Vikubyrjun 18. ágúst 2025

Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs fyrir júlí. Oculis og Síminn birta uppgjör.
- Á miðvikudag tilkynnir Seðlabanki Íslands um vaxtaákvörðun. Við búumst við óbreyttum vöxtum. Samhliða vaxtaákvörðuninni verða birt Peningamál. HMS birtir vísitölu leiguverðs.
- Á fimmtudag birta Heimar, Kaldalón og Reitir uppgjör. HMS birtir mánaðarskýrslu.
- Á föstudag birtir Hagstofan vísitölu launa.
Mynd vikunnar
Í síðustu viku fór fram könnun á væntingum markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, en Seðlabankinn sendir út slíka könnun fjórum sinnum á ári. Óhætt er að segja að sýn markaðsaðila á framvindu verðbólgu og stýrivaxta hafi breyst nokkuð frá síðustu könnun. Í maíkönnuninni gerðu flestir ráð fyrir að verðbólga myndi hjaðna út árið, en nú í ágústkönnuninni er meirihlutinn þeirrar skoðunar að verðbólga aukist á árinu. Í stað þess að gera ráð fyrir 0,75 prósentustiga lækkun stýrivaxta á síðari helmingi ársins er nú ekki gert ráð fyrir frekari vaxtalækkun í ár. Það vekur athygli að um 85% svarenda álíta taumhald peningastefnu hæfilegt eða of þétt en búast samt við að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum samhliða aukinni verðbólgu.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Við spáum því að verðbólga verði óbreytt í 4,0% í ágúst, en Hagstofan birtir verðbólgutölur fimmtudaginn 28. ágúst. Við gerum ráð fyrir að verðbólga haldist rétt yfir 4% út árið.
- Um 302 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í júlí. Ferðirnar hafa aldrei áður verið fleiri en 300 þúsund í einum mánuði. Í júlí fjölgaði ferðamönnum um 9,1% á milli ára og kemur það í kjölfar þess að þeim fjölgaði um 10,1% á milli ára í júní. Frá ársbyrjun hefur ferðamönnum nú fjölgað um 1,4%.
- Alls var greiðslukortavelta landsmanna um 129 ma.kr. í júlí og jókst um 6,5% á milli ára, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Sem fyrr jókst kortavelta erlendis mun meira en kortavelta innanlands.
- Skráð atvinnuleysi hélst óbreytt í 3,4% á milli mánaða í júlí. Fjórða mánuðinn í röð var atvinnuleysi um 0,3% meira en í sama mánuði í fyrra.
- Verðbólga í Bandaríkjunum hélst óbreytt í 2,7% á milli mánaða. Verðbólga reyndist minni en búist var við og því eru nú taldar lítillega meiri líkur á vaxtalækkun í september.
- Alvotech, Amaroq, Eik, Kvika, Nova og SKEL fjárfestingafélag birtu uppgjör. Íslandsbanki tilkynnti um endurkaupaáætlun.
- Landsbankinn hélt útboð sértryggðra skuldbréfa ásamt skiptiútboði. Lánamál ríkisins tilkynntu um niðurstöðu viðbótarútgáfu. Útgerðafélag Reykjavíkur lauk sölu á nýjum skuldabréfaflokki.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









