Ferða­þjón­ustu­ráð­stefna Lands­bank­ans 2019

Landsbankinn hélt ráðstefnu um stöðu og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi fimmtudaginn 26. september 2019 í Silfurbergi Hörpu.
Umræður á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans 2019
27. september 2019 - Landsbankinn

Ný greining Hagfræðideildar á stöðu og horfum í ferðaþjónustu var kynnt á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans þann 26. september 2019.

Greiningin er aðgengileg í Tímariti Landsbankans og þar má einnig sjá viðtöl við fólk í ferðaþjónustunni.

Á þessari síðu eru birtar upptökur frá ráðstefnunni, glærukynningar fyrirlesara og útdrættir úr erindum.

Setning ráðstefnu

Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, ræddi m.a. um mikinn vöxt ferðaþjónustu, úr því að skapa 20% útflutningstekna árið 2010 í um 40% útflutningstekna. Ferðaþjónustan væri orðin það stór að sem atvinnugrein keppi hún nú af meiri krafti við aðrar atvinnugreinar um auðlindir landsins. „Á nýliðinni ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna þar sem Landsbankinn skrifaði undir viðmið um ábyrgan bankarekstur dró ég upp þá mynd að á Íslandi stæðum við í raun frammi fyrir því vali að „virkja foss“ til þess annars vegar að horfa á og bjóða gestum að njóta með okkur eða hins vegar að virkja hann til þess að mæta aukinni þörf fyrir raforku,“ sagði hún. Nauðsynlegt væri að gera sér grein fyrir því að allar ákvarðanir, líka í bankaþjónustu, fælu í sér nýtingu auðlinda.

Vöxturinn í ferðaþjónustu hefði verið ævintýralegur og verðskuldaður. „Í Landsbankanum höfum við stutt vel við ferðaþjónustu og trúum á framtíðina. Ein áskorun sem við stöndum frammi fyrir í bankanum, ásamt öðrum sem eru að fjárfesta í vexti í ferðaþjónustu, er að gögn og áreiðanlegar upplýsingar um ferðamenn eru enn af skornum skammti. Með því að halda ráðstefnu sem þessa viljum við í Landsbankanum leggja okkar á vogaskálarnar til að bæta og þroska upplýsingagjöf og hlúa þannig að framtíðinni,“ sagði hún.

Við vertíðarlok - staða og horfur í ferðaþjónustunni

Dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, hóf erindi sitt á því að benda á að frá árinu 1949 hefðu samtals rúmlega 20 milljónir erlendra ferðamanna komið til Íslands. Það væri sláandi að sjá að undanfarin níu ár hefðu rúmlega helmingi fleiri (55%) erlendir ferðamenn heimsótt Ísland en 62 árin þar á undan samanlagt. Vöxturinn undanfarin ár væri ævintýralegur en nú hefðu orðið tímamót. Á árinu 2018 hefði ferðamönnum fjölgað alla mánuði ársins, nema í apríl þegar þeim fækkaði um 4%. „Það sem af er þessu ári hefur erlendum ferðamönnum fækkað í hverjum mánuði miðað við fyrra ár. Á fyrstu átta mánuðum ársins nam fjöldi erlendra ferðamanna nálægt 1,4 milljónum og fækkaði þeim um 214 þúsund, eða um rúmlega 13%, samanborið við sama tímabil í fyrra. Fækkun ferðamanna skýrist fyrst og fremst af gjaldþroti WOW air,“ sagði Daníel.

Bandarískum, kanadískum, breskum og sænskum ferðamönnum fækkaði mest, en fækkunin hjá fyrstnefndu þjóðunum þremur skýrir um 83% af heildarfækkuninni. Ferðmönnum frá þremur löndum fjölgaði - Rússlandi, Kína og Ítalíu - en alls fjölgaði ferðamönnum frá þessum löndum um rúmlega 11 þúsund.

„Þegar erlendum ferðamönnum fækkar um rúmlega 13% milli ára þá kemur ekki á óvart að heildarfjöldi gistinátta útlendinga dragist saman. Fyrstu sjö mánuði ársins fækkaði skráðum gistinóttum um 1,8% en sé einnig tekið tillit til óskráðra gistinátta var samdrátturinn nálægt 4%. En þar sem fækkun gistinátta er mun minni en fækkun ferðmanna blasir við að dvalartími ferðamanna hefur lengst,“ sagði Daníel.

Í erindi sínu fjallaði Daníel ítarlega um gistimarkaðinn. Hann benti m.a. á að fjöldi hótelherbergja á heilsárshótelum hefur fjórfaldast frá síðustu aldamótum, úr 2.500 í rúmlega 10.000. Á sama tíma fjölgaði erlendum ferðamönnum áttfalt. Herbergjanýting hefði dalað frá árinu 2017 sem skýrist líklega að hluta af sterkri innkomu Airbnb inn á gistimarkaðinn. Nýtingin væri enn góð, óskráð gisting, s.s. í gegnum Airbnb, hefði hins vegar gefið meira eftir. „Haldi þessi þróun áfram, þ.e.a.s. að fækkun ferðamanna komi einkum niður á fækkun gistinátta í óskráðri gistingu, munu áhrif brotthvarfs WOW air á íslensk hótel og gistiheimili ekki verða jafn mikil og ætla hefði mátt í fyrstu. Þannig má áfram gera ráð fyrir að fækkun erlendra ferðamanna næstu mánuði muni ekki skila sér í samsvarandi fækkun gistinátta erlendra ferðamanna. Hótelin geta í raun fjölgað gistinóttum umtalsvert þrátt fyrir fækkun ferðamanna ef þau ná að saxa á markaðshlutdeild óskráðrar gistingar í gegnum vefsíður á borð við Airbnb,“ sagði Daníel.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Daníel einnig um tengsl gengis og raungengis krónunnar við ferðaþjónustu, heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar, neyslu ferðamanna, starfsfólk í ferðaþjónustu og veltu fyrirtækja í greininni. Hann lauk fyrirlestri sínum á spá til næstu ára. „Við spáum því að fjöldi erlendra gesta sem sækja mun landið heim með flugi á þessu ári verði rúmlega 2 milljónir og að þeim fækki um tæplega 14% frá fyrra ári. Á næsta ári spáum við 3% fjölgun erlendra ferðamanna. Horfur eru heldur óljósari fyrir árið 2021. Með fyrirvara um fjölda óvissuþátta, sem bæði geta aukið og dregið úr straumi ferðamanna til landsins, gerum við ráð fyrir 5% fjölgun ferðamanna það ár. Gangi spáin eftir verður fjöldi erlendra ferðamanna árið 2021 um 2,2 milljónir sem er svipaður fjöldi og árinu 2017,“ sagði Daníel.

Erfitt ár en víða vöxtur og bjartsýni

Gústaf Steingrímsson, sérfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði um niðurstöður könnunar sem Gallup framkvæmdi fyrir Hagfræðideildina í september. Könnunin var send til 350 fyrirtækja sem eru aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar. Þau voru spurð ýmissa spurninga er snúa að rekstri þeirra, áhrifunum af gjaldþroti WOW air og væntingum þeirra til komandi missera. Af þeim 350 aðildarfélögum sem fengu könnunina svöruðu 115.

Meðal þess sem kom fram í könnuninni er að tæplega 40% fyrirtækja í ferðaþjónustu telja sig ekki hafa orðið fyrir neinu tekjutapi vegna falls WOW air. „Þessi niðurstaða kemur eilítið á óvart en það verður að segjast að mat á þessum áhrifum er ekki einfalt þar sem bæði gengisstyrking krónunnar milli ára og aukin neysla erlendra ferðamanna í þeirra eigin mynt eftir fall WOW air kann að skekkja mat fyrirtækjanna,“ sagði Gústaf.

Meiri áhrif á fyrirtæki sem reiddu sig á bandaríska og kanadíska ferðamenn

Fall WOW air leiddi til meiri fækkunar bandarískra og kanadískra ferðamanna en evrópskra vegna mun hærri hlutdeildar WOW air yfir Atlatshafið en til Evrópu. „Áhrif falls WOW air á fyrirtæki í ferðaþjónustu munu því hafa ráðist að töluverðu leyti af vægi Bandaríkjamanna og Kanadamanna í kúnnahópi fyrirtækjanna fyrir gjaldþrotið,“ sagði Gústaf.

Áhrifin af falli WOW air virðast hafa komið harðast niður á fyrirtækjum á suðvesturhorni landsins. Þannig var hlutfall fyrirtækja sem varð fyrir tekjusamdrætti hæst á Suðurnesjum, eða 90%, en næsthæst á höfuðborgarsvæðinu, eða 78%. Fyrirtæki á Austurlandi og Norðurlandi fundu minnst fyrir samdrættinum.

Gústaf fjallaði einnig um þá ákvörðun Icelandair að auka vægi erlendra ferðamanna á kostnað skiptifarþega í sínu flugi sem hefði dregið töluvert úr áhrifunum af falli WOW air.

Telja áhrifin af kjarasamningum meiri en af falli WOW air

Rauði þráðurinn í kjarasamningunum í vor voru krónutöluhækkanir sem höfðu þau áhrif að lægstu launin hækkuðu hlutfallslega mest. Gústaf benti á að töluverður hluti af starfsfólki í ferðaþjónustu fengi laun sem væru undir meðallagi. Því mætti ætla að ferðaþjónustan hefði fundið meira fyrir þessum kjarasamningum en margar aðrar atvinnugreinar. „Margir höfðu haft áhyggjur af miklum launahækkunum en niðurstaða kjarasamninga var fremur hófstillt. Því kemur það nokkuð á óvart hversu hátt hlutfall fyrirtækja í ferðaþjónustu taldi sig þurfa að grípa til uppsagna vegna þeirra en 46%, eða tæplega helmingur, telur sig hafa þurft að segja upp einhverjum hluta stöðugilda vegna samninganna. Til samanburðar var hlutfall fyrirtækja sem greip til uppsagna vegna falls WOW air mun minna, eða 28%, og áhrif kjarasamninga á uppsagnir því mun víðtækari en af falli WOW air [skv. könnuninni].“

Beinu áhrifin af beinu flugi

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is, fjallaði um þau miklu áhrif sem eru af beinu flugi til og frá landinu. Hann ræddi m.a. um muninn á erlendu flugfélögunum og þeim íslensku (fram að falli WOW air). Erlendu flugfélögin flyttu fáa tengifarþega og hlutfall Íslendinga um borð í flugvélum þeirra væri lágt. Þau flyttu sem sagt einkum erlenda ferðamenn til og frá landinu. Þau hefðu líka fremur lítinn áhuga á íslenska markaðnum og auglýstu lítið sem ekkert á Íslandi.

Kristján ræddi um mikilvægi þess að fá erlend flugfélög til landsins. Skýrasta dæmið um mikilvægi erlendra flugfélaga væru áhrifin af vetrarflugi easyJet til Íslands sem hófst árið 2012. Áhrifin hefðu orðið þau að nú kæmu fleiri breskir ferðamenn til landsins að vetrarlagi en að sumarlagi. Raunar kæmu fleiri breskir ferðamenn í febrúar en koma samanlagt í júní, júlí og ágúst. „Þetta er ótrúleg breyting og skrifast á aukið framboð á flugi. Og ekki bara frá easyJet. Icelandair hefur líka bætt í flugferðir til Bretlands, WOW air gerði það líka. Svo hafa flugfélög eins og flybe og Norwegian spreytt sig á Íslandsflugi frá Bretlandi. British Airways hóf síðan að fljúga til Íslands fyrir þremur eða fjórum árum síðan. En það er svolítið magnað að samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá British Airways voru Kínverjar stærsti hópurinn um borð í vélunum fyrsta veturinn sem það flaug til landsins,“ sagði hann. Þetta sýndi að þegar stór flugfélög sem bjóða upp á flug um allan heim byrja að fljúga til Íslands getur það haft mikil áhrif á samsetningu ferðamanna sem koma til landsins.

Kristján rakti fleiri dæmi um mikil áhrif af beinu flugi til landsins, s.s. til og frá Róm, Moskvu og nokkurra borga á Spáni. Hann fjallaði einnig um mikinn slag um Dallas-flugið sumarið 2018 þegar Icelandair, WOW air og American Airlines buðu öll upp á flug til og frá borginni. Áhrifin hefðu orðið þau að sumarið og haustið 2018 komu um 24.000 ferðamenn frá Dallas til Íslands. Til samanburðar komu 21.000 ferðamenn frá Sviss á sama tíma. Þessi óvænta aukning í flugsamgöngum til Dallas hefði því haft gríðarleg áhrif. Nú hefði Icelandair og auðvitað WOW air hætt Dallas-flugi og American Airlines væri á sömu buxunum.

Kristján benti að lokum á að mikilvægt væri að erlendu flugfélögin drægju ekki meira úr Íslandsflugi en þau hefðu þegar gerð enda hefði lítið verið fyllt upp í það skarð sem WOW air skyldi eftir sig. Þá benti hann á að íslensku félögin hefðu sótt myndarlega styrki út í heim fyrir flugi. „Gæti sama þróun orðið hér,“ spurði Kristján.

Sjálfbærni er samnefnari

Pétur Þorsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, fjallaði um stefnumótun Íslandsstofu sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum og hvað hún hefur leitt í ljós varðandi stöðu Íslands á neytendamarkaði, m.a. á ferðamarkaði.

Pétur sagði ljóst að jákvæð ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og skýr mörkun geta skapað umtalsverðan virðisauka fyrir íslenskan útflutning og opnað brautir inn á nýja markaði. Því væri mikilvægt að móta framtíðarstefnu um mörkun fyrir Ísland, þ.e.a.s. hvert væri „vörumerki“ Íslands til framtíðar. Þessi mörkun þyrfti að hafa breiða skírskotun fyrir útflutningsgreinar. Við stefnumótun Íslandsstofu hefði komið í ljós að Ísland væri að stærstum hluta þekkt sem áfangastaður ferðamanna, sem hefði ekki komið sérstaklega á óvart. Markmiðið væri að Ísland yrði ekki einungis þekkt fyrir fallega náttúru og sem ferðamannastaður, heldur einnig fyrir fleiri verðmætar víddir, ekki síst á sviði hugvits, nýsköpunar, tækni og viðskipta.

Pétur benti á að mörkunin fyrir íslenskan útflutning á breiðum grundvelli þyrfti að falla að viðhorfum og hagsmunum allra atvinnugreina. Hún þyrfti jafnframt að höfða til margra markhópa, s.s. ferðamanna, sérfræðimenntaðs starfsfólks, kaupenda að íslenskum vörum, söluaðila og fjárfesta.

„Þannig að við erum að leita að samnefnara. Og þá er mjög mikilvægt að falla ekki í þá gryfju að leita að lægsta mögulega samnefnaranum,“ sagði Pétur.

Leitin að þessum samnefnara fólst m.a. í víðtæku samráði við hagsmunaaðila, rannsóknarvinnu og ítarlegri greiningu. Haldnar voru vinnustofur um allt land og rætt var við yfir 350 hagaðila. Pétur sagði frá því að á vinnustofunum var fólk beðið um að nefna þau þrjú orð sem þau teldu að lýstu best núverandi ímynd Íslands á erlendum mörkuðum og einnig þau þrjú orð þau vildu helst að útlendingar tengdu við Ísland til framtíðar litið. Þau orð sem voru oftast nefnd í framtíðarsýninni voru sjálfbærni, náttúra, gæði og hreinleiki. Sjálfbærni stóð þó upp úr.

Pétur benti á að misjafnt væri eftir atvinnugreinum hversu vel þær gætu tengt við þá ímynd Íslands að hér er óspillt náttúra. Sú ímynd hefði t.a.m. fremur lítið að segja fyrir hátæknifyrirtæki og fyrirtæki í líf- og heilbrigðistækni. Á hinn bóginn myndi það gagnast fyrirtækjum í öllum greinum atvinnulífsins ef Ísland væri tengt við sjálfbærni. „Og við höfum góða sögu að segja. Við mælum þessa þætti og við höfum mjög sterka stöðu þegar kemur að sjálbærni meðal þjóða,“ sagði Pétur.

Hann fjallaði töluvert um aukna áherslu neytenda á umhverfismál og sjálfbærni. Í þessu breytta viðhorfi fælust mikil tækifæri fyrir Ísland. Neytendur væru tilbúnir til að greiða meira fyrir vöru og þjónustu sem stæðu fyrir gæði og munað, einfölduðu lífið, stuðluðu að betri heilsu og – síðast en ekki síst - færu betur með umhverfið og væru framleiddar með mannúðlegum hætti. Þessi aukna áhersla á umhverfismál passaði mjög vel við þann markhóp sem íslensk ferðaþjónusta hefði lagt áherslu á. Til framtíðar væri gott að markaðssetja Ísland sem sjálfbært land, sem gott er að búa í og gott er að ferðast til.

Pallborðsumræður um framtíðarhorfur ferðaþjónustu og flugrekstrar á Íslandi

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, tóku þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni.

Bjarnheiður sagði ljóst að staða ferðaþjónustunnar í dag væri mun betri en útlit var fyrir þegar WOW air varð gjaldþrota í mars 2019. „Það virðist hafa unnið varnarsigur,“ sagði hún. Bogi tók undir þetta og sagði að staðan væri góð. Þótt ferðamönnum hefði fækkað hefðu tekjur á hvern ferðamann aukist og kannanir sýndu að þeir væru ánægðari með heimsóknina en áður. „Staðan er að mínu mati betri og sjálfbærari en fyrir ári síðan,“ sagði hann. Sveinbjörn tók einnig undir þessi orð og benti m.a. á að tekjur af verslun, á hvern farþega, hefðu aukist á Keflavíkurflugvelli.

