Fjöl­breyti­leiki nauð­syn­leg­ur í upp­lýs­inga­tækni

Lára Rut Davíðsdóttir, Björk Hauksdóttir og Dóra Gunnarsdóttir vinna allar á Upplýsingatæknisviði Landsbankans. Þær segja hugbúnaðargeirann vera afar spennandi starfsvettvang sem bjóði upp á ótal möguleika. Þær hvetja alla, ekki síst fleiri stelpur og konur, til að skoða forritun og hugbúnaðargeirann til að stuðla að auknum fjölbreytileika.
Lára Rut Davíðsdóttir, Björk Hauksdóttir og Dóra Gunnarsdóttir
31. ágúst 2021 - Landsbankinn

Það er misskilningur að allir forritarar leiki sér að því að forrita og taka tölvur í sundur í frítíma sínum. Þetta eru þær Dóra, Björk og Lára sammála um.

„Þú þarft ekki að hafa haft gríðarlegan áhuga á tölvum frá unga aldri til að geta unnið við forritun og verða góð í því,“ segir Dóra, sem starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur í Vefdeild Landsbankans. „Aðalatriðið er að hafa gaman af því að sökkva sér ofan í mismunandi viðfangsefni, hvort sem það er verkefnið sem þú stendur frammi fyrir að leysa eða tæknin sem þú notar til þess að ná fram lausninni. Forritunaráhuginn kemur þá sjálfkrafa því forritun er bara eins og að læra tungumál sem þú nýtir til að ná fram lausninni.“

Lára tekur undir þetta. Hún hafði til að mynda ekki hugmynd um hvað hún ætlaði að gera eftir framhaldsskóla en sá nám í tölvunarfræði auglýst og ákvað að prófa. „Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í en sé alls ekki eftir því. Það sem gerir starfið mitt skemmtilegt er að verkefnin eru svo svakalega fjölbreytt,“ segir Lára en hún sinnir meðal annars smíðum og viðhaldi á nýjum lausnum fyrir viðskiptavini. „Það heldur áhuganum vakandi hjá manni að þurfa reglulega að kljást við ný verkefni og vandamál. Mér finnst einn stærsti sjarminn við starfið vera að ég er ekki endalaust að gera það sama.“

Spennandi að finna nýjar lausnir og tækifæri

Björk tekur undir það að fjölbreytt verkefni einkenni sitt starf en hún starfar í teymi innan Hugbúnaðarlausna sem heitir Fjármál og markaðir. Starf hennar snýst að miklu leyti um að búa til lausnir og kerfi fyrir gjaldeyris- og verðbréfaviðskipti og að viðhalda þeim.

„Við greinum verkefnin, setjum þau upp og vinnum eftir ákveðinni tímalínu. Það er gaman að standa andspænis einhverju vandamáli og þurfa að finna lausn eða sjá ný tækifæri og geta í framhaldinu skilað af sér afurð. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Að sama skapi er vinnan líka oft krefjandi,“ segir Björk.

Hún bendir þeim sem hafa áhuga á að starfa í hugbúnaðargeiranum á að ein leiðin sé að læra t.d. verkfræði eða tölvunarfræði. Það sé góður grunnur. „En þú þarft að vera tilbúin til að læra meira þegar þú byrjar að vinna. Mín reynsla er að vel sé tekið á móti þér og allir tilbúnir til að kenna og leiðbeina. Innan hugbúnaðarþróunar hjá okkur í Landsbankanum er passað mjög vel upp á þetta. Í þessu starfi erum við stöðugt að læra eitthvað nýtt og höfum alltaf aðgang að leiðbeiningum og aðstoð frá fólki sem hjálpar okkur áfram.“

Í verkefninu Stelpur og tækni fá stelpur innsýn inn í starfsemi fyrirtækja og ræða við konur sem starfa í upplýsingatækni. Myndirnar eru frá heimsókn stelpna í 9. bekk í Landsbankann 2018 og 2019

Allskonar störf í boði innan hugbúnaðargeirans

Þær eru sammála um að það góða við hugbúnaðargeirann er að þar fyrirfinnast allskonar störf. Forritun og hugbúnaðarlausnir eru alltaf að verða stærri og stærri þáttur í allri starfsemi, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

„Á bakvið allan hugbúnað sem er notaður er t.d. hýsing, gögn, bakendi, framendi, útlit og öryggismál, sem er orðinn stór þáttur. Vinna við þetta allt saman krefst hugbúnaðarsérfræðinga, þannig að bæði eru hugbúnaðarstörfin ótrúlega fjölbreytt innan fyrirtækjanna og fyrirtækin sem þurfa hugbúnaðarsérfræðinga eru sömuleiðis mjög mismunandi. Þetta bíður upp á skemmtilega atvinnumöguleika hjá mörgum góðum fyrirtækjum,“ segir Björk.

Lára tekur undir þetta og segir flesta ef ekki alla geira nota forritun. „Það eru tæki og tól alls staðar sem keyra á hugbúnaði og einhvers staðar þar á bakvið var forritari sem skrifaði hann. Atvinnumöguleikarnir eru því óteljandi og nám þessu tengt opnar í raun dyr inn í alla geira,“ Hún leggur áherslu á að endurmenntun sé mikilvæg í þessu samhengi. „Þú þarft að passa upp á að staðna ekki og vera þokkalega vel á tánum. Framþróun í hugbúnaðargeiranum er mjög hröð og hlutir detta að sama skapi úr notkun. Því er mikilvægt að kunna ekki bara eitthvað eitt.“

Dóra bætir við að það að hafa reynslu af forritunarstörfum eða hugbúnaðargerð sé líka góð æfing í lausnamiðaðri hugsun sem nýtist í hvers kyns starfi eða verkefnum í hvaða starfsgrein sem er. „Mikilvægast er að tileinka sér góð vinnubrögð og skipulega nálgun eftir viðurkenndum aðferðum, hvort sem það er hvernig smíða skal hugbúnaðinn eða hanna hann. Forritunarmál og umhverfi breytast hratt en góður grunnur hjálpar mikið til við að tileinka sér nýja tækni og aðferðir,“ segir Dóra. 

Ekkert strákalegt við starfið

Eins fáránlega og það hljómar þá loðir ennþá aðeins við að litið sé á forritun og hugbúnaðarlausnir sem strákastarf að þeirra mati. „Ætli það sé ekki af því að strákarnir eru í meirihluta. En það er ekkert við starfið sjálft sem er strákalegt í hefðbundnum skilningi,“ segir Björk.

„Vinnan getur verið mjög skapandi og krefst skipulags og lausnamiðaðrar hugsunar og því skil ég ekki hvernig eða hvers vegna það ætti frekar að henta einu kyni frekar en öðru,“ segir Dóra. „Best er að hafa verkefnahópa hvað blandaðasta, af því að fólkið sem er markhópur lausnarinnar er líka blandaður hópur. Stelpur nota öpp alveg jafn mikið og strákar og af hverju ættu þá ekki stelpur að hafa jafn mikinn áhuga á að þróa öpp og skapa upplifun fólks á vörunni?“

„Maður hefur oft lent í því að vera eina stelpan í hópnum í gegnum tíðina, t.d. í verkefnum og á fundum,“ segir Björk. „Ég spáði meira í því fyrst þegar það var talað um eða fyrir hópinn í karlkyni, frösum eins og „þeir eru að vinna í verkefninu“ og „þeir eru búnir“, kannski af því að þetta venst. Ég er eiginlega hætt að leiðrétta þetta, en það hjálpar heldur ekki hvað tungumálið okkar er kynjað. En ég held að það væri samt sem áður alveg fínt ef karlmenn væru meira meðvitaðir um þetta og myndu leiðrétta hvern annan. Það er einhvern veginn minni stemningsbrjótur þegar slík athugasemd kemur frá körlunum en einu konunni.“

Einnig tekur hún sérstaklega vel eftir kynjahallanum þegar það kemur fyrir að margar konur vinna saman að hugbúnaðarhluta verkefnis. „Ég vann einu sinni í verkefni þar sem við vorum þó nokkrar saman og mér fannst alveg sérstaklega gaman að vinna með svona mörgum konum að krefjandi hugbúnaðarverkefni. Það hefur alveg áhrif á félagslega þáttinn að vera eina konan og þess vegna væri svo gaman að fá fleiri stelpur og konur í hugbúnaðarþróun.“

