Fjöl­breyti­leiki nauð­syn­leg­ur í upp­lýs­inga­tækni

Lára Rut Davíðsdóttir, Björk Hauksdóttir og Dóra Gunnarsdóttir vinna allar á Upplýsingatæknisviði Landsbankans. Þær segja hugbúnaðargeirann vera afar spennandi starfsvettvang sem bjóði upp á ótal möguleika. Þær hvetja alla, ekki síst fleiri stelpur og konur, til að skoða forritun og hugbúnaðargeirann til að stuðla að auknum fjölbreytileika.
Lára Rut Davíðsdóttir, Björk Hauksdóttir og Dóra Gunnarsdóttir
31. ágúst 2021 - Landsbankinn

Það er misskilningur að allir forritarar leiki sér að því að forrita og taka tölvur í sundur í frítíma sínum. Þetta eru þær Dóra, Björk og Lára sammála um.

„Þú þarft ekki að hafa haft gríðarlegan áhuga á tölvum frá unga aldri til að geta unnið við forritun og verða góð í því,“ segir Dóra, sem starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur í Vefdeild Landsbankans. „Aðalatriðið er að hafa gaman af því að sökkva sér ofan í mismunandi viðfangsefni, hvort sem það er verkefnið sem þú stendur frammi fyrir að leysa eða tæknin sem þú notar til þess að ná fram lausninni. Forritunaráhuginn kemur þá sjálfkrafa því forritun er bara eins og að læra tungumál sem þú nýtir til að ná fram lausninni.“

Lára tekur undir þetta. Hún hafði til að mynda ekki hugmynd um hvað hún ætlaði að gera eftir framhaldsskóla en sá nám í tölvunarfræði auglýst og ákvað að prófa. „Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í en sé alls ekki eftir því. Það sem gerir starfið mitt skemmtilegt er að verkefnin eru svo svakalega fjölbreytt,“ segir Lára en hún sinnir meðal annars smíðum og viðhaldi á nýjum lausnum fyrir viðskiptavini. „Það heldur áhuganum vakandi hjá manni að þurfa reglulega að kljást við ný verkefni og vandamál. Mér finnst einn stærsti sjarminn við starfið vera að ég er ekki endalaust að gera það sama.“

Spennandi að finna nýjar lausnir og tækifæri

Björk tekur undir það að fjölbreytt verkefni einkenni sitt starf en hún starfar í teymi innan Hugbúnaðarlausna sem heitir Fjármál og markaðir. Starf hennar snýst að miklu leyti um að búa til lausnir og kerfi fyrir gjaldeyris- og verðbréfaviðskipti og að viðhalda þeim.

„Við greinum verkefnin, setjum þau upp og vinnum eftir ákveðinni tímalínu. Það er gaman að standa andspænis einhverju vandamáli og þurfa að finna lausn eða sjá ný tækifæri og geta í framhaldinu skilað af sér afurð. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Að sama skapi er vinnan líka oft krefjandi,“ segir Björk.

Hún bendir þeim sem hafa áhuga á að starfa í hugbúnaðargeiranum á að ein leiðin sé að læra t.d. verkfræði eða tölvunarfræði. Það sé góður grunnur. „En þú þarft að vera tilbúin til að læra meira þegar þú byrjar að vinna. Mín reynsla er að vel sé tekið á móti þér og allir tilbúnir til að kenna og leiðbeina. Innan hugbúnaðarþróunar hjá okkur í Landsbankanum er passað mjög vel upp á þetta. Í þessu starfi erum við stöðugt að læra eitthvað nýtt og höfum alltaf aðgang að leiðbeiningum og aðstoð frá fólki sem hjálpar okkur áfram.“

Í verkefninu Stelpur og tækni fá stelpur innsýn inn í starfsemi fyrirtækja og ræða við konur sem starfa í upplýsingatækni. Myndirnar eru frá heimsókn stelpna í 9. bekk í Landsbankann 2018 og 2019

Allskonar störf í boði innan hugbúnaðargeirans

Þær eru sammála um að það góða við hugbúnaðargeirann er að þar fyrirfinnast allskonar störf. Forritun og hugbúnaðarlausnir eru alltaf að verða stærri og stærri þáttur í allri starfsemi, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

„Á bakvið allan hugbúnað sem er notaður er t.d. hýsing, gögn, bakendi, framendi, útlit og öryggismál, sem er orðinn stór þáttur. Vinna við þetta allt saman krefst hugbúnaðarsérfræðinga, þannig að bæði eru hugbúnaðarstörfin ótrúlega fjölbreytt innan fyrirtækjanna og fyrirtækin sem þurfa hugbúnaðarsérfræðinga eru sömuleiðis mjög mismunandi. Þetta bíður upp á skemmtilega atvinnumöguleika hjá mörgum góðum fyrirtækjum,“ segir Björk.

Lára tekur undir þetta og segir flesta ef ekki alla geira nota forritun. „Það eru tæki og tól alls staðar sem keyra á hugbúnaði og einhvers staðar þar á bakvið var forritari sem skrifaði hann. Atvinnumöguleikarnir eru því óteljandi og nám þessu tengt opnar í raun dyr inn í alla geira,“ Hún leggur áherslu á að endurmenntun sé mikilvæg í þessu samhengi. „Þú þarft að passa upp á að staðna ekki og vera þokkalega vel á tánum. Framþróun í hugbúnaðargeiranum er mjög hröð og hlutir detta að sama skapi úr notkun. Því er mikilvægt að kunna ekki bara eitthvað eitt.“

Dóra bætir við að það að hafa reynslu af forritunarstörfum eða hugbúnaðargerð sé líka góð æfing í lausnamiðaðri hugsun sem nýtist í hvers kyns starfi eða verkefnum í hvaða starfsgrein sem er. „Mikilvægast er að tileinka sér góð vinnubrögð og skipulega nálgun eftir viðurkenndum aðferðum, hvort sem það er hvernig smíða skal hugbúnaðinn eða hanna hann. Forritunarmál og umhverfi breytast hratt en góður grunnur hjálpar mikið til við að tileinka sér nýja tækni og aðferðir,“ segir Dóra. 

Ekkert strákalegt við starfið

Eins fáránlega og það hljómar þá loðir ennþá aðeins við að litið sé á forritun og hugbúnaðarlausnir sem strákastarf að þeirra mati. „Ætli það sé ekki af því að strákarnir eru í meirihluta. En það er ekkert við starfið sjálft sem er strákalegt í hefðbundnum skilningi,“ segir Björk.

„Vinnan getur verið mjög skapandi og krefst skipulags og lausnamiðaðrar hugsunar og því skil ég ekki hvernig eða hvers vegna það ætti frekar að henta einu kyni frekar en öðru,“ segir Dóra. „Best er að hafa verkefnahópa hvað blandaðasta, af því að fólkið sem er markhópur lausnarinnar er líka blandaður hópur. Stelpur nota öpp alveg jafn mikið og strákar og af hverju ættu þá ekki stelpur að hafa jafn mikinn áhuga á að þróa öpp og skapa upplifun fólks á vörunni?“

„Maður hefur oft lent í því að vera eina stelpan í hópnum í gegnum tíðina, t.d. í verkefnum og á fundum,“ segir Björk. „Ég spáði meira í því fyrst þegar það var talað um eða fyrir hópinn í karlkyni, frösum eins og „þeir eru að vinna í verkefninu“ og „þeir eru búnir“, kannski af því að þetta venst. Ég er eiginlega hætt að leiðrétta þetta, en það hjálpar heldur ekki hvað tungumálið okkar er kynjað. En ég held að það væri samt sem áður alveg fínt ef karlmenn væru meira meðvitaðir um þetta og myndu leiðrétta hvern annan. Það er einhvern veginn minni stemningsbrjótur þegar slík athugasemd kemur frá körlunum en einu konunni.“

Einnig tekur hún sérstaklega vel eftir kynjahallanum þegar það kemur fyrir að margar konur vinna saman að hugbúnaðarhluta verkefnis. „Ég vann einu sinni í verkefni þar sem við vorum þó nokkrar saman og mér fannst alveg sérstaklega gaman að vinna með svona mörgum konum að krefjandi hugbúnaðarverkefni. Það hefur alveg áhrif á félagslega þáttinn að vera eina konan og þess vegna væri svo gaman að fá fleiri stelpur og konur í hugbúnaðarþróun.“

