Hætt við að að­hald­ið dugi skammt gegn verð­bólgu

Ekki er gert ráð fyrir að það takist að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs fyrr en árið 2028 og þá aðeins örlítið, samkvæmt nýrri ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin kynnti í apríl. Þá er áætlaður hægur afkomubati og að ríkissjóður verði rekinn með halla til ársins 2028. Það er eðlilegt að staldra við þegar ríkissjóður er rekinn með viðvarandi halla í efnahagsuppsveiflu, en á sama tíma ber að taka tillit til þess að viðsnúningur eftir faraldurinn taki einhvern tíma. 
9. maí 2023

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að ekki takist að rétta ríkisreksturinn við fyrr en árið 2028, ári fyrr en gert var ráð fyrir í síðustu fjármálaáætlun. Nú er áætlað að hallinn verði 0,1 milljarður króna árið 2027 en í síðustu fjármálaáætlun var gert ráð fyrir 25 milljarða króna halla það ár. Aðhald var því aukið lítillega milli áætlana.

Fjárfestingarverkefnum frestað

Samhliða útgáfu áætlunarinnar var tilkynnt að fjárfestingarverkefnum sem ekki væru komin til framkvæmda yrði frestað, með það fyrir augum að draga úr þenslu og slá á verðbólgu. Ef fjármálaáætlunin er borin saman við þá síðustu er þó ekki að sjá að þær aðhaldsaðgerðir hafi teljanleg áhrif á ríkisreksturinn þar sem afkoma breytist lítið milli áætlana. Við teljum því ólíklegt að þær skili tilætluðum árangri í því að slá á verðbólgu.

Það vekur athygli að ríkissjóður skuli vera rekinn með viðvarandi halla í uppsveiflu í stað þess að ríkið haldi að sér höndunum til þess að eiga kost á því að auka útgjöld síðar ef harðnar í ári. Hallarekstur er í eðli sínu þensluhvetjandi og því óæskilegur í mikilli verðbólgu. Ef útgjöld ríkissjóðs eru meiri en tekjurnar hefur ríkisreksturinn áhrif til þess að auka eftirspurn í hagkerfinu frekar en að draga úr henni.

Þó ber að hafa í huga að ríkissjóður tók á sig þungar byrðar í Covid-faraldrinum. Það sést ekki síst á því hversu skyndilega skuldahlutfall ríkissjóðs hækkaði, úr 22% árið 2019 en í 33% árið 2021. Það er eðlilegt að það taki tíma að snúa ríkisrekstrinum við eftir þær óvenjulegu aðstæður sem faraldurinn olli. Auk þess er erfiðara að draga úr hallanum þegar vaxtakostnaður ríkissjóðs hækkar með síhækkandi vaxtastigi, eins og fjallað er um nánar hér að neðan.

Vandasamt að draga úr samneyslu

Þegar kemur að aðhaldsaðgerðum er vandasamara að draga úr samneyslu en að minnka opinbera fjárfestingu og því hafa stjórnvöld frekar skorið niður í útgjöldum til fjárfestingar heldur en samneyslu. Opinber fjárfesting jókst mjög á árunum 2017 og 2018 en minnkaði svo um 10% árið 2019 og um 5% árið 2020. Hún jókst svo um 19% árið 2021 en dróst saman um 0,9% í fyrra.

Í nýjustu þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar reiknum við með að opinber fjárfesting dragist saman um 3% í ár frá síðasta ári, aukist svo um 3% árið 2024 og um 2% árið 2025. Aukningin á næsta og þarnæsta ári skýrist fyrst og fremst af því að áætlað er að frekari þungi færist í fjárfestingu í tengslum við byggingu nýs Landspítala. Ríkisstjórnin hefur gefið út áætlun um að fjárfesting í uppbyggingu spítalans aukist um u.þ.b. helming á næsta ári, minnki svo örlítið árið 2024 og nái hámarki í um 31 milljarði króna árið 2026.  Hlutfall opinberrar fjárfestingar í landsframleiðslu mun lækka þó nokkuð á næstu árum, gangi spá okkar eftir.

Hlutur samneyslu í landsframleiðslu fór upp í 28% í faraldrinum, bæði vegna þess að samneysla jókst og landsframleiðsla minnkaði. Síðan hefur hlutfallið minnkað og var 26% í fyrra. Á síðasta ári jukust útgjöld til samneyslu um 1,6% og þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda til að sporna gegn þenslu teljum við að samneysluútgjöld aukist áfram lítillega á milli ára, aftur um 1,6% á þessu ári og 1,7% bæði árið 2024 og 2025. Hafa ber í huga að magnaukning um 1,6%, eins og mældist á síðasta ári, er samdráttur þegar litið er til samneyslu á hvern landsmann þar sem landsmönnum fjölgaði um 3% á síðasta ári. Við búumst við því að hlutur samneyslu í hagvexti fari nokkuð ört minnkandi, þar sem samneyslan eykst hlutfallslega minna en hagvöxtur.

Háir vextir setja mark sitt á ríkissjóð

Ríkissjóður fer ekki varhluta af háu vaxtastigi og gert er ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs haldist í kringum 100 milljarða árlega til ársins 2028.

Í nýju fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að vaxtajöfnuður ársins 2023 verði tæpum 20 milljörðum krónum lægri en áætlað var í síðustu fjármálaáætlun og 0,3% lægri árið 2024. Á þessu ári er jöfnuðurinn áætlaður neikvæður um tæpa 80 milljarða króna, en til samanburðar var hann neikvæður um um það bil 50 milljarða króna árin 2020 og 2021.

Staða ríkissjóðs hefur batnað eftir að faraldurinn leið undir lok, enda til mikils að vinna að draga úr þenslu. Seðlabankinn kallar eftir því að ríkisfjármálin vinni með peningastefnunni að því að auka aðhald í hagkerfinu en á tímum verðbólgu og hás vaxtastigs geta einnig borist kröfur úr ýmsum áttum um þátttöku ríkissjóðs. Því er brýnt að forgangsraða og skýrari mynd af forgangsröðuninni fæst með fjárlagafrumvarpi í haust.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Ferðamenn
17. mars 2025
Vikubyrjun 17. mars 2025
Við búumst við að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn. Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs og við spáum því að verðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Atvinnuleysi var 4,3% í febrúar og hækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára. 147 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar, 5,6% færri en í sama mánuði í fyrra.
Seðlabanki
13. mars 2025
Spáum vaxtalækkun um 0,25 prósentustig
Við spáum 0,25 prósentustiga vaxtalækkun í næstu viku. Verðbólga hjaðnaði um 0,4 prósentustig í febrúar en við teljum að hagvöxtur umfram væntingar og aukin neysla, lítil breyting á verðbólguvæntingum og ólga á vinnumarkaði haldi peningastefnunefnd á tánum.
13. mars 2025
Spáum verðbólgu undir 4% í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars og að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnun á milli mánaða skýrist ekki síst af töluvert minni hækkun á reiknaðri húsaleigu en fyrir ári síðan. Við gerum ekki ráð fyrir miklum breytingum á verðbólgu næstu mánuði og teljum að hún verði áfram rétt undir 4% í júní.
Flutningaskip
10. mars 2025
Vikubyrjun 10. mars 2025
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra og sömuleiðis á vöruviðskiptum í febrúar samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti í síðustu viku, eins og við var búist. Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir marsmælingu vísitölu neysluverðs, Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.
Sendibifreið og gámar
7. mars 2025
Verri niðurstaða í viðskiptum við útlönd
Verulegur halli mældist á viðskiptum við útlönd í fyrra, en stór hluti hans var vegna færslna sem höfðu ekki í för með sér gjaldeyrisflæði og styrktist krónan því þrátt fyrir þetta og erlend staða þjóðarbúsins batnaði.
3. mars 2025
Fréttabréf Greiningardeildar 3. mars 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Peningaseðlar
3. mars 2025
Vikubyrjun 3. mars 2025
Verðbólga lækkaði úr 4,6% í 4,2% í febrúar, en við teljum að heldur muni draga úr lækkunartakti verðbólgu næstu mánuði. Hagvöxtur mældist 2,3% á fjórða ársfjórðungi 2024 og 0,6% fyrir árið í heild. Umsvif í hagkerfinu voru umfram spár, en Hagstofan færði upp hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins. Í vikunni fram undan eru nokkur uppgjör, Seðlabankinn birtir greiðslujöfnuð við útlönd og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
28. feb. 2025
Hagvöxtur var 0,6% í fyrra
Hagvöxtur var 0,6% árið 2024. Krafturinn í hagkerfinu var lítillega umfram flestar spár sem gerðu heldur ráð fyrir lítils háttar samdrætti. Hagvöxturinn var ekki síst drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði í atvinnuvegum og íbúðauppbyggingu.
Epli
27. feb. 2025
Verðbólga hjaðnar í 4,2%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli mánaða í febrúar, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 4,6% í 4,2%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði, þó það hægi á lækkunartaktinum, og mælist 3,8% í maí.
Fiskveiðinet
24. feb. 2025
Vikubyrjun 24. febrúar 2025
Í vikunni birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs og þjóðhagsreikninga fyrir lokafjórðung síðasta árs. Í síðustu viku uppfærði Hafrannsóknarstofnun ráðleggingar um loðnuafla en samkvæmt því munu íslensk skip fá um 4,6 þúsund tonn. Í síðustu viku bárust einnig gögn um greiðslukortaveltu landsmanna í janúar sem var 6,5% meiri að raunvirði en árið áður. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5% á milli mánaða í janúar, en svo mikið hefur hún ekki hækkað síðan í febrúar 2024.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur