Vikan framundan
- Í dag birta Reitir ársuppgjör.
- Á þriðjudaginn birta Eimskip og Síminn ársuppgjör.
- Á miðvikudag birta Kvika banki, SKEL fjárfestingarfélag og Sýn ársuppgjör.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn tölur um veltu greiðslukorta.
- Í vikunni fara síðan fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs.
Mynd vikunnar
Á tímabilinu sem vextir voru hvað lægstir frá miðju ári 2020 til miðs árs 2022 voru flest ný íbúðalán óverðtryggð á meðan það var nettó uppgreiðsla á verðtryggðum íbúðalánum. Samhliða hækkandi vöxtum fóru heimilin í auknum mæli að taka verðtryggð lán og er algengasta form nýrrar lántöku nú verðtryggt lán frá banka, samkvæmt nýjustu gögnum sem ná til desembermánaðar í fyrra. Hjá lífeyrissjóðum er algengara að tekin séu óverðtryggð lán. Alls má sjá talsverðan samdrátt í nýjum útlánum miðað við fyrri mánuði sem er til marks um kólnandi íbúðamarkað.
Helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd hækkaði vexti um 0,5 prósentustig og eru meginvextir bankans, innlánsvextir á 7 daga bundnum innlánum, því komnir upp í 6,5%. Meginvextir bankans hafa ekki verið hærri síðan í ágúst 2010. Í yfirlýsingu nefndarinnar er talsvert harðari tónn en við síðustu ákvarðanir. Nú er tekið fram að peningastefnunefnd telji líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í átt að markmiði innan ásættanlegs tíma. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar okkar. Samhliða ákvörðuninni birti SÍ Peningamál með uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá.
- 121 þúsund erlendir farþegar fóru um Leifsstöð í janúar, sem eru álíka margir og í janúar 2020 en 13% færri en í janúar 2018. Bretar og Bandaríkjamenn voru langfjölmennustu hóparnir. Íslendingar slógu janúarmet í ferðalögum með 41.500 brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Áður voru brottfarirnar flestar í janúar 2019, 40.600, og í janúar 2018 voru þær 39.000.
- Skráð atvinnuleysi var 3,7% í janúar samanborið við 3,4% í desember. Þessi aukning skýrist frekar af árstíðarbundnum áhrifum en auknum slaka á vinnumarkaði, en skráð atvinnuleysi er að jafnaði mest í janúar og febrúar áður en það lækkar aftur með sumrinu. Atvinnuleysið hefur verið stöðugt síðustu mánuði. Það er lítið og fer tæpast mikið lægra í bili og er því vísbending um þá framleiðsluspennu sem ríkir í þjóðarbúinu.
- Uppgjörstímabil stendur nú yfir, en Arion banki, Festi (fjárfestakynning), Íslandsbanki, Marel (fjárfestakynning), Reginn og Sjóvá birtu ársuppgjör.
- Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir janúar.
- Á skuldabréfamarkaði hélt Reykjavíkurborg útboð, Lánamál ríkisins birtu Markaðsupplýsingar og Íslandsbanki gaf út útgáfuáætlun fyrir 2023..