Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um að verð­bólga lækki í 9,4% í janú­ar

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,31% milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,6% í 9,4%. Það hefur ekki orðið veruleg breyting á verðbólguhorfum til næstu mánaða frá því við birtum síðast spá í lok desember. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega á næstu mánuðum og fari niður fyrir 8% í apríl. Við gerum þó ráð fyrir ögn hægari hjöðnun nú, m.a. vegna hærra matvælaverðs.
Epli
12. janúar 2023

Verðbólga mældist 9,6% í desember sem var nokkurn veginn í samræmi við væntingar okkar, en við höfðum spáð 9,5%. Þó verðbólga í heild hafi verið í takt við spá okkar var ýmislegt í tölunum sem kom okkur á óvart. Reiknuð húsaleiga, matarkarfan og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hækkuðu nokkuð meira en við áttum von á. Verð á nýjum bílum hækkaði aftur á móti minna en við áttum von á.

Eigum von á að vísitalan hækki um 0,31% milli mánaða í janúar og ársverðbólgan lækki úr 9,6% í 9,4%

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,31% milli mánaða í janúar. Gangi sú spá eftir mun ársverðbólgan lækka úr 9,6% í 9,4%. Að þessu sinni eru það sex undirliðir sem hafa mest áhrif: Matarkarfan, reiknuð húsaleiga, annað vegna húsnæðis og kaup ökutækja verða til hækkunar á meðan föt og skór, húsgögn, heimilisbúnaður, o.fl. verða til lækkunar, gangi spá okkar eftir.

Matarkarfan hækkar

Síðustu þrjá mánuði hefur matarkarfan hækkað að meðaltali um 1,0% milli mánaða sem er nokkuð meiri hækkun en við áttum von á. Hækkunin virðist vera nokkuð almenn - grænmeti hækkaði að meðaltali um 0,6% milli mánaða, önnur búvara um 1,2%, aðrar innlendar mat- og drykkjarvörur um 0,8% og innfluttar mat- og drykkjarvörur um 1,0%. Af fréttum að dæma hafa orðið nokkuð veglegar hækkanir hjá birgjum sem munu skila sér inn í verðlag. Alls eigum við von á að matarkarfan hækki um 1,5% milli mánaða og verða áhrif þess 0,22 prósentustig til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Skattabreytingar og gjaldskrárhækkanir um áramót

Um áramót komu til framkvæmda ýmsar skattabreytingar, en samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins má gera ráð fyrir að heildaráhrif þeirra geti orðið allt að 0,4% til hækkunar á VNV. Mestu munar um breytingar á vörugjaldi ökutækja, en við gerum því ráð fyrir að verð á nýjum bílum hækki um 3,2% milli mánaða. Bensíngjald hækkaði einnig um áramót og bendir verðkönnun okkar til að verð á dælueldsneyti hækki um 0,8% milli mánaða.

Eins og alltaf er þó nokkuð um gjaldskrárhækkanir í janúar. Gjaldskrá Orku náttúrunnar fyrir rafmagn til heimilisnota hækkar um 6,3% og Veitur hækka heitt vatn um 7,1%. Við eigum von á að heildaráhrif hækkana á hita og rafmagni verði 0,20 prósentustig til hækkunar á VNV. Skólagjöld hækka alla jafna í janúar og gerum við ráð fyrir að liðurinn menntun hækki um 0,9% milli mánaða. Einnig hefur Pósturinn tilkynnt um 5-10% hækkun á pakkasendingum innanlands og 20% hækkun á sendingum bréfa til útlanda. Verðskrá bréfa innanlands mun einnig taka breytingum og hækka í sumum þyngdarflokkum og lækka í öðrum. Vægi póstþjónustu í vísitölunni er samt það lítið að áhrifin eru óveruleg.

Útsölurnar svipaðar og fyrir faraldurinn

Á tímum faraldursins voru bæði júlí- og janúarútsölurnar nokkuð slakar. Líkleg skýring var aukin verslun Íslendinga innanlands á meðan utanlandsferðir voru ekki í boði. Við teljum líklegt að útsölurnar núna verði nær því sem var fyrir faraldurinn, enda ferðalög Íslendinga til útlanda komin í samt lag og vel það. Við gerum ráð fyrir að föt og skór lækki um 9,0% milli mánaða og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækki um 4,9%. Gangi það eftir verða heildaráhrif janúarútsala 0,63 prósentustig til lækkunar á vísitölunni. Við gerum síðan ráð fyrir því að þessi lækkun gangi til baka á allra næstu mánuðum líkt og venja er.

Hægist á fasteignamarkaði en framlag vaxtabreytinga hækkar

Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga húsnæðislána. Desembermæling Hagstofunnar á húsnæðisverði á landinu öllu var hærri en við áttum von á, aðallega vegna hækkana utan höfuðborgarsvæðisins. Það eru mun færri kaupsamningar utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Mælingar á markaðsverði þar geta sveiflast verulega milli mánaða og því er mjög varasamt að lesa of mikið í eina mælingu. Við breytum ekki skoðun okkar á líklegri framvindu fasteignaverðs og gerum áfram ráð fyrir að hækkanir verði litlar á næstunni. Við spáum því að markaðsverð húsnæðis hækki um 0,1% milli mánaða sem er vel undir sögulegu meðaltali.

Framlag vaxtabreytinga fór lægst í 0,3 prósentustig til lækkunar vorið 2022. Síðan hefur það risið samhliða hækkunum á vöxtum til íbúðalána sem mældist til hækkunar í reiknaðri húsaleigu í september 2022, í fyrsta sinn síðan í janúar 2019. Við eigum von á framhaldi á þessari þróun og að framlag vaxtabreytinga til hækkunar á reiknaðri húsaleigu verði 0,5 prósentustig. Alls gerum við því ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,6% milli mánaða og að áhrif þess á VNV verði 0,11% til hækkunar.

Spá um janúarmælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting Áhrif
Matur og drykkjarvara 15,2% 1,5% 0,22%
Áfengi og tóbak 2,4% 1,6% 0,04%
Föt og skór 3,4% -9,0% -0,31%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 10,2% 2,5% 0,26%
- Reiknuð húsaleiga 20,0% 0,6% 0,11%
Húsgögn og heimilisbúnaður 6,4% -4,9% -0,32%
Heilsa 3,7% 0,0% 0,00%
Ferðir og flutningar (annað) 3,9% 0,3% 0,01%
- Kaup ökutækja 5,9% 3,2% 0,19%
- Bensín og díselolía 3,8% 0,8% 0,03%
- Flugfargjöld til útlanda 1,9% -2,0% -0,04%
Póstur og sími 1,6% 0,2% 0,00%
Tómstundir og menning 9,2% -0,1% -0,01%
Menntun 0,7% 0,9% 0,01%
Hótel og veitingastaðir 4,9% 0,5% 0,02%
Aðrar vörur og þjónusta 7,0% 1,3% 0,09%
Alls 100,0%   0,31%

Eigum von á að verðbólgan hjaðni hægt á næstu mánuðum

Það hefur ekki orðið veruleg breyting á verðbólguhorfum til næstu mánaða frá því við birtum síðast verðbólguspá í lok desember. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega á næstu mánuðum, en þó gerist það aðeins hægar en áður var spáð, aðallega vegna þess að við gerum ráð fyrir ögn veikari gengi, meiri hækkun á verði matvöru og hærri gjaldskrárhækkunum í janúar. Við eigum von á að vísitalan hækki um 0,74% í febrúar, 0,35% í mars, aðallega vegna útsöluloka, en janúarútsölurnar ganga yfirleitt til baka í febrúar og mars. Við spáum því síðan að vísitalan hækki um 0,60% í apríl, aðallega vegna hækkana á matarkörfunni, flugfargjöldum til útlanda og reiknaðri húsaleigu. Verðbólga var töluverð í febrúar, mars og apríl í fyrra og því mun ársverðbólgan lækka við það að þessir mánuðir detti út úr mælingunni. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan lækka niður í 8,9% í febrúar, 8,3% í mars og 7,6% í apríl.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki Íslands
25. ágúst 2025
Vikubyrjun 25. ágúst 2025
Seðlabanki Íslands hélt stýrivöxtum óbreyttum í 7,50% í síðustu viku og allir nefndarmenn studdu ákvörðunina. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,2% á síðasta árinu, en í janúar var árshækkunin 10,4%. Í vikunni birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga fyrir annan ársfjórðung.
Hús í Reykjavík
22. ágúst 2025
Íbúðamarkaður í betra jafnvægi þótt nýjar íbúðir seljist hægt
Á síðustu misserum hefur dregið töluvert úr verðhækkunum á íbúðamarkaði. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 4,2% á síðustu 12 mánuðum, aðeins örlítið umfram almennt verðlag, og ársbreytingin hefur ekki verið minni frá því í byrjun árs 2024. Þótt kaupsamningar hafi verið færri á fyrstu sjö mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra er enn talsverð velta á markaðnum.
Fólk við Geysi
19. ágúst 2025
Útflutningur í sókn en innflutningur líka
Vöruútflutningur frá Íslandi hefur aukist frá því í fyrra en samt hefur vöruskiptahalli aldrei verið meiri en nú. Þetta skýrist af stórauknum vöruinnflutningi, einkum á tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Ferðaþjónustan hefur skilað auknum tekjum í ár en á móti hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað og uppsafnaður kortaveltujöfnuður við útlönd var enn neikvæður í lok júlí.
Frosnir ávextir og grænmeti
18. ágúst 2025
Vikubyrjun 18. ágúst 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á miðvikudag. Auk vaxtaákvörðunarinnar fáum við vísitölu íbúðaverðs í vikunni og nokkur uppgjör. Metfjöldi erlendra ferðamanna fór frá landinu í júlí, atvinnuleysi var óbreytt á milli mánaða og áfram var nokkur kraftur í greiðslukortaveltu heimila.
Seðlabanki Íslands
15. ágúst 2025
Ekki horfur á frekari vaxtalækkun á árinu
Við spáum því að peningastefnunefnd geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í apríl og verðbólguvæntingar hafa haldist tiltölulega stöðugar. Þá virðist hagkerfið þola vaxtastigið vel, kortavelta hefur aukist sífellt síðustu mánuði og enn er þó nokkur velta á íbúðamarkaði. Peningalegt taumhald losnaði með aukinni verðbólgu í apríl og við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd þyki tímabært að lækka raunstýrivexti enn frekar.
Flugvél á flugvelli
14. ágúst 2025
Spáum óbreyttri verðbólgu í ágúst
Við spáum því að verðbólga standi í stað í ágúst og mælist 4,0%. Eins og alla jafna í ágústmánuði má búast við að sumarútsölur gangi til baka að hluta. Einnig má gera ráð fyrir lækkandi flugfargjöldum. Næstu mánuði gerum við ráð fyrir að verðbólga aukist lítillega en hjaðni svo undir lok árs, og mælist 4,0% í desember.
Flugvöllur, Leifsstöð
13. ágúst 2025
Aukinn kaupmáttur, meiri neysla og fleiri utanlandsferðir
Neysla landsmanna virðist halda áfram að aukast og utanlandsferðir hafa verið þó nokkuð fleiri á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Launavísitalan hefur enda hækkað um 8,1% á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur haldið áfram að aukast. Atvinnuleysi hefur haldist nokkuð hóflegt. Það er þó lítillega meira en á sama tíma í fyrra og merki eru um að spenna á vinnumarkaði fari smám saman dvínandi.
11. ágúst 2025
Vikubyrjun 11. ágúst 2025
Í síðustu viku tóku gildi nýir tollar á innflutning til Bandaríkjanna. Nokkrar áhugaverðar hagtölur koma í þessari viku: brottfarir um Keflavíkurflugvöll, skráð atvinnuleysi, væntingakönnun markaðsaðila og greiðslumiðlun. Í vikunni fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs og uppgjörstímabil í Kauphöllinni heldur áfram með sex uppgjörum.
Epli
5. ágúst 2025
Vikubyrjun 5. ágúst 2025
Gistinóttum á landinu fjölgaði alls um 8,4% á milli ára í júní. Verðbólga á evrusvæðinu hélst óbreytt á milli mánaða og Seðlabanki Bandaríkjanna hélt stýrivöxtum óbreyttum.
1. ágúst 2025
Mánaðamót 1. ágúst 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.