Lára tekur undir þetta og telur að ein ástæðan fyrir því að það séu ekki nógu margar konur í þessum geira sé vegna þess að þær veigri sér við því að vera „eina“ konan. „Ég held að yngri stelpur spili almennt alveg jafn mikið tölvuleiki og strákar en þegar krakkar eldast þá viðgengst ennþá stimpillinn um að það séu bara sveittir nördar sem spila mikið af tölvuleikjum. Þessi staðalímynd virðist ótrúlega lífseig þó þetta sé nú að breytast smátt og smátt. Það er til dæmis talsvert algengara að konur spili símaleiki heldur en karlar. Teljast það ekki vera tölvuleikir þótt þau sem spila símaleiki líti kannski ekki á sig sem hin dæmigerða tölvuleikjaspilanda því þau passa ekki inn í staðalímyndina?“

Fyrirmyndirnar skipta máli

„Fyrirmyndirnar spila hér auðvitað stórt hlutverk,“ segir Dóra. „Ég held að því fleiri konur sem vinna sem hugbúnaðarsérfræðingar og eru sýnilegar, því fleiri stelpur muni velja þennan möguleika, ekki síst ef fyrirmyndirnar eru í nærumhverfinu. Þegar til dæmis ungar konur eiga vinkonur sem vinna sem hugbúnaðarsérfræðingar þá sjá þær þetta sem raunhæfan möguleika, að þetta sé eitthvað sem þær gætu hugsað sér að vinna við. Þá byrjar boltinn að rúlla.“

Björk tekur undir það og bendir á að það séu alltaf fleiri og fleiri stelpur að læra tölvunarfræði og verkfræði og fara að vinna í hugbúnaðgeiranum. „Þegar sótt er um vinnu er blandaður starfshópur óneitanlega meira aðlaðandi en einsleitur hópur að mínu mati. Ég tala nú ekki um ef yfirmennirnir eru konur og svo framvegis. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að þær stelpur og konur sem eru í hugbúnaðargeiranum séu sýnilegar.“

Dóra er sammála því að mikilvægt sé fyrir stelpur að vita að það séu fullt af konum og starfstækifærum í þessum geira. „Ég hef átt fjölda samtala við stelpur um þessi mál og það er einmitt oft þannig að einhver í fjölskyldunni, systkini eða foreldri, er í sama geira og þær höfðu fyrirfram einhverja smá hugmynd um út á hvað starfið gengur.

Við í Landsbankanum og fleiri fyrirtæki höfum tekið þátt í verkefninu Stelpur og tækni. Við höfum boðið stelpum í 9. bekk í heimsókn, sagt þeim frá því hvað við erum að gera og hvers vegna við völdum þennan starfsvettvang. Undantekningarlaust hafa stelpurnar verið áhugasamar og ég er viss um að þessar heimsóknir kveikja áhugann hjá einhverjum þeirra eða a.m.k. opni augun fyrir möguleikanum að starf í upplýsingatækni geti verið skemmtilegt.“

Fjölbreytileikinn aldrei mikilvægari

„Fjölbreytileikinn er bara svo mikilvægur, og þá á allan hátt, ekki bara út frá kynjum heldur líka aldri, uppruna og menningarlegum bakgrunn. Það þarf líka að hugsa um heildina,“ segir Björk. „Þess vegna þarf stundum að horfa á eitthvað annað en einungis reynslu og menntun ef það er verið að fara yfir stóran hóp umsækjanda að mínu mati. Það skilar fyrirtækinu meiri fjölbreytni sem er án efa meira virði fyrir fyrirtækið heldur en að hafa einsleitan hóp. Þetta á sérstaklega við í dag, þar sem samskipti við viðskiptavini fara að miklu leyti fram á rafrænan hátt, þ.e. viðskiptavinir leysa sín mál í gegnum vefi og öpp þegar þeim hentar. Þá er að mínu mati enn mikilvægara að vera með hóp innan fyrirtækisins sem er líka þverskurður samfélagsins.“ segir Björk.

