Ekki horfur á frekari vaxtalækkun á árinu

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 20. ágúst. Nefndin hefur lækkað vexti á síðustu fimm fundum, en þangað til í október í fyrra höfðu vextir staðið óbreyttir í rúmt ár. Stýrivextir standa nú í 7,50% og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,5%. Hagstofan birtir verðbólgumælingu ágústmánaðar í þarnæstu viku og við spáum því að verðbólga verði óbreytt frá því í júlí, 4,0%.
Verðbólga ekki lengur á undanhaldi
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun kom fram að þær aðstæður hefðu ekki skapast að hægt væri að slaka á raunvaxtastiginu. Einnig sagði að frekari skref til lækkunar vaxta væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% markmiði Seðlabankans.
Verðbólga hafði hjaðnað nokkuð í maí, í takt við væntingar, en jókst svo umfram væntingar í júní og mældist 4,2%. Júlíverðbólgan mældist 4,0%. Við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd túlki þessa þróun sem svo að verðbólga hafi færst nær markmiði. Hún virðist föst í kringum 4% og við teljum ekki horfur á að hún verði á undanhaldi næstu mánuði. Okkar nýjasta spá gerir ráð fyrir verðbólgu á bilinu 4,0%-4,2% út þetta ár.
Þótt ársverðbólga hafi verið nokkuð stöðug á síðustu mánuðum hefur samsetning hennar tekið breytingum. Frá maífundi peningastefnunefndar hefur dregið úr framlagi innfluttra vara, samhliða gengisstyrkingu, en framlag þjónustu hefur færst í aukana, hvort sem litið er til almennrar þjónustu eða opinberrar þjónustu. Verðþrýstingur í þjónustu er líklega ágætis mælikvarði á undirliggjandi verðbólguþrýsting – og skýrist ekki síst af launahækkunum og almennum eftirspurnarþrýstingi.
Verðbólguvæntingar þrálátar
Væntingar um verðbólgu gefa fyrirheit um verðbólgu fram í tímann og geta líka einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er til mikils að vinna að halda þeim í skefjum. Verðbólguvæntingar má líka túlka sem mælikvarða á trúverðugleika Seðlabankans. Þess vegna er peningastefnunefnd mikið í mun að koma væntingum niður í 2,5% verðbólgumarkmið. Væntingar um verðbólgu má meta út frá ýmsum ólíkum þáttum, svo sem verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði og niðurstöðum úr könnunum á meðal markaðsaðila, fyrirtækja og heimila. Til þess að slá mati á verðbólguvæntingar reiknum við meðaltal verðbólguálags á skuldabréfamarkaði til tveggja ára og fimm ára og niðurstaða úr væntingakönnun markaðsaðila, bæði til eins árs og næstu fimm ára. Þetta meðaltal er nokkurn veginn það sama og við síðustu vaxtaákvörðun í maí. Niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila sem fór fram fyrr í vikunni sýna þó að markaðsaðilar gera nú ráð fyrir 0,4 prósentustiga meiri verðbólgu bæði á 3. og 4. ársfjórðungi þessa árs en þeir gerðu ráð fyrir í síðustu könnun sem fór fram í maí. Þá vekur athygli að væntingar um vaxtalækkanir á þessu ári virðast hafa runnið út í sandinn að mestu leyti og út frá miðgildi svara telja markaðsaðil ar að stýrivextir verði ekki lækkaðir meira á árinu.
Enn kröftug eftirspurn í hagkerfinu
Að flestu leyti má ætla að meðalheimilið standi nokkuð vel, þrátt fyrir þráláta verðbólgu og langt hávaxtatímabil. Kaupmáttur hefur aukist smám saman síðustu mánuði, jafnvel þótt hægt hafi á launahækkunum. Aukinn kaupmáttur endurspeglast meðal annars í aukinni neyslu. Kortavelta landsmanna hefur aukist að raunvirði nær samfleytt í tvö ár, sérstaklega erlendis, enda hefur utanlandsferðum fjölgað til muna. Þótt kortavelta hafi aukist og utanlandsferðum fjölgað hafa innlán haldið áfram að safnast upp og yfirdráttur ekki færst í aukana. Þannig hafa heimilin að meðaltali áfram útgjaldasvigrúm og eftir því sem raunvextir lækka er líklegra að sparnaður leiti út í neyslu.
Þá er enn þó nokkur velta á íbúðamarkaði og íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka, þótt það hækki hægar en þegar vextir voru í lágmarki. Vaxtastigið virðist heldur ekki hafa lagst verulega þungt á vinnumarkaðinn þótt atvinnuleysi hafi aukist lítillega.
Þannig er fátt sem bendir til þess að hagkerfið sé að bogna undan háu vaxtastigi og ólíklegt að peningastefnunefnd telji sig hafa gengið of langt í að kæla efnahagslífið.
Búumst við óbreyttum vöxtum þótt hvorki sé útséð um lækkun né hækkun
Peningastefnunefnd hefur lækkað vexti á síðustu fimm fundum. Í ljósi þrálátrar verðbólgu og kröftugrar eftirspurnar teljum við að þau hljóti að staldra við í þetta skiptið og stöðva vaxtalækkunarferlið í bili. Eftir ágústfundinn kemur nefndin saman tvisvar í viðbót á þessu ári og gefst þá tækifæri til að meta stöðuna á ný.
Áfram byggir óvissa um verðbólgu- og vaxtaþróun ekki síst á efnahagshorfum erlendis og alþjóðaviðskiptum. Óvissa um utanríkisviðskipti og aðgengi að erlendum mörkuðum getur ein og sér haldið aftur af fjárfestingum og milliríkjaviðskiptum og þannig dregið úr umsvifum í hagkerfinu. Við teljum að þótt Seðlabankinn sé vakandi fyrir mögulegum áhrifum ýmiss konar sviptinga í heimshagkerfinu verði þau ekki ráðandi þáttur í næstu vaxtaákvörðun.
Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar
Dags. | Lagt til | Atkvæði með | Atkvæði móti | Kosið annað | Niðurstaða | Meginvextir |
8. feb. 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, GJ, GZ, HS | HS (+0,75%) | +0,50% | 6,50% | |
22. mars 2023 |
+1,00% | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | +1,00% |
7,50% | ||
24. maí 2023 | +1,25% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+1,00%) | +1,25% | 8,75% | |
23. ágúst 2023 | +0,50% | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (+0,25%) | +0,50% | 9,25% | |
4. október 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP | HS (+0,25%) | ÁÓP (+0,25%) | óbr. | 9,25% |
22. nóvember 2023 | óbr. | ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
7. febrúar 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
20. mars 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | GJ (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
8. maí 2024 | óbr. | ÁJ, RS, ÁP, HS | AS (-0,25%) | óbr. | 9,25% | |
21. ágúst 2024 | óbr. | ÁJ, RS, TB, ÁP, HS | óbr. | 9,25% | ||
2. október 2024 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁP, HS | HS (óbr.) | -0,25% | 9,00 | |
20. nóvember 2024 | -0,50% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,50% | 8,50% | ||
5. febrúar 2025 | -0,50% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,50% | 8,00% | ||
19. mars 2025 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | -0,25% | 7,75% | ||
21. maí 2025 | -0,25% | ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS | HS (óbr.) | -0,25% | 7,50% | |
20. ágúst 2025 | ||||||
8. október 2025 | ||||||
19. nóvember 2025 |
AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson, ÞGP: Þórarinn G. Pétursson
Heimild: Seðlabanki Íslands
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









