Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Sparn­að­ar­ráð Grýlu

Það er svo ótalmargt sem gerir tilkall til okkar um jólin að tíminn er af skornum skammti. Það tekur tíma að skipuleggja, versla, þrífa, baka, mæta á allar jólaskemmtanir og fylgjast nógu vel með jólabókaflóðinu til að vera gjaldgeng á kaffistofunni eða í saumaklúbbnum ... Hvernig eigum við að finna tíma fyrir þetta allt? Við hringdum í vin – Grýlu.
Kirkjan Vík í Mýrdal
4. desember 2025 - Grýla

Já, Grýlu! Hver er reynslumeiri en Grýla? Í gegnum aldirnar hefur hún þurft að finna ýmsar leiðir til að reka fjölskyldufyrirtækið og standa þriðju vaktina: koma öllum jólasveinunum til byggða, fóðra jólaköttinn og halda Leppalúða góðum.

„Hvernig kemst ég í gegnum jólin án þess að springa á limminu?“

„Elskan mín, ég á 1+8 eða 12 jólasveinabörn – æ, ég man ekki nákvæmlega hvað þeir eru margir – OG þarf að vinna um jólin. Ég kann sko öll bestu ráðin til að láta þetta allt ganga upp, biddu fyrir þér. Leyndarmálið og dýrmætasta jólagjöfin, það er tími!“

Hvers „virði“ er tími þinn?

Byrjaðu á að svara þessari spurningu. Ertu til í að eyða smá peningum í að kaupa þér tíma? Ef svarið er já, þá eru ýmsar leiðir færar. Grýla hefur um áraraðir keypt þrif á hellinum. Hvað heldurðu að þú eyðir miklum tíma í jólahreingerninguna? 3-5 klukkutímum? Og andlegi kostnaðurinn, ekki gleyma honum – hvað kostar það þig að fá krakkana til að hjálpa til? Umbreytum þessu í krónur. Ertu mögulega að kaupa þér bæði tíma og sálarró með því að kaupa þrif? Grýla segir já.

Hún bendir líka á annan og mun ódýrari möguleika: þrífa minna eða sleppa því alveg.

Jólasteikin í ofninum

Nú nálgast fjölskylduboðið annan í jólum óðfluga og Stebbi frændi er aftur orðinn grænkeri á meðan amma fær í magann af laktósa og Lína mágkona neitar að gefa börnunum hvítan sykur. Hvað tekur mikinn tíma á þriðju vaktinni að fá gervigreindina til að spinna uppskriftir að glútenlausri hnetusteik og skipuleggja sykurlausan eftirrétt? Og svo þarf að keyra í búðina á háannatíma, olnbogast að kjötborðinu og ná síðasta sykurlausa konfektkassanum. Ætli það borgi sig að panta á netinu og jafnvel láta senda heim? Því miður er þetta þjónusta sem Grýla hefur ekki ennþá getað nýtt sér, enda býr hún talsvert fyrir ofan efri byggðir Breiðholts. Þannig að hún fann aðra og ódýrari lausn – pálínuboð, þar sem allir koma með sína eigin draumarétti. Allir vinna og þú vinnur minna.

Skiptihagkerfi með jólagjafir

Stekkjastaur kom fyrstur og hann fékk auðvitað fullt af gjöfum, lambakóngurinn þeirra Grýlu og Leppalúða. Svo voru auðvitað keyptar einhverjar gjafir fyrir Giljagaur og Stúf en meira að segja í stórum helli var þá orðið ansi mikið af dóti sem enginn lék sér lengur með. Fyrsti stafurinn hans Stekkjastaurs var hvort eð er orðinn of lítill, þannig að Grýla snéri honum við, tálgaði smá dæld í annan endann og voila! Þvara! Þvörusleikir var himinlifandi með þessa endurnýttu gjöf. Ef þú komst aldrei upp á lag með að nota „loftsteikinn“ sem Eva systir gaf þér í hitteðfyrra, af hverju ekki að gefa Eiríki bróður hann? Græjan er næstum ný og Eiríkur elskar að gera tilraunir í eldhúsinu. Svona má vel spara sér talsverðan hausverk, nokkrar búðarferðir og auðvitað peninga.

Sameinast um gjafakaupin

Fæst höfum við efni á að gefa mjög stórar og dýrar gjafir en oft eru það einmitt gjafirnar sem eru efst á óskalistanum. Þegar Leppalúði óskaði sér leikjatölvu í jólagjöf og sprengdi þar með fjárhagsáætlun Grýlu leysti hún málið með því að heyra í Gilitrutt systur sinni og Surti bróður. Þau voru meira en ánægð með að sleppa við að finna frumlega gjöf handa mági sínum 958. árið í röð og lögðu bara inn á sameiginlegan söfnunarreikning systur sinnar í appinu. Dreifum álaginu, dreifum kostnaðinum.

… síðast en ekki síst, tími fyrir þig!

Nú erum við búin að panta þrif eða draga talsvert úr þeim, láta alla vita að það verði pálínuboð annan í jólum og spara slatta af peningum á að endurgefa gamlar gjafir og sameinast um önnur gjafakaup. En það sem skiptir mestu er að við erum búin að kaupa okkur tíma. Hvað viljum við gera með þessi uppsöfnuðu auðæfi? Grýla mælir með jólabók og kaffibolla en við mælum með sjósundi, útihlaupum eða að eyða þessum tíma með fjölskyldunni. Það þarf heldur ekki að kosta mikið – hvað með gönguferð í rökkrinu til að skoða jólaljósin? Langavitleysa fram eftir nóttu, kertaljós og kósíheit?

Gleðileg jól!

Þú gætir einnig haft áhuga á
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).