Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Vel heppn­að fjár­mála­mót um hvernig fyr­ir­tæki nýta gögn til að bæta rekst­ur­inn

Góð aðsókn var að vel heppnuðu fjármálamóti um hvernig fyrirtæki nýta gögn til að bæta reksturinn sem haldinn var í Landsbankanum í Reykjastræti 15. október. Á fundinum fjölluðu eigendur og stjórnendur hjá fimm fyrirtækjum um hvernig hagnýting gagna gerir betri ákvarðanir mögulegar.
16. október 2025

Tilgangurinn með fundinum var að skapa vettvang þar sem fyrirtæki geta miðlað af reynslu sinni, deilt sögum og lært hvert af öðru.

13 milljónir fyrirspurna á mánuði

Arnheiður K. Gísladóttir, forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans, hóf fundinn á að fjalla um hvernig bankinn miðlar gögnum til sinna viðskiptavina sem þeir geta notað til að greina og bæta reksturinn. Mest af þeirri miðlun fer fram „undir húddinu“ í gegnum svokallaðar B2B og API-lausnir og birtist fyrirtækjum ekki í netbankanum heldur í gegnum bókhaldskerfi. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla þessar lausnir og þróa og nú nýta um 7.000 fyrirtæki sér þær að einhverju leyti. Bankinn tekur á móti yfir 13 milljónum fyrirspurna í gegnum þessar þjónustur hvern mánuð, eða um fimm fyrirspurnum á hverri einustu sekúndu. Gögnum er einnig miðlað með öðrum hætti til viðskiptavina, s.s. í netbankanum, yfirlitum og skýrslum.

Arnheiður fjallaði einnig um hvernig Landsbankinn nýtir sín eigin gögn en það gerir bankinn m.a. með því að lánshæfismeta viðskiptavini og taka ákvarðanir um útlán með sjálfvirkum hætti. Gagnagreining er einnig notuð við varnir gegn peningaþvætti og svikum, við að meta áhrif markaðsherferða og ýmislegt fleira.

Umsagnir viðskiptavina mikilvægustu gögnin

Heima Holiday Homes er gististaður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem býður upp á sérbýli fyrir ferðamenn. Haraldur Þór Jónsson, sem byggði fyrirtækið upp með eiginkonu sinni, Helgu Jóhönnu Úlfarsdóttur, fjallaði á fundinum um það hvernig gögn hefðu stýrt öllum þeirra ákvörðunum. Þau hófu ferðaþjónustu í gömlu gistiheimili í Gerðunum í Reykjavík árið 2012. Eftir að hafa rekið gistiheimilið í um tvö ár sögðu gögnin þeim að rekstur á litlu gistiheimili í Reykjavík væri ekki nægilega arðbær. Þau sáu líka að gestirnir þeirra dvöldu lítið í Reykjavík og fóru heldur beint út á land. „Við áttuðum okkur á því að tækifærin voru úti á landi,“ sagði Haraldur. Þau fóru að líta í kringum sig og árið 2014 keyptu þau jörðina Hraunvelli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með það fyrir augum að hefja þar ferðaþjónustu. Þau ákváðu að byrja á að byggja bara eitt gistihús, „því þannig fengum við 100% raungögn um fjárfestinguna fram undan,“ sagði Haraldur.

Síðan hafa þau byggt sjö hús til viðbótar og ætla fljótlega að bæta öðrum tólf við. Haraldur lýsti því hvernig gögn um bókanir og tíðni þeirra, umsagnir viðskiptavina og fleira gerðu þeim kleift að stilla reksturinn af, aðlaga aðbúnaðinn og svo framvegis. „Við höfum aldrei fengið neikvæða umsögn og umsagnir viðskiptavina eru okkar mikilvægustu gögn.“

Frá súrdeigi til sjálfvirkni

Óhætt er að segja að brauðmetið hjá Brauð & Co. hafi slegið í gegn þegar fyrirtækið opnaði fyrsta bakaríið við Frakkastíg í Reykjavík árið 2016. Nokkrum árum seinna var reksturinn á hinn bóginn kominn í hálfgert öngstræti. Sigurður Máni Helguson, framkvæmdastjóri Brauð & Co. fór yfir hvernig fyrirtækinu tókst að snúa rekstrinum við með því að breyta um hugarfar og taka mark á gögnum. „Við vorum á fullri ferð, bensíngjöfin í botni en reksturinn í baksýnisspeglinum,“ sagði hann. Fyrirtækið hafi vaxið hratt en þar með jókst flækjustigið og kostnaður á sama tíma og yfirsýnin minnkaði. Áætlanir byggðu á gömlum gögnum, tilfinningu og innsæi. Fjárfestingar hafi allar verið fjármagnaðar með rekstrarfé. Þegar allt stöðvaðist í heimsfaraldrinum hafi félagið því ekki átt krónu og nauðsynlegt hafi verið að snúa við blaðinu.

Félagið fór í gegnum þrjú erfið en lærdómsrík ár þar sem endurhugsa þurfti nálgun á rekstri, verkferlum og tæknilausnum.

Ákveðið hafi verið að færa sig yfir í annað bókhaldskerfi, Business Central. SmartFinance hefði tekið við bókhaldinu, launaumsýslu og fjármálmálum. Síðan tengdi Metadata þessar upplýsingar saman og þar með fékk fyrirtækið aðgang að rauntímagögnum. „Þetta var fyrsta skrefið í átt að sjálfvirkni og gagnadrifnum rekstri,“ sagði Sigurður. Nú geti fyrirtækið fengið ný gögn um reksturinn á klukkutímafresti og geti brugðist mun hraðar við öllum breytingum. Nýting gagna hefði leitt til hagræðingar og minni sóunar. „Frá 2023 höfum við skilað hagnaði og það er að stórum hluta af því að við breyttum um hugarfar og tókum mark á gögnum,“ sagði hann. Brauð og Co. væri byrjað að nota gervigreind til að bæta framleiðsluspár og tæki m.a. tillit til sölugagna, veðurs, fjölda ferðamanna og frídaga. Fyrstu niðurstöður lofa góðu.

Gögn nýtt til að bæta reksturinn og skemmta viðskiptavinum

Domino’s á Íslandi er mjög gagnadrifið fyrirtæki sem hefur lengi notað gögn til að bæta reksturinn. Fyrirtækið hóf rekstur árið 1993 og rekur nú 22 verslanir, þjónustuver og hráefnisvinnslu. Egill Þorsteinsson, yfirmaður tækni- og þróunarmála hjá Domino’s á Íslandi, sagði mikla jafnvægislist að halda launakostnaði í jafnvægi, manna verslanirnar rétt og tryggja mátulega framleiðslugetu. „Ofmannaðar búðir eru slæmar fyrir reksturinn og undirmannaðar líka því þá versnar þjónustan og salan minnkar,“ segir hann. Domino’s safnar því gögnum um flest sem snýr að rekstrinum, s.s. hversu langan tíma taki að fletja út pizzudeigið, setja á það sósu og álegg, hversu lengi pizzan er í ofninum og hvað það taki pizzasendilinn langan tíma að koma henni til skila. Verslunarstjórar hafi síðan aðgang að mælaborði sem uppfærist á tveggja mínútna fresti og sýnir m.a. kostnað við vaktina, sölu, framleiðslutíma og fleira. Með þessu náist mikil hagræðing og dregið er úr sóun.

Domino’s notar einnig gögn til að veita gagnadrifna og persónubundna þjónustu. Fyrirtækið hafi m.a. notað gögn til að virðisgreina viðskiptavini og flokka þá, m.a. með tilliti til bragðhópa, tilboða og fleira. Þessi greining hafi m.a. gert fyrirtækinu kleift að sérsníða framboð í appinu og dominos.is að hverjum og einum viðskiptavini. „Áður vorum oft að bjóða sértilboð á kóki og við héldum því bara áfram þótt viðskiptavinurinn afþakkaði alltaf. Núna tökum við mið af hegðuninni og bjóðum frekar vörur sem viðskiptavinurinn er líklegri til að þiggja.“ Þessi hagnýting gagna hafi leitt til mikillar söluaukningar og ánægðari viðskiptavina.

Egill benti einnig á að það er hægt að nýta gögn í fleira en að bæta reksturinn með beinum hætti eða sérsníða tilboð. Árið 2022 bauð Domino’s viðskiptavinum upp á þann möguleika að fá yfirlit yfir pizzuárið, á svipaðan hátt og t.d. Spotify gerir fólki kleift að fá yfirlit yfir spilunarárið. Um 50.000 notendur sóttu ársyfirlitið sitt í appið eða á dominos.is og um 2.000 deildu sögunni sinni á samfélagsmiðlum. Verkefnið var samstarfverkefni Datalab, Pipars\TBWA, Vettvangs og Stokks og var um sex mánuði í undirbúningi. Verkefnið fékk viðurkenningu sem besta stafræna herferðin. „Gögn þurfa ekki alltaf að vera leiðinleg,“ sagði Egill.

Vertu klár í gervigreind

DataLab aðstoðar íslensk fyrirtæki og stofnanir við að hagnýta sín eigin gögn til að skapa snjallar lausnir sem bæta rekstur og auka samkeppnishæfni. Brynjólfur Borgar Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri DataLab, fór í sínu erindi yfir þá hröðu þróun sem á sér stað á sviði gervigreindar og hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér gögn og gervigreind til að ná árangri.

Brynjólfur sagði að með tilkomu spunagreindar mætti segja að gervigreind hefði náð tökum á tungumáli. „Nú er hægt að fela tölvum verkefni sem áður voru aðeins á færi manna því þau kröfðust hugsunar,“ sagði hann. Hafin væri tæknibylting og ný tegund hugbúnaðar væri að ryðja sér til rúms, hugbúnaður sem hugsi og framkvæmi með aðstoð gervigreindar. Brynjólfur tók dæmi af notkun ferðaþjónustufyrirtæksins Nordic Visitor á spjallmenninu Ara frá DataLab, sem hagnýtir sér gervigreind, til að aðstoða starfsfólk við að svara fyrirspurnum frá mögulegum viðskiptavinum. Með þeim hætti hefði starfsfólki tekist að veita svör með 60% skjótari hætti en áður.

Þessa tæknibyltingu gætu lítil og meðalstór fyrirtæki nýtt sér. Þau gætu gert meira, með minni tilkostnaði og án þess að þurfa að bæta við starfsfólki. Hægt væri að leysa verkefni með meiri hraða, meiri gæðum og hreinlega gera meira. Fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki væri mikilvægt að kortleggja vandlega þau verkefni sem gervigreindinni er ætlað að leysa. „Það er nefnilega auðvelt að eyða tíma og peningum í tilraunir sem litlu skila. Það þarf að vera eitthvað plan,“ sagði Brynjólfur. Hann mælti með að lítil og meðalstór fyrirtæki færu varlega í sérsmíði til að nýta gervigreind, því oft dygðu einfaldar lausnir, beint úr kassanum. Eingöngu ætti að íhuga sérsmíði á sviðum sem aðgreina og veita forskot. Velja ætti lausnir sem styðja beint við stefnu fyrirtækisins. Þá þyrfti að fara varlega og innleiða stjórnun og eftirlit með gervigreindarlausnum frá upphafi.

Í lok fundarins var boðið upp á spurningar og kom þá ýmislegt fleira fram. Við þökkum frummælendum og fundargestum kærlega fyrir góðan fund.

Þú gætir einnig haft áhuga á
6. okt. 2025
Draumur að móta vinnustaðamenningu
Sirra Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri Landsbankans. Sirra tók við starfi mannauðsstjóra fyrir tæpum fjórum árum og Klara Steinarsdóttir hefur farið fyrir fræðslu og þróun síðan 2023. Á þessum tíma hafa miklar breytingar átt sér stað og mörg spennandi verkefni verið í farvatninu.
8. sept. 2025
Sjálfbærnidagur 2025 – upptökur
Loftslagsmál, raforkumál, plastframleiðsla, fatabransinn, timbur og gómsætt grænkerafæði voru til umræðu á fjórða sjálfbærnidegi Landsbankans sem var haldinn í Grósku fimmtudaginn 4. september 2025.
Öldungadeildin í gleðigöngunni
5. ágúst 2025
Regnboginn dofnar ekki með árunum
Tíu hópar fengu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn, 9. ágúst. Einn þessara hópa er Öldungadeildin.
1. júlí 2025
Kvennaknattspyrna í skyndisókn
Kvennaknattspyrnan hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum og tækifæri ungra knattspyrnukvenna til að komast í atvinnumennsku erlendis hafa aldrei verið fleiri. Aukið áhorf, áhugi, atvinnuvæðing, fjárfestingar og faglegri umgjörð hafa leitt til þess að kvennaboltinn er farinn að rúlla hraðar en nokkru sinni fyrr. Boltagreiningardeild Landsbankans rýndi í vöxt kvennaknattspyrnunnar í gegnum árin.
Stelpur úti í náttúru
25. júní 2025
Græn fjármögnun – velferð til framtíðar
Í algjörum grundvallaratriðum snýst græn fjármögnun um að auka flæði fjármagns til verkefna sem stuðla að sjálfbærri þróun. Fjármagnseigendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki og ríki og sjálfbær verkefni geta verið margra milljarða framkvæmdir eða sjálfbær sparnaður á bankabók barns.
Áheyrendasalur
14. mars 2025
Komum hreyfingu á hlutina - fjármögnun og uppbygging innviða
Fundur Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um fjármögnun og uppbyggingu innviða var haldinn í Norðurljósasal Hörpu 13. mars 2025. Fjallað var um reynslu Færeyinga af gerð fjögurra neðansjávarganga, reynsluna af Hvalfjarðargöngunum, möguleika á alþjóðlegri fjármögnun og ástand vegakerfisins og annarra innviða. Fundinum lauk síðan með fjörlegum pallborðsumræðum.
2. jan. 2025
Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2025 er skreytt myndum af vatni og ólíkum birtingarmyndum þess í daglegu lífi okkar. Við settumst niður með myndlistarmanninum á bak við verkin, Stefáni Óla Baldurssyni eða Stebba Mottu, og fengum hans innsýn í ferlið, verkin og vatnið.
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.