Vikan framundan
- Í dag birtir Ferðamálastofa tölur yfir fjölda ferðamanna í nóvember.
- Á þriðjudag lýkur verðkönnunarviku Hagstofunnar.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan gögn úr tekjuskiptingaruppgjöri heimilageirans á 3. ársfjórðungi.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn gögn um greiðslumiðlun í nóvember.
Mynd vikunnar
Íbúðamarkaður hefur tekið við sér í vetur og íbúðaverð hækkað á ný. Þrátt fyrir takmarkað aðgengi að lánsé fjölgaði fyrstu kaupendum um 40% milli annars og þriðja ársfjórðungs og hlutfall þeirra af öllum kaupendum hækkaði úr 26% í 33%. Hlutfallið er nú svipað og í faraldrinum þegar vextir voru hvað lægstir og fjöldi fólks sá sér skyndilega fært að komast inn á markaðinn. Ýmsir þættir kunna að spila inn í, t.d. fjölgaði hlutdeildarlánum á þriðja ársfjórðungi eftir að skilyrði fyrir slíkri lántöku voru útvíkkuð, en lánin eru einmitt ætluð til að aðstoða fyrstu kaupendur inn á markaðinn. Þá kann að vera að umræða um yfirvofandi íbúðaskort og verðhækkanir kyndi undir eftirspurn. Einnig er hugsanlegt að jákvæðari umfjöllun um verðtryggð lán auki vinsældir þeirra, en verðtryggð lántaka hefur færst mjög í aukana á síðustu mánuðum.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabankinn birti fundargerð fundar peningastefnunefndar 20.-21. nóvember. Í fyrsta sinn frá því í mars voru allir nefndarmenn sammála um vaxtaákvörðunina. Ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum í ljósi óvissu tengdri jarðhræringum á Reykjanesskaga. Í fundargerðinni kemur fram að í ljósi verri verðbólguhorfa og þó nokkurs krafts í efnahagslífinu hefði líklega verið rétt að hækka vexti enn frekar ef ekki væri fyrir þessa óvissu.
- Fjármálastöðugleikanefnd birti yfirlýsingu þar sem fram kemur að fjármálakerfið sé traust og eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna sterk. Vanskil séu lítil og hafi aukist óverulega þrátt fyrir aukna verðbólgu. Ákveðið var að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.
- Skráð atvinnuleysi var 3,4% í nóvember samkvæmt mánaðarskýrslu sem Vinnumálastofnun birti á föstudag. Atvinnuleysi jókst úr 3,2% í október. Í fyrra hélst atvinnuleysi óbreytt milli október- og nóvembermánaðar. Því má hugsast að aukningin nú skýrist af lítillega minni spennu á vinnumarkaði í takt við lægri eftirspurnarþrýsting í hagkerfinu.
- Alma íbúðafélag lauk sölu á víxlum, Hagar birtu niðurstöðu víxlaútboðs, Arion banki birti niðurstöðu útboðs almennra skuldabréfa og Kvika banki birti niðurstöðu útboðs víkjandi skuldabréfa. ÍL-sjóður birti niðurstöður tveggja skiptiútboða.