokkuð meiri en spár gerðu ráð fyrir. Í sumar fór loks að rofa til og verðbólgumælingar voru í takt við spár í júní og júlí. Í júlí fór verðbólgan úr 8,9% í 7,6%. Þessi mikla lækkun skýrðist fyrst og fremst af því að júlímælingin í fyrra datt út úr ársverðbólgunni, en þann mánuð hækkaði verðlag um 1,2% á milli mánaða. Verðlag stóð því sem næst í stað á milli mánaða í júlí í ár, hækkaði aðeins um 0,03%. Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna svo litla breytingu á vísitölunni á milli mánaða.

Íbúðamarkaður hefur líka haldið áfram að kólna. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1% milli mánaða í júní og um 0,8% í júlí.

Árshækkun vísitölunnar er komin niður í 0,8% og hefur ekki verið lægri síðan í janúar 2011. Árshækkunin náði hámarki í 25,5% í júlí í fyrra og hefur lækkað statt og stöðugt síðan.

Eftir því sem verðbólgan jókst á síðasta ári og við upphaf þessa árs varð hún einnig sífellt almennari í þeim skilningi að þeim undirliðum sem höfðu hækkað verulega í verði fjölgaði hlutfallslega. Í fyrstu var verðbólgan mestmegnis drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði en eftir því sem ró hefur færst yfir fasteignamarkaðinn hafa aðrir undirliðir neysluverðsvísitölunnar tekið við sér, ekki síst verð á þjónustu og innfluttum vörum. Nú hefur þeim undirliðum fjölgað hlutfallslega sem hafa hækkað um minna en 2,5% á síðasta árinu og undirliðum sem hafa hækkað um meira en 10% hefur ekki fjölgað eins og áður.

Væntingar örlítið betri - fleiri telja taumhaldið hæfilegt

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Seðlabankans á væntingum markaðsaðila, sem birtar voru í morgun, hafa væntingar um verðbólgu staðið nokkurn veginn í stað frá því í maí. Markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólgan verði komin niður í 7,3% á fjórða ársfjórðungi þessa árs og niður í 5% á þriðja fjórðungi næsta árs.

Þá telja nú mun fleiri en fyrir síðasta fund peningastefnunefndar að taumhald peningastefnunnar sé hæfilegt og mun færri telja taumhaldið of laust.

Vaxtahækkanir loks að tempra eftirspurn

Það er fleira en hjaðnandi verðbólga sem styður þá kenningu að nefndin muni taka mun minna skref í næstu viku en á síðustu fundum. Helst ber að nefna að vaxtahækkanir virðast loks farnar að slá á innlenda eftirspurn.

Einkaneysla var kröftug í byrjun árs og jókst um 4,9% á milli ára. Þegar peningastefnunefnd hittist síðast virtust vaxtahækkanir enn duga skammt til að tempra innlenda eftirspurn og í fundargerð nefndarinnar kom fram að „þótt árangur peningastefnunnar væri orðinn greinilegur á húsnæðismarkaði væru fáar aðrar skýrar vísbendingar um viðsnúning“.

Nú eru aftur á móti komnar fram nokkuð skýrar vísbendingar um viðsnúning í innlendri eftirspurn. Einkaneysla á öðrum fjórðungi liggur ekki fyrir en samdráttur í kortaveltu Íslendinga á fjórðungnum bendir til þess að einkaneysla kunni að hafa dregist saman. Kortavelta Íslendinga innanlands hefur nú dregist saman fimm mánuði í röð og heildarkortaveltan fjóra mánuði í röð, eftir að hafa aukist nær viðstöðulaust frá ágúst 2021. Heildarkortaveltan dróst saman um 0,6% á milli ára í júlí, á föstu verðlagi og um 1,5% innanlands. Samdrátturinn er þó nokkuð minni en mánuðina þrjá á undan - í júní dróst heildarkortaveltan til dæmis saman um 7,5% og um 8,4% innanlands.

Fleira en vaxtastig kann að styðja við temprun eftirspurnarinnar. Síðustu mánuði hefur hægt á kaupmáttaraukningu og kaupmáttarþróunin milli ára hefur staðið í stað eða dregist saman suma mánuði, eftir að hafa aukist samfellt í rúm 12 ár þar til um mitt ár í fyrra. Heimilin hafa því líklega minna svigrúm til að auka neyslu en áður.

Í ljósi alls þessa teljum við að peningastefnunefnd fari varlega í vaxtahækkanir og láti 0,25 prósentustig nægja. Í nýjustu hagspánni sem við gáfum út í lok apríl gerðum við ráð fyrir 3,2% hagvexti á þessu ári. Betri hagvaxtarhorfur hér á landi en víðast hvar í löndunum í kringum okkur hafa líklega auðveldað peningastefnunefnd ákvarðanir um hraðar vaxtahækkanir þar sem minni hætta hefur verið á að vaxtahækkanirnar keyri hagkerfið í samdrátt. Í ljósi vísbendinga um samdrátt í einkaneyslu er þó líklegt að nefndin hægi á vaxtahækkunum, enda ákjósanlegast að ná tökum á verðbólgu án samdráttar.

Einnig ber að hafa í huga að áhrif vaxtahækkana komu hraðast fram á fasteignamarkaði, strax síðasta haust, og verðþróun á þeim markaði hefur gjörbreyst. Hækki vextir mikið meira kann að vera hætt við því að markaðurinn frjósi og verðlækkanir verði viðvarandi í einhvern tíma.

Björninn ekki unninn þótt verðbólgan fari loks hjaðnandi

Til mikils er að vinna til að tryggja að verðbólgan hjaðni áfram og Seðlabankanum er mikið í mun að halda verðbólguvæntingum í skefjum, ekki síst í ljósi þess hversu stutt er í kjaraviðræður. Síðasta haust fóru kjaraviðræður af stað í skugga tæprar 10% verðbólgu og það var ekki síst vegna óvissu um verðbólguþróun sem útkoman varð að samningarnir giltu aðeins í eitt ár. Í lok árs losna fyrstu samningarnir og væntingar um verðbólgu næstu mánuði hljóta að hafa áhrif á viðræðurnar. Launafólk sem býst við þrálátri verðbólgu er líklegra til að krefjast meiri launahækkana til þess að verja kaupmáttinn. Ríflegar launahækkanir kunna svo að ýta undir verðbólguna. Að gefnum hærri launakostnaði eru fyrirtæki líklegri til að hækka verð á vörum og þjónustu og kröftug eftirspurn gerir þeim einnig betur kleift að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Peningastefnunefnd hefur verið tíðrætt um mikilvægi þess að koma í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags og sér sig sennilega knúna til að minna á að Seðlabankinn muni áfram beita sér til þess að stuðla að verðstöðugleika. Því teljum við að þótt verðbólguþróunin virðist á réttri leið og vaxtahækkanir séu farnar að hafa áhrif á innlenda eftirspurn þætti peningastefnunefnd óvarlegt að tilkynna um óbreytt vaxtastig. Spennan á vinnumarkaði er enn greinileg, atvinnuleysi var aðeins 2,8% í júlí, launavísitalan hefur hækkað um 11% á síðustu 12 mánuðum og áfram er eftirspurn eftir starfsfólki. Spennan bætir samningsstöðu launafólks í kjaraviðræðum og ýtir auk þess undir launaskrið.

Einnig vakti athygli að ferðir Íslendinga til útlanda hafa aldrei verið fleiri í júlímánuði en í ár, sem bendir til þess að þótt kortaveltan fari minnkandi hafi fólk enn ráð á að ferðast.

Nefndin taldi horfur á frekari hækkun

Í lok yfirlýsingarinnar sem fylgdi síðustu tilkynningu nefndarinnar kom fram að horfur væru á að hækka þyrfti vexti enn frekar. Verðbólguþróunin síðan hefur verið nokkurn veginn í takt við spá Seðlabankans frá þeim tíma. Við gerum ráð fyrir að nefndin telji enn þörf á að herða taumhaldið, en þó aðeins lítillega í bili, ekki síst til að senda skýr skilaboð til vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. Sjö vikur eru á milli næstu tveggja funda og því hefur nefndin tækifæri til að hækka vexti aftur strax í október ef hún telur þörf á.

Vaxtaákvarðanir Peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Meginvextir
3. febrúar 2021 óbr. allir 0,75
24. mars 2021 óbr. allir 0,75
19. maí 2021 +0,25 allir GJ (+0,50) 1,00
25. ágúst 2021 +0,25 allir GJ,GZ (+0,50) 1,25
6. október 2021 +0,25 ÁJ, RS, KÓ GJ,GZ (+0,50) 1,50
17. nóvember 2021 +0,50 allir 2,00
9. febrúar 2022 +0,75 allir 2,75
4. maí 2022 +1,00 allir 3,75
22. júní 2022 +1,00 allir GZ (+1,25) 4,75
24. ágúst 2022 +0,75 allir GZ (+1,00) 5,50
5. október 2022 +0,25 allir 5,75
23. nóvember 2022 +0,25 allir GZ (+0,50) 6,00
8. feb. 2023 +0,50 allir HS (+0,75) 6,50
22. mars 2023
+1,00 allir   7,50
24. maí 2023 +1,25 ÁJ, RS, ÁÓP, HS GJ (+1,00)   8,75
23. ágú. 2023        
4. okt. 2023        
22. nóv. 2023        
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Epli
24. júlí 2024
Verðbólga hækkar í 6,3%, meira en spár gerðu ráð fyrir
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,46% milli mánaða í júlí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólgan hækkar því úr 5,8% í 6,3%, um 0,5 prósentustig. Það sem kom mest á óvart í tölunum var að sumarútsölurnar voru lakari en við bjuggumst við og verð á matarkörfunni hækkaði meira en við héldum. Við gerum nú ráð fyrir að ársverðbólgan verði 6,2% í ágúst, 6,1% í september og 5,6% í október. Spáin er um 0,2-0,3 prósentustigum hærri en síðasta verðbólguspá sem við birtum í verðkönnunarvikunni.
Evrópsk verslunargata
22. júlí 2024
Vikubyrjun 22. júlí 2024
Í síðustu viku birtust gögn sem gáfu til kynna talsverðan kraft á íbúðamarkaði um þessar mundir. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% milli mánaða í júní og vísitala leiguverðs um 2,5%.
Hús í Reykjavík
18. júlí 2024
Spenna á íbúðamarkaði
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs jókst úr 8,4% í 9,1% en svo mikil hefur árshækkunin ekki verið síðan í febrúar 2023. Leiguverð hækkaði einnig á milli mánaða í júní, alls um 2,5%. Mikil velta var á íbúðamarkaði í júní og ljóst að íbúðamarkaður hefur tekið verulega við sér.
Gönguleið
15. júlí 2024
Vikubyrjun 15. júlí 2024
Erlendir ferðamenn voru 9% færri í júní á þessu ári en í júní í fyrra. Atvinnuleysi var 3,1% í júní og er áfram lítillega meira en á sama tíma í fyrra.
Fataverslun
10. júlí 2024
Spáum að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9% í júlí 
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% á milli mánaða í júlí og að verðbólga aukist úr 5,8% í 5,9%. Við gerum ráð fyrir að júlímánuður verði nokkuð dæmigerður þar sem sumarútsölur verða til lækkunar á vísitölunni en flugfargjöld til útlanda til hækkunar. Við spáum nokkurn veginn óbreyttri verðbólgu í ágúst og september, en að verðbólga hjaðni í 5,4% í október. 
8. júlí 2024
Vikubyrjun 8. júlí 2024
Hátt vaxtastig hefur hvatt til sparnaðar og hægt á eftirspurn í hagkerfinu. Innlán heimila voru 20% meiri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra, samkvæmt nýbirtum Hagvísum Seðlabanka Íslands. Óbundin innlán hafa aukist langmest.
1. júlí 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. júlí 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Litríkir bolir á fataslá
1. júlí 2024
Vikubyrjun 1. júlí 2024
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% í júní. Verðbólga mældist því 5,8% og lækkaði úr 6,2%. Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í mars og apríl dróst saman um 4,6% að raunvirði og launavísitalan hækkaði um 0,2% í maí, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í síðustu viku.
Flugvél á flugvelli
27. júní 2024
Verðbólga í takt við væntingar – lækkar í 5,8%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% á milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,2% í 5,8%. Reiknuð húsaleiga, hækkandi flugfargjöld til útlanda og verðhækkun á hótelgistingu höfðu mest áhrif til hækkunar á vísitölunni. Á móti lækkaði verð á fötum og skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði og ökutækjum á milli mánaða í júní.
25. júní 2024
Velta í hagkerfinu minnkar á milli ára
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum dróst saman um 4,6% að raunvirði í mars og apríl og um 2% í janúar og febrúar samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Þróunin er ólík eftir útflutningsgreinum. Ferðaþjónusta eykst lítillega á milli ára, velta í sjávarútvegi og álframleiðslu minnkar en velta í lyfjaframleiðslu eykst til muna.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur