Spá­um 0,5 pró­sentu­stiga hækk­un stýri­vaxta

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og stýrivaxtaákvörðun nefndarinnar verður birt miðvikudaginn 8. febrúar. Við teljum líklegast að nefndin hækki vexti bankans um 0,50 prósentur. Það má færa rök fyrir minni hækkun, en miðað við núverandi ástand, og umræðuna í þjóðfélaginu, mun nefndin líklegast líta svo á að senda þurfi skýr skilaboð um að böndum verði náð á verðbólgu.
Seðlabanki
2. febrúar 2023

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hittist í næstu viku og verður ákvörðun nefndarinnar birt miðvikudaginn 8. febrúar. Líklegast mun nefndin ræða að hækka stýrivexti um 0,25 til 0,75 prósentur. Við teljum mestar líkur á að 0,50 prósentur verði ofan á, en við útilokum ekki 0,25 eða 0,75 prósentu hækkun.  Það má alveg færa rök fyrir því að hækka bara um 0,25 prósentur en miðað við núverandi ástand og umræðuna í þjóðfélaginu væru það ekki nægilega skýr skilaboð til að senda frá sér. Það má líka færa rök fyrir því að taka stærri skref en 0,50 prósentur, það helsta sem mælir gegn því er hversu háir vextir eru orðnir nú þegar og hversu stutt er í næstu ákvörðun.

Peningastefnunefnd hefur hækkað vexti um 5,25% prósentur í yfirstandandi vaxtahækkunarferli

Á síðasta fundi nefndarinnar 21. og 22. nóvember 2022 töldu nefndarmenn að hægt væri að færa rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum og að hækka þá um 0,25 eða 0,50 prósentur. Allir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra um að hækka vexti um 0,25 prósentur, en einn nefndarmaður lét bóka að hann hefði heldur kosið að hækka vexti um 0,50 prósentur.  Á þremur af sex fundum síðasta árs hefði sá nefndarmaður kosið að hækka vexti meira en raun varð.

Vaxtaákvarðanir Peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Meginvextir
3. febrúar 2021 óbr. allir 0,75
24. mars 2021 óbr. allir 0,75
19. maí 2021 +0,25 allir GJ (+0,50) 1,00
25. ágúst 2021 +0,25 allir GJ,GZ (+0,50) 1,25
6. október 2021 +0,25 ÁJ, RS, KÓ GJ,GZ (+0,50) 1,50
17. nóvember 2021 +0,50 allir 2,00
9. febrúar 2022 +0,75 allir 2,75
4. maí 2022 +1,00 allir 3,75
22. júní 2022 +1,00 allir GZ (+1,25) 4,75
24. ágúst 2022 +0,75 allir GZ (+1,00) 5,50
5. október 2022 +0,25 allir 5,75
23. nóvember 2022 +0,25 allir GZ (+0,50) 6,00

Nóvemberfundurinn í fyrra var 10. fundurinn í röð þar sem nefndin hækkaði vexti og hefur nefndin hækkað vexti um 5,25 prósentustig í yfirstandandi vaxtahækkunarferli. Eftir ákvörðunina eru meginvextir Seðlabanka Íslands, vextir á sjö daga bundnum innlánum, 6,00%. Þetta er 0,25% hærra en þegar vextir fóru hæst á árunum 2015 og 2016. Leita þarf aftur til haustsins 2010 til að sjá svona háa vexti, en þá var skilgreiningin á meginvöxtum önnur en hún er í dag.

Verðbólgan er að verða almennari

Óhætt ert að segja að janúarmæling vísitölu neysluverðs, sem kom fyrr í vikunni, hljóti að valda nefndarmönnum miklum áhyggjum. Alls hækkaði vísitalan um 0,85% milli mánaða og jókst ársverðbólgan úr 9,6% í 9,9%. Hún er því komin aftur upp í sama gildi og í júlí í fyrra, en það var hæsta gildið í núverandi verðbólgukúf.

Það sem við erum mest uggandi yfir er að verðbólgan verður sífellt almennari. Í byrjun árs 2022 höfðu innan við  helmingur undirliða vísitölunnar hækkað um meira en 2,5% verðbólgumarkmiðið. Undirliðum sem hafa  hækkað meira en 2,5% hefur fjölgað jafnt og þétt síðan þá. Það sem er alvarlegra er að hlutfall undirliða sem hefur hækkað mun meira en 2,5% er að aukast jafnt og þétt. Af 169 undirliðum hafa 69% þeirra hækkað um meira en 5%, þar af 27% um meira en 10%. Til samanburðar var staðan sú í júlí í fyrra, þegar einnig mældist 9,9% verðbólga, að 44% undirliða höfðu hækkað um meira en 5%, þar af 17% um meira en 10%.

Þrátt fyrir þetta eru það fjórir af þessum 169 undirliðum (reiknuð húsaleiga, verð á nýjum bílum, 95 okt. bensín og díselolía) sem skýra rúmlega helming af ársverðbólgunni. Við erum því í þeirri skrýtnu stöðu að það eru fáir liðir sem valda megninu af verðbólgunni og á sama tíma er verðbólgan að dreifa sífellt betur úr sér. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að eftir því sem verðbólgan verður almennari verður erfiðara, og sársaukafyllra, að reyna að ná henni aftur niður.

Verðbólguvæntingar enn háar

Í síðustu viku fór fram ársfjórðungsleg könnun á væntingum markaðsaðila. Sú könnun fór fram áður en Hagstofan birti janúarmælingu vísitölu neysluverðs og er ekki ólíklegt að niðurstöðurnar yrðu öðruvísi væri könnunin framkvæmd núna. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfum hreyfðist það mikið daginn sem Hagstofan birti janúarmælinguna að það er erfitt að lesa annað úr því en að mælingin hafi komið markaðsaðilum á skuldabréfamarkaði verulega á óvart.

Miðað við miðgildi svara áttu markaðsaðilar almennt von á 0,25 hækkun á 1. ársfjórðungi, en tvær vaxtaákvarðanir eru á þessum fjórðungi. Tæplega 30% svarenda töldu að taumhald peningastefnunnar væri of laust eða alltof laust en 18% voru á þeirri skoðun í könnunni í nóvember í fyrra. Aukning í fjöldanum sem töldu að aðhaldið væri of laust kom líklega frá hópnum sem taldi áður að taumhaldið væri passlegt, en jafn margir töldu aðhaldið væri of þétt eða alltof þétt í þessari könnun og þeirri í nóvember.  Góðu fréttirnar í könnuninni eru að langtímaverðbólguvæntingar lækkuðu aðeins, aðra könnunina í röð. Miðað við miðgildi svara gera markaðsaðilar núna ráð fyrir að verðbólga næstu fimm ár verði 3,5% í samanburði við 3,6% í nóvember í fyrra og 3,8% í ágúst í fyrra. Hins vegar hækkaði miðgildi svara um vænta verðbólgu eftir eitt ár úr 5,1% í 5,4%.

Mismunandi vísbendingar um hvort aðhald peningastefnu hafi losnað síðan í nóvember.

Þeir mælikvarðar sem við höfum um raunstýrivexti, og um aðhald peningastefnunefndar, vísa ekki allir í sömu átt. Þegar nefndi hittist í nóvember mældist 9,4% ársverðbólga, en hún mælist núna 9,9%. Þannig að taumhald peningastefnunnar, ef miðið er við liðna verðbólgu, er nokkuð lausara en í nóvember. Verðbólguálag á skuldbréfamarkaði hefur hækkað verulega síðan nóvember á styttri endanum en er svipað á lengri endanum. Þannig að raunstýrivextir út frá verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði benda einnig til þess að aðhaldið sé lausara sé horft til skemmri tíma en svipað til lengri tíma og í nóvember. Svipaða sögu er að segja um væntingakönnun markaðsaðila, niðurstöður um vænta verðbólgu eftir eitt ár benda til að aðhaldið sé orðið lausara, en ef við skoðum meðaltal næstu 5 ár er aðhaldið þéttara. Það má því segja að horfur hafi versnað til skemmri tíma, í þeim skilningi að aðhaldið sé of laust, en eru óbreyttar til lengri tíma.

Krónan hefur veikst frá síðasta fundi nefndarinnar.

Krónan hefur átt á brattann að sækja í vetur og eru ýmsar ástæður fyrir því. Það er ekki bara hér á landi sem verðbólga er há um þessar mundir og hafa seðlabankar flest allra ríkja brugðist við með vaxtahækkunum. Við erum því í þeirri stöðu, ólíkt því sem oft var áður, að það ekki verulegur vaxtamunur við útlönd. Það er mjög ólíklegt að evrópski Seðlabankinn eða Seðlabanki Bandríkjanna séu komnir á endastöð með sínar vaxtahækkanir. Peningastefnunefnd hlýtur að horfa til þess að sá litli vaxtamunur sem er núna við útlönd megi ekki dragast saman, því það myndi þýði frekari þrýsting á krónuna, sem ynni gegn lögbundnu hlutverki nefndarinnar að reyna að ná verðbólgunni aftur niður.

Að hækka um minna en 0,50 prósentur væru skilaboð um að ástandið sé ekki alvarlegt

Það er hægt að finna til rök fyrir að halda vöxtum óbreyttum eða hækka bara um 0,25 prósentur. Það eru komin fram merki þess að það sé loks að hægja aðeins á í hagkerfinu. Þannig hefur hægt mjög á aukningu kortaveltu heimilanna síðustu mánuði og stóð kortavelta í stað milli ára að raunvirði í desember. Vísitala íbúðaverðs lækkaði milli mánaða í desember og var það þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar milli mánaða. Skráð atvinnuleysi samkvæmt Vinnumálastofnun hefur verið á mjög þröngu bili síðan í júní í fyrra og árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hefur verið óbreytt í sex mánuði.

Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að verðbólgan er komin aftur upp í 9,9% og að hlutfall undirliða sem hafa hækkað langt umfram verðbólgumarkmið er orðið mjög hátt. Nefndin þarf líka að horfa til umræðunnar í þjóðfélaginu. Umræðan um að við höfum misst tök á verðbólgunni og að búast megi við frekari verðhækkunum er orðin óþægilega hávær. Og það er, því miður, eðli verðbólgu að væntingar um aukna verðbólgu valda aukinni verðbólgu. Við teljum líklegt að nefndin vilji stíga ákveðið til jarðar núna og senda þannig frá sér skilaboð um að koma eigi böndum á verðbólguna.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Epli
11. apríl 2024
Spáum lækkun verðbólgu úr 6,8% í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% á milli mánaða í apríl og að ársverðbólgalækki töluvert, eða úr 6,8% í 6,1%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan. Apríl í fyrra var stór hækkunarmánuður og þar sem við gerum ráð fyrir töluvert minni mánaðarhækkun nú lækkar ársverðbólga töluvert. Á móti gerum við ekki ráð fyrir því að verðbólga lækki mikið næstu mánuði þar á eftir og búumst við því að hún verði 5,9% í júlí.
Gönguleið
8. apríl 2024
Vikubyrjun 8. apríl 2024
Um 14% fleiri ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar síðastliðnum en í febrúar í fyrra. Ferðamenn gistu þó skemur en áður, því skráðum gistinóttum fækkaði um 2,7% á milli ára í febrúar.
3. apríl 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. apríl 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
2. apríl 2024
Vikubyrjun 2. apríl 2024
Um 30% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum, samkvæmt nýjustu könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem var framkvæmd í mars. Hlutfallið eykst úr 23% frá síðustu könnun sem var gerð í desember.  
Íbúðir
26. mars 2024
Hækkandi íbúðaverð kyndir undir verðbólgu
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða í mars og við það jókst ársverðbólga úr 6,6% í 6,8%. Langmest áhrif til hækkunar í mælingunni má rekja til hækkunar á íbúðaverði, og þá sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Verð á nýjum bílum hafði mest áhrif til lækkunar í mars.
Seðlabanki
25. mars 2024
Vikubyrjun 25. mars 2024
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti á miðvikudag að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 9,25%. Ákvörðunin var í samræmi við spá okkar, en tónninn í yfirlýsingunni var harðari en við bjuggumst við.
Ferðamenn
18. mars 2024
Vikubyrjun 18. mars 2024
Gögn síðasta árs benda til þess að þeir ferðamenn sem hingað komu hafi að meðaltali dvalið skemur en árið á undan en aftur á móti eytt meiru á dag.
Vélsmiðja Guðmundar
15. mars 2024
Að flytja út „annað“ er heldur betur að skila sér
Útflutningur hefur alltaf verið mjög mikilvægur fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag. Lengst af var fiskurinn okkar aðal útflutningsvara, svo bættist álið við og nú síðasta áratuginn eða svo hefur ferðaþjónusta rutt sér til rúms og er orðin stærsta einstaka útflutningsvara Íslendinga. Á síðustu árum hefur annar útflutningur, þ.e. útflutningur sem ekki heyrir undir neinn þessara flokka, vaxið hratt og raunar hraðar en ferðaþjónustan, þó faraldurinn torveldi samanburðinn aðeins.
Fjölbýlishús
14. mars 2024
Spáum 6,6% verðbólgu í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,57% milli mánaða í mars og að ársverðbólga verði óbreytt í 6,6%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, föt og skór og matarkarfan. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega næstu mánuði og verði komin niður í 5,4% í júní.
14. mars 2024
Óbreytt vaxtastig en bjartur tónn
Þrátt fyrir hjaðnandi verðbólgu og sátt um langtímakjarasamning á stórum hluta vinnumarkaðar teljum við að peningastefnunefnd haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku, fjórða skiptið í röð. Verðlag hækkaði umfram væntingar í febrúar og verðbólguvæntingar hafa lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar. Auk þess ríkir enn óvissa um framvindu kjarasamninga annarra hópa. Við teljum þó að tónninn í yfirlýsingunni verði bjartari en verið hefur og að vaxtalækkun kunni að vera handan við hornið.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur