16. janúar 2023
Vikan framundan
- Í dag birtir Seðlabankinn tölur um veltu greiðslukorta í desember.
- Á þriðjudag birtir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag fáum við verðbólgutölur frá Bretlandi.
Mynd vikunnar
Tæplega 1,7 milljónir erlendra farþega fóru um Leifsstöð í fyrra. Fimm fjölmennustu þjóðirnar voru Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar, Frakkar og Pólverjar. Bandaríkjamenn eru langfjölmennasti ferðamannahópurinn á sumrin en Bretar eiga það til að koma frekar utan háannatíma. Þannig komu fleiri Bretar en Bandaríkjamenn í desember, en á háannatímanum (júlí og ágúst) voru farþegar frá Bandaríkjunum rúmlega sex sinnum fleiri en farþegar frá Bretlandi.
Helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna janúarmælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,31% milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,6% í 9,4%. Það hefur ekki orðið veruleg breyting á verðbólguhorfum til næstu mánaða frá því við birtum síðast spá í lok desember. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega á næstu mánuðum og fari niður fyrir 8% í apríl. Við gerum þó ráð fyrir ögn hægari hjöðnun nú, m.a. vegna hærra matvælaverðs.
- Rétt tæplega 1,7 milljónir erlendra ferðamanna lögðu upp frá Keflavíkurflugvelli árið 2022, sem gerir það fimmta stærsta ferðamannaárið frá upphafi. Ferðamenn voru tæplega 115 þúsund í desember, þó nokkuð færri en í sama mánuði árin 2019 og 2018. Hver ferðamaður eyddi að jafnaði meiru en þá miðað við fast gengi.
- Skráð atvinnuleysi var 3,4% í desember. Atvinnuleysi lækkaði nokkuð á síðasta ári, en til samanburðar var það 4,9% í desember 2021. Lækkunin átti sér aðallega stað á fyrri helmingi ársins, en atvinnuleysið hefur legið á bilinu 3,2% til 3,4% síðan í júlí á síðasta ári. Við teljum þetta nokkuð nálægt jafnvægi og ólíklegt að það fari mikið neðar. Atvinnuleysi í desember var mest á Suðurnesjum, en minnst á Norðurlandi vestra.
- Ársverðbólgan í Bandaríkjunum mældist 6,5% í desember sem var í samræmi við væntingar markaðsaðila. Þetta var sjötti mánuðurinn í röð þar sem verðbólga hjaðnar í Bandaríkjunum en verðbólgan fór hæst í 9,1% í júní í fyrra. Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í desember en hann hefur gefið í skyn að næstu skref verði smærri og búast markaðsaðilar við 0,25 prósentustiga hækkun í febrúar.
- Við birtum Hagsjá þar sem við svörum því af hverju krónan hefur veikst í vetur.
- Á skuldabréfamarkaði voru tvö útboð: Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum og Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð. Arion banki birti útgáfuáætlun fyrir 2023.
- Á hlutabréfamarkaði birtu Hagar (fjárfestakynning) og Ölgerðin árshlutauppgjör. Alvotech tilkynntu að félagið hefði hafið rannsókn á lyfjahvörfum AVT05 og að félagið hefði gert samkomulag við Fuji Pharma um samstarf á Japansmarkaði. Íslandsbanki birti samantekt á áliti greinanda vegna 4F 2022 ársuppgjörsins.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Þú gætir einnig haft áhuga á

7. maí 2025
Ætla má að um þriðjungur íslenskra vara sem fluttar eru frá Íslandi til Bandaríkjanna sé undanþeginn þeim tollum sem nú eru í gildi, til dæmis lyf og flestar lækningavörur. Óvissa um framvindu mála í alþjóðaviðskiptum getur samt ein og sér leitt til þess að fyrirtæki halda að sér höndum og ráðast síður í nýjar fjárfestingar. Á síðasta ári fór um 12% af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna.

5. maí 2025
Í apríl jókst verðbólga úr 3,8% í 4,2%, nokkuð umfram okkar spá um 4,0% verðbólgu. Velta samkvæmt VSK-skýrslum jókst á milli ára í flestum atvinnugreinum á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Á fyrsta ársfjórðungi mældist hagvöxtur á evrusvæðinu en samdráttur í Bandaríkjunum. Í þessari viku er vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum og einnig í Bretlandi.

2. maí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.

2. maí 2025
Ör fólksfjölgun og hækkun húsnæðisverðs hefur aukið eftirspurn eftir leiguíbúðum. Stærstur hluti Airbnb-íbúða er nú leigður út af leigusölum með fleiri en tvær íbúðir í útleigu. Frumvarp um hert skilyrði um skammtímaleigu hefur verið sett í samráðsgátt. Hömlur á skammtímaleigu gætu aukið framboð leiguíbúða og jafnvel söluframboð.

29. apríl 2025
Verðbólga mældist 4,2% í apríl og hækkaði úr 3,8% frá því í mars. Verðbólga var umfram okkar spá, einkum vegna þess að reiknuð húsaleiga og verð á matvörum hækkaði meira en við bjuggumst við.

28. apríl 2025
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti nýja efnahagsspá um páskana. Hagvaxtarhorfur í heiminum hafa verið færðar niður og AGS telur að spenna í alþjóðaviðskiptum og veruleg óvissa komi til með að draga úr umsvifum í heimshagkerfinu.

28. apríl 2025
Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir aprílmánuð á morgun og við búumst við að verðbólga hækki tímabundið upp í 4%. Í vikunni fáum við fyrstu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung og fyrsta mat á hagvexti í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi.

23. apríl 2025
Við teljum horfur á tiltölulega hófstilltum verðhækkunum á íbúðamarkaði næstu árin, 5,9% hækkun á þessu ári, 4,8% hækkun á næsta ári og 6,4% hækkun árið 2027. Til samanburðar hefur íbúðaverð hækkað um 9% á ári að jafnaði frá aldamótum, og að meðaltali um 13% á ári frá árinu 2021.

22. apríl 2025
Leiguverð hefur hækkað um 11,3% á síðustu tólf mánuðum, þó nokkuð meira en íbúðaverð sem hefur hækkað um 8% á sama tímabili. Hækkanir á íbúða- og leigumarkaði eru þó nokkuð umfram almennar verðhækkanir í landinu, en verðbólga mældist 3,8% í mars. Áfram er kraftur í innlendri neyslu, greiðslukortavelta heimila hefur aukist statt og stöðugt síðustu mánuði og var 1,8% meiri í mars síðastliðnum en í mars í fyrra.

16. apríl 2025
Sviptingar í alþjóðaviðskiptum gætu haft margvísleg áhrif á ferðaþjónustu hér á landi. Tollar gætu rýrt kaupmátt Bandaríkjamanna og haft áhrif á komur þeirra hingað til lands. Auk þess eru merki um að áhugi Evrópubúa á að heimsækja Bandaríkin fari dvínandi, sem gæti haft áhrif hingað heim, enda hafa Evrópubúar gjarnan komið við á Íslandi á leið sinni vestur um haf. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir samdrætti í ferðaþjónustu á þessu ári, en að hún taki aftur við sér á næstu tveimur árum.