Vikubyrjun 8. desember 2025

Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Ferðamálastofa gögn um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli og Vinnumálastofa birtir skráð atvinnuleysi. Þá er vaxtaákvörðun í Bandaríkjunum og verðbólgutölur verða birtar sama dag.
- Í vikunni fara fram mælingar vegna vísitölu neysluverðs í desember.
Mynd vikunnar
Súkkulaðiunnendur hafa eflaust tekið eftir hratt hækkandi súkkulaðiverði á árinu – það kostar nú um 25% meira en fyrir ári síðan. Miklar verðhækkanir á súkkulaði skýrast að stórum hluta af hækkunum á heimsmarkaðsverði kakóbauna síðastliðin tvö ár. Þær hækkanir má rekja til uppskerubrests, meðal annars vegna veðurs og sjúkdóma. Á allra síðustu mánuðum hafa hækkanir á heimsmarkaðsverði á kakóbaunum gengið til baka að miklu leyti. Því má líklega búast við að það hægi á verðhækkunum á súkkulaði hér á landi.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og í kjölfarið breytingar á reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána og nýjar reglur um yfirsýn með kerfislega mikilvægum innviðum og um atvikamiðstöð fjármálainnviða.
- Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunarinnar 19. nóvember.
- Seðlabankinn hætti reglubundnum gjaldeyriskaupum.
- Á þriðja ársfjórðungi mældist 26,9 ma.kr. afgangur á viðskiptum við útlönd. Afgangurinn er mun minni en á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, þegar hann var 45,7 ma.kr. Nú jókst halli í vöruskiptajöfnuði á milli ára og það sama má segja um rekstrarframlög en afgangur jókst af þjónustujöfnuði á milli ára. Í fyrra var halli á jöfnuði frumþáttatekna, en nú mældist afgangur.
- Verðbólga á evrusvæðinu hækkaði um 0,1 prósentustig á milli mánaða í nóvember og mældist 2,2%. Mælingin var í takt við væntingar.
- Reykjavíkurborg birti uppgjör.
- Arion banki lauk sölu á sértryggðum skuldabréfum. Alma íbúðafélag og Festi luku sölu á víxlum. Lánasjóður sveitarfélaga lauk sölu á skuldabréfum. Lánamál ríkisins lauk sölu á ríkisbréfum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