Lára tekur undir þetta og telur að ein ástæðan fyrir því að það séu ekki nógu margar konur í þessum geira sé vegna þess að þær veigri sér við því að vera „eina“ konan. „Ég held að yngri stelpur spili almennt alveg jafn mikið tölvuleiki og strákar en þegar krakkar eldast þá viðgengst ennþá stimpillinn um að það séu bara sveittir nördar sem spila mikið af tölvuleikjum. Þessi staðalímynd virðist ótrúlega lífseig þó þetta sé nú að breytast smátt og smátt. Það er til dæmis talsvert algengara að konur spili símaleiki heldur en karlar. Teljast það ekki vera tölvuleikir þótt þau sem spila símaleiki líti kannski ekki á sig sem hin dæmigerða tölvuleikjaspilanda því þau passa ekki inn í staðalímyndina?“

Fyrirmyndirnar skipta máli

„Fyrirmyndirnar spila hér auðvitað stórt hlutverk,“ segir Dóra. „Ég held að því fleiri konur sem vinna sem hugbúnaðarsérfræðingar og eru sýnilegar, því fleiri stelpur muni velja þennan möguleika, ekki síst ef fyrirmyndirnar eru í nærumhverfinu. Þegar til dæmis ungar konur eiga vinkonur sem vinna sem hugbúnaðarsérfræðingar þá sjá þær þetta sem raunhæfan möguleika, að þetta sé eitthvað sem þær gætu hugsað sér að vinna við. Þá byrjar boltinn að rúlla.“

Björk tekur undir það og bendir á að það séu alltaf fleiri og fleiri stelpur að læra tölvunarfræði og verkfræði og fara að vinna í hugbúnaðgeiranum. „Þegar sótt er um vinnu er blandaður starfshópur óneitanlega meira aðlaðandi en einsleitur hópur að mínu mati. Ég tala nú ekki um ef yfirmennirnir eru konur og svo framvegis. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að þær stelpur og konur sem eru í hugbúnaðargeiranum séu sýnilegar.“

Dóra er sammála því að mikilvægt sé fyrir stelpur að vita að það séu fullt af konum og starfstækifærum í þessum geira. „Ég hef átt fjölda samtala við stelpur um þessi mál og það er einmitt oft þannig að einhver í fjölskyldunni, systkini eða foreldri, er í sama geira og þær höfðu fyrirfram einhverja smá hugmynd um út á hvað starfið gengur.

Við í Landsbankanum og fleiri fyrirtæki höfum tekið þátt í verkefninu Stelpur og tækni. Við höfum boðið stelpum í 9. bekk í heimsókn, sagt þeim frá því hvað við erum að gera og hvers vegna við völdum þennan starfsvettvang. Undantekningarlaust hafa stelpurnar verið áhugasamar og ég er viss um að þessar heimsóknir kveikja áhugann hjá einhverjum þeirra eða a.m.k. opni augun fyrir möguleikanum að starf í upplýsingatækni geti verið skemmtilegt.“

Fjölbreytileikinn aldrei mikilvægari

„Fjölbreytileikinn er bara svo mikilvægur, og þá á allan hátt, ekki bara út frá kynjum heldur líka aldri, uppruna og menningarlegum bakgrunn. Það þarf líka að hugsa um heildina,“ segir Björk. „Þess vegna þarf stundum að horfa á eitthvað annað en einungis reynslu og menntun ef það er verið að fara yfir stóran hóp umsækjanda að mínu mati. Það skilar fyrirtækinu meiri fjölbreytni sem er án efa meira virði fyrir fyrirtækið heldur en að hafa einsleitan hóp. Þetta á sérstaklega við í dag, þar sem samskipti við viðskiptavini fara að miklu leyti fram á rafrænan hátt, þ.e. viðskiptavinir leysa sín mál í gegnum vefi og öpp þegar þeim hentar. Þá er að mínu mati enn mikilvægara að vera með hóp innan fyrirtækisins sem er líka þverskurður samfélagsins.“ segir Björk.