Dóra segir að með tilkomu gervigreindar sé fjölbreytileikinn enn mikilvægari en áður. „Það þarf að taka tillit til fjölbreytileikans strax í náminu svo að sem flestir rýmist þar inni. Verkefnin í skólanum þurfa til dæmis að vera fjölbreytt, sum sjónræn eða upplifunarmiðuð og önnur mjög kerfislæg og tæknileg. Það mætti til dæmis bjóða nemendum að velja um að fá að búa til reiknivél eða tölvuleik, því við þurfum á báðum hæfileikunum að halda, þurfum alla flóruna.“

Þær ljúka samtalinu á því að leggja áherslu á að vinna í hugbúnaðargeiranum sé ótrúlega skemmtileg og fjölbreytt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Þær hvetja því alla til að skoða menntun eða starf á þessu sviði, því það sé pláss fyrir alla og mikilvægt að hafa ólíka einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn innanborðs.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Landslag
29. nóv. 2022

Fjármálaheimurinn tók hressilega á móti UFS

Fjárfestingar sem byggja á tengslum við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS, e. ESG) hafa aukist ótrúlega mikið á tiltölulega stuttum tíma. Helst sú þróun auðvitað í hendur við aukinn skilning á loftslagsvánni og brýna nauðsyn til þess að ná árangri þar.
Landslag
18. nóv. 2022

Það vantar betri gögn um tengsl sjálfbærni og fjármála

Með því að beina fjármagni í atvinnugreinar og fyrirtæki sem hafa jákvæð áhrif á loftslagsvandann eða a.m.k. síður neikvæð, getur fjármálageirinn stuðlað að miklum breytingum til hins betra. En er fjármálageirinn að standa sig?
Auðkenni
17. nóv. 2022

Leyninúmerin á útleið og sterk auðkenning kemur í staðinn

Fjögurra stafa leyninúmer bankareikninga hafa fylgt okkur áratugum saman en nú í nóvember hefst útleiðing þeirra hjá Landsbankanum þegar hætt verður að biðja um leyninúmer við staðfestingu greiðslna í appinu og netbanka einstaklinga.
10. nóv. 2022

Ísland langt frá loftslagsmarkmiðum

Ísland hefur ásamt Noregi og Evrópusambandinu sett sér markmið um 55% samdrátt heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við árið 2005 sem upprunalega miðaðist við 1990. Auk þess skal kolefnishlutleysi náð árið 2040. En hvernig gengur? Og hvernig spilar kolefnisjöfnun þar inn í?
Sjálfbærnidagur 2022
22. sept. 2022

Sjálfbærnidagur Landsbankans – upptökur

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.
Höfuðstöðvar Landsbankans
18. ágúst 2022

Bankinn í miðborginni: Úr Bakarabrekku í Austurstræti

Landsbankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti, sem þá kallaðist reyndar Bakarabrekka en flutti í fyrsta bankahúsið í Austurstræti 11 árið 1898. Færri vita líklega að bankinn var um tíma með afgreiðslu í Austurstræti 16 sem seinna hýsti Reykjavíkurapótek.
Lady Zadude
3. ágúst 2022

Nú þarf einfaldlega að hleypa sorginni að

Vilhjálmur Ingi Vilhjálms á sér hliðarsjálf sem dragdrottningin Lady Zadude en hún hlaut titilinn dragdrottning Íslands fyrr í sumar. Lady Zadude hlaut þar styrk í verðlaun til að koma fram á Hinsegin dögum en hlaut jafnframt styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans til að þróa og sýna atriði sitt í Gleðigöngunni.
15. júlí 2022

Öruggari greiðslur með sterkri auðkenningu

Nýjar reglur um það sem nefnist „sterk auðkenning“ hafa tekið gildi en í þeim eru gerðar stífari kröfur við innskráningu í bankaöpp og netbanka, um hvernig þú staðfestir netbankagreiðslur og við verslun á netinu. Tilgangurinn er að auka öryggi og stuðla að meiri samkeppni.
Edda Garðarsdóttir
8. júlí 2022

Einstök liðsheild kvennalandsliðsins

Fyrrverandi landsliðskonan og EM-farinn Edda Garðarsdóttir skrifar hér grein um hvað það er sem skapar góða liðsheild – og hvernig sú liðsheild sem ríkir innan kvennalandsliðsins er höfuðástæða fyrir árangri liðsins í gegnum árin.
6. júlí 2022

Hvernig kvennalandsliðið í fótbolta varð að þjóðargersemi

Sagnfræðingurinn og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Pálsson lítur á sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi, með stöðu knattspyrnu í Evrópu hverju sinni til hliðsjónar.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur