Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Íbúðalán Lands­bank­ans og fyrstu kaup­end­ur

Íbúðahús
28. október 2025

Við í Landsbankanum kynntum föstudaginn 24. október 2025 breytingar á framboði bankans á íbúðalánum í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamáli gegn Íslandsbanka.

Við lögðum mikla áherslu á að bregðast hratt og örugglega við dómnum. Okkar markmið var að finna leiðir til að bjóða viðskiptavinum sem lægsta vexti og bjóða fyrstu kaupendum upp á lán með sem lægstri greiðslubyrði. Um töluverðar breytingar var að ræða og eðlilegt að umræða hafi skapast um áhrifin sem þær kunna að hafa. Rétt er að ítreka að breytingarnar hafa engin áhrif á lán sem voru veitt áður en dómurinn féll.

Í sem stystu máli voru breytingarnar þríþættar.

  1. Við bjóðum nú upp á nýjan möguleika, sem er að festa vexti á óverðtryggðu íbúðaláni í eitt ár, en þannig er hægt að fá lægri vexti en voru í boði á óverðtryggðu íbúðaláni með breytilega vexti. Lánið er án uppgreiðslugjalds.
  2. Breytilegir vextir á óverðtryggðu íbúðaláni bera nú fast vaxtaálag út líftíma lánsins sem leggst ofan á stýrivexti Seðlabankans á hverjum tíma.
  3. Verðtryggð íbúðalán eru nú eingöngu í boði til 20 ára á föstum vöxtum og aðeins fyrir fyrstu kaupendur. Bæði er hægt að fá lán með jöfnum greiðslum og jöfnum afborgunum.

Hefðu líka komist inn á markaðinn með núverandi lánaframboði

Það er ekki síst þetta síðastnefnda atriði sem hefur vakið mikla umræðu og vangaveltur og ég vil því nota þennan vettvang til að fara yfir áhrif breytinganna á fyrstu kaupendur.

Fyrir breytinguna gátu fyrstu kaupendur tekið verðtryggð lán á breytilegum vöxtum fyrir allt að 70% af kaupverðinu til 30 ára. Þeim bauðst síðan að taka óverðtryggt viðbótarlán upp að 85% af verðmæti fasteignarinnar. Nú geta fyrstu kaupendur tekið verðtryggt lán til 20 ára á föstum vöxtum fyrir allt að 85% af kaupverði.

Það sem af er þessu ári hefur meðalupphæð íbúðalána hjá Landsbankanum til fyrstu kaupanda verið rúmlega 40 milljónir króna. Fyrir breytingu var lægsta mánaðarlega greiðslubyrði af 40 milljóna króna láni um 225.000 krónur en eftir breytingu verður hún um 273.000 krónur og nemur hækkunin því um 48.000 krónum á mánuði. Hér er miðað við 85% veðhlutfall. Á móti kemur að eignamyndun verður hraðari.

Þetta er töluverð hækkun á greiðslubyrði en hvað sýna gögnin okkur um áhrif breytinga á lánaframboði á möguleika fyrstu kaupenda til að komast inn á fasteignamarkaðinn? Á þessu ári hafa hundruðir fyrstu kaupenda komist inn á fasteignamarkaðinn með láni frá Landsbankanum. Flestir þeirra hafa tekið verðtryggð lán og hafa staðist greiðslumat með góðum afgangi. Rúmlega 85% höfðu afgang yfir 60.000 krónum á mánuði og yfir helmingur hafði afgang yfir 150.000 krónum. Veðhlutfall hjá fyrstu kaupendum var að meðaltali um 70%. Hlutfall verðtryggðra lána hefur það sem af er þessu ári verið um 60% og hlutfall óverðtryggðra lána um 40%.

Þetta sýnir að breytt lánaframboð hefði ekki haft áhrif á lánsmöguleika yfir 90% þeirra fyrstu kaupenda sem hafa tekið íbúðalán hjá bankanum á þessu ári.

Breytingin hefur lítil áhrif á greiðslubyrðarhlutfallið

Einnig hefur nokkuð verið rætt um að breytingarnar muni leiða til þess að aðeins hátekjufólk geti keypt sér íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Er þar vísað til þeirrar reglu að greiðslubyrði af láni til fyrstu kaupenda megi ekki vera umfram 40% af ráðstöfunartekjum þeirra, samkvæmt reglum Seðlabankans um greiðslubyrðarhlutfall.

Við reiknuðum því út hver áhrifin yrðu á fyrstu kaupendur sem eru að kaupa sér íbúð á 65 milljónir króna. Í dag getur slíkur kaupandi tekið lán fyrir allt að 85% af kaupverði, eða rúmlega 55 milljónir króna. Mánaðarleg greiðslubyrði af slíku verðtryggðu láni er um 371.000 krónur. Til þess að standast greiðslumat og uppfylla kröfur Seðlabankans um greiðslubyrðarhlutfall þurfa útborguð laun, hvort sem það er einstaklingur eða par sem er að kaupa, að nema um 825.000 kr. á mánuði. Þetta er töluverð fjárhæð, en hvaða áhrif hafa breytingarnar á lánaframboði bankans á slíkan kaupanda?

Fyrir breytingu gat fyrsti kaupandi tekið verðtryggt lán á breytilegum vöxtum til allt að 30 ára, upp að 70% veðhlutfalli og síðan gat hann tekið óverðtryggt lán upp að 85% veðhlutfalli til 25 ára. Samanlögð greiðslubyrði við þær aðstæður var um 307.000 krónur á mánuði.

Þrátt fyrir að í þessu dæmi muni um 64.000 krónum á mánaðarlegum greiðslum eru skilyrði um útborguð laun samkvæmt útreiknuðu greiðslubyrðarhlutfalli Seðlabankans nánast þau sömu fyrir og eftir breytingar. Skýringin er aðallega sú að þegar reiknað er út hvort lántaki standist greiðslubyrðarhlutfall Seðlabankans er áfram miðað við verðtryggt lán til 25 ára.

Það skal tekið fram að þetta dæmi er sett fram til viðmiðunar. Í greiðslumati er tekið tilliti til ýmissa þátta, s.s. annarra skulda, fjölskyldustærðar, rekstur bíls og fleira.

Verðtryggð lán á föstum vöxtum

Dómur Hæstaréttar veldur því að bankinn býður að óbreyttu ekki upp á verðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Við viljum engu að síður bjóða fyrstu kaupendum upp á verðtryggð lán til að gera þeim auðveldara að komast inn á markaðinn og eru þau á föstum vöxtum. Til þess að fjármagna verðtryggð útlán gefur bankinn út sértryggð verðtryggð skuldabréf. Þar sem óvíst er hversu mikil eftirspurn verður eftir slíkum skuldabréfum til langs tíma og til að takmarka fastvaxtaáhættu bankans var ákveðið að takmarka framboðið við fyrstu kaupendur. Af sömu ástæðu er lánstíminn takmarkaður við 20 ár.

Þurfum lægri verðbólgu og vaxtastig

Það er óumdeilt að þegar vaxtastig er hátt eru lán dýrari og greiðslubyrði hærri. Það sem við öll þurfum og viljum er lægri verðbólga, lækkandi vaxtastig og stöðugleiki í framboði íbúða. Við slíkar aðstæður geta fyrstu kaupendur og aðrir tekið næsta skref, fært sig yfir í óverðtryggð lán og aukið eigið fé sitt jafnt og þétt. Þar með styrkist staða þeirra á fasteignamarkaði – hvort sem þau vilja stækka við sig eða minnka eða einfaldlega skapa sér öryggi og svigrúm til framtíðar.

Nánari upplýsingar um breytingar á framboði nýrra íbúðalána

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. október 2025.

Þú gætir einnig haft áhuga á
16. okt. 2025
Vel heppnað fjármálamót um hvernig fyrirtæki nýta gögn til að bæta reksturinn
Góð aðsókn var að vel heppnuðu fjármálamóti um hvernig fyrirtæki nýta gögn til að bæta reksturinn sem haldinn var í Landsbankanum í Reykjastræti 15. október. Á fundinum fjölluðu eigendur og stjórnendur hjá fimm fyrirtækjum um hvernig hagnýting gagna gerir betri ákvarðanir mögulegar.
6. okt. 2025
Draumur að móta vinnustaðamenningu
Sirra Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri Landsbankans. Sirra tók við starfi mannauðsstjóra fyrir tæpum fjórum árum og Klara Steinarsdóttir hefur farið fyrir fræðslu og þróun síðan 2023. Á þessum tíma hafa miklar breytingar átt sér stað og mörg spennandi verkefni verið í farvatninu.
8. sept. 2025
Sjálfbærnidagur 2025 – upptökur
Loftslagsmál, raforkumál, plastframleiðsla, fatabransinn, timbur og gómsætt grænkerafæði voru til umræðu á fjórða sjálfbærnidegi Landsbankans sem var haldinn í Grósku fimmtudaginn 4. september 2025.
Öldungadeildin í gleðigöngunni
5. ágúst 2025
Regnboginn dofnar ekki með árunum
Tíu hópar fengu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn, 9. ágúst. Einn þessara hópa er Öldungadeildin.
1. júlí 2025
Kvennaknattspyrna í skyndisókn
Kvennaknattspyrnan hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum og tækifæri ungra knattspyrnukvenna til að komast í atvinnumennsku erlendis hafa aldrei verið fleiri. Aukið áhorf, áhugi, atvinnuvæðing, fjárfestingar og faglegri umgjörð hafa leitt til þess að kvennaboltinn er farinn að rúlla hraðar en nokkru sinni fyrr. Boltagreiningardeild Landsbankans rýndi í vöxt kvennaknattspyrnunnar í gegnum árin.
Stelpur úti í náttúru
25. júní 2025
Græn fjármögnun – velferð til framtíðar
Í algjörum grundvallaratriðum snýst græn fjármögnun um að auka flæði fjármagns til verkefna sem stuðla að sjálfbærri þróun. Fjármagnseigendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki og ríki og sjálfbær verkefni geta verið margra milljarða framkvæmdir eða sjálfbær sparnaður á bankabók barns.
Áheyrendasalur
14. mars 2025
Komum hreyfingu á hlutina - fjármögnun og uppbygging innviða
Fundur Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um fjármögnun og uppbyggingu innviða var haldinn í Norðurljósasal Hörpu 13. mars 2025. Fjallað var um reynslu Færeyinga af gerð fjögurra neðansjávarganga, reynsluna af Hvalfjarðargöngunum, möguleika á alþjóðlegri fjármögnun og ástand vegakerfisins og annarra innviða. Fundinum lauk síðan með fjörlegum pallborðsumræðum.
2. jan. 2025
Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2025 er skreytt myndum af vatni og ólíkum birtingarmyndum þess í daglegu lífi okkar. Við settumst niður með myndlistarmanninum á bak við verkin, Stefáni Óla Baldurssyni eða Stebba Mottu, og fengum hans innsýn í ferlið, verkin og vatnið.
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.