Þau kalla sig Öldungadeildina en eru svo sannarlega ekki sest í helgan stein! Í febrúar 2024 hóf hópur eldra hinsegin fólks að hittast til að rifja upp gömul tengsl og tíma. Þau voru mörg hver virk í upphafi réttingabaráttu hinsegin fólks en höfðu ekki verið jafn áberandi í sviðsljósinu á síðustu árum og jafnvel ekki hist lengi. Mánaðarlegur hittingur 60+ hópsins varð fljótt vinsæll og þau ákváðu því að taka þátt í gleðigöngunni 2024 sem hópur. Atriðið þeirra sló í gegn og gleðin og fagnaðarfundirnir voru miklir þegar um 70 manns mættu og gengu með hópnum.
Í kjölfarið var Öldungadeildin formlega stofnuð. Öll hinsegin sem orðin eru sextug geta gengið í deildina – en „við vísum yngra fólki, mökum og vinum alls ekki frá,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir. Hún er stoltur félagi í Öldungadeildinni og ein þeirra sem skipuleggja atriði deildarinnar fyrir gleðigönguna í ár. Því það á að sjálfsögðu að endurtaka leikinn! Ragnhildur segir mikilvægt að auka sýnileika eldra hinsegin fólks, enda sé það hópur sem fari sístækkandi.
Þátttaka í Gleðigöngunni skýtur enn sterkari stoðum undir starfsemi Öldungadeildarinnar. Við erum stolt af framlagi okkar til réttindabaráttu hinsegin fólks og erum hvergi nærri hætt.
„Það blasir t.d. við okkar hópi að við verðum að skoða aðbúnað eldra hinsegin fólks á Íslandi, því það virðist því miður sammerkt hjúkrunarheimilum og annarri öldrunarþjónustu að gera ekki ráð fyrir okkur. Því ætlum við að breyta.“ Samtökin 78 hafa á síðustu misserum beint sjónum að þessum viðkvæma hópi í auknum mæli og Öldungadeildin vill gera sitt til að auka sýnileika hans enn frekar.

En þó boðskapurinn sé sterkur og baráttan ekki búin verður gleðin við völd í göngunni. Hópurinn stefnir á að vera áberandi í ár líka og þau eru þakklát fyrir styrk úr Gleðigöngupottinum. „Það skiptir okkur afskaplega miklu máli að hafa fengið styrk“, segir Ragnhildur. „Við ætlum að vera skreytt og áberandi og við þurfum að leigja farartæki undir þau okkar sem eiga hugsanlega erfitt með að rölta alla gönguna.“
Það verður engu að síður dansað og aldursfordómum gefið langt nef með dáraskap, rokktónlist og glimmeri.
Atriðið miðar að því að sýna almenningi að eldra fólk er líka hinsegin og að regnboginn dofnar svo sannarlega ekki með aldrinum.