Dóra segir að með tilkomu gervigreindar sé fjölbreytileikinn enn mikilvægari en áður. „Það þarf að taka tillit til fjölbreytileikans strax í náminu svo að sem flestir rýmist þar inni. Verkefnin í skólanum þurfa til dæmis að vera fjölbreytt, sum sjónræn eða upplifunarmiðuð og önnur mjög kerfislæg og tæknileg. Það mætti til dæmis bjóða nemendum að velja um að fá að búa til reiknivél eða tölvuleik, því við þurfum á báðum hæfileikunum að halda, þurfum alla flóruna.“

Þær ljúka samtalinu á því að leggja áherslu á að vinna í hugbúnaðargeiranum sé ótrúlega skemmtileg og fjölbreytt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Þær hvetja því alla til að skoða menntun eða starf á þessu sviði, því það sé pláss fyrir alla og mikilvægt að hafa ólíka einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn innanborðs.

Þú gætir einnig haft áhuga á
9. maí 2022

Skattabreytingin er hvatning til að láta gott af sér leiða

Nýlegar lagabreytingar sem heimila skattafrádrátt einstaklinga og fyrirtækja vegna styrkja til almannaheillafélaga fela í sér mikinn ávinning og aukin tækifæri, að sögn talsfólks Rauða krossins, SOS Barnaþorpanna og UNICEF.
15. feb. 2022

Gagnadrifinn Landsbanki

Stefna Landsbankans er að vera gagnadrifinn banki til að geta boðið snjallari og betri þjónustu og stuðla um leið að betri rekstri.
Námsfólk fyrir utan Stúdentakjallarann
7. feb. 2022

Mikið framfaraskref fyrir styrktarsjóði og almannaheillafélög

Mikilvægar breytingar á lögum sem varða skattlagningu almannaheillafélaga voru gerðar undir lok árs 2021 sem létta mjög skattbyrði þeirra og gera einstaklingum og fyrirtækjum einnig kleift að draga frá tiltekna fjárhæð eða hlutfall framlaga frá skattskyldum tekjum. Fyrir Háskólasjóð hf. Eimskipafélags Íslands þýðir þessi lagabreyting að um 160 milljónir króna sem áður voru greiddar sem fjármagnstekjuskattur munu nýtast í beina styrki til doktorsnema. Það munar um minna!
Barn í jólaglugga
7. des. 2021

Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum

Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Olíutankar í USA
2. des. 2021

Loftslagsbreytingar framtíðar hafa strax áhrif á fjárfesta

Áhætta vegna loftslagsbreytinga er gjarnan metin út frá því hver áhrifin verða eftir nokkra áratugi. Fjárfestar sem eru vanir að skoða fjárfestingartækifæri og breytingar til styttri tíma velta því ekki endilega loftslagsbreytingum mikið fyrir sér. Það geta reynst dýrkeypt mistök.
Myndlistarsýning í Austurstræti 11
8. nóv. 2021

Hreinar línur - Íslensk abstraktlist, 1956-2007

Í nóvember 2021 var opnuð sýning á íslenskum abstraktlistaverkum úr listasafni Landsbankans. Sýningin er opin á afgreiðslutíma útibúsins.
10. ágúst 2021

Listafólk túlkar Hinsegin daga

Í samstarfi við Samtökin´78 og Landsbankann hefur listafólkið Anna Maggý Grímsdóttir, Ásgeir Skúlason og Helga Páley Friðþjófsdóttir, unnið þrjú prentverk tileinkuð Hinsegin dögum.
Bláa lónið
10. ágúst 2021

Hringrásarhagkerfið og tækifæri í ferðaþjónustu

Hringrásarhagkerfið er ekki draumsýn eða óraunhæf hugmynd, heldur raunveruleg lausn sem býður upp á gífurleg tækifæri hér og nú. Til þess að átta sig á tækifærum til innleiðingar hringrásarhagkerfisins í ferðaþjónustu er fyrsta skrefið að skilja hvernig hringrásarhagkerfið virkar.
Sky Lagoon
30. júní 2021

Í skýjunum með Sky Lagoon

„Það hefur gengið ótrúlega vel hjá okkur og við erum í skýjunum með viðtökurnar,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. Baðlónið býður upp á heit og köld böð, gufur og stórkostlegt útsýni við sjávarsíðuna á Kársnesi í Kópavogi. Þetta er stærsta fjárfesting í afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu.
23. júní 2021

Stórt skref að þekkja kolefnislosun frá útlánum

Landsbankinn tók þátt í þróun PCAF loftslagsmælisins sem er alþjóðlegur mælikvarði á óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem verða til við útlán banka.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur