Viku­byrj­un 13 fe­brú­ar 2023

Á tímabilinu sem vextir voru hvað lægstir frá miðju ári 2020 til miðs árs 2022 voru flest ný íbúðalán óverðtryggð á meðan það var nettó uppgreiðsla á verðtryggðum íbúðalánum. Samhliða hækkandi vöxtum fóru heimilin í auknum mæli að taka verðtryggð lán.
Fjölbýlishús
13. febrúar 2023

Vikan framundan

 • Í dag birta Reitir ársuppgjör.
 • Á þriðjudaginn birta Eimskip og Síminn ársuppgjör.
 • Á miðvikudag birta Kvika banki, SKEL fjárfestingarfélag og Sýn ársuppgjör.
 • Á fimmtudag birtir Seðlabankinn tölur um veltu greiðslukorta.
 • Í vikunni fara síðan fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs.

Mynd vikunnar

Á tímabilinu sem vextir voru hvað lægstir frá miðju ári 2020 til miðs árs 2022 voru flest ný íbúðalán óverðtryggð á meðan það var nettó uppgreiðsla á verðtryggðum íbúðalánum. Samhliða hækkandi vöxtum fóru heimilin í auknum mæli að taka verðtryggð lán og er algengasta form nýrrar lántöku nú verðtryggt lán frá banka, samkvæmt nýjustu gögnum sem ná til desembermánaðar í fyrra. Hjá lífeyrissjóðum er algengara að tekin séu óverðtryggð lán. Alls má sjá talsverðan samdrátt í nýjum útlánum miðað við fyrri mánuði sem er til marks um kólnandi íbúðamarkað.

Helsta frá vikunni sem leið

 • Peningastefnunefnd hækkaði vexti um 0,5 prósentustig og eru meginvextir bankans, innlánsvextir á 7 daga bundnum innlánum, því komnir upp í 6,5%. Meginvextir bankans hafa ekki verið hærri síðan í ágúst 2010. Í yfirlýsingu nefndarinnar er talsvert harðari tónn en við síðustu ákvarðanir. Nú er tekið fram að peningastefnunefnd telji líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í átt að markmiði innan ásættanlegs tíma. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar okkar. Samhliða ákvörðuninni birti SÍ Peningamál með uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá.
 • 121 þúsund erlendir farþegar fóru um Leifsstöð í janúar, sem eru álíka margir og í janúar 2020 en 13% færri en í janúar 2018. Bretar og Bandaríkjamenn voru langfjölmennustu hóparnir. Íslendingar slógu janúarmet í ferðalögum með 41.500 brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Áður voru brottfarirnar flestar í janúar 2019, 40.600, og í janúar 2018 voru þær 39.000.
 • Skráð atvinnuleysi var 3,7% í janúar samanborið við 3,4% í desember. Þessi aukning skýrist frekar af árstíðarbundnum áhrifum en auknum slaka á vinnumarkaði, en skráð atvinnuleysi er að jafnaði mest í janúar og febrúar áður en það lækkar aftur með sumrinu. Atvinnuleysið hefur verið stöðugt síðustu mánuði. Það er lítið og fer tæpast mikið lægra í bili og er því vísbending um þá framleiðsluspennu sem ríkir í þjóðarbúinu.
 • Uppgjörstímabil stendur nú yfir, en Arion banki, Festi (fjárfestakynning), Íslandsbanki, Marel (fjárfestakynning), Reginn og Sjóvá birtu ársuppgjör.
 • Icelandair og Play birtu flutningstölur fyrir janúar.
 • Á skuldabréfamarkaði hélt Reykjavíkurborg útboð, Lánamál ríkisins birtu Markaðsupplýsingar og Íslandsbanki gaf út útgáfuáætlun fyrir 2023..

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Vikubyrjun 13. febrúar 2023 (PDF)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Gata í Reykjavík
22. feb. 2024
Vísitala íbúðaverðs hækkar áfram örlítið milli mánaða
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,4% á milli mánaða í janúar. Sérbýli hækkaði um 0,1% og fjölbýli um 0,4%. Raunverð íbúða er nokkurn veginn það sama og fyrir einu ári. Undirrituðum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á milli ára síðustu fjóra mánuði eftir að hafa fækkað sífellt frá miðju ári 2021.
Bátur
19. feb. 2024
Vikubyrjun 19. febrúar 2024
Nokkur breyting hefur orðið á samsetningu vinnumarkaðarins hér á landi frá árinu 1991. Stjórnendum, sérfræðingum, sérmenntuðu starfsfólki, þjónustu- og verslunarfólki hefur fjölgað verulega á sama tíma og skrifstofufólki, bændum og fiskveiðifólki hefur fækkað.
Peningaseðlar
15. feb. 2024
Spáum áframhaldandi hjöðnun í febrúar: Úr 6,7% í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% milli mánaða í febrúar og að ársverðbólga hjaðni úr 6,7% í 6,1%. Útsölulok munu hafa mest áhrif til hækkunar á milli mánaða í febrúar, samkvæmt spánni. Þá koma gjaldskrárhækkanir á sorphirðu, fráveitu og köldu vatni inn í mælingar nú í febrúar. Lægri flugfargjöld til útlanda vega þyngst á móti hækkunum, gangi spáin eftir.
Flugvél
12. feb. 2024
Ferðamenn dvelja skemur og eyða færri krónum
Um 131 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í janúar. Þeir voru fleiri en í janúar í fyrra en færri en árin fyrir faraldur. Fjórði ársfjórðungur síðasta árs var sá fjölmennasti frá upphafi.
Smiður
12. feb. 2024
Vikubyrjun 12. febrúar 2024
Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs voru fleiri atvinnulausir á Íslandi en sem nam lausum störfum. Því var öfugt farið um mitt ár 2022 þegar spennan á vinnumarkaði var sem mest og fyrirtæki kepptust um starfsfólk. Þessi viðsnúningur er eitt merki þess að tekið sé að draga út spennu á vinnumarkaði, ekki síst vegna aukins peningalegs aðhalds.
Hús í Reykjavík
9. feb. 2024
Meirihluti útistandandi íbúðalána nú verðtryggður
Hátt vaxtastig hefur breytt samsetningu íbúðalána til heimila. Meirihluti útistandandi íbúðalána heimila er nú verðtryggður, en heimili hafa frá byrjun síðasta árs í auknum mæli fært sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð. Hrein ný íbúðalán banka og lífeyrissjóða hafa aukist frá miðju síðasta ári en drógust nú saman milli mánaða í desember.
5. feb. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - janúar 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Mynt 100 kr.
5. feb. 2024
Vikubyrjun 5. febrúar 2024
Verðbólga hefur hjaðnað síðustu mánuði, en auk þess hefur hlutfall undirliða sem hafa hækkað um meira en 10% á undanförnum 12 mánuðum fækkað.
2. feb. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 2. febrúar 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
1. feb. 2024
Spáum óbreyttu vaxtastigi í næstu viku
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku. Þótt verðbólgan fari hjaðnandi og flestir hagvísar bendi í rétta átt teljum við ólíklegt að nefndin telji tímabært að lækka vexti. Við búumst frekar við að nefndin stígi varlega til jarðar og bíði eftir auknum slaka í þjóðarbúinu, ekki síst vegna óvissu í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður og viðbrögð stjórnvalda við hamförunum í Grindavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur