Vikan framundan
- Í dag birtir RSV kortaveltutölur fyrir febrúar.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fyrri fjármálastöðugleikaskýrslu ársins.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan tekjuskiptingaruppgjör heimilanna og Seðlabankinn birtir greiðslukortaveltu.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs í mars.
Mynd vikunnar
Mannfjöldi hér á landi var 388 þúsund 1. janúar 2023. Landsmönnum fjölgaði um 11.500 í fyrra, sem samsvarar 3,1% fólksfjölgun, sé horft til breytinga milli 1. janúar hvers árs. Þetta er mesta fólksfjölgun frá upphafi talningar, hvort sem horft er til aukningar á fjölda eða hlutfallslegrar aukningar. Metið var síðast slegið árið 2017 þegar íbúum fjölgaði um 10.100, sem samsvarar 3,0% fjölgun. Fjölgunin í fyrra skýrðist fyrst og fremst af aðflutningi erlendra ríkisborgara, en íslenskum ríkisborgurum fjölgaði um 1.500 á meðan erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 10.300 milli ársloka 2021 og 2022.
Helsta frá vikunni sem leið
- Brottfarir erlendra ferðamanna í febrúar voru 137 þúsund. Þetta er mjög svipaður fjöldi og í febrúar 2020, þ.e. síðasta mánuðinn áður en heimsfaraldurinn skall á. Ferðamenn eru enn þó nokkuð færri en á metárinu 2018 þegar 160 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í febrúar. Brottfarir Íslendinga voru 39 þúsund. Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir febrúar.
- Skráð atvinnuleysi var 3,7% í febrúar og hélst óbreytt milli mánaða. Atvinnuleysi er alla jafna mest í janúar og febrúar og má því búast við að það lækki lítillega á næstu mánuðum. Skráð atvinnuleysi hefur haldist nokkuð stöðugt á bilinu 3,3% til 3,7% síðan í júní í fyrra.
- Landsbankinn seldi sértryggð skuldabréf í evrum. Seld voru bréf að fjárhæð 300 m. evra til fimm ára og bera þau 4,25% fasta vexti. Arion banki gaf út skuldabréf í sænskum krónum að fjárhæð 300 milljónir sænskra króna og bera þau breytilega vexti sem nema 300 punkta álagi á þriggja mánaða millibankavexti í sænskum krónum.
- Síldarvinnslan birti ársuppgjör.
- Lánamál ríkisins birtu mánaðarlega rit sitt, Markaðsupplýsingar.