Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí.
- Á miðvikudag birtir Hagstofan niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan vísitölu launa fyrir maí.
Mynd vikunnar
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru ráðstöfunartekjur á mann um 340 þúsund krónur á mánuði. Þær voru 420 þúsund á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, 80 þúsund krónum hærri. Ráðstöfunartekjur eru þær tekjur (svo sem laun, eignatekjur, lífeyrir, bætur o.fl.) sem eftir standa þegar gjöld (svo sem skattar, vaxtagjöld og tryggingagjöld) hafa verið dregin frá. Til þess að fá betri mynd af því hvernig kjörin hafa breyst á þessu tímabili þarf að taka tillit til verðbólgu og skoða kaupmátt ráðstöfunartekna. Á föstu verðlagi hafa ráðstöfunartekjur sáralítið breyst á þessum þremur árum, aðeins hækkað um 7 þúsund krónur, eða 2%.
Það helsta frá vikunni sem leið
Hagstofan birti ferðaþjónustureikninga fyrir 2022 í vikunni. Heildarneysla ferðamanna hér á landi nam 647 mö. kr., þar af var neysla erlendra ferðamanna 390 ma. kr. og innlendra ferðamann 256 ma. kr. Ferðaþjónusta var alls 7,8% af landsframleiðslu í fyrra og 8,3% allra vinnustunda á síðasta ári voru í ferðaþjónustu.
Alls nam greiðslukortavelta heimila 105 mö. kr. í maí og dróst saman um 7,6% milli ára, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 10,5% að raunvirði í maí, en erlendis jókst hún um 4,5%. Heildarkortavelta Íslendinga (innanlands og erlendis) hefur nú dregist saman tvo mánuði í röð og þrjá mánuði í röð hefur kortavelta Íslendinga innanlands dregist saman.
Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna júnímælinga vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,87% milli mánaða í júní og að ársverðbólgan lækki úr 9,5% í 8,9%. Matarkarfan, reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda munu samkvæmt okkar spá hafa mest áhrif til hækkunar. Við búumst við að verðbólga lækki áfram niður í 8,0% í júlí, en haldist rétt yfir 8% í ágúst og september. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs miðvikudaginn 28. júní.
Bandaríski seðlabankinn hélt vöxtum óbreyttum en Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Verðbólgan í Bandaríkjunum lækkaði úr 4,9% í 4,0% í maí.
Lánasjóður sveitarfélaga hélt skuldabréfaútboð, Hagar héldu víxlaútboð og Reitir stækkuðu REITIR150531. Lánamál ríkisins hættu við fyrirhugað útboð ríkisbréfa en ákváðu í stað þess að halda aukaútboð ríkisvíxla.
Á hlutabréfamarkaði gerðu Alvotech og Teva samning um upphafsdag sölu á líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara og Brim samdi um sjálfbærnitengt sambankalán.