Í pallborðsumræðunum var rætt um söfnun og birtingu upplýsinga um ferðaþjónustuna, áhrifin af kyrrsetningu Boeing 737 MAX flugvéla Icelandair, uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, áhrif nýrra kjarasamninga á ferðaþjónustufyrirtæki, gengi krónunnar, samsetningu ferðamanna, fjárfestingar í ferðaþjónustu, skattheimtu og ýmislegt fleira.

Þú gætir einnig haft áhuga á
1. nóv. 2024
Fréttabréf Greiningardeildar 1. nóvember 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fjölskylda við sumarbústað
30. okt. 2024
Verðbólga lækkar áfram og mælist 5,1% í október
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% á milli mánaða í október og verðbólga lækkar því úr 5,4% í 5,1%. Verð á mat og drykkjarvörum og flugfargjöld til útlanda höfðu mest áhrif til hækkunar. Reiknuð leiga hækkaði mjög lítið á milli mánaða. Kílómetragjald á bensín- og olíubíla verður með í verðmælingum Hagstofunnar.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
28. okt. 2024
Vikubyrjun 28. október 2024
Í vikunni birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir októbermánuð. Þessar verðbólgutölur verða þær síðustu fyrir næstu vaxtaákvörðun sem verður tilkynnt þann 20. nóvember nk. Í síðustu viku birti Hagstofan veltu skv. VSK-skýrslum, niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn og launavísitölu. Þá er uppgjörstímabilið í kauphöllinni áfram í fullum gangi.
Vélsmiðja Guðmundar
23. okt. 2024
Velta í hagkerfinu eykst og tæknigreinar draga vagninn
Velta í hagkerfinu jókst um 2,1% á milli ára í júlí og ágúst að raunvirði, samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Svo mikið hefur veltan ekki aukist frá því á VSK-tímabilinu janúar-febrúar árið 2023, þegar hagkerfið var enn að rétta úr kútnum eftir covid-samdráttinn.
Fiskveiðinet
22. okt. 2024
Meiri hagvöxtur ef loðna finnst
Hafrannsóknarstofnun leggur til að ekki verði gefinn út loðnukvóti fyrir veiðitímabilið 2024/2025. Ráðgjöfin verður uppfærð í janúar, þegar nýjar mælingar fara fram og því er ekki útséð um loðnuveiðar á næsta ári. Fyndist loðna í nægilegu magni hefði það töluverð áhrif á hagvöxt á næsta ári. Loðna hefur verið veidd hér á landi frá árinu 1962 og aðeins þrisvar orðið algjör loðnubrestur, árin 2019, 2020 og nú síðast í ár. 
21. okt. 2024
Vikubyrjun 21. október 2024
Í síðustu viku birtum við hagspá til ársins 2027. Vísitala íbúðaverðs og vísitala leiguverðs lækkuðu á milli mánaða í september og greiðslukortavelta heimilanna dróst saman á milli ára innanlands en jókst erlendis. Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar og voru allir nefndarmenn sammála um að lækka vexti. Nokkur fyrirtæki birta uppgjör í þessari viku.
15. okt. 2024
Morgunfundur um hagspá til 2027 - upptökur
Hagspá Landsbankans til ársins 2027 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu þriðjudaginn 15. október 2024 en auk þess var fjallað um stöðu og horfur á alþjóðlegum mörkuðum og í áhugaverðum pallborðsumræðum ræddu forstjórar fjögurra útflutningsfyrirtækja um tækifæri og áskoranir í útflutningi.
Hagspá Landsbankans
15. okt. 2024
Hagspá til 2027: Hagkerfið nær andanum
Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%. Bakslag í útflutningsgreinum setti svip sinn á fyrri hluta árs, loðnubrestur og hægari vöxtur ferðaþjónustu ollu samdrætti á sama tíma og háir vextir hafa kælt eftirspurnina sem engu að síður mælist nokkuð kröftug.
Smiður
14. okt. 2024
Vikubyrjun 14. október 2024
Í fyrramálið kynnum við nýja hagspá til ársins 2027 á morgunfundi í Hörpu. HMS birtir í vikunni vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu um húsnæðismarkaðinn. Á miðvikudag birtist svo fundargerð peningastefnunefndar. Í síðustu viku bar hæst að erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í september á sama tíma og atvinnuleysi jókst lítillega.
Frosnir ávextir og grænmeti
10. okt. 2024
Spáum að verðbólga hjaðni í 5,1% í október 
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,27% á milli mánaða í október og að verðbólga lækki úr 5,4% niður í 5,1%. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,2% í janúar á næsta ári.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur