Aukin neysla, aldrei jafnmargar utanlandsferðir og bílakaup færast í aukana

Kortavelta landsmanna hefur aukist á milli ára að raunvirði í hverjum mánuði allt frá því í október 2023. Kortaveltan var 3% meiri núna í ágúst en í ágúst í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Aukningin er langmest áberandi erlendis þar sem hún jókst um 16,4% í ágúst á föstu gengi, svo dæmi sé tekið. Kortavelta innanlands dróst lítillega saman, um 0,6% að raunvirði á milli ára. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur kortavelta í heild aukist um tæplega 5% frá sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis.
Aukin kortavelta erlendis rímar við stöðuga fjölgun utanlandsferða. Það sem af er ári hafa utanlandsferðir Íslendinga verið rúmlega 20% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Núna í ágúst voru ferðir Íslendinga um 13% fleiri en í ágúst í fyrra. Í þessu samhengi ber þó að hafa í huga að kortavelta Íslendinga erlendis kemur bæði frá kortum sem notuð eru á ferðlögum erlendis en einnig kortum sem notuð eru í erlendri netverslun.
Kortavelta erlendis skilar ekki auknum hagvexti hér á landi
Einkaneysla hefur aukist nokkuð kröftuglega það sem af er ári, um 3,1% á öðrum fjórðungi og um 2,8% á þeim fyrsta. Hafa ber í huga að einkaneysla sem fer fram erlendis kemur ekki aðeins inn í þjóðhagsreikninga í formi aukinnar einkaneyslu heldur einnig aukins innflutnings á vörum og þjónustu, sem kemur til frádráttar í bókhaldinu. Þannig skiptir máli að skoða hversu mikið af neyslunni fer fram hér á landi og hversu mikið erlendis, þótt hvort tveggja gefi vísbendingu um neyslukraftinn í hagkerfinu og stöðu heimila.
Verulega aukinn bílainnflutningur í byrjun árs
Landsmenn láta sér ekki nægja að ferðast meira, heldur kaupa líka að jafnaði fleiri bíla en í fyrra. Reyndar var bílasala tiltölulega dræm í fyrra: Nýskráning bíla til einkanota var 50% minni á fyrstu átta mánuðum síðasta árs en á sama tíma árið þar á undan. Nú hefur nýskráning bíla aftur sótt í sig veðrið og það sem af er árinu 2025 hafa rúmlega 28% fleiri fólksbílar verið nýskráðir á landinu en á sama tíma í fyrra, samkvæmt gögnum Bílgreinasambandsins. Nýskráningum á fólksbílum til einkanota hefur fjölgað um tæplega 50% á milli ára það sem af er ári. Þá hefur nýskráningu á bílum á vegum bílaleiga fjölgað um rúmlega 17% á milli ára.
Bílakaup eru stór hluti af neyslu heimila landsins og því hefur innflutningur á fólksbílum fylgt þróun einkaneyslu í grófum dráttum. Þó má greina mun meiri sveiflur í bílainnflutningi en einkaneyslu.
Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs rauk bílainnflutningur upp og var um 65% meiri en í byrjun árs 2024, en á öðrum ársfjórðungi þessa árs var bílainnflutningur um 22% meiri en á sama tíma í fyrra. Velta í sölu og viðhaldi bíla jókst um 16% á milli ára í maí og júní skv. gögnum Hagstofunnar úr virðisaukaskattskýrslum.
Þrátt fyrir síaukna neyslu virðast landsmenn ekki hafa gengið verulega á sparnaðinn. Innlán halda sífellt áfram að aukast að raunvirði og yfirdráttur virðist ekki hafa færst í aukana. Þessa sterku stöðu heimila má eflaust ekki síst rekja til aukins kaupmáttar, en laun hafa haldið áfram að hækka þó nokkuð á sama tíma og verðbólga hefur hjaðnað. Líklega þarf neyslukrafturinn eitthvað að gefa eftir áður en Seðlabankinn sér sér fært að lækka raunvaxtastigið að ráði.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









