Kvennaknattspyrna í skyndisókn

Íslenska kvennalandsliðið var formlega stofnað haustið 1981 með það að markmiði að taka þátt í forkeppni Evrópumótsins árið 1984.
Upphafsár kvennalandsliðsins voru erfið. Liðið komst ekki áfram í undankeppni EM 1987 og árin 1987–1992 lék Ísland engan A-landsleik kvenna. Umgjörðin var fátækleg, fjárfesting lítil sem engin, fjölmiðlaumfjöllun takmörkuð og áhugi almennings hverfandi.
Þessi vandi var ekki eingöngu bundinn við Ísland. Kvennalandslið víðs vegar um Evrópu glímdu einnig við lakari skilyrði, minna fjármagn og mun minni athygli en karlalandsliðin. Mörg Evrópulönd sendu ekki einu sinni lið til þátttöku í forkeppni EM kvenna.
Veldisvöxtur í áhorfi og tekjum
Frá og með tíunda áratugnum fór þróunin að snúast við og vinsældir kvennaknattspyrnu hafa aukist jafnt og þétt. Síðastliðin ár má segja að kvennaboltann hafi farið í gegnum veldisvöxt.
Vöxturinn sést greinilega ef rýnt er í selda miða og áhorfstölur í sjónvarpi á lokamót EM 2017, 2022 og 2025. Á EM í Hollandi árið 2017 seldust um 240.000 miðar og það voru að meðaltali um 9.000 áhorfendur á hverjum leik. Árið 2022 tvöfaldaðist fjöldinn en þá seldust tæplega 575.000 miðar á leikina og að meðaltali voru 18.500 áhorfendur á hverjum leik. Þegar þetta er ritað hafa meira en 570.000 miðar selst á lokamót EM í Sviss, en spár gera ráð fyrir að yfir 670.000 miðar seljist í sumar.

28.000 áhorfendur voru í stúkunni á úrslitaleiknum í Hollandi árið 2017. Árið 2022 var áhorfendafjöldinn á Wembley um 87.000 manns. Sambærileg þróun sést þegar mæting á leiki félagsliða í deildum í Evrópu eru skoðuð.
Samanlagt sjónvarpsáhorf á lokamót EM kvenna árið 2017 var um 165 milljónir og árið 2022 var áhorfið komið upp í 365 milljónir. Spáð er að alþjóðlegt áhorf á EM í Sviss muni ná 500 milljónum. Sambærileg þróun á sér stað í deildum félagsliða í Evrópu, en frá 2022 hefur ásókn á kvennaleiki margfaldast í Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og Englandi.


Með auknu áhorfi og áhuga þá aukast líka tekjurnar. Afleiða af því eru auknar fjárfestingar, betri aðstaða og fjölgun iðkenda.
England er gott dæmi um hvernig aukið áhorf og aukinn áhugi skilar sér í fleiri iðkendum. Tímabilið 2016-2017 voru 5.632 kvennalið skráð á Englandi. Tímabilið 2023-2024 hafði þessi tala meira en tvöfaldast og um 12.100 kvennalið voru skráð á Englandi. Stærsta stökkið átti sér stað þegar enska kvennalandsliðið vann EM 2022, en þá voru meira en 1.500 ný kvennalið skráð á Englandi árin 2022-2023. Á Englandi er þetta stökk í iðkendum og áhuga á kvennaknattspyrnu í Englandi kallað „ljónynjuáhrifin“ (e. the Lioness Effect).
Fjölgun atvinnumannadeilda
Á síðustu árum hafa verið tekin stór skref í atvinnuvæðingu kvennaknattspyrnunnar og atvinnumannadeildum hefur fjölgað jafnt og þétt í Evrópu. Með „atvinnumannadeild“ er átt við knattspyrnudeild sem uppfyllir ákveðnar kröfur og leikmenn eru í fullri vinnu hjá félagsliðunum sínum þar sem þeim er tryggð ákveðin réttindi og laun. Ekki er hægt að tala um atvinnumannadeild ef leikmenn eru að spila knattspyrnu samhliða vinnu eða námi.
Enska úrvalsdeild kvenna (e. the Women’s Super League) var formlega stofnuð árið 2010 og þá voru 8 lið skráð í keppnina. Deildin varð formlega að atvinnumannadeild árið 2019 og eru liðin nú orðin 12. Spænska úrvalsdeild kvenna (s. Liga F) varð að atvinnumannadeild tímabilið 2021-2022 og í deildinni eru 16 lið í dag.
Efstu tvær kvennadeildirnar í Frakklandi (f. Première Ligue og Seconde Ligue) eru flokkaðar sem atvinnumannadeildir. Þær starfa í dag undir glænýju knattspyrnusambandi kvenna í Frakklandi, Ligue féminine de football professionnel. Ítalska úrvalsdeild kvenna (í. Serie A Femminile) varð formleg atvinnumannadeild tímabilið 2022-2023. 10 lið spila í deildinni.


Fleiri lönd vinna nú að því að atvinnuvæða sínar efstu kvennadeildir á komandi árum. Meðal þeirra eru Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Skotland, Írland, Ástralía og Kanada. Þessi þróun hefur opnað nýja möguleika fyrir knattspyrnukonur um allan heim
Fleiri tækifæri erlendis fyrir íslenskar knattspyrnukonur
Með fleiri atvinnumannadeildum fjölgar tækifærunum fyrir íslenskar knattspyrnukonur. Í raun hafa íslenskar knattspyrnukonur aldrei verið jafn sýnilegar á alþjóðlegum vettvangi. Í hóp Íslands fyrir EM 2025 í Sviss eru 18 leikmenn af 23 að spila með erlendum félagsliðum. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra hjá EM hópi íslenska kvennalandsliðsins.
Þegar landsliðshópar Íslands fyrir lokamót EM eru skoðaðir frá árinu 2009 sést að hlutfall leikmanna sem spila erlendis hefur aukist. Árið 2009 spiluðu 12 leikmenn með erlendum félögum. Árið 2025 voru þeir 18, eða 78% af landsliðshópnum.


Setti sér markmið að komast á EM þegar hún var 12 ára
Katla Tryggvadóttir, leikmaður Kristianstads DFF í Svíþjóð og einn efnilegasti leikmaður Íslands, segir að vöxturinn í kvennaknattspyrnunni sé áþreifanlegur. „Maður finnur að kvennaboltinn er á bullandi siglingu. Það er auðvitað enn langt í land á ýmsum vígstöðvum en við finnum að það er allt á uppleið og því ber að fagna.“
Katla tekur undir að tækifærin fyrir íslenskar knattspyrnukonur til að spila erlendis séu fleiri í dag en fyrir nokkrum árum. Kröfurnar séu hins vegar miklar. „Þetta er mikil vinna. Þú þarft að leggja gríðarlega mikið á þig og sýna það með góðri frammistöðu á vellinum. Í mínu tilviki þá átti ég tvö mjög góð tímabil með Þrótti í Bestu deildinni. Það kviknaði síðan áhugi hjá Kristianstads eftir að þau sáu mig spila með U19 landsliðinu,“ segir Katla.

Hún segir að það sé einnig mikilvægt að vera andlega tilbúin til að taka skrefið. „Ef þér er boðið að spila erlendis þá þarftu að vera 100% tilbúin til að taka skrefið. Það er mikil breyting að flytja í annað land. Það var ótrúlegur lærdómur og mjög þroskandi að fara ung frá Íslandi til að spila í öðru landi.“
Katla hefur spilað 6 leiki með íslenska A landsliðinu og á dögunum var hún valin í landsliðshóp Íslands fyrir lokamót EM kvenna í Sviss. Katla segir að stemningin í hópnum sé mjög góð og þær séu allar staðráðnar í að ná góðum úrslitum í Sviss. Hún er að upplifa langþráðan draum en hún var bara 12 ára þegar hún setti sér það markmið að komast á EM „Ég man eftir því þegar ég horfði á íslenska landsliðið spila á EM í Hollandi árið 2017, þá setti ég mér það markmið að komast á EM árið 2025. Það tókst og ég gæti ekki verið ánægðari,“ segir Katla.
Þó þróunin hafi verið jákvæð og hröð eru sóknarfærin líka fjölmörg í kvennaknattspyrnu. Framtíðin er björt og (kvenna)landsliðinu eru allir vegir færir. Áfram Ísland!


