Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Á öðrum ársfjórðungi mældist 34 ma.kr. halli á viðskiptum við útlönd samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti fyrr í vikunni. Það var nokkur afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlög. Þetta er sjötti ársfjórðungur í röð sem afgangur mælist af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum og halli á vöruskiptum og rekstrarframlög.
Mun verri niðurstaða en í fyrra
Á sama ársfjórðungi í fyrra mældist 6 ma.kr. afgangur af viðskiptum við útlönd. Þetta er því 37 ma.kr. verri niðurstaða en þá. Munar langmestu um að afgangurinn af þjónustujöfnuði dróst saman um 22 ma.kr. á milli ára, en auk þess jókst hallinn af vöruskiptajöfnuði um 7 ma.kr., afgangurinn af frumþáttatekjum dróst saman um 6 ma.kr. og hallinn af rekstrarframlögum jókst um 2 ma.kr. Nánar er farið í vöru- og þjónustujöfnuður í Hagsjá sem við birtum í síðustu viku.
Athygli vekur að krónan styrktist lítillega á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir þennan mikla halla, en evran stóð í 148,9 krónum í lok fjórðungsins samanborið við 149,9 krónur í upphafi hans. Skýrist það líklega af því að greiðsluflæði fylgir ekki endilega öllum viðskiptum sem koma fram í viðskiptajöfnuði.
Erlend staða þjóðarbúsins versnaði lítillega
Í lok annars ársfjórðungs var hrein erlend staða þjóðarbúsins 1.705 ma.kr. sem samsvarar 39% af vergri landsframleiðslu. Hrein staða versnaði um 47 ma.kr. á fjórðungnum, en er engu að síður betri en á sama tíma í fyrra. Almennt skýrast breytingar á erlendri stöðu annars vegar af fjármagnsjöfnuði (t.d. ef innlendur aðili kaupir erlendar eignir eða tekur erlent lán) og hins vegar af gengis- og verðbreytingum (t.d. ef erlend hlutabréf í eigu innlendra aðila hækka eða lækka í verði í krónum). Að þessu sinni hafði fjármagnsjöfnuðurinn 40 ma.kr. áhrif til lækkunar á hreinni erlendri stöðu en gengis- og verðbreytingar höfðu 24 ma.kr. áhrif til hækkunar. Báðar stærðir eru frekar lágar í sögulegu samhengi, en gengis- og verðbreytingar höfðu 196 ma.kr. áhrif til hækkunar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og 246 ma.kr. áhrif til hækkunar á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Erlendar eignir jukust síðan um 88 ma.kr. og erlendar skuldir um 119 ma.kr. vegna „annarra breytingar“ samkvæmt gögnum Seðlabankans.
Eignir nú meiri en skuldir
Sögulega séð hefur íslenska þjóðarbúið alltaf skuldað meira en það hefur átt erlendis. Það varð breyting þar á með uppgangi ferðaþjónustunnar og mældust erlendar eignir meiri en erlendar skuldir í fyrsta sinn í lok árs 2016. Til að setja stöðuna núna í alþjóðlegt samhengi má geta þess að hrein erlend staða þjóðarbúsins er mjög svipuð og í Danmörku og Svíþjóð, sem hlutfall af landsframleiðslu.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.