Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Sjálf­bærni­dag­ur 2025 – upp­tök­ur

Loftslagsmál, raforkumál, plastframleiðsla, fatabransinn, timbur og gómsætt grænkerafæði voru til umræðu á fjórða sjálfbærnidegi Landsbankans sem var haldinn í Grósku fimmtudaginn 4. september 2025.
8. september 2025

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og ræddi m.a. um hlutverk bankans í sjálfbærnimálum sem væri ekki síst að stuðla að umræðu og aukinni þekkingu á sjálfbærni. Nær öll losun bankans færi fram utan við eiginlegan bankarekstur, það er að segja í gegnum lán og fjárfestingar. Með því að halda sjálfbærnidag Landsbankans hefði bankinn viljað stuðla að upplýstri umræðu og upplýsingamiðlun.

Í þau fjögur skipti sem sjálfbærnidagurinn hefur verið haldinn hafa 21 fyrirtæki kynnt sjálfbærni í sinni starfsemi, fræðimenn hafa fjallað um þær áskoranir sem blasa við í loftslagsmálum,  umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra rætt um stöðu Íslands og stefnu stjórnvalda, auk þess sem sérfræðingur frá hollenska stórbankanum ABN AMRO fjallaði um hlutverk fjármálakerfisins í sjálfbærni. Upptökur frá fyrri sjálfbærnidögum eru allar aðgengilegar hér á vef Landsbankans.

Horfa á erindi Lilju

Upptaka frá fundinum

Skýr leiðarljós á óvissutímum

Dr. Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, ræddi um þá miklu óvissu sem núna væri um hversu mikinn vilja þjóðríki hefðu til að grípa til áhrifaríkra aðgerða í loftslagsmálum. „Þetta er í raun og veru hluti af almennri upplausn í alþjóðasamskiptum sem birtist mjög víða og þróun í átt að því að láta skammtímahagsmuni einstakra ríkja ráða ferðinni,“ sagði hann. Þá drægi viðsnúningur í Bandaríkjunum úr vilja annarra ríkja til að grípa til mótvægisaðgerða. Þetta ástand drægi úr áhrifum Parísarsamkomulagsins en það væri mikilvægt að missa ekki tiltrú á það verkefni að draga úr röskun vegna loftslagsbreytinga. „Hvert brot úr gráðu skiptir máli,“ sagði hann.

Halldór fjallaði einnig um loftslagsstefnu Íslands sem hann sagði að væri of almenn og yfirborðskennd til að hafa merkjanleg áhrif á fjárfestingar í mótvægisaðgerðum. Loftslagsráð hefði margítrekað lýst yfir áhyggjum af þessu og kallað eftir forgangsröðun aðgerða og markvissri beitingu hagrænna stjórntækja. Því miður hefði staðan versnað frekar en hitt við seinustu endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar, þegar aðgerðum var fjölgað til muna án forgangsröðunar. Auk þess væru margar af þeim aðgerðum sem bætt var við enn á hugmyndastigi og því óframkvæmanlegar án frekari útfærslu.

Horfa á erindi Halldórs

Sjálfbær framtíð úr gömlum efnivið

Högni Stefán Þorgeirsson, stofnandi og eigandi Arctic Plank, hefur lengi haft áhuga á að endurvinna timbur. Hann byrjaði á að endurnýta gólffjalir úr gömlu húsi í Kaupmannahöfn, þar sem hann var við störf á árunum 1995-2000, og hefur haldið því áfram síðan en heldur betur útvíkkað starfsviðið. Nýjasta verkefni Högna er að setja á laggirnar verksmiðju sem mun framleiða krosslímdar timbureiningar úr endurunnu timbri. Högni benti á að á Íslandi falla til um 90-95.000 rúmmetrar af viðarúrgangi á ári. Stóran hluta af þessu megi endurvinna og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni.

Horfa á erindi Högna

Plast og sjálfbærni, fer það saman?

Fyrirtækið Rotovia er stærsti plastframleiðandi á Íslandi. Félagið var stofnað árið 2022 þegar hverfisteypudeild ameríska umbúðarisans Berry var keypt af íslenskum fjárfestum og stjórnendum. Félagið er með ellefu verksmiðjur í rekstri í átta löndum og sölustarfsemi víða í bæði Ameríku og Evrópu. Hjá fyrirtækinu starfa um 800 manns. Um 60% af veltu félagsins er vegna vara sem eru seldar eða leigðar undir vörumerkjunum iTUB, Sæplast, Tempra og Varibox en um 40% af veltunni er svokölluð sérhæfð framleiðsla þar sem félagið tekur framleiðslu að sér.

Daði Valdimarsson, forstjóri Rotovia, ræddi m.a. um þær áskoranir sem felast í plastmengun og kolefnisfótspori fyrirtækisins og hvernig félagið reynir að lágmarka neikvæð áhrif. Félagið hefði t.d. sett sér markmið um 20% endurvinnsluhlutfall árið 2028. Sæplastkerin hefðu verið endurhönnuð og þannig hefði tekist að minnka hráefnisnotkun í vinsælustu kerjunum um 16%, án þess að það hafi bitnað á styrkleika.

Horfa á erindi Daða

Flutningskerfið – lífæð þjóðar

Ragna Árnadóttir tók við sem forstjóri Landsnets 1. júlí 2025. Hún hefur mikla reynslu af orkumálum en hún starfaði hjá Landsvirkjun frá árinu 2010, þar af sem aðstoðarforstjóri á árunum 2012-2019. Í erindi sínu ræddi Ragna m.a. um sjálfbæra orkuframleiðslu og mikilvægi þess að geta bætt afhendingaröryggi og aðgang að orku. Þannig mætti nýta orkuinnviðina betur og draga úr sóun – en sóun væri síst af öllu sjálfbær. Mikilvægt væri að styrkja byggðalínuna sem væri komin verulega til ára sinna en fleiri framvæmdir væru á teikniborðinu.

Horfa á erindi Rögnu

Að planta fræjum

Kaffihúsið Plantan opnaði á Njálsgötu í Reykjavík árið 2022 og árið 2025 opnaði Plantan bístró í Norræna húsinu. Að baki Plöntunnar standa þau Bernódus Óli Einarsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Júlía Sif Liljudóttir.

Hrafnhildur hafði orð fyrir þremenningunum og sagði frá því að þær Júlía hefðu lengi átt þann draum að opna og reka kaffihús eða veitingahús. Öll væru þau grænkerar, aðallega út af umhverfissjónarmiðum, og þau hefðu séð gat á markaðnum fyrir kaffihús sem byði upp á gómsætt bakkelsi og gott kaffi. Hugmyndin hefði verið að gera grænkeramat og bakkelsi aðgengilegt öllum og að slíkur matur væri sjálfsagður og eðlilegur valkostur. „Ekki bara fyrir grænmetisætur eða grænkera heldur fyrir allt fólk á öllum aldri,“ sagði hún. Þegar þau voru að gera Njálsgötuna klára lögðu þau áherslu á að kaupa notaðan búnað, m.a. notaðar kaffivélar, húsgögn og innréttingar. Áhersla þeirra á grænkeramat og að nota gæðahráefni sem helst er framleitt á Íslandi hafi reynst vel.

Horfa á erindi Hrafnhildar

Í stakk búin í 99 ár

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður benti á að í hraðtískuiðnaðinum væri 92-94 milljónum tonna af fatnaði og efnum fargað á hverju á ári. Um 60% af öllum fötum sem væru seld í heiminum væri hent innan eins árs. Fataiðnaðurinn væri því mjög mengandi og miklu skipti að taka þar til hendinni.

Á þessu ári eru liðin 99 ár frá því 66°Norður var stofnað á Suðureyri við Súgandafjörð. Helgi Rúnar benti á að að strax í upphafi hafi nýtni og þar með sjálfbærni verið sjálfsagður hluti starfseminnar, enda kom ekki annað til greina en að framleiða endingargóð og sterk sjóklæði fyrir íslenskar aðstæður. Þessi arfleifð væri enn í fullu gildi. Hjá 66°Norður væri lögð áhersla á að framleiða fatnað sem hefði langan líftíma og mætti nota við ólíkar aðstæður. „Ef þú kaupir þér jakka sem er hannaður með ákveðnum hætti, þá nýtist jakkinn í alls kyns ólík verkefni. Þá getur þú keypt þér færri jakka.“

Þá benti Helgi Rúnar á að með því að reka eigin verksmiðju væri hægt að nýta efnið betur og þannig draga úr sóun.

Horfa á erindi Helga

Þú gætir einnig haft áhuga á
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
Fólk með hund úti í náttúrunni
28. feb. 2023
Kröfur til upplýsinga um sjálfbærni aukast hratt
Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki birta nú upplýsingar um hvaða áhrif starfsemi þeirra hefur á sjálfbæra þróun.
Sjálfbærnidagur 2022
22. sept. 2022
Sjálfbærnidagur Landsbankans – